Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

1134/2023. Úrskurður frá 8. mars 2023

Hinn 8. mars 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1134/2023 í máli ÚNU 22070020.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 19. júlí 2022, kærði A synjun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á beiðni hans um gögn. Kærandi óskaði hinn 22. júní 2022 eftir aðgangi að öllum samningum sem gerðir hefðu verið milli Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Creditinfo Lánstrausts frá árinu 2003. Í svari Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 28. júní 2022, kom fram að Creditinfo hefði lagst gegn því að umræddar upplýsingar yrðu veittar og í ljósi þess væri beiðninni hafnað.

Í kæru kemur fram til stuðnings gagnabeiðni kæranda að um sé að ræða tvær gerðir samninga: annars vegar um framkvæmd nokkurra úrtaksrannsókna sem Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi látið Credit­info gera fyrir sig, og hins vegar þjónustusamninga um gagnasendingar frá Innheimtustofnun sveitar­fél­aga til Creditinfo vegna vanskila meðlagsgreiðenda í framfærsluvanda. Tilefni beiðninnar sé það að kær­andi hafi gögn undir höndum sem bendi til þess að stjórnendur Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafi gert breytingar á skýrslum frá Creditinfo áður en stofnuninni var gert að afhenda gögn í kjölfar gagna­beiðni. Þá hafi kærandi undir höndum gögn sem gefi til kynna að stjórnendur stofnunarinnar hafi fært hluta lögboðinnar starfsemi hennar inn í eitt eða fleiri rekstrarfélög fyrir árið 2015.

Kæran var kynnt Innheimtustofnun sveitarfélaga með erindi, dags. 3. ágúst 2022, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti úr­­skurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Innheimtustofnunar sveitarfélaga barst úrskurðarnefndinni hinn 12. ágúst 2022. Í henni kemur fram að einu samningarnir sem séu og hafi verið í gildi milli stofnunarinnar og Creditinfo séu almenn­ur samningur um skráningu og innsendingu á VOG o.fl., þjónustusamningur um innheimtu­kerfi Creditinfo, samningur um upplýsingamiðlun í greiðslumatskerfi Creditinfo og tveir samningar um kennitöluaðgang að ökutækjaskrá og eignaleit. Enginn þessara samninga taki á þeim málefnum sem kærandi fjalli um í kærunni. Þar af leiðandi liggi ekki fyrir hjá stofnuninni gögn sem heyri undir beiðni kæranda. Umsögn stofnunarinnar fylgdi afrit af framangreindum samningum.

Umsögn Innheimtustofnunar sveitarfélaga var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. september 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Niðurstaða

Í beiðni kæranda til Innheimtustofnunar sveitarfélaga var óskað eftir öllum samningum sem gerðir hefðu verið milli stofnunarinnar og Creditinfo frá árinu 2003. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar var hins vegar tiltekið að óskað væri aðgangs að samningum um framkvæmd nokk­urra úrtaksrannsókna og þjónustu­samn­ingum um gagnasendingar frá Innheimtustofnun sveitar­fél­aga til Creditinfo vegna van­skila með­lags­greiðenda í framfærsluvanda. Í samræmi við þessa afmörkun kæranda miðast um­fjöll­un nefndarinnar við hvort endurskoða beri ákvörðun Innheimtustofnunar um að afhenda ekki þá samn­inga.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orða­­­­lag ákvæða 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gild­­­­andi upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tíma­­­­punkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Í umsögn Innheimtustofnunar er vísað til þess að hjá stofnuninni liggi ekki fyrir samningar með því efni sem tilgreint er í kærunni. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þá samninga sem stofnunin afhenti nefnd­inni. Telur nefndin ljóst að umræddir samningar séu ekki þess efnis sem kærandi hefur lagt til grund­vallar í kæru sinni. Þá hefur nefndin ekki forsendur til þess að draga í efa þær skýringar stofn­un­ar­innar að ekki liggi fyrir aðrir samningar hjá stofnuninni með því efni sem kærandi hefur til­greint.

Af ákvæðum upp­lýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um hvort rétt hafi verið að synja beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lög­unum eða, eftir atvikum, beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrir­liggj­andi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Ljóst er að umbeðin gögn eru ekki fyrirliggjandi hjá Innheimtustofnun. Stofnuninni hefði því verið rétt að vísa beiðni kæranda frá. Í samræmi við framan­greint eru því ekki lagaskilyrði fyrir því að fjalla efnislega um erindi kæranda til nefndarinnar og er því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A á afgreiðslu Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 28. júní 2022, á beiðni hans um aðgang að samningum um framkvæmd nokkurra úrtaksrannsókna sem Innheimtustofnun hafi látið Credit­info gera fyrir sig, og þjónustusamningum um gagnasendingar frá Innheimtustofnun til Credit­info vegna vanskila meðlagsgreiðenda í framfærsluvanda er vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum