Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 19/2019 Úrskurður 25. mars 2019

Mál nr. 19/2019                    Eiginnafn:     Sukki (kk.)

 

 

Hinn 25. mars 2019 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 19/2019 en erindið barst nefndinni 5. febrúar. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar 19. febrúar en afgreiðslu þess frestað.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

  • Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Í þessu máli reynir á síðastnefnda skilyrðið hér að ofan um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Eiginnafnið Sukki er dregið af nafnorðinu sukk, sem merkir ‘svall, óregla; eyðslusemi, óráðsía’ eða ‘hávaði, háreysti’. Nafnorðið sem nafnið er dregið af hefur því mjög neikvæða merkingu.

Þegar svo háttar að fullorðinn maður sækir um að taka upp nýtt nafn er ekki unnt að fullyrða að nafnið verði nafnbera til ama. Hins vegar verður ekki hjá því komist að hafa í huga að með því að setja nafn á mannanafnaskrá er það um leið orðið mögulegt nafn fyrir nýfædd börn. Gera má ráð fyrir að eiginnafnið Sukki geti hugsanlega orðið barni til ama og því er ekki heppilegt að slíkt nafn sé á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Sukki (kk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum