Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 167/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 167/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22020003

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 2. mars 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Malasíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, hinn 23. nóvember 2020 með gildistíma til 15. júlí 2021. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið í sambúð með íslenskum ríkisborgara frá 29. desember 2019 og skráðu þau sambúð sína hjá Þjóðskrá hinn 14. maí 2021. Hinn 17. maí 2021 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara. Útlendingastofnun sendi kæranda bréf hinn 26. nóvember 2021 á skráð lögheimili kæranda og sambúðarmaka og var afhending bréfsins bókuð hinn 30. nóvember 2021. Voru lagaskilyrði fjölskyldusameiningar rakin í bréfinu og ástæða þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um sambúðartíma. Var kæranda gefinn 15 daga frestur til að leggja fram skriflegar athugasemdir og/eða gögn, teldi hún sérstakar aðstæður mæla með því að veita henni dvalarleyfi þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. 70. gr. Kærandi lagði ekki fram andmæli né gögn í tilefni bréfsins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 22. febrúar 2022 og kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 2. mars. 2022 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda ásamt fylgigögnum.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 11. mars 2022 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að í dvalarleyfisumsókn komi fram að kærandi og maki hafi kynnst fyrst í heimsókn kæranda til Íslands árið 2016 og hafi hún heimsótt landið fjórum sinnum til viðbótar áður en kærandi hafi komið aftur til landsins hinn 29. desember 2019 til þess að vera með sambúðarmaka sínum og stunda nám við háskóla hér á landi. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands væri kærandi búin að vera skráð í sambúð með maka sínum frá 14. maí 2021. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að sambúð skuli hafa varað lengur en eitt ár og þá ætti undatekningarheimild 2. mgr. ekki við um aðstæður kæranda. Var umsókn kæranda því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi og maki séu búin að vera í sambúð frá 29. desember 2019, þar af skráðri sambúð frá 19. janúar 2021. Hafi þau búið fyrst í foreldrahúsum maka en síðar í eigin húsnæði ásamt tveimur hundum. Standi vilji þeirra í framtíðinni til þess að eignast börn saman.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 69. gr. laganna teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis. Af lestri ákvæðisins sem og athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga má ráða að krafa sé gerð um að sambúðin sé „skráð“ hjá yfirvöldum, í tilfelli kæranda hjá Þjóðskrá Íslands.

Í 2. mgr. 70. gr. kemur fram að heimilt sé að beita ákvæðum 1. mgr. þótt sambúð hafi varað skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður mæla með því. Í athugasemdum við 2. mgr. 70. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðið geti átt við í þeim tilvikum þegar aðilar eiga barn saman eða eiga von á barni saman og ætla sér að búa saman hér á landi. Þá sé heimilt að víkja frá skilyrðum um tímalengd skráðrar sambúðar og skráningar erlendis ef heildstætt mat á aðstæðum aðila leiðir í ljós að ósanngjarnt eða ómögulegt sé að krefjast þess að sambúð hafi verið skráð í tilskilin tíma, t.d. vegna löggjafar eða aðstæðna í heimaríki eða sérstakra aðstæðna ábyrgðaraðila og maka hans og hægt er að sýna fram á sambúð með öðrum hætti.

Í dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 17. maí 2021, kemur fram að kærandi og maki hafi kynnst árið 2016 þegar kærandi hafi verið á ferðlagi um landið og hafi kærandi í kjölfarið sótt landið heim í fjögur skipti. Hafi kærandi og maki ákveðið að hefja sambúð á Íslandi og hafi þau búið saman frá 29. desember 2019 en kærandi hafi á þeim tíma verið í háskólanámi. Í dvalarleyfisumsókn kemur fram að dvalarstaður hennar hafi verið […], […], frá 29. desember 2019. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá var maki kæranda þá skráður með búsetu í sama húsi. Af dagbókarfærslum úr málaskrá Útlendingastofnunar er ljóst að kærandi spurðist fyrst fyrir um mögulegt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við maka hinn 3. júlí 2020.

Kærandi og maki skráðu sambúð sína hjá Þjóðskrá hinn 14. maí 2021 og fluttu heimilisfang sitt að […] hinn 3. júní 2021. Er að framansögðu ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að skráð sambúð skuli hafa varað í meira en eitt ár. Hins vegar ber til þess að líta að gögn málsins benda eindregið til þess að kærandi og maki hafi verið í samvistum frá 29. desember 2019 en frá því tímamarki voru þau með skráð lögheimili í sama húsi þrátt fyrir að þau hafi ekki verið í skráðri sambúð. Hafa þau þannig búið saman vel á þriðja ár. Er það mat kærunefndar, eftir skoðun á gögnum málsins og þeim málstæðum sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins, að aðstæður kæranda og maka séu þess eðlis að skilyrðum 2. mgr. 70. gr. sé fullnægt í málinu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi uppfylli grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 55. gr. Verður hin kærða því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum