Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 198/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 198/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020054

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. febrúar 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Afganistan ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af beiðni kæranda má ráða að hún krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi 28. september 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, var umsókn kæranda um dvalarleyfi synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 20. febrúar 2023.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að systir kæranda hafi óskað eftir því að kærandi fengi leyfi til að fylgja ungu barni hennar til landsins, barnið hafi þó verið komið til landsins og því óljóst á hvaða grundvelli kærandi byggði dvalarleyfisumsókn sína. Útlendingastofnun hafi því sent kæranda bréf 2. maí 2022 og ítrekun 7. október 2022 þar sem kæranda hafi m.a. verið veittur frestur til að leggja fram fullnægjandi gögn. Engin gögn hafi borist frá kæranda og Útlendingastofnun hafi því tekið ákvörðun í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hafi umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi því verið synjað með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur ekki lagt fram rökstuðning með kæru sinni til kærunefndar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.

Við meðferð dvalarleyfisumsóknar kæranda óskaði Útlendingastofnun eftir því að kærandi legði fram fullnægjandi dvalarleyfisumsókn þar sem fram kæmi á hvaða grundvelli kærandi byggði umsókn sína. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi varð ekki við beiðnum Útlendingastofnunar þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stofnunarinnar um að tilgreind gögn vantaði.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 20. febrúar 2023, var kæranda enn á ný veitt tækifæri til að koma að frekari gögnum. Kærandi hefur engin frekari gögn lagt fram til kærunefndar hvorki með kæru sinni til nefndarinnar eða við meðferð málsins. Það liggur því enn ekki fyrir á hvaða grundvelli kærandi byggir dvalarleyfisumsókn sína. Að mati kærunefndar verður að líta svo á að kæranda hafi gefist nægt ráðrúm til að verða við gagnabeiðnum Útlendingastofnunar og kærunefndar.

Með vísan til framangreinds og til þess að ekki liggur fyrir fullnægjandi umsókn um dvalarleyfi, sbr. 2. mgr. 52. laga um útlendinga, verður ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi staðfest.

Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Líkt og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsókn 28. september 2021 og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu 13. febrúar 2023, eða um 17 mánuðum síðar. Ekkert var aðhafst í máli kæranda fyrr en 2. maí 2022, sex mánuðum eftir að umsókn barst Útlendingastofnun, þegar bréf var sent á Rauða Kross Íslands þess efnis að gögn meðfylgjandi umsókn væru ófullnægjandi. Jafnvel þótt játa verði Útlendingastofnun svigrúm til að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn skv. 10. gr. stjórnsýslulaga er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr því sem eðlilegt getur talist og fer meðferð þessi í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum