Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Matvælastofnunar frá 17. janúar 2022 um að hafna umsókn kæranda um skráningu á afurðarheitinu íslenskur lax (e. Icelandic Salmon)

Mánudaginn, 22. ágúst 2022 var í matvælaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R
Með kæru, dags. 13. apríl 2022, kærði [A] (hér eftir kærandi), ákvörðun Matvælastofnunar frá 17. janúar 2022 um að hafna umsókn kæranda um skráningu á afurðarheitinu íslenskur lax (e. Icelandic Salmon).
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn kæranda um afurðarheitið íslenskur lax (e. Icelandic Salmon).

Mál þetta er kært á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir ssl.).

I. Málsatvik
Með umsókn sem barst Matvælastofnun 30. apríl 2021 sótti kærandi um vernd fyrir afurðarheitið íslenskur lax (e. Icelandic Salmon). Matvælastofnun svaraði umsókninni með bréfi, dags. 14. júní s.á., þar sem fram kom að stofnunin hygðist hafna umsókninni. Var grundvöllur fyrirhugaðrar synjunar meðal annars byggður á því að ef umsóknin yrði samþykkt væri aðeins hægt að notast við afurðarheitið „íslenskur lax“ um lax sem veiddur væri með stöng eða neti en það mætti ekki um eldislax.
Með andmælabréfi, dags. 13. ágúst 2021, mótmælti kærandi fyrirhugaðri synjun Matvælastofnunar. Í andmælabréfinu gerði kærandi sömu kröfu og áður um skráningu afurðarheitisins en setti að auki fram kröfu um afhendingu umsagna sem aflað hefði verið í málinu. Setti kærandi jafnframt fram varakröfu sem byggðist á því að afurðarlýsingin næði einnig til eldislax af íslenskum stofni og að verndin myndi bæði vísa til landsvæðis og uppruna. Andmælti kærandi meðal annars því að Matvælastofnun hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. ssl.
Með ákvörðun, dags. 17. janúar 2022, hafnaði Matvælastofnun umsókn kæranda þar sem óheimilt væri að skrá afurðarheiti sem orðið væri að almennu heiti fyrir tiltekna afurð. Að mati Matvælastofnunar væri afurðarheitið „íslenskur lax“ orðið að almennu heiti fyrir lax framleiddan á Íslandi og skipti þá engu hvort hann væri veiddur á Íslandi eða framleiddur í eldi hér á landi. Í ákvörðun Matvælastofnunar kom jafnframt fram að stofnunin hefði ekki aflað neinna umsagna í málinu þar sem hún taldi umsókn kæranda ekki uppfylla skilyrði laga nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu (hér eftir afurðarheitalög). Þegar af þeirri ástæðu væri öflun umsagna tilgangslaus með öllu. Var varkröfu kæranda einnig hafnað.

II. Málsástæður
Með hliðsjón af 31. gr. ssl. verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og röksemdir hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda
Kærandi byggir á því í kæru sinni að Matvælastofnun hafi ekki leitað umsagnar Hugverkastofu og Samtaka atvinnulífsins líkt og ákvæði 2. mgr. 13. gr. afurðarheitalaga kveður á um. Rannsókn málsins hafi því verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. ssl. Kærandi mótmælir tilvísun Matvælastofnunar til ummæla í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/2014 um að Matvælastofnun sé aðeins skylt að afla umsagna „telji stofnunin að umsókn sé fullnægjandi“. Telur kærandi að ummæli í greinargerð geti ekki breytt orðalagi lagákvæðisins og að orðalag greinargerðarinnar vísi aðeins til þess að umsókn uppfylli skilyrði 12. gr. afurðarheitalag um að þar komi fram upplýsingar um nafn og heimilisfang umsækjanda, afurðarheiti, afurðarlýsing og samantekt sem feli í sér meginefni afurðarlýsingar. Því sé ekki verið að vísa til þess að Matvælastofnun eigi að taka efnislega afstöðu til þess hvort fallast eigi á umsóknina áður en leitað er eftir hinum lögbundnu umsögnum. Telur kærandi enn fremur að 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 596/2016, um skráningu afurðarheita, styðji ekki þann skilning sem Matvælastofnun virðist hafa á ummælum í greinargerðinni.

Málsástæður Matvælastofnunar
Matvælastofnun telur að sá skilningur sem fram kemur í kæru, þess efnis að skylt sé að senda umsókn til umsagnar ef hún er á réttu formi, þ.e. það komi fram nafn og heimilisfang umsækjanda, afurðarheiti, afurðarlýsing o.s.frv. og að ekki eigi að taka efnislega afstöðu áður en umsagna er leitað sé rangur. Vísar Matvælastofnun til 1. mgr. 13. gr. afurðarheitalaga þar sem segir að Matvælastofnun fari yfir umsóknir sem berast skv. 12. gr. og að stofnunin skuli gæta þess að með umsókn fylgi öll gögn, umsókn sé nægilega rökstudd og uppfylli skilyrði laganna. Að mati Matvælastofnunar felst í ákvæðinu forathugun stofnunarinnar og það sé ekki fyrr en að henni uppfylltri sem henni sé skylt að leita lögbundinna umsagna hjá Hugverkastofu og Samtökum atvinnulífsins, skv. 2. mgr. 13. gr. Þar sem niðurstaða Matvælastofnunar eftir forathugun var sú að umsókn kæranda hafi hvorki verið nægilega rökstudd né uppfyllt kröfur laganna taldi stofnunin sér ekki skylt að leita lögbundinna umsagna.
Matvælastofnun vísar enn fremur til athugasemda um 13. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um afurðarheiti, þar sem segir að Matvælastofnun skuli fara yfir allar umsóknir um skráningu á afurðarheiti og telji hún að umsóknin sé fullnægjandi er henni skylt að senda hana ásamt gögnum til umsagnar. Í fyrirliggjandi máli taldi Matvælastofnun umsókn kæranda vera ófullnægjandi og því taldi stofnunin sér ekki skylt að leita umsagnar Hugverkastofu og Samtaka atvinnulífsins.

III. Rökstuðningur niðurstöðu
Áður en stjórnvald getur tekið ákvörðun í máli verður að undirbúa það. Í undirbúningnum felst m.a. sú skylda að stjórnvaldi ber að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en það tekur ákvörðun í því, sbr. 10. gr. ssl. Til þess að undirbúa mál hefur jafnframt verið litið svo á að öflun umsagna sé mikilvægt úrræði. Öflun slíkra umsagna þjóna sjaldnast þeim tilgangi að leita upplýsinga um málsatvik líkt og rannsóknarregla 10. gr. kveður á um heldur að afla álits eða mats utanaðkomandi aðila á staðreyndum máls. Að meginstefnu til er slík umsögn því eins og hvert annað gagn sem stjórnvald aflar við meðferð stjórnsýslumáls sem þarf svo að taka afstöðu til hvernig horfir við í málinu.
Álitsumleitan líkt og mælt er fyrir um í 2. mgr. 13. gr. afurðarheitalaga felur í sér lögbundna skyldu Matvælastofnunar til að leita umsagnar frá Hugverkastofu og Samtökum atvinnulífsins um umsókn um skráningu afurðarheitis. Af umsögnum Matvælastofnunar má ráða að stofnunin sé sammála því að henni sé skylt að leita umsagna framangreindra tveggja aðila. Ágreiningur Matvælastofnunar og kæranda virðist hins vegar lúta að því hvenær í umsóknarferlinu Matvælastofnun ber að leita umsagnanna.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. afurðarheitalaga þá skal Matvælastofnun fara yfir umsóknir sem berast skv. 12. gr. og skal gæta þess að með umsókn fylgi öll gögn, umsókn sé nægilega rökstudd og uppfylli skilyrði laganna. Umsókn kæranda barst samkvæmt 12. gr. en samkvæmt 2. mgr. þess ákvæðis skal í umsókn koma fram nafn og heimilifang umsækjanda, afurðarheiti sem sótt er um vernd fyrir, afurðarlýsing og samantekt sem felur í sér meginefni afurðarlýsingar. Líkt og gögn málsins bera með sér þá uppfyllti umsókn kæranda framangreind skilyrði. Uppfyllti umsókn kæranda enn fremur ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 596/2016 um skráningu afurðarheita sem fjallar um skilyrði umsókna um skráningu afurðarheitis.

Ef framangreind atriði koma ekki fram í umsókn ber Matvælastofnun að veita umsækjanda svigrúm til að lagfæra umsókn sína innan hæfilegs frest, sbr. 3. mgr. 12. gr. Ef umsækjandi leiðréttir ekki umsókn sína innan þess frests telst umsókn hans ófullnægjandi og ótæk til meðferðar, sbr. 4. mgr. 12. gr. Gagnályktun frá síðastnefndu ákvæði leiðir til þess að ef skilyrði 2. mgr. 12. gr. og samsvarandi ákvæða reglugerðar nr. 596/2016 eru uppfyllt, þá verður að telja að umsókn sé fullnægjandi. Með vísan til þessa verður því að telja að umsókn kæranda hafi talist fullnægjandi í skilningi laganna.

Í athugasemdum um 13. gr. með frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/2014 segir að „Matvælastofnun fari yfir allar umsóknir um skráningu á afurðarheiti og telji stofnunin að umsókn sé fullnægjandi er henni skylt að senda umsóknina ásamt gögnum til umsagnar til Einkaleyfastofu og Samtaka atvinnulífsins.“ Af framangreindri athugasemd má leiða að þegar að Matvælastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að umsókn sé fullnægjandi þá ber henni að senda hana til umsagnar til Einkaleyfastofu og Samtaka atvinnulífsins. Engu breytir í þeim efnum þó að orðalag 13. gr. kveði á um að Matvælastofnun skuli gæta þess að umsókn sé nægilega rökstudd og uppfylli skilyrði laganna. Eðli máls samkvæmt verður að líta svo á að sú athugun Matvælastofnunar verði að eiga sér stað í kjölfar þess að stofnunin hefur fengið umsagnir Hugverkastofu og Samtaka atvinnulífsins aftur í hendurnar.

Annars kostar þjónar hin lögbundna umsagnarskylda lítt tilgangi sínum um að undirbúa efnisúrlausn málsins.
Með vísan til alls framangreinds bar Matvælastofnun því í máli kæranda að leita umsagnar Hugverkastofu og Samtaka atvinnulífsins áður en tekin var ákvörðun um að hafna umsókn hans. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Matvælastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 17. janúar 2022, um að synja umsókn kæranda um skráningu á afurðarheitinu íslenskur lax er hér með felld úr gildi og Matvælastofnun gert að taka málið til meðferðar að nýju.





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum