Hoppa yfir valmynd
%C3%81fr%C3%BDjunarnefnd%20%C3%AD%20k%C3%A6rum%C3%A1lum%20h%C3%A1sk%C3%B3lanema

6/2021 A gegn Háskólanum á Akureyri

Ár 2022, 4. apríl, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður og Eva Halldórsdóttir lögmaður málinu 

nr. 6/2021

A

gegn

Háskólanum á Akureyri

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dags. 10. október 2021, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti 11. október 2021, þar sem kærð var sú ákvörðun Háskólans á Akureyri („HA“ eða „skólinn“) að krefjast þess að gjald sé greitt fyrir endurskráningu í námskeið og að synja kæranda um endurgreiðslu skrásetningargjalds sem kærandi greiddi til skólans vegna skólaársins 2021-2022. Í kæru er þess krafist að skólanum verði gert að endurgreiða kæranda skrásetningargjaldið. Þá krefst kærandi þess að opnað verði fyrir áfanga annarinnar án frekari gjaldtöku og að honum verði gefin einkunn sem sé „metin“ fyrir áfanga annarinnar.

Viðbrögð HA við kærunni bárust 21. október 2021 þar sem er öllum kröfum kæranda var hafnað.

II.

Málsatvik

Óumdeilt er að kærandi greiddi skrásetningargjald að fjárhæð 75.000 krónur til skólans vegna skólaársins 2021-2022. Hins vegar var lokað fyrir feril hans hjá skólanum þann 20. september 2021 þar sem hann staðfesti ekki skráningu sína í námskeið á haustmisseri fyrir 15. september sama ár. Til að opna fyrir feril kæranda krafðist HA greiðslu á 5.000 króna gjaldi fyrir endurskráningu, í samræmi við reglur skólans þar um.

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi byggir á því að HA hafi óskað eftir að hann veitti tvöfalda staðfestingu á því að hann vildi í raun stunda nám við skólann með því að smella á borða með bláum stöfum á innri síðu skólans. Kærandi hafi smellt á hlekkinn og talið sig með því hafa staðfest val sitt í annað sinn. Síðar hafi hann komist að því að svo hafi ekki verið þar sem hann hafi ekki vistað upplýsingarnar með því að ýta á þar til gerðan hnapp, en kærandi byggir á því að sá hnappur hafi ekki verið sjáanlegur á síðunni. Þann 22. september 2021 hafi kærandi tekið eftir því að lokað hafi verið fyrir aðgang hans. Í kjölfarið hafi hann sett sig í samband við starfsfólk skólans og fengið þær upplýsingar að ekki yrði opnað fyrir aðgang hans nema gegn greiðslu 5.000 króna gjalds.

Kærandi byggir á því að upplýsingar um hvernig eigi að staðfesta skráninguna hafi ekki verið nægilega greinilegar. Þá byggir kærandi á því að samningur aðila sé ógildur þar sem hann geti ekki stundað nám sitt.

IV.

Málsástæður Háskólans á Akureyri

HA byggir á því að allir nemendur HA þurfi að staðfesta skráningu sína í námskeið á hverju misseri fyrir sig, í síðasta lagi 15. september fyrir haustmisseri og 15. janúar fyrir vormisseri. Þá skuli nemendur greiða skrásetningargjald fyrir komandi skólaár í síðasta lagi í ágúst ár hvert, sbr. a-lið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 34. gr. reglna nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri.

Ferlum þeirra nemenda sem ekki sinni framangreindu innan auglýstra tímamarka sé lokað 20. september á haustmisseri og 24. janúar á vormisseri. Með staðfestingu á skráningu í námskeið staðfesti nemendur hvaða námskeið þeir hyggist sitja á misserinu og séu þar með skráðir í lokapróf. Þetta komi fram í kennslualmanaki HA, á ytri vef skólans, í tilkynningum á Uglu, innri vef skólans, og í tölvupóstum frá nemendaskrá. Nemendur staðfesti skráningu í námskeið með því að smella á bláan borða sem birtist á Uglu. Þegar borðinn sé valinn birtist texti um staðfestingu skráningar í námskeið og tekið sé fram að nemendur þurfi að ýta á „vista“ neðst á síðunni. Einnig komi fram að ef nemandi geri engar breytingar á skráningum í námskeið misserisins þurfi engu að síður að ýta á „vista“ neðst á síðunni.

HA vísar til þess að reglur 1211/2020 um gjaldskrá Háskólans á Akureyri vegna þjónustu við nemendur og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds séu settar samkvæmt 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Í 2. mgr. 7. gr. reglnanna segi að gjald fyrir endurskráningu í námskeið sé 5.000 krónur og miðist við kostnað vegna vinnu við endurskráningu nemanda í námskeið sem sinni ekki staðfestingu á skráningu í námskeið á auglýstum tíma á misserinu.

Ákvörðun um að taka upp gjaldtöku fyrir endurskráningu miði annars vegar að því að fækka þeim sem láti hjá líða að fylgja reglum skólans og staðfesta skráningu í námskeið á tilskyldum tíma og hins vegar að því að koma í veg fyrir kennslukostnað vegna nemenda sem hættir séu námi. Þegar nemendur staðfesti ekki skráningu í námskeið misseris sé ferlum þeirra lokað og þar með skráist þeir úr öllum námskeiðum skólaársins. Ef nemandi hafi samband og óski eftir að ferill hans verði opnaður að nýju þurfi að breyta skráningu ferilsins og handskrá viðkomandi í þau námskeið sem hann hyggist stunda. Gjaldinu sé ætlað að mæta þeim tilkostnaði sem hljótist vegna nemenda sem sinni ekki tilmælum, leiðbeiningum og reglum er varða staðfestingu á skráningu í námskeið.

Einnig vísar skólinn til þess að í frumvarpi til laga um opinbera háskóla sem lagt hafi verið fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007– 2008 segi um 2. mgr. 24. gr. að þar séu teknar saman á einn stað þær heimildir sem opinberir háskólar hafi til gjaldtöku. Sé það í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laga um háskóla. Þá segi að það beri að undirstrika að um sé að ræða heimildir til töku þjónustugjalda sem ætlað sé að mæta þeim tilkostnaði sem hljótist af því að veita umrædda þjónustu. Þau rök sem búi að baki byggist á því að rétt sé að virkja kostnaðarvitund, einkum nemenda og starfsmanna háskólanna, og að gjaldtakan eigi að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um sé að ræða hverju sinni. Þá segi um c-lið 2. mgr. 24. gr. að byggt sé á því að háskólar hafi heimild til innheimtu gjalds fyrir þjónustu sem teljist utan þeirrar þjónustu sem háskóla er skylt að veita. Ákvæðið sé samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um Háskóla Íslands og 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga um Háskóla Íslands og þarfnist ekki skýringa.

HA bendir á að frétt um nýja gjaldskrá hafi verið birt í Uglu 8. janúar 2021 og hafi þar sérstaklega verið tekið fram að frá og með hausti 2021 yrði tekið 5.000 króna gjald fyrir að opna námsferla nemenda sem ekki hafi staðfest námskeiðaskráningu sína innan auglýstra tímamarka á Uglu eða á þjónustuborði nemendaskrár. Tilkynning hafi verið birt öllum nemendum sem stunduðu nám við HA skólaárið 2020 – 2021 í Uglu þann 15. og 19. janúar 2021 vegna staðfestingar skráninga í námskeið á vormisseri 2021. Í tilkynningunum hafi komið fram að gjald yrði tekið fyrir að opna námsferla á ný frá og með haustmisseri 2021.

Skólinn byggir á því að frá því að nemendur skrái sig í námskeið og þar til misserið hefjist geti margir hlutir breyst sem geri það að verkum að nemendur þurfi að gera breytingar á námskeiðsskráningum. Undanfarin ár hafi eldri nemar, þ.e. aðrir en nýnemar, skráð sig í námskeið næsta skólaárs í mars. Líklegt sé að þeir geri ráð fyrir því að standast öll próf og skrái sig í framhaldsnámskeið með hliðsjón af því. Það sé því miður ekki alltaf raunin þannig að sumir standist ekki forkröfur sumra námskeiða og verði því að velja önnur námskeið. Þá geti þeim einnig hafa snúist hugur. Sumir skipti um námsleiðir eða áherslulínur og þurfi því að breyta námskeiðsskráningum sínum og aðrir hætti námi, jafnvel án þess að tilkynna það. Af þeim sökum sé staðfestingin afar mikilvægt tæki fyrir skólann til að vita sem best hverjir séu raunverulega skráðir í námskeið á hverjum tíma.

Hið sama megi segja um þá sem sæki um nýtt nám. Í umsóknarferlinu skrái tilvonandi nemendur sig í námskeið bæði haust- og vormisseris og líkt og í tilviki eldri nemenda sé ekki víst að haustmisserið gangi alveg eins fyrir sig og þeir áætluðu þegar umsóknin var fyllt út og geti þannig verið uppi aðrar forsendur fyrir námi þeirra en þeir hafi upphaflega reiknað með. Þá megi geta þess að skólinn hafi upplýsingaskyldu gagnvart ýmsum aðilum, s.s. Vinnumálastofnun og Hagstofu Íslands, um námshlutfall nemenda og sé þeim gögnum skilað eftir að staðfesting skráningar í námskeið hefur farið fram til að tryggja sem réttastar upplýsingar.

HA bendir á að blái borðinn, sem smella þurfi á til að staðfesta skráningu í námskeið misseris, hafi verið sýnilegur á Uglu frá 12. ágúst til 15. september 2021. Á haustmisseri 2021 hafi verið sendar út tilkynningar í Uglu og tölvupóstar sendir nemendum 12. ágúst, 6. september og 14. september þess efnis að síðasti dagur til að staðfesta skráningu í námskeið væri 15. september 2021 og að ferlum þeirra sem ekki hefðu staðfest skráninguna innan auglýstra tímamarka yrði lokað þann 20. september. Þá hafi einnig verið tekið fram að 5.000 króna gjald yrði tekið fyrir að opna feril á ný sinnti nemandi þessu ekki innan auglýstra tímamarka.

Þann 16. september hafi nemendaskrá sent þeim nemendum, sem ekki hafi staðfest skráningu í námskeið, tölvupóst þess efnis að þeir hefðu ekki staðfest skráninguna innan auglýsts frests. Í póstinum var vefslóð á staðfestingarsíðuna og þeim veittur aukafrestur til að staðfesta skráningu. Þá hafi nemendur verið minntir á að ýta á vista eftir að þeir hefðu yfirfarið skráningu í námskeið á misserinu. Einnig var tekið fram að ferlum yrði lokað 20. september yrði þessu ekki sinnt og að gjald yrði tekið fyrir að opna ferla á ný eftir 20. september. Þegar ferlum væri lokað skráðust nemendur úr öllum námskeiðum umrædds misseris. Þann 20. september sendi nemendaskrá HA tölvupóst til þeirra nemenda sem enn höfðu ekki staðfest skráningu í námskeið. Í þeim pósti var tekið fram að hafa þyrfti samband við nemendaskrá sem tæki 5.000 kr. gjald fyrir að opna feril á ný. Í tilkynningum og tölvupóstum hafi verið leiðbeiningar um hvernig nemendur ættu að staðfesta skráningu í námskeið sem og hvar þeir gætu séð hvort þeir væru búnir að staðfesta námskeið á misseri. Einnig hafi verið minnst á að nemendur gætu fengið aðstoð frá starfsfólki nemendaskrár við að staðfesta námskeiðin sín. Það fyrirkomulag, að staðfesta þurfi skráningu í námskeið sérstaklega fyrir hvert misseri, hafi verið viðhaft við skólann allt frá því áður en rafræn skráning í námskeið var tekin upp.

Varðandi kröfu kæranda um að að honum verði endurgreitt skrásetningargjald fyrir skólaárið 2021 – 2022 vegna ógilds samnings, byggir skólinn á að í 4. gr. reglna nr. 1211/2020 sé kveðið á um endurgreiðslu skrásetningargjalds. Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna segi að skrásetningargjald sé ekki endurgreitt ef nemandi hætti námi. Þá segi jafnframt að skrásetningargjald sé ekki endurgreitt nema að vissum skilyrðum uppfylltum. Beri þar fyrst að nefna ef ákvarðanir háskóladeilda eða annarra opinberra aðila raski forsendum stúdents fyrir því að hefja nám. Rökstutt erindi þar að lútandi skuli þá sent nemendaskrá fyrir 5. nóvember vegna haustmisseris en 5. febrúar á vormisseri. Sé erindi þess efnis samþykkt nemi endurgreiðsla einungis 75% skrásetningargjaldsins. Í öðru lagi geti nemandi, sem ekki geti stundað nám vegna veikinda, fengið 75% gjaldsins endurgreitt gegn framvísun læknisvottorðs fram til 5. nóvember á haustmisseri hefji nemandi nám á haustmisseri, en 5. febrúar á vormisseri hefji nemandi nám á vormisseri. Að lokum komi fram í 1. mgr. að endurgreiðsla afsláttar á skrásetningargjaldi vegna örorku eða fötlunar miði einungis við yfirstandandi skólaár. Það sé því ljóst að heimild til að endurgreiða skrásetningargjald kæranda fyrir skólaárið 2021 – 2022 sé ekki fyrir hendi þar sem ofangreind skilyrði séu ekki uppfyllt.

Varðandi kröfu kæranda um að ferill hans verði opnaður, án greiðslu gjalds, þannig að opnað verði á námskeið yfirstandandi misseris vísar HA til umfjöllunar um reglur nr. 1211/2020. Því til viðbótar sé tekið fram að kærandi staðfesti að hann hafi verið meðvitaður um bæði gjaldið og verklag um staðfestingu á skráningu í námskeið þar sem hann hafi óskað eftir undanþágu frá gjaldskyldunni vegna „mannlegra mistaka“ af hans hálfu við staðfestingu á skráningu, eins og fram komi í tölvupósti hans til nemendaskrár þann 22. september sl.

Varðandi kröfu kæranda að honum verði gefin einkunnin „metið“ fyrir námskeið yfirstandandi haustmisseris, vísar skólinn til a-liðar 7. gr. reglna um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri nr. 921/2018. Þar komi fram að lágmarkseinkunn til þess að standast námsmat eða námsmatsþátt í námskeiði sé að jafnaði einkunnin 5, sbr. e-lið 7. gr., og geti aldrei orðið lægri. Eðli málsins samkvæmt sé ekki unnt að gefa einkunn, og þar með einingar á námsferil, fyrir óþreytt próf, verkefni og námskeið.

Með vísan til framangreinds hafnar HA kröfu kæranda um endurgreiðslu á skrásetningargjaldi, enda uppfylli kærandi ekki skilyrði fyrir slíkri endurgreiðslu. Skólinn hafi upplýst nemendur tímanlega um fyrirhugaða gjaldtöku samkvæmt reglum nr. 1211/2020 og til að gæta fyllstu sanngirni hafi gjaldtökunni verið frestað um eitt misseri. Nemendur hafi fengið ítrekaðar tilkynningar, tölvupósta og leiðbeiningar vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku og að auki hafi lokafrestur verið færður aftur um nokkra daga í september til að koma til móts við að um nýja gjaldtöku væri að ræða. Skólinn tekur fram að ekki hafi verið um að ræða nýtt verklag við staðfestingu á skráningu í námskeið. Nemendur HA hafi um árabil þurft að staðfesta skráningu í námskeið í september og janúar á hverju ári. Hér hafi hins vegar verið um nýmæli að ræða að tekið væri gjald fyrir endurskráningu þeirra nemenda sem sinntu ekki staðfestingu á skráningu í einstök námskeið. Þá fellst skólinn ekki á að upplýsingar og leiðbeiningar hafi ekki verið nægjanlegar. Kærandi hafi hafið nám við skólann á haustmisseri 2020 og því haft reynslu af því að staðfesta skráningu sína í námskeið.

Skólinn fellst heldur ekki á kröfu kæranda að opna á námskeið án greiðslu fyrir endurskráningu né heldur á kröfu kæranda að gefa einkunn eða meta óþreytt próf, verkefni eða námskeið.

V.

Niðurstaða

Af kæru málsins verður ráðið að kærandi geri kröfu um að ferill hans við skólann verði opnaður án greiðslu gjalds, að hann fái einkunnina „metið“ fyrir þau námskeið sem hann var skráður í á haustönn 2021 en ellegar að hann fái skrásetningargjald annarinnar endurgreitt.

Krafa um að ferill kæranda við HA sé opnaður án greiðslu gjalds

Óumdeilt er í málinu að kærandi skráði sig í nám við HA á haust- og vorönn 2021-2022 og stóð skil á skrásetningargjaldi innan tímafresta.

Þá liggur fyrir að samkvæmt reglum HA þurfa allir nemendur við skólann að staðfesta skráningu sína í námskeið á hverju misseri fyrir sig, í síðasta lagi 15. september fyrir haustmisseri, eins og meðal annars kemur fram í kennslualmanaki á vefsíðu skólans. Sinni nemandi ekki staðfestingu á skráningu er ferli hans hjá skólanum lokað 20. september fyrir haustmisseri. Eftir það tímamark getur viðkomandi nemandi óskað eftir endurskráningu í námskeið, en þarf þá að greiða fyrir það sérstakt gjald.

Kærandi byggir á því að upplýsingar um að fyrirkomulag staðfestingar á skráningu hafi ekki verið nægilega greinargóðar. Á þetta er ekki unnt að fallast. Nemendur munu hafa fengið ítrekaðar tilkynningar um að þörf væri á staðfestingu, leiðbeiningar um hvernig það skyldi gert og upplýsingar hvert unnt væri að leita ef þeir þyrftu aðstoð við skráninguna. Þá fengu nemendur jafnframt upplýsingar um það hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef staðfestingunni væri ekki sinnt. Auk þess gat kærandi kynnt sér upplýsingarnar en gera má þá kröfu til nemenda á háskólastigi að þeir þekki til reglna sem gilda um nám þeirra, þar á meðal skráningar í nám. Má þannig almennt ganga út frá því að birtar reglur sem gilda um nám séu, eða megi vera, nemendum kunnar. Þá verður ekki hjá því litið að kærandi hóf samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum nám við skólann haustið 2020 og hafði því farið í gegnum umrætt staðfestingarferli tvívegis áður.

Af kæru málsins má einnig ráða að kærandi geri kröfu um að HA láti af gjaldtöku fyrir endurskráningu. Fyrir liggur að um er að ræða innheimtu þjónustugjalds sem ætlað er að standa undir kostnaði við veitingu tiltekinnar þjónustu. Gjaldið nemur 5.000 krónum og tekur mið af kostnaði við vinnu við endurskráninguna, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglna 1211/2020, en ákvæði reglnanna fær stoð í c-lið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008. Að mati nefndarinnar eru þær ástæður sem HA færir fyrir innheimtu gjaldsins málefnalegar og gjaldið hóflegt í ljósi þeirrar þjónustu sem það á að standa undir en gjaldið er tæp 7% af skrásetningargjaldi hvers skólaárs. Kærandi hefur ekki fært fram nein rök fyrir því að umrædd gjaldtaka sé óheimil eða ómálefnaleg og er því ekki unnt að fallast á kröfur hans að þessu leyti.

Með hliðsjón af framangreindu er kröfum kæranda um að ferill hans hjá HA sé opnaður án greiðslu gjalds fyrir endurskráningu hafnað.

Krafa um að kærandi fái einkunnina „metið“ fyrir námskeið á haustönn 2021

Kærandi gerir jafnframt kröfu um að honum verði gefin einkunnin „metið“ fyrir námskeið haustmisseris 2021. Að mati nefndarinnar verður að hafna kröfunni enda er skýrt samkvæmt 7. gr. reglna um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri nr. 921/2018 að lágmarkseinkunn til þess að standast námsmat eða námsmatsþátt í námskeiði sé að jafnaði einkunnin 5, sbr. e-lið 7. gr., og geti aldrei orðið lægri. Ekki verður ráðið af reglunum eða öðrum sjónarmiðum að skólanum sé heimilt að gefa nemanda einkunnina „metið“ í tilvikum þar sem skráning er ekki staðfest eins og atvikum er háttað í þessu máli. Kærandi hefur ekki hlotið þá lágmarkseinkunn sem reglurnar kveða á um og því ekki unnt að fallast á kröfu hans.

Krafa um endurgreiðslu skrásetningargjalds

Ágreiningur máls þessa snýr m.a. að þeirri ákvörðun HA að synja kæranda um endurgreiðslu skrásetningargjalds sem óumdeilt er að kærandi greiddi til skólans vegna skólaársins 2021-2022, en kærandi byggir kröfuna á því að samningur hans við skólann sé ógildur.

HA innheimtir skráningargjald á grundvelli a-liðs 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 og 34. gr. reglna nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri, sbr. 2. gr. reglna nr. 1211/2020. Gjaldið skal greiða í síðasta lagi í ágúst ár hvert.

Í 4. gr. reglna nr. 1211/2020 er kveðið á um endurgreiðslu skrásetningargjalds. Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna kemur fram að skrásetningargjald sé ekki endurgreitt ef nemandi hætti námi. Þá segir jafnframt að skrásetningargjald sé ekki endurgreitt nema að vissum skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi ef ákvarðanir háskóladeilda eða annarra opinberra aðila raska forsendum stúdents fyrir því að hefja nám og nemur endurgreiðslan þá 75% skrásetningargjaldsins. Í öðru lagi geti nemandi, sem ekki geti stundað nám vegna veikinda, fengið 75% gjaldsins endurgreitt gegn framvísun læknisvottorðs. Í þriðja lagi er tekið fram að endurgreiðsla afsláttar á skrásetningargjaldi vegna örorku eða fötlunar miðist einungis við yfirstandandi skólaár. Ljóst er að framangreind skilyrði fyrir endurgreiðslu skráningargjalds eru ekki uppfyllt í málinu og því ekki efni til að fallast á kröfu kæranda þar að lútandi.

Í athugasemdum við 24. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/2008 er tiltekið að háskólar hafi heimild til innheimtu skrásetningargjalds. Gjaldið sé í eðli sínu þjónustugjald, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 836/1993, sem m.a. sé ætlað að mæta útgjöldum vegna skráningar og ýmiss konar þjónustu við nemendur sem ekki teljist til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi. Fyrir liggur að skólinn veitti kæranda þá þjónustu sem gjaldinu var ætlað að standa undir. Fellst nefndin þess vegna ekki á þá málsástæðu kæranda að hann eigi kröfu um endurgreiðslu skrásetningargjalds á þeim grundvelli að samningur milli hans og skólans um fyrirhugað nám við skólann sé ógildur vegna þeirra atvika sem mál þetta lýtur að.

Með hliðsjón af framangreindu er kröfum kæranda um endurgreiðslu skrásetningargjalds hafnað.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema að hafna öllum kröfum kæranda í þessu máli. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Öllum kröfum kæranda er hafnað.

 

Einar Hugi Bjarnason

 

Daníel Isebarn Ágústsson                                                             Eva Halldórsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum