Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 15/2021-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 29. júní 2021

í máli nr. 15/2021

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Sigurlaug Helga Pétursdóttir lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B. Umboðsmaður varnaraðila er C lögmaður.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að skila lausafjármunum sem voru í hinu leigða í lok leigutíma. Einnig að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða kostnað vegna vinnu við spartl og málun á veggjum sem málaðir voru svartir á leigutíma.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað en til vara að þeim verði vísað frá. Auk þess fer varnaraðili fram á að sóknaraðila beri að greiða lögmannskostnað varnaraðila vegna máls þessa, sbr. 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Með kæru, dags. 18. febrúar 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 2. mars 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 15. mars 2021, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 17. mars 2021, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 25. mars 2021, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 29. mars 2021. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 6. apríl 2021, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. október 2019 til 30. september 2021 um leigu varnaraðila á atvinnuhúsnæði sóknaraðila að D. Samkvæmt niðurstöðu úrskurðar kærunefndar húsamála í máli nr. 120/2020 var varnaraðila heimilt að rifta leigusamningnum og lauk leigutíma því 29. september 2020. Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort varnaraðili hafi fjarlægt lausafjármuni sem hafi átt að verða eign leigusala við lok leigutíma sem og hvort honum beri að greiða kostnað vegna spartls og málunar á þeim veggjum sem voru málaðir svartir á leigutíma.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Að sögn sóknaraðila greinir aðila á um hvort varnaraðila beri að fara eftir lið 3 í leigusamningi aðila þar sem segi að leigutaka beri að „skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því sé ekki um annað samið skriflega.“ Varnaraðili hafi tekið við fullbúinni rakarastofu og þegar húsnæðinu hafi verið skilað hafi það verið alveg tómt.

Varnaraðili hafi tekið með sér öll ljós, baðherbergisvask á fæti, blöndunartæki, eldhúsvask, efri skáp í innréttingu, hurðir af neðri skáp í aðalrými, tvo stóla fyrir hárþvott, tvo hárgreiðslustóla, örbylgjuofn, kæliskáp, þvottavél, afgreiðsluborð, veggborð, hillur, eldhúsborð, fjóra stóla og vegghillur.

Einnig sé farið fram á að varnaraðili greiði kostnað við að spartla í skrúfu- og naglagöt á veggjum og að endurmála þá veggi sem málaðir hafa verið svartir með leyfi sóknaraðila, en með því skilyrði að þeir yrðu málaðir ljósir við lok leigutíma, enda segi í leigusamningnum „Slíkar breytingar og litur málningar skuli þó ætíð gerðar í samráði og með samþykki leigusala.“

Í húsnæðinu hafi verið starfrækt rakarastofa frá árinu 1999. Árið 2019 hafi þáverandi leigjandi slasast og neyðst til að hætta rekstri. Varnaraðili hafi yfirtekið reksturinn og undirritað leigusamning 31. ágúst 2019.

Varnaraðili hafi kynnt sér vel alla innanstokksmuni og fylgifé. Hann hafi tekið við fullbúinni rakarastofu með öllum lausum og föstum innréttingum, kæliskáp, örbylgjuofni, þvottavél, sjóðsvél, sambyggðum prentara og skanna, tveimur stólum fyrir hárþvott, afgreiðsluborði og fleiru, auk þess sem fyrri leigjandi hafi látið fylgja með flestar þær vörur tengdar rekstrinum sem hafi verið til staðar þegar hann hafi forfallast. Fyrri leigjandi hafi fengið að taka persónulega muni og handverkfæri.

Sóknaraðili hafi samþykkt að geyma flesta þessa hluti fyrir varnaraðila á meðan hann legði parket og málaði rýmið við upphaf leigutíma. Varnaraðili hafi fengið lykil að næsta rými við hliðina og fengið heimild til þess að geyma þessa hluti þar. Varnaraðili hafi sótt hluta af mununum úr geymslu en annað, svo sem fjögur skilrúm úr járni, spegla, kæliskáp, prentara, auk tímarita og smáhluta, hafi sóknaraðili setið uppi með og þurft að losa sig við á eigin kostnað, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá varnaraðila til að taka þessa hluti.

Samkomulag hafi verið um að sóknaraðili seldi einn rakarastól fyrir 40.000 kr.

III. Sjónarmið varnaraðila

Að sögn varnaraðila sé því mótmælt að hann hafi tekið yfir rekstur fyrri leigjanda. Þvert á móti sé á því byggt að við afhendingu húsnæðisins hafi varnaraðili þurft að byrja á því að fjarlægja muni fyrri leigjanda. Hafi varnaraðila verið bent á að hann gæti flutt munina í annað rými í húsinu sem einnig hafi verið í eigu sóknaraðila. Því sé mótmælt að þeir munir hafi verið hluti af fylgifé fasteignarinnar eða hafi átt að fylgja leigusamningi. Þvert á móti hafi varnaraðila verið boðnir umræddir munir til sölu sem hann hafi hafnað. Jafnframt sé bent á að þeir munir hafi verið verulega úr sér gengnir og jafnvel myglaðir og varnaraðili því þurft að byrja á því að standsetja leiguhúsnæðið. Þess sé hvergi getið að þeir hafi átt að vera fylgifé eignarinnar í leigusamningi.

Þar sem eignin hafi ekki verið í nægjanlega góðu ástandi við upphaf leigutíma hafi varnaraðili þurft að byrja á því að standsetja, mála og skipta um innréttingar í húsnæðinu. Jafnframt að kaupa inn í reksturinn hárgreiðslu- og vaskastóla og annað sem fylgi slíkum rekstri. Lögð séu fram ljósrit af kvittunum þessu til stuðnings ásamt yfirliti þess kostnaðar. Umrædd ljósrit gefi greinargóða mynd af þeim fjárhæðum sem varnaraðili hafi þurft að leggja í rekstrinum.

Við riftun leigusamningsins hafi fallið niður öll réttindi og allar skyldur aðila samkvæmt leigusamningnum, sbr. 3. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Sóknaraðili virðist byggja rétt sinn á 7. gr. leigusamningsins þannig að leigjandi skuli skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt öllum þeim endurbótum sem hann kunni að hafa gert á því á meðan á leigutíma hafi staðið. Varnaraðili byggi á því að við riftun samningsins hafi þessi réttur fallið niður. 

Í öðru lagi verði að telja að það yrði verulega ósanngjarnt og óeðlilegt ef leigjanda, sem eytt hefur á þriðju milljón króna til þess að standsetja leiguhúsnæðið, yrði skylt að skila húsnæðinu ásamt öllum þeim endurbótum, þrátt fyrir að leiguhúsnæðið hafi spillst og honum rétt að rifta leigusamningi vegna þessa. Tilgangur 7. gr. samningsins hafi augljóslega verið hugsaður út frá þeirri forsendu að um langtímaleigusamning væri að ræða. Á því sé jafnframt byggt að varnaraðili hafi haft forleigurétt að húsnæðinu við lok tímabundins samnings. Hafi því verið stefnt að því að varnaraðili myndi leigja eignina til lengri tíma. Að öðrum kosti hefði varnaraðili aldrei ráðist í jafn umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir til þess að standsetja rýmið. Þegar húsnæðið hafi spillst og við riftun samningsins hafi bæði verið eðlilegt og sanngjarnt að varnaraðili hefði á brott með sér þær eignir sem höfðu verið í húsnæðinu. Að öðrum kosti væri um óeðlilega auðgun sóknaraðila að ræða. Þá sé það skýrt tekið fram að 7. gr. samningsins eigi aðeins við um „lok leigusamnings“. Sé þar átt við lok leigusamningsins samkvæmt 2. gr. hans en samningurinn hafi verið tímabundinn. Ljóst sé að samningnum hafi verið rift ári áður og honum því ekki lokið með þeim hætti sem aðilar höfðu sæst á heldur mun fyrr þar sem leiguhúsnæðið hafi spillst. Telur varnaraðili því að beiting 7. gr. samningsins komi ekki til greina við slíkar aðstæður.

Jafnvel ef litið yrði svo á að skil húsnæðisins hafi verið ábótavant þá geti sóknaraðili ekki lengur átt rétt til þess að varnaraðili skili eigninni í samræmi við 7. gr. samningsins. Í 2. mgr. 7. gr. komi fram að telji leigusali að hinu leigða sé ekki skilað í umsömdu ástandi skuli hann láta framkvæma úttekt á hinu leigða við skil húsnæðisins og skuli niðurstaða slíkrar úttektar lögð til grundvallar við ákvörðun um bótaábyrgð leigjanda. Engar úttektir hafi farið fram á eigninni, hvorki við upphaf leigutíma né við riftun leigusamningsins. Þar sem sóknaraðili hafi hvorki gætt að umræddum ákvæðum leigusamningsins né ákvæðum húsaleigulaga geti hann ekki nú krafist þess að eigninni sé skilað í því ástandi sem fram komi í 7. gr. samningsins, eða krafist skaðabóta vegna þessa.

Frávísunarkröfu sína byggi varnaraðili annars vegar á því að krafa sóknaraðila sé óljós og vanreifuð og hins vegar að niðurstaða málsins kunni að ráðast af sönnunarfærslu í formi vitna og því hafi kærunefnd ekki vald til að kveða á um niðurstöðu málsins.

Í kæru sé þess krafist að leigjandi skili því, sem kærunefnd telji að óheimilt hafi verið að fjarlægja úr húsnæðinu, óskemmdu ellegar bæti það að fullu. Í framhaldinu komi svo einhvers konar upptalning sem hefjist á orðunum „meðal annars.“ Ekkert komi fram um það hvort sóknaraðili sé að krefjast þeirra muna sem varnaraðili hafi sannarlega keypt fyrir eigið fé og séu eign hans eða hvort um sé að ræða þá muni sem fyrri leigjandi hafi skilið eftir og varnaraðili fært inn í annað rými í eigu sóknaraðila og með leyfi hans.

Sóknaraðili virðist byggja á því að hann hafi leyft varnaraðila að geyma hluti á meðan hann legði parket og málaði rýmið og jafnframt að umræddir hlutir hafi verið fylgifé fasteignarinnar. Varnaraðili hafni þessu samkvæmt framansögðu en ekkert sé kveðið á um það að þeir munir hafi fylgt húsnæðinu. Í gögnum málsins komi heldur ekkert fram um það hver hafi verið raunverulegur eigandi að umræddum munum en sóknaraðili byggi þrátt fyrir það á því að hann hafi þurft að losa sig við talsverðan hluta munanna á eigin kostnað. Krafa og málatilbúnaður sóknaraðila sé svo óskýr og vanreifaður.

Auk þess byggi sóknaraðili á því að varnaraðila hafi verið skylt að mála veggi, sem málaðir höfðu verið svartir, ljósa í lok leigutíma. Vísað sé til framangreinds rökstuðnings um riftun samningsins og að við riftun hafi fallið niður öll réttindi leigusala og skyldur leigutaka. Þá sé jafnframt ekkert tiltekið um slíka skyldu í leigusamningnum sjálfum né framlögðum gögnum, þ.e. að varnaraðili hafi átt að skila húsnæðinu með veggjum máluðum í ljósum lit. Öllum fullyrðingum um annað sé mótmælt.

Að lokum geri varnaraðili kröfu um að sóknaraðili greiði málskostnað vegna málsins. Krafa sóknaraðila sé tilefnislaus með vísan til þeirra skilyrða og þeirra reglna sem komi fram í lögum nr. 36/1994. Sóknaraðili hafi nú í tvígang gert kröfur fyrir kærunefnd. Hefði verið einfaldara að ljúka málinu strax með einni kæru í öndverðu. Þá sé vísað til þess sem greinir að framan um riftun leigusamningsins. Ætti að vera ljóst að við slíka riftun eigi aðilar að vera eins settir eins og leigusamningur hafi ekki verið gerður, að teknu tilliti til leigugreiðslna og svo framvegis. Í málinu setji sóknaraðili jafnframt fram fullyrðingar sem honum ætti að vera ljóst að kærunefndin geti ekki leyst úr.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að samkvæmt niðurstöðu í máli kærunefndar húsamála nr. 120/2020 hafi leigusamningi verið rift 27. september 2020 en ekki 29. september eins og segir í greinargerð varnaraðila.

Þá hafi leigusamningurinn vafalaust verið í gildi þegar þegar varnaraðili hafi tæmt húsnæðið, fjarlægt naglfastar innréttingar, hreinlætistæki og öll ljós.

Með því hafi varnaraðili brotið gildandi leigusamning, burtséð frá þeirri niðurstöðu um að honum hafi verið heimilt að rifta samningnum.

Meginregla samningaréttar sé sú að samninga skuli halda. Ekki sé hægt að byggja á því að samningur hafi verið ósanngjarn eða varnaraðili ekki skilið innihald hans því að eins og áður hafi komið fram hafi varnaraðili haft leigusamninginn til yfirlestrar fyrir undirskrift, túlkaþjónusta og aðstoð við pólskumælandi sé með ágætum og engin ástæða til að efast um að varnaraðili hafi skilið innihald samningsins til hlítar. Því hefði varnaraðili átt að skila húsnæðinu í því ástandi sem það hafi verið í við upphaf samningsins í það minnsta, ef ekki með áorðnum endurbótum eins og getið hafi verið um í samningnum.

Því sé mótmælt að riftun hafi þau áhrif að líta beri á málið með þeim hætti að samningur hafi aldrei verið gerður. Meginregla samningaréttar sé sú að samninga skuli halda og því ótækt að samþykkja að varnaraðila sé heimilt að skila húsnæðinu tómu eða í öðru ásigkomulagi en samningur kveði á um.

Varnaraðili bendi á að krafa sóknaraðila sé óskýr og vanreifuð. Sóknaraðili samþykki það og bendi á ójafna stöðu aðila þar sem varnaraðili hafi ráðið sér lögmann en sóknaraðili sé ekki löglærður, en hafi leitað til kærunefndar til að rétta hlut sinn.

Varnaraðili hafi lagt fram kvittanir sem eigi að sýna kostnað hans við standsetningu húsnæðisins. Sóknaraðili sjái ekki tilgang þessa, enda hafi varnaraðili tekið allar þessar vörur með sér. Stór hluti þessa meinta kostnaðar sé óskyldur rekstrinum.

Vegna kröfu varnaraðila um að sóknaraðili greiði lögfræðikostnað varnaraðila sé á það bent að ekki sé um að ræða dómsmál og varnaraðila hafi verið í sjálfsvald sett að ráða lögmann.

Ástæða þess að kæran hafi ekki verið lögð fram fyrr hafi verið sú að sóknaraðili hafi litið svo á að leigusamningurinn væri í gildi þar til úrskurður í máli nr. 120/2020 hafi fallið.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila eru fyrri sjónarmið ítrekuð og segir meðal annars að sóknaraðili hafi fallist á að kröfur hans væru óljósar og vanreifaðar. Beri hann því við að ekki sé jafnræði á milli aðila sökum þess að hann sé ólöglærður. Sú málsástæða geti vart komið til skoðunar, enda hafi hann getað leitað sér lögmannsaðstoðar til jafns við varnaraðila.

Með kröfu sinni virðist sóknaraðili krefjast þess af varnaraðila að allir þeir munir sem hann hafi sannarlega keypt og hafi verið í hans eigu, þar á meðal dýra hárgreiðslustóla og aðra muni sem séu nauðsynlegir við rekstur hárgreiðslustofu, verði skilað. Það sé með ólíkindum og geri sóknaraðili enga tilraun til þess að rökstyðja þetta sjónarmið sitt. Virðist hann telja sig hafa eignast fullbúna hárgreiðslustofu þar sem húsið hafi spillst og varnaraðili rift leigusamningnum. Því sé mótmælt harðlega. Jafnframt sé bent á að sóknaraðili hafi ekkert fjallað um þá muni sem varnaraðili hafi þurft að fjarlægja úr eigninni í upphafi og setja inn í rými í eigu sóknaraðila sökum þess að fyrri leigjandi hafði skilið þá eftir. Ítrekað sé að varnaraðili hafi einungis leigt húsnæði af sóknaraðila en ekki yfirtekið rekstur hárgreiðslustofu. 

VI. Niðurstaða            

Um lok leigutíma segir í 1. og 2. mgr. 7. gr. leigusamnings aðila:

Að leigutíma loknum skal leigutaki skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt öllum þeim endurbótum sem hann kann að hafa gert á því meðan á leigutímanum stóð. Allar naglfastar innréttingar sem leigutaki hefur sett upp, þar með taldar gluggaeiningar, gólfefni, hurðir, veggir, lagnir, loftljós, hreinlætis- og loftræstikerfi skuli verða eign leigusala ef ekki er um annað samið skriflega.

Telji leigusali að hinu leigða sé ekki skilað í umsömdu ástandi skal framkvæma úttekt á hinu leigða við skil húsnæðisins og skal niðurstaða úttektar lögð til grundvallar við ákvörðun um bótaábyrgð leigutaka.

Að sögn sóknaraðila tók varnaraðili við fullbúinni rakarastofu en við leigulok var húsnæðið tómt. Sóknaraðili gerir athugasemdir við að varnaraðili hafi fjarlægt úr húsnæðinu öll ljós, baðherbergisvask á fæti, blöndunartæki, eldhúsvask, efri skáp í innréttingu, skápahurðir, tvo stóla fyrir hárþvott, tvo hárgreiðslustóla, örbylgjuofn, kæliskáp, þvottavél, afgreiðsluborð, veggborð, hillur, eldhúsborð, fjóra stóla og vegghillur. Að sögn varnaraðila voru tilteknir lausafjármunir til staðar í húsnæðinu við upphaf leigutíma sem honum hafi verið boðnir til sölu en hann hafnað því. Við upphaf leigutíma hafi hann standsett húsnæðið og keypt nýja muni til að nota í rekstri sínum en þeir munir sem hafi þegar verið í húsnæðinu, og honum boðnir til kaups, hafi verið settir í annað rými í eigu sóknaraðila á meðan standsetning þess færi fram. Sé varnaraðili því eigandi allra innréttinga, ljósa og muna sem hann fjarlægði við lok leigutíma.

Kærunefnd telur að hluti af þeim munum, sem sóknaraðili gerir kröfu um að varnaraðili afhendi sér, falli undir 7. gr. samnings aðila og að riftun samnings þeirra hafi ekki áhrif á gildi þeirrar greinar. Aftur á móti telur kærunefnd að ekki sé hægt að taka til úrlausnar viðurkenningarkröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að „skila“ lausafjármunum á þeim grundvelli að engin úttekt hefur verið framkvæmd á skilum hins leigða við lok leigutíma, sbr. 2. mgr. 7. gr. leigusamnings aðila. Samkvæmt því ákvæði bar sóknaraðila að láta framkvæma úttekt á hinu leigða ef því var ekki skilað í umsömdu ástandi að hans mati. Niðurstaða slíkrar úttektar yrði síðar lögð til grundvallar við ákvörðun bótaskyldu. Engin úttekt hefur aftur á móti farið fram í samræmi við ákvæði samnings aðila. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd að ekki sé hægt að fallast á kröfu sóknaraðila um skil á nánar tilgreindum munum.

Í 1. mgr. 28. gr. húsaleigulaga segir að leigjanda sé óheimilt að framkvæma breytingar eða endurbætur á hinu leigða húsnæði eða búnaði þess, nema að fengnu samþykki leigusala og gerðu skriflegu samkomulagi um skiptingu kostnaðar og hvernig með skuli fara að leigutíma loknum. Í 2. mgr. sömu greinar segir að skriflegt samþykki leigusala skuli jafnframt liggja fyrir áður en leigjandi setji upp fastar innréttingar eða annað þess háttar fylgifé.

Í 4. mgr. 3. gr. leigusamnings aðila segir:

Leigutaka er heimilt að mála og gera breytingar innanhúss á hinu leigða húsnæði á sinn kostnað. Slíkar breytingar og litur málningar skuli þó ætíð gerðar í samráði og með samþykki leigusala. Að leigutíma loknum skal leigutaki skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því sé ekki um annað samið skriflega. Ber leigutaki óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins.

Að sögn sóknaraðila fékk varnaraðili heimild til að mála nokkra veggi svarta gegn því skilyrði að þeir yrðu málaðir ljósir á ný við lok leigutíma. Engin gögn liggja fyrir sem styðja fullyrðingu varnaraðila um að hann hafi ekki þurft að mála veggina við lok leigutíma þannig að húsnæðið væri í sama ástandi og það var þegar hann tók við því.

Ákvæði 64. gr. húsaleigulaga kveður á um að leigusali verði að lýsa bótakröfu sinni skriflega innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins. Sé þessara tímamarka ekki gætt fellur bótaréttur leigusala niður, nema leigjandi hafi haft svik í frammi. Ekki liggja fyrir gögn sem staðfesta að sóknaraðili hafi lýst bótakröfu sinni vegna kostnaðar við að mála svartan vegg innan tilgreinds frests. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila.

Í 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga segir að sé kæra bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndarinnar geti nefndin gert kæranda að greiða gagnaðila málskostnað. Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða lögmannskostnað hans á grundvelli þessa ákvæðis. Þrátt fyrir niðurstöðu kærunefndar um að fallast ekki á kröfur sóknaraðila telur nefndin að efni kærunnar hafi ekki verið þess eðlis að kæran hafi verið bersýnlega tilefnislaus. Verður því ekki fallist á þessa kröfu varnaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfum sóknaraðila er hafnað.

Kröfu varnaraðila um málskostnað er hafnað.

 

 

Reykjavík, 29. júní 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Sigurlaug Helga Pétursdóttir                                    Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum