Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 201/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 201/2019

Miðvikudaginn 4. september 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 21. maí 2019, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. mars 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri aftur í tímann.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 6. mars 2018. Með örorkumati, dags. X 2018, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X 2017 til X 2020. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá 7. september 2018 með rafrænni umsókn, móttekinni 7. september 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. september 2018, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með tölvupósti 8. október 2018 var óskað eftir greiðslum örorkulífeyris aftur í tímann, þ.e. frá X 2017, en því erindi var ekki svarað. Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 12. september 2018, var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði nr. 435/2018, dags. 27. febrúar 2019, en úrskurðarnefndin beindi þeim tilmælum til Tryggingastofnunar að afgreiða beiðni kæranda frá 8. október 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 6. mars 2019, var kæranda synjað um greiðslur aftur í tímann.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. maí 2019. Með bréfi, dags. 23. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. maí 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. júní 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að samþykkt verði 75% örorka eða endurhæfingarlífeyrir frá X 2017 til X 2019. Krafan sé studd þeim rökum að 50% örorkumat hafi verið óviðeigandi í ljósi veikindastöðu kæranda og að stofnunin hafi hvorki unnið eftir 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar né sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 1. málsl. 37. gr. laga sömu laga.

Í kæru er greint frá forsögu málsins sem rekja megi til óvinnufærni kæranda í kjölfar veikinda hans í X 2017. Umboðsmaður kæranda hafi ráðlagt honum í X 2018 að sækja um örorkumat á grundvelli 18. gr. laga um almannatryggingar þar sem fyrirsjáanlegt hafi verið að um langvarandi veikindi væri að ræða. Kærandi hafi sótt um örorku frá greiningu veikindanna í X 2017 en Tryggingastofnun hafi synjað umsókninni á þeim forsendum að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um örorkulífeyri. Stofnunin hafi hins vegar veitt honum örorkustyrk með gildistíma frá X 2017 til X 2020. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar hafi verið liðinn þegar kærandi hafi upplýst umboðsmann sinn um þá ákvörðun.

[...]. Umsókn kæranda hafi verið synjað á nýjan leik með ákvörðun, dags. 12. september 2018, en í það skiptið á þeirri forsendu að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Úrskurðarnefnd hafi staðfest þessa ákvörðun með úrskurði í kærumáli nr. 435/2018. Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri í mars 2019 og hafi óskað eftir mati frá X 2018 en samþykktur hafi verið endurhæfingarlífeyrir í X mánuði frá X 2019.

Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála hafi afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um örorkulífeyri aftur í tímann ekki verið fullnægjandi og hafi nefndin beint þeim tilmælum til stofnunarinnar að afgreiða beiðnina. Tryggingastofnun hafi 6. mars 2019 synjað kæranda um örorkulífeyri aftur í tímann, eða frá X 2017. Sú ákvörðun og ákvörðun Tryggingastofnunar um 50% örorkumat séu kærðar til úrskurðarnefndar velferðarmála

Í rökstuðningi fyrir kröfu kæranda segir að í 19. gr. laga um almannatryggingar komi meðal annars fram að Tryggingastofnun skuli veita einstaklingi á aldrinum 18 til 62 ára örorkustyrk ef örorka hans sé metin að minnsta kosti 50%. Slíkan styrk skuli enn fremur veita þeim sem uppfylli skilyrði 1. málsl. málsgreinarinnar og stundi fullt starf ef örorkan hafi í för með sér verulegan aukakostnað. Á heimasíðu Tryggingastofnunar megi lesa nánar um örorkustyrk en þar segi meðal annars að örorkustyrkur sé hugsaður fyrir einstaklinga sem beri verulegan aukakostnað vegna örorku sinnar, til dæmis vegna lyfja, læknishjálpar eða hjálpartækja. Jafnframt að örorkustyrkur miðist við 50% örorkumat sem ætla megi að feli í sér 50% vinnugetu. Sú hafi ekki verið raunin í tilviki kæranda sem hafi verið með öllu óvinnufær á þeim tíma er hann hafi lagt inn umsókn sína og það hafi verið staðfest í læknisvottorði. Er þar vísað í komugögn frá Landspítalanum frá X 2017 til X 2019.

Erfitt sé að sjá út frá fyrirliggjandi gögnum hvernig niðurstaða mats Tryggingastofnunar um 50% örorkumat geti átt við um vinnufærni og heilsu kæranda á þessum tíma. Niðurstaðan hafi byggst á skoðunarskýrslu læknis sem hafi falið í sér stutt viðtal við kæranda í spurningaformi. Hvorki hafi verið tekið mark á meðfylgjandi læknisvottorði eða svörum kæranda í spurningalista. Í vottorðinu hafi einnig komið fram að ólíklegt væri að ástand kærandi myndi lagast mikið nema [...]. Þar segi einnig að búast megi við að færni muni aukast eftir læknismeðferð. Tryggingastofnun virðist hins vegar ekki líta til þess á nokkurn hátt. Við matið virðist ekki hafa verið farið eftir 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar en þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Þó virðist það vera í starfsreglum en í svörum stofnunarinnar við fyrirspurn um hvenær sækja beri um örorku og hvenær um endurhæfingarlífeyri hafi komið fram að sjúklingum í meðferð, svo sem vegna mjaðmaskipta, líffæraígræðslna, krabbameinsmeðferða o.fl., sé að öllu jöfnu beint í farveg endurhæfingarlífeyris undir formerkjum læknisfræðilegrar endurhæfingar (ekki starfsendurhæfingar). Hér sé læknismeðferð klárlega talin ígildi endurhæfingar og kölluð læknisfræðileg endurhæfing. Með úrskurði sínum um örorkustyrk virðist því sem Tryggingastofnun hafi ekki heldur sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 1. máls. 37. gr. laga um almannatryggingar, þ.e. skyldu stofnunarinnar til að kynna sér aðstæður umsækjenda og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum er stofnunin starfi eftir. Enn fremur segi að við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda skoðuð heildstætt.

Í samræmi við yfirlýstar starfsreglur Tryggingastofnunar hafi stofnunin átt að synja umsókn kæranda um fulla örorku á þeirri forsendu að hann væri í læknisfræðilegri endurhæfingu og ætti því að sækja um endurhæfingarlífeyri. Með þeirri afgreiðslu hefði líka verið komið til móts við óvinnufærni hans og tekjuleysi. Þess í stað hafi kærandi fengið 50% örorkumat með gildistíma frá X 2017 til X 2020, en örorkustyrkur sé ekki hugsaður sem meginframfærsla heldur sem styrkur til þeirra sem hafi vinnugetu en beri verulegan aukakostnað vegna örorku sinnar.

Þess megi einnig geta í þessu samhengi að mörg dæmi séu um að Tryggingastofnun meti umsókn um fullt örorkumat til endurhæfingarlífeyris, þ.e. ákvarði að umsækjandi fái metinn endurhæfingarlífeyri án þess að viðkomandi þurfi að aðhafast sjálfur í málinu, til dæmis með nýrri umsókn um endurhæfingarlífeyri, skila inn endurhæfingaráætlun, o.fl., sem sé þó skilyrði fyrir greiðslum. Þá sé ógegnsætt hvenær stofnunin telji að þessi viðsnúningur eigi rétt á sér og engan veginn sé ljóst af hverju honum hafi ekki verið beitt í tilviki kæranda.

Í stuttu máli þá hafi kærandi sótt um örorkumat í mars 2018. Hann hafi fengið 50% örorkumat frá X 2017 til X 2019 þrátt fyrir að hafa á þessu tímabili í fyrsta lagi verið alveg óvinnufær vegna [...], í öðru lagi hafi hann verið í þéttri læknismeðferð ásamt [...] og í þriðja lagi þá hafi hann […].

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að synja um greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann.

Mál þetta megi rekja til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 435/2018, dags. 27. febrúar 2019. Í úrskurðinum hafi nefndin beint þeim tilmælum til stofnunarinnar að afgreiða beiðni kæranda frá 8. október 2018 um greiðslu örorkulífeyris frá X 2017.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. mars 2019, hafi stofnunin ítrekað það sem fram hafi komið í greinargerð stofnunarinnar vegna kæru nr. 435/2018. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn 6. mars 2018. Skilyrði staðals um örorkulífeyri hafi ekki verið uppfyllt og hafi kæranda því verið synjað um örorkulífeyri X 2018. Kærandi hafi þó verið talinn uppfylla skilyrði til örorkustyrks með gildistíma frá X 2017 til X 2020. Út frá framangreindu hafi það verið mat stofnunarinnar að synjun þessi hafi einnig átt við um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris þar sem að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals.

Tryggingastofnun hafi ekki talið ástæðu til að meta kæranda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat þar sem um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki sé í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið eigi við, en þar sem 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat, verði að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi vísað til þess að heimilt sé að beita undantekningarákvæðinu sé líkamleg og andleg færni svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða að fötlun hans verði jafnað til þess. Vísar hér Tryggingastofnun í úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 294/2017. Það hafi verið mat Tryggingastofnunar að ákvæðið ætti ekki við í tilviki kæranda. Þá beri einnig að nefna að samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar geti enginn notið samtímis fleiri en einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt fyrrgreindum lögum vegna sama atviks eða fyrir sama tímabil nema annað sé þar sérstaklega tekið fram. Að lokum sé þess getið að ákvörðun um að synja kæranda um örorkulífeyrisgreiðslur, dags. X 2018, hafi ekki verið kærð.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. mars 2019 þar sem kæranda var synjað um greiðslu örorkulífeyris og tengdra greiðslna aftur í tímann þar sem að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um örorkulífeyri, sbr. bréf, dags. X 2018. Kærandi krefst þess að fá greiddan örorkulífeyri vegna tímabilsins X 2017 til X 2019. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 435/2018 var staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri frá X 2018 á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Úrskurðarnefndin tekur því einungis til skoðunar hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar á tímabilinu X 2017 til X 2018.

Í kæru eru gerðar miklar athugasemdir við örorkumat Tryggingastofnunar, dags. X 2018. Meðal annars er byggt á því að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 1. máls. 37. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar við töku framangreindrar ákvörðunar. Eins og áður hefur komið fram varðar mál þetta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. mars 2019 en ákvörðun stofnunarinnar frá X 2018 var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin mun því ekki taka afstöðu til málsástæðna sem lúta að ákvörðun stofnunarinnar frá X 2018.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Í 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar segir að sækja skuli um allar bætur samkvæmt lögunum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Fyrir liggur að kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með örorkumati, dags. X 2018, en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks.

Í læknisvottorði, D, dags. X 2018, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, dags. 6. mars 2018, kemur fram að sjúkdómsgreining kæranda sé „[...]“. Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„Sjúkl. greindist snemma árið 2017 […] Hefur haft fylgikvilla […] Einnig hefur hann greinst með […] Einnig hefur fylgt þessu […] og þurft meðferð við því Hann hefur að mestu verið óvinnufær frá því í X 2017 vegna þessa [...], […]“

Samkvæmt vottorðinu hafði kærandi verið óvinnufær frá X 2017  en búast mætti við að færni ykist eftir læknismeðferð.

Einnig liggur fyrir læknisvottorð D, dags. X 2018. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreining kæranda sé „[...]“. Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir meðal annars:

„[...] Gekk vel.“

Í málinu liggja fyrir svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. X 2018, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar í tengslum við umsókn sína um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Kærandi lýsir þar heilsuvanda sínum þannig að hann sé […]. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hann fái stundum verki í fætur. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hann sé með verki í fótum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að beygja sig og krjúpa þannig að það sé mjög erfitt, hann sé með verki í fótum og það sé erfitt að standa upp aftur. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með ganga upp og niður stiga þannig að hann sé með verki í fótum og að öll áreynsla á lærvöðva sé erfið. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi erfitt með að lyfta og bera þannig að það sé erfitt að lyfta þungu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með [...]. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða játandi, hann sé með þunglyndi, depurð og áfallastreituröskun.

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X 2018. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi sé oft hræddur eða felmtraður án tilefnis. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda og hann sitji oft aðgerðarlaus tímunum saman. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[...].“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Yfirvegaður, skýr, góð saga, aðeins þreytulegur. Raunhæfur.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Vaknar seint, um 10-11. Mætir ekki eða varla í vinnu, og er óvinnufær í þessari vinnu. Er heima, fer í tölvu, það slappur að hann dormar á daginn. og erfitt að halda degi án þess að sofna. Skúrar ekki, ryksugar ekki, vaskar upp, eldar ekki, en þvær þvotta. Ekur bíl. Verslar, lyftir pokum. göngu geta er amk 15 mín. Svefn er lélegur. Sofnar um 22.“

Þá segir í skoðunarskýrslunni að skoðunarlæknir telji að færni kæranda hafi verið svipuð seinasta árið.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að þær niðurstöður sem koma fram í áðurnefndri skoðunarskýrslu séu í samræmi við gögn málsins og telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Samkvæmt skoðunarskýrslunni fékk kærandi ekkert stig vegna líkamlegrar færniskerðingar og átta stig vegna andlegrar færniskerðingar. Þá telur úrskurðarnefndin að ráða megi af gögnum málsins að heilsa kæranda hafi verið svipuð og lýst er í skoðunarskýrslunni frá X 2017 þar til [...] X. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat á umdeildu tímabili.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga  um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar frá 6. mars 2019 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri aftur í tímann staðfest.

Í kæru er jafnframt gerð krafa um endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins X 2017 til X 2019. Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri í mars 2019 og óskað eftir mati frá X 2018. Hann hafi fengið metinn endurhæfingarlífeyri til X mánaða frá X 2019. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Þá segir í 1. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveði á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin taki ágreiningsmál til skoðunar að stjórnvaldsákvörðun sé kærð skriflega til nefndarinnar. Engin kæra hefur borist frá kæranda vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar um endurhæfingarlífeyri. Ljóst er að kæra í máli þessu varðar einungis ákvörðun Tryggingastofnunar frá 6. mars 2019, enda fylgdi sú ákvörðun kæru og skýrlega er vísað til hennar í kærueyðublaðinu þar sem óskað er upplýsinga um dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar. Þar sem engin stjórnvaldsákvörðun varðandi endurhæfingarlífeyri hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar er kröfu kæranda um endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins X 2017 til X 2019 vísað frá.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. mars 2019, um að synja umsókn A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 6. mars 2019, er staðfest. Kröfu kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins X 2017 til X 2019 er vísað frá.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum