Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 9/2008, úrskurður 23. nóvember 2009

Mánudaginn 23. nóvember 2009 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 9/2008.

Vegagerðin

gegn

Eigendum Mjóaness

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

 

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Björn Þorri Viktorsson, hrl. og lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 10. september 2008 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 23. september 2008 fór eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 1.627 ferm. landspildu úr landi Mjóaness, Bláskógabyggð. Hin eignarnumda spilda er að sögn eignarnema samtals 2003 ferm. að stærð en gamalt vegsvæði Þingvallavegar sem telst 376 ferm. er skilað aftur til landeigenda og kemur því til frádráttar. Af þessum sökum telst heildarstærð þess sem meta á 1.627 ferm svo sem að framan greinir. Eignarnámsþolar eru þinglýstir eigendur Mjóaness.

Tilefni eignarnámsins eru fyrirhugaðar framkvæmdir eignarnema við lagningu Lyngdalsheiðarvegar frá Þingvallavegi við Miðfell m.a. um land Mjóaness.

Eignarnámsheimildina er að finna í vegalögum nr. 80/2007.

III. Málsmeðferð:

 

Málið var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 23. september 2008. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Þá var gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar. Matsnefndin kynnti þá ákvörðun sína að eignarnema væri heimilt að hefja framkvæmdir þó mati væri ekki lokið með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973. Af hálfu lögmanns eignarnámsþola var þessari ákvörðun nefndarinnar mótmælt. Var málinu að þessu búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

Miðvikudaginn 12. nóvember 2008 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Mánudaginn 24. ágúst 2009 var málið tekið fyrir. Þá hafði matsnefndinni borist greinargerð af hálfu eignarnámsþola til framlagningar og var hún lögð fram. Þá var málið flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu. Við flutning málsins var bókað að úrskurður í því myndi bíða eftir að nefndin kvæði upp úrskurð sinn í málinu nr. 5/2008, en hann var kveðinn upp þann 10. nóvember 2009.

IV. Sjónarmið eignarnema:

 

Um tilefni eignarnámsins vísast til þess sem fram kemur í kafla II. hér að framan. Eignarnemi kveður tilgang framvæmda hans á svæðinu vera bættar samgöngur í Bláskógabyggð fyrir almenna vegfarendur, þ.a. m. sumarhúsaeignendur og hina fjölmörgu ferðamenn sem fara þessa leið milli Þingvalla og Laugarvatns auk íbúa svæðisins.

Eignarnemi kveðst hafa boðið kr. 500.000 pr. ha. fyrir hið eignarnumda land, en því tilboði hafi verið hafnað af eignarnámsþolum. Í viðleitni sinni til að leysa málið með sátt hafi eignarnemi hækkað boð sitt í kr. 700.000 pr. ha., en því hafi einnig verið hafnað af hálfu eignarnámsþola. Lítur eignarnámsþoli svo á að hann sé óbundinn af hinu síðara boði og gerir eignarnemi kröfu til þess að við matið verði miðað við kr. 500.000 pr. ha. og bætur verði þannig metnar kr. 81.350 fyrir hina eignarnumdu spildu.

Eignarnemi bendir á að hið eignarnumda land sé ekki ákjósanlegt sumarhúsaland. Miðfellið skyggi nokkuð á Þingvallavatnið sem geri landið verðminna en annars væri. Þá bendir eignarnemi á að spildan sé í næsta nágrenni við Þingvallaveginn sem geri byggingaframkvæmdir á henni í raun óhugsanlegar með hliðsjón af 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Eignarnemi telur því landið á engan hátt sambærilegt eftirsóknarverðu sumarhúsalandi við Þingvallavatn.

Eignarnemi bendir enn fremur á að ekki hafi verið sýnt fram á neinn afrakstur af landinu og ekki sé að sjá að breyting verði þar á í framtíðinni.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að við það verði miðað að veghelgunarsvæðið sé 60 m. breitt en ekki 40 m. eins og eignarnemi miði kröfugerð sína við. Í þessu sambandi benda eignarnámsþolar á að skv. 32. gr. vegalaga segi að byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skuðir eða önnur mannvirki, föst eða laus, megi ekki staðsetja nær vegi en 30 m. frá miðlínu stofnvega nema leyfi veghaldara komi til. Telja eignarnámsþolar með vísan til þessa að hið eignarnumda sé 3.004 ferm. að stærð en ekki 1.627 ferm.

Eignarnámsþolar telja hæfilegar bætur vera kr. 5.000.000 á hvern ha. lands. Við matið verði ekki hjá því litið að spildan sé á verðmætu útsýnissvæði sem sé afar heppilegt til byggingar frístundabyggðar sem og annarar útivistar. Við framangreinda fjárhæð sé litið til söluverðs spildna á svæðinu, s.s. sölu lóða við Þingvallavatn.

Af hálfu eignarnámsþola er ekki fallist á að eignarnemi geti takmarkað það land sem metið er til verðs með því að segjast skila 0,58 ha. lands þar sem engar bætur hafi verið greiddar fyrir það land á sínum tíma og því sé það land og hafi alltaf verið hluti af jörðinni og því í eigu eignarnámsþola.

Eignarnámsþolar mótmæla því að landið sé rýrt eins og eignarnemi haldi fram. Þvert á móti sé um gott svæði að ræða undir margs konar starfsemi, m.a. frístundabyggð. Útsýni sé þar gott og kvöldsólar njóti við. Þá sé land nærri vatninu af skornum skammti og því einmitt líklegt að frístundabyggð byggist upp á þessu svæði, fjarri vatninu.

Bent er á að landið sé einkar verðmætt vegna grunnvatnsstrauma sem á því séu, en slík réttindi séu mikilvæg og líkur á að verðmæti þeirra aukist.

Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega að litið sé til árlegs afraksturs landsins. Slíkur mælikvarði sé ekki til þess fallinn að sýna fullar bætur svo sem álið sé í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá skipti heldur engu máli þó landið hafi ekki verið skipulagt sem frístundarland, heldur sé það sem máli skipti að það megi nota það til slíkra hluta. Vísað er til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1984 bls. 906 í svokölluðu Ásgarðsmáli.

Eignarnámsþolar mótmæla að draga skuli frá bótum meinta verðmætaaukningu sem verði á landinu. Telja þeir að vegurinn skipti engu um nýtingu landsins enda sé nú þegar vegur um landið og hinn nýi vegur sé ekki líklegur til annars en rýra verðmæti landsins að þeirra mati.

Bótakrafa eignarnámsþola sundurliðast þannig:

Bætur fyrir eignarnumið land 3.004,5 ferm. x kr. 500 kr. 1.502.250

Bætur vegna óhagræðis af vegi, skiptingu lands o.fl. kr. 1.500.000

Bætur vegna bráðabirgða afnota lands kr. 100.000

 

Samtals kr. 3.102.250

 

Þá er krafist kostnaðar vegna rekstus málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

VI. Álit matsnefndar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að eignarnema verði gert að taka stærra landsvæði eignarnámi en krafist er í matsbeiðni. Af þessum sökum er litið svo á að eignarnámsandlagið sé það sem tilgreint er í kafla II. í úrskurði þessum.

Að áliti matsnefndarinnar er allt land í nágrenni hinnar eignarnumdu spildu vel hentugt til frísundabyggðar en nálægð nákvæmlega þess hluta landsins sem krafist er mats á í máli við veg sem þegar liggur um svæðið gerir nýtingu hennar nánast óhugsandi fyrir frístundarbyggð. Öðru máli gengdi ef um ósnortið land, fjarri veginum væri að ræða. Miðfellið skyggir nokkuð á útsýni af landinu og rýrir það verðmæti landsins nokkuð.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir og með tilliti til rasks og tímabundinna afnota af landi meðan á framkvæmdum stendur þykja hæfilegar bætur fyrir hina eignarnumdu spildu vera kr. 400.000. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 400.000, þ.m.t. virðisaukaskattur í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir matsnefndinni.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 400.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, eigendum Mjóaness, samtals kr. 400.000 í eignarnámsbætur og kr. 400.000, þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 400.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

____________________________________

Helgi Jóhannesson

____________________________ ___________________________

Vífill Oddsson Björn Þorri Viktorsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum