Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 204/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 204/2021

Fimmtudaginn 30. september 2021

 

A

gegn

Félagsmálanefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 20. apríl 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Félagsmálanefndar B frá 9. febrúar 2021 vegna umgengni við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E 23. maí 2016 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 412/2016. Stúlkan lýtur forsjá Félagsmálanefndar B og hefur verið í fóstri hjá föðurömmu og sambýlismanni hennar frá því í júní 2015, fyrst í tímabundnu fóstri í átta mánuði en eftir það í varanlegu fóstri. Kærandi þessa máls er móðir stúlkunnar.

Lögmaður kæranda sendi inn beiðni fyrir kæranda um aukna umgengni þann 9. nóvember 2020. Félagsmálanefnd úrskurðaði að nýju um umgengni stúlkunnar með úrskurði 9. febrúar 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„A, fær umgengni við D, kt. 150311-2170, fyrstu helgi annars hvers mánaðar frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 17:00 á sunnudegi. Móðir mun því eiga umgengni við barn eftirtaldar dagsetningar á árinu 2021:

  • 2.-4. apríl
  • 4.-6. júní
  • 6.-8. ágúst
  • 1.-3. október
  • 3.-5. desember

A skal sækja D á fósturheimili við upphaf umgengni og skila henni þangað aftur þegar umgengni er lokið.

A hefur heimild til þess að sækja viðburði í lífi telpunnar s.s. árshátíðir í skóla, skólaslit o.fl.“

Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar kom að auki fram að fallist væri á hátíðarumgengni tvo sólarhringa á milli jóla og nýárs. Í greinargerð Félagsmálanefndar B kemur fram að lagt verði til á næsta fundi nefndarinnar að úrskurðarorð verði leiðrétt hvað hátíðarumgengni varði til samræmis við niðurstöðukafla úrskurðarins, sbr. 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 23. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Félagsmálanefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Félagsmálanefndar B barst nefndinni þann 12. maí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að ákvörðun á umgengni kæranda við dóttur sína verði aukin frá því sem áður var. Umgengni hafi áður verið eina helgi í mánuði, frá föstudegi til sunnudags, en kærandi krefst þess að umgengnin verði einu sinni í mánuði þannig að kærandi sæki barnið í skóla á fimmtudegi og skili því til baka í skóla á mánudegi. Einnig krefst kærandi þess að fá að vera viðstödd alla viðburði í skólanum þar sem aðstandendur megi koma. Þá krefst kærandi þess að hátíðarumgengni við stúlkuna verði 23.-27. desember ár hvert, fyrst árið 2021. Í öllum tilvikum krefst kærandi þess að umgengnin verði án eftirlits.

Til vara krefst kærandi þess að umgengnin verði einu sinni í mánuði frá föstudegi til mánudags. Og að hátíðarumgengni verði 23.-27. desember annað hvort ár, fyrst árið 2021.

Kærandi telji ekki ástæðu til þess að reifa ítarlega málavexti umfram það sem komi fram í hinum kærða úrskurði að öðru leyti en því sem nauðsynlegt sé til rökstuðnings málsástæðna. Kærandi mótmælir þó staðhæfingum um slæm áhrif umgengninnar á stúlkuna og um óstöðugleika í lífi sínu.

Í stuttu máli varði málið umgengni kæranda við dóttur sína sem sé tíu ára en stúlkan sé í varanlegu fóstri. Umgengni hafi farið að mestu leyti fram fyrstu helgi hvers mánaðar, frá föstudegi til sunnudags, frá því að úrskurður þess efnis hafi fallið hjá Félagsmálanefnd B þann 4. júní 2019.

Lögmaður kæranda hafi sent beiðni til Barnaverndar B, dags. 9. nóvember 2020, fyrir hönd kæranda, um aukna umgengni kæranda við dóttur sína. Starfsmenn Barnaverndar B hafi lagt til að kærandi hefði umgengni við dóttur sína, sem sé í varanlegu fóstri, annan hvorn mánuð eins og hafi verið. Kærandi hafi andmælt tillögu barnaverndar en hún telji hana alfarið ganga gegn hagsmunum og vilja dóttur sinnar. Félagsmálanefnd B hafi þó staðfest tillögur barnaverndar um umgengni. Kærandi krefst þess nú að umgengni verði aukin í samræmi við kröfur sínar. Félagsmálanefnd B hafi þó tekið undir kröfur kæranda þess efnis að umgengni fari fram án eftirlits og hún hafi rétt til að sækja viðburði í skóla stúlkunnar.

Kærandi telur að engin rök séu fyrir því að synja um aukna umgengni hennar við dóttur sína. Þvert á móti lýsi X ára dóttir hennar því í samtali við talsmann að henni líði vel hjá kæranda og vilji ekki vera hjá ömmu sinni. Stúlkunni þyki líka leiðinlegt að fara svo sjaldan til kæranda sem raun beri vitni. Telur kærandi í ljósi vilja stúlkunnar og hversu vel umgengni hafi gengið að full ástæða sé til þess að auka umgengni. Kröfur sínar styður kærandi að meginstefnu við eftirfarandi málsástæður:

Það sem er barni fyrir bestu

Við úrlausn þessa máls verði, líkt og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem sé stúlkunni fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl.

Kærandi telur að ákvörðun um umgengni hafi mikil áhrif á framtíðarhagsmuni stúlkunnar. Kærandi telur af þeim ástæðum sem nú verði raktar að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við hagsmuni dóttur sinnar og að það sé henni fyrir bestu að hafa ríkari umgengi við sig.

Kærandi telur einnig að við mat á því hvaða umgengni sé best fyrir hagsmuni stúlkunnar verði að líta til líðanar og aðstæðna dóttur sinnar á fósturheimilinu. Stúlkan hafi tjáð kæranda frá vanlíðan sinni og jafnframt má sjá líðan stúlkunnar í talsmannsskýrslu hennar, dags. 30. janúar 2021. Þar lýsi stúlkan því að henni líði ekki nægilega vel á fósturheimilinu. Þar segi stúlkan frá vanlíðan yfir slæmri framkomu frænda hennar í sinn garð, en hann búi á fósturheimilinu. Að sama skapi lýsi stúlkan því að henni líði vel með kæranda. Því telur kærandi að það gefi stúlkunni mikið að komast í tíðari umgengni við sig þar sem henni líði vel. Þá hafi, að mati kæranda, reynslan af umgengni í máli þessu sýnt að mikil umgengni stúlkunnar við kæranda stuðli að góðri líðan hennar og sé henni því fyrir bestu.

Þá sé að mati kæranda hvorki í greinargerð barnaverndar né í hinum kærða úrskurði að finna neinn fullnægjandi rökstuðning fyrir því hvers vegna hagsmunir stúlkunnar standi til þess að umgengni verði ekki aukin. Áður fyrr, í tæp þrjú og hálft ár eftir forsjármissi, hafi umgengni farið fram í hverjum mánuði og ávallt gengið vel. Einnig virðist tillaga starfsmanna barnaverndar um óbreytt fyrirkomulag fyrst og fremst reist á frásögnum/mati fósturforeldra þess efnis að hagsmunir stúlkunnar standi til þess að umgengni verði ekki aukin vegna þess að umgengnin valdi óstöðuleika í lífi stúlkunnar eða myndi gera það. Fósturforeldrar geti þó varla talist hlutlausir í máli þessu og ætti því frásögn þeirra að hafa litla þýðingu við úrlausn málsins að því leyti sem hún styðst ekki við önnur gögn. Þá hafi barnavernd ekki aflað frekari gagna um hinn meinta óstöðugleika í tengslum við umgengni. Hinn kærði úrskurður sé fyrst og fremst reistur á þeim forsendum að það sé mat starfsmanna barnaverndar að hagsmunir stúlkunnar standi til þess að umgengni verði minnkuð. Kærandi telji hinn kærða úrskurð og tillögu barnaverndar illa rökstudda og ekki studda fullnægjandi gögnum.

Þvert á móti telur kærandi það valda dóttur sinni vanlíðan að fá ekki að umgangast sig meira. Þá telur hún sig ekki hafa fengið tækifæri til að sýna að hún sé fær um að annast stúlkuna. Hún hafi lagt sig fram um að bæta sig og meðal annars farið á uppeldisnámskeið, í meðferð hjá sálfræðingi, geðlækni og gert fleira uppbyggilegt. Enda líði dóttur hennar vel hjá henni.

Kærandi hafi sem dæmi brugðist við þegar hún hafi orðið þess áskynja að heilsu barnsins hafi verið ábótavant og í því samhengi farið með stúlkuna til sérfræðings þegar hægðavandmál hafi gert vart við sig, farið með hana til læknis í sprautu þegar á hafi þurft að halda og svo framvegis. Þá hafi kærandi einnig farið með hana á leikskóla, í sund og notið útivistar með henni. Kærandi hafi gefið henni ást, umhyggju og gott heimili. Kærandi telur þess háttar hluti aldrei dregna fram í málinu, heldur sé aðeins byggt á neikvæðni í sinn garð.

Vilji barns og tengsl

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 63. gr. a. bvl. Réttur barns til þess að hafa áhrif í öllum málum er það varði, sé einnig lögfestur í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Það sé ljóst af framkvæmd að vilji barns sé það sjónarmið sem vegi einna þyngst þegar ákvörðun sé tekin um atriði er varði barnið, sérstaklega þegar um stálpuð börn sé að ræða. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls. Kærandi telur að Félagsmálanefnd B hafi ekki veitt þessum sjónarmiðum nægt vægi við ákvörðun á umgengni.

Frá fæðingu stúlkunnar og þar til stúlkan hafi fyrst verið vistuð utan heimilis hafi stúlkan verið í umsjá kæranda. Frá því að stúlkan hafi farið í fóstur hafi jafnframt verið óvenju mikil umgengni hjá þeim mæðgum miðað við það sem tíðkist almennt í varanlegu fóstri. Vegna þessa séu tengsl þeirra á milli bæði djúp og sterk. Almennt séð sé markmið með umgengni í barnaverndarmálum að barn þekki uppruna sinn. Þetta horfi þó nokkuð öðruvísi við í þessu máli vegna þeirra miklu samskipta sem hafi verið á milli þeirra mæðgna. Markmið með umgengni á milli mæðgnanna sem hér um ræði sé ekki síst til að viðhalda þeim sterku tengslum sem nú séu til staðar. Kærandi telur nauðsynlegt að þessi tengsl þeirra mæðgna séu höfð að leiðarljósi við úrlausn þessa máls.

Kærandi telur að veita verði vilja barnsins, sem sé nú tíu ára, umtalsvert vægi við úrlausn þessa máls, sér í lagi vegna þess hve einbeittur og skýr hann sé. Stúlkan hafi oft tjáð kæranda að hún vilji umgangast kæranda meira og jafnvel fá að flytja til hennar. Þá sé ljóst af talsmannsskýrslu, dags. 30. janúar 2021, að stúlkunni líði vel hjá kæranda, hún hlakki til að fara til hennar og að hjá kæranda fái hún hlýju og nánd sem henni sé nauðsynleg. Þar komi einnig fram að stúlkunni finnist hún dvelja of stutt hjá kæranda og að biðin eftir heimsóknum sé löng. Loks sé ljóst af skýrslunni að tillögur barnaverndar og hinn kærði úrskurður gangi í berhögg við vilja stúlkunnar.

Kærandi telur að vegna aldurs stúlkunnar ætti vilji stúlkunnar að hafa mikið vægi við úrlausn þessa máls, ekki síst vegna þess hve skýr hann sé og einnig að það verði að hafa það markmið fyrir augum við ákvörðun á umgengni að styrkja og efla tengsl stúlkunnar við kæranda. Þrátt fyrir að kannaður hafi verið vilji barnsins hafi ekki verið tekið nægt tillit til hans við úrlausn málsins og þar með séu réttindi barnsins að engu höfð. Beri því að ómerkja hinn kærða úrskurð. 

Kærandi telur að þar sem sú umgengni sem hún leggi til sé í betra samræmi við vilja stúlkunnar og tengsl þeirra þá sé hún til þess fallin að þjóna hagsmunum hennar betur. Kærandi telur að það sé andstætt hagsmunum barnsins að ganga gegn vilja hennar í máli þessu. Kærandi telji ljóst að við úrlausn málsins hafi Félagsmálanefnd B ekki tekið nægt tillit til vilja stúlkunnar. Þá vekur kærandi athygli á því að það sé með öllu óútskýrt í greinargerð barnaverndar og í hinum kærða úrskurði hvers vegna ekki sé tekið tillit til vilja barnsins við ákvörðun á umgengni.

Stöðugleiki

Kærandi hafnar öllum staðhæfingum eða viðmiðunum um að óstöðugleiki sé í lífi hennar í dag. Í eldri úrskurði félagsmálanefndar frá 5. nóvember 2019 sé því til stuðnings vísað til gagna frá Landspítala og lögreglu um atvik sem hafi átt sér stað mörgum mánuðum áður þar sem kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hendi fyrrum sambýlismanns síns. Kærandi hafnar því að slík atvik leiði til þess að líta megi svo á að óstöðugleiki sé í lífi hennar í dag. Um sé að ræða aðstæður þar sem hún hafi verið fórnarlamb aðstæðna og að mati kæranda ætti hegðun fyrrum sambýlismanns hennar ekki að hafa áhrif á ákvörðun um umgengni hennar við stúlkuna í dag. Einnig vekur kærandi athygli á því að um afmörkuð tilfelli hafi verið að ræða sem hafi átt sér stað fyrir löngu síðan og því sé ekki um að ræða viðvarandi ástand eða ástand sem sé enn til staðar í dag, enda sé kærandi ekki lengur í sambandi með manninum. Þá megi leiða af eldri talsmannskýrslu að stúlkan hafi ekki haft slæma upplifun af fyrrum sambýlismani kæranda svo að það sé ljóst að atvikin hafi ekki haft áhrif á dóttur kæranda og að hún hafi ekki orðið vitni að slíkum atvikum.

Kærandi hafnar einnig staðhæfingum í hinum kærða úrskurði um að hún hafi ítrekað vakið vonir og væntingar hjá stúlkunni um að hún ætti að flytja aftur til sín. Kærandi hafnar því einnig að skortur sé á reglum í umgengni og utanumhaldi, til dæmis við heimanám. Raunin sé sú að stúlkan hafi ítrekað tjáð kæranda að fyrra bragði að hún vilji flytja aftur til kæranda. Kærandi hafnar því einnig að aukin umgengni sé til þess fallin að valda raski í lífi stúlkunnar til hins verra. Kærandi telur að gögn málsins renni ekki styrkum stoðum undir þær staðhæfingar. Viðmið/staðhæfingar um meintan óstöðugleika séu því einungis studdar frásögnum fósturforeldra, sem varla geti talist hlutlausir í máli þessu, eða við eldri afmörkuð tilvik sem eigi ekki lengur við. Barnavernd hafi ekki hlutast til um að afla frekari gagna um þetta, svo sem frá skóla stúlkunnar eða annars staðar frá. Það sé því ekki hægt að byggja á því við úrlausn málsins að aukin umgengni myndi hafa neikvæð áhrif á líf stúlkunnar.

Meðalhóf

Loks telur kærandi hinn kærða úrskurð brjóta í bága við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl., og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af ákvæðunum leiði að tillagan verði að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi.

Kærandi telur fyrst og fremst þann hluta úrskurðarins er lúti að hátíðarumgengni úr meðalhófi strangan. Jólahátíðin sé líklega sá tími sem börn vilji einna helst vera með foreldrum sínum. Kærandi telur of langt gengið að miða umgengnistíma eingöngu við tvo sólarhringa á milli jóla og nýárs. Fyrst viðurkennt sé að sérstök umgengni eigi við á þessum tíma sé of langt gengið að takmarka hana með þessum hætti. Kærandi telur kröfu sína um hátíðarumgengni frá 23.-.27. desember ár hvert, en annað hvort ár til vara, vera eðlilega og innan meðalhófs. Þá sérstaklega ef tekið sé mið af aldri stúlkunnar og vilja. Engin gild rök hnígi að því að takmarka verði umgengnistímann við tvo sólarhringa á milli jóla og nýárs í stað fjögurra sólarhringa yfir jólin sjálf, og þá annað hvort ár ef því sé að skipta.

Um hátíðarumgengni

Að mati kæranda beri fyrst að geta þess að ekki sé í úrskurðarorði tekið á hátíðarumgengni. Um hana sé hins vegar fjallað í niðurstöðuhluta úrskurðarins. Réttast sé að tiltaka hana í úrskurðarorði og það hefði átt að gera.

Kærandi telur að bera hefði átt hátíðarumgengni sérstaklega undir stúlkuna til að fá hennar skoðun þar um. Það hafi hins vegar ekki verið gert, án þess að það hafi verið útskýrt. Það sé í andstöðu við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og málið sé því að þessu leyti ekki nægilega upplýst. Telur kærandi að ómerkja beri hinn kærða úrskurð þegar af þeirri ástæðu.

Hinn kærði úrskurður fari að þessu leyti augljóslega gegn hagsmunum barnsins. Kærandi gerir athugasemd við að ekki hafi verið könnuð afstaða stúlkunnar til hátíðarumgengni.

Þá fari, eins og áður hafi sagt, ákvörðun um hátíðarumgengni í úrskurðinum í bága við meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beri því að ómerkja hinn kærða úrskurð.

III.  Sjónarmið Félagsmálanefnd B

Í greinargerð Félagsmálanefndar B til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. maí 2021, kemur fram að fallist hafi verið á aðra og fjórðu kröfu kæranda, eins og þær hafi verið setttar fram í kæru, í hinum kærða úrskurði. Því telur sveitarfélagið ekki ástæðu til að fjalla um þær kröfur sérstaklega.

Málavextir séu í stuttu máli þeir að atvik máls þessa megi rekja til þess að upphaflega hafi kærandi verið svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E í máli nr. E-43/2016 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 412/2016, en stúlkan hafi þá verið fimm ára gömul. Stúlkan hafi verið vistuð í fóstri á vegum félagsmálanefndar frá því í júní 2015 hjá föðurömmu og sambýlismanni hennar. Regluleg umgengni stúlkunnar við kæranda hafi farið fram aðra hvora helgi frá því í júní 2019, en fyrir það hafði umgengni verið eina helgi í hverjum mánuði. Úrskurð um að umgengni skyldi fara fram eina helgi annan hvorn mánuð hafi Félagsmálanefnd B kveðið upp hinn 5. nóvember 2019 og hafi kærandi kært þann úrskurð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurður hafi verið kveðinn upp hjá úrskurðarnefnd hinn 20. mars 2020 og hafi úrskurður Félagsmálanefndar B þar verið staðfestur.

Mál það sem framkomin kæra lúti að hafi hafist með því að þann 9. nóvember 2020 hafi lögmaður kæranda óskað eftir því að fyrirkomulag umgengni yrði endurskoðað og að regluleg umgengin yrði aukin, auk þess sem ákveðin yrði umgengni í næsta jólafríi. Kærandi hafi krafist þess nánar tiltekið að umgengni yrði einu sinni í mánuði þannig að umgengni hæfist eftir skóla stúlkunnar á fimmtudegi og að henni yrði skilað aftur í skóla á mánudegi. Þá hafi kærandi krafist þess að fá að vera viðstödd viðburði í skóla stúlkunnar sem aðstandendum væri heimilt að sækja. Einnig hafi kærandi krafist þess að hátíðarumgengni við stúlkuna yrði ákveðin 23.-27. desember ár hvert, eða til vara annað hvort ár, og þá fyrst árið 2020. Í öllum tilvikum hafi kærandi krafist þess að umgengni yrði án eftirlits.

Í framhaldinu hafi félagsráðgjafi málsins farið vel yfir málið og stöðu þess, aflað gagna og rannsakað afstöðu aðila máls, ýmist með viðtölum eða símtölum. Hafi ráðgjafinn þannig rætt við fósturforeldra um afstöðu, atvik og aðra þætti. Að lokinni rannsókn sinni hafi félagsráðgjafi málsins lagt til að umgengni yrði að meginstefnu til óbreytt, að regluleg umgengni myndi ekki taka breytingum, en að fallast bæri á að veita kæranda heimild til að sækja viðburði fyrir aðstandendur í skóla, að umgengni yrði ekki undir eftirliti og að hátíðarumgengni færi fram árlega á milli jóla og nýárs. Tillaga þessa efnis hafi verið lögð fyrir lögmann kæranda hinn 4. desember 2020 en kærandi hafi hafnað þeirri tillögu og óskað eftir því að úrskurðað yrði í málinu og hafi jafnframt gert athugasemdir við að vilji barnsins hefði ekki verið rannsakaður nægilega. Jafnframt hafi frekari andmæli borist og kröfur í tölvupósti frá kæranda hinn 9. desember 2020. Í töluvpósti kæranda hafi hún aðallega krafist umgengni mánaðarlega frá fimmtudegi til mánudags, til vara reglulegrar umgengni mánaðarlega frá föstudegi til mánudags, til þrautavara reglulegrar umgengni á tveggja til þriggja vikna fresti frá föstudegi til sunnudags. Þá hafi kærandi greint frá áhyggjum sínum af holdafari barnsins og erfiðleikum barnsins við lestur.

Á fundi félagsmálanefndar hinn 14. desember 2020 hafi félagsmálanefnd tekið ákvörðun um að fresta því að úrskurða í málinu og lagt fyrir starfsmenn að afla upplýsinga um afstöðu stúlkunnar með aðkomu talsmanns. Hafi talsmaður rætt við stúlkuna hinn 29. janúar 2021 og skilað skýrslu um afstöðu hennar. Eftir að gagna hafði verið aflað um afstöðu barnsins hafi starfsmenn Barnaverndar B unnið frekar að málinu og lagt fram uppfærða greinargerð með tillögum að heppilegri umgengni fyrir meðferðar- og afgreiðslufund hinn 5. febrúar 2021. Tillögur starfsmanna hafi verið þær að víkja ekki frá fyrri tillögum í fyrri greinargerð og hafi tillögurnar þannig jafnframt verið þær sömu og lagðar höfðu verið fyrir lögmann móður hinn 4. desember 2020, en kærandi hafði hafnað. Tillögur starfsmanna hafi verið samþykktar á meðferðar- og afgreiðslufundi og lagt til að leggja tillögurnar fyrir fund félagsmálanefndar hinn 9. febrúar 2021.

Félagsmálanefnd hafi úrskurðað um umgengni hinn 9. febrúar 2021. Samkvæmt úrskurðinum hafi regluleg umgengni verið áfram óbreytt annan hvorn mánuð, fallist hafi verið á að kæranda væri heimilt að sækja viðburði fyrir aðstandendur í skóla, að umgengni yrði ekki undir eftirliti og að kærandi nyti umgengni í tvo sólarhringa í kringum hátíðir. Úrskurður félagsmálanefndar hafi einkum byggt á því að hagsmunir barnsins krefðust þess að regluleg umgengni yrði óbreytt eina helgi í mánuði annan hvorn mánuð, að hátíðaumgengni færi fram í tvo sólarhringa á milli jóla og nýárs, að móður yrði heimilað að sækja skólaviðburði hjá barninu og að umgengni yrði ekki undir eftirliti.

Í tilefni af kæru þessari hafi nýrra gagna verið aflað frá fósturforeldrum og skóla í því skyni að kanna hvort aðstæður stúlkunnar væru breyttar áður en afstaða væri tekin til kæru kæranda. Í dagálum megi sjá að líðan stúlkunnar í skóla sé almennt góð en hún sé langt á eftir í skóla og glími við málþroskaröskun og ADHD. Stúlkan fái sérkennslu og sé langt á eftir, einkum í lestri og stærðfræði. Þá komi einnig fram hjá fósturmóður að enn beri nokkuð á því að kærandi segi stúlkunni að hún muni koma til með að búa hjá sér. Betur gangi eftir að regluleg umgengni hafi verið minnkuð, stúlkan sé rólegri og betur gangi að ná henni niður eftir umgengni. Þá nefni fósturmóðir að stúlkan sæki ekki í að fara til kæranda á öðrum tímum, þrátt fyrir að kærandi búi á F.

Sveitarfélagið byggir á eftirfarandi málsástæðum og sjónarmiðum:

Hagsmunir barns

Sveitarfélagið byggir á því að ekki sé tilefni til þess að fallast á kröfur kæranda, enda sé það í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að hinn kærði úrskurður standi óraskaður með vísan til forsendna. Umgengni stúlkunnar við kæranda hafi verið ákveðin fyrstu helgi annars hvors mánaðar frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 17:00 á sunnudegi, ásamt umgengni í tvo sólarhringa í kringum jól og áramót. Þrátt fyrir að tilgreining umgengni um hátíðir hafi ekki ratað inn í úrskurðarorð sé það áréttað að í úrskurðinum hafi verið fallist á slíka umgengni, auk þess sem fallist hafi verið á kröfur kæranda um heimild til að sækja viðburði í skóla og að umgengni væri ekki undir eftirliti. Lagt verði til við félagsmálanefnd á næsta fundi nefndarinnar að úrskurðarorð verði leiðrétt hvað varði hátíðarumgengni barns til samræmis við niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar, með vísan til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að núgildandi barnaverndarlögum sé bent á að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmið með fósturráðstöfun. Í 4. tölul. 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 segi að með varanlegu fóstri sé átt við að fóstur haldist þar til forsjárskyldur falli niður samkvæmt lögum og að markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Í 25. gr. sömu reglugerðar segi meðal annars að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri sé ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna. Í tilviki því sem hér sé til úrlausnar sé stúlkan vistuð varanlega á heimili fósturforeldra, enda hafi kærandi verið svipt forsjá hennar. Þá hafi kærandi freistað þess að krefjast þess að forsjársvipting væri endurskoðuð samkvæmt 34. gr. bvl., en hafi fellt mál sitt niður fyrir héraðsdómi eftir að forsjárhæfnismats hafði verið aflað. Þar sem um varanlega fósturráðstöfun sé að ræða sé markmið umgengni einkum það að stúlkan þekki uppruna sinn, fremur en að tilgangurinn sé að efla og styrkja tengsl stúlkunnar og kæranda. Almennt sé talið að hæfileg umgengni barna við forsjársvipt foreldri sé tvisvar til fjórum sinnum á ári. Framan af hafi kærandi og stúlkan notið mjög ríflegrar umgengni, en árið 2019 hafi reynst nauðsynlegt að draga heldur úr þeirri umgengni, stúlkan hafi verið lengi að aðlagast aftur aðstæðum á fósturheimili eftir umgengni við kæranda og hafi sýnt merki um vanlíðan og erfiða hegðun. Stöðugleiki í lífi stúlkunnar hafi aukist verulega eftir að dregið hafi verið úr umgengni og virðist núverandi fyrirkomulag á umgengni henta stúlkunni mun betur en fyrra fyrirkomulag hafi gert. Því sé sérstaklega hafnað sem fram komi í kæru, það er að reynslan af umgengni hafi sýnt að mikil umgengni stúlkunnar við kæranda stuðli að góðri líðan stúlkunnar og sé henni fyrir bestu. Þvert á móti sé það mat Barnaverndar B að líðan stúlkunnar og staða hafi verið verri þegar umgengni við kæranda hafi verið meiri en nú sé og telur sveitarfélagið fulla ástæðu til að ætla að núverandi stöðugleika og vellíðan stúlkunnar væri teflt í tvísýnu ef regluleg umgengni yrði aukin aftur.

Þá liggi fyrir að staða stúlkunnar sé almennt ágæt, en hún hafi þó verið á eftir í tali og hafi sótt tíma hjá talmeinafræðingi vegna þess, auk þess sem hún glími við ADHD. Til skoðunar sé að auka við talþjálfun og þá njóti stúlkan einnig stuðnings innan skóla vegna sérþarfa sinna. Þannig sé hún tekin úr tíma og unnið með henni í sérkennslu í minni hópi. Stúlkan sé félagslega sterk og stundi íþróttir í frístundum og gangi þar ákaflega vel. Að mati fósturmóður hafi gengið mjög vel eftir að núverandi fyrirkomulag á umgengni hafi verið tekið upp og myndast hafi ákveðin ró yfir barninu á þeim tíma. Þannig hafi fyrirkomulagið að mati fósturmóður verið gott og stöðugleiki myndast í daglegu lífi barnsins.

Það séu lögvarðir hagsmunir stúlkunnar að hún búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og fái svigrúm til að efla og styrkja grunntengsl sín við fósturfjölskyldu sína áfram og að umgengni valdi henni sem minnstri truflun. Ekkert hafi komið fram í málinu að mati sveitarfélagsins sem bendi til þess að stúlkan hafi þörf fyrir breytingar á reglulegri umgengni eða umgengni við kynmóður yfir jóladagana sjálfa svo sem kærandi krefst. Í því sambandi sé vísað til þess að almennt sé það talið barni fyrir bestu að verja jólunum á því heimili sem barnið dvelji mest, hafi sterkust tengsl við og þar sem barnið hafi undirbúið jólin í aðdraganda þeirra. Þá tíðkist það almennt ekki að börn í fóstri verji jólunum með kynforeldrum sínum. Hafnar sveitarfélagið alfarið staðhæfingu kæranda um að ef fallist yrði á að aðstæður réttlæti hátíðarumgengni, skuli hún fara fram dagana 23. – 27. desember og þá daga eingöngu. Að mati sveitarfélagsins sé það í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að hún fái notið viðbótarumgengni við kæranda í jólaleyfi frá skóla, án þess að hagsmunir stúlkunnar krefjist þess að umgengnin fari fram ofangreinda daga. Þvert á móti er það mat sveitarfélagsins að það samræmist best hagsmunum stúlkunnar að hún verji jólunum sjálfum með fósturfjölskyldu sinni, á heimili sínu þar sem hún hafi undirbúið jólin og í umhverfi þar sem aðbúnaður og aðstæður henti stúlkunni vel.

Úrskurður Félagsmálanefndar B um að halda reglulegri umgengni stúlkunnar og kæranda óbreyttri sé þannig að mati sveitarfélagsins í fullu samræmi við hagsmuni barnsins og markmið með fósturráðstöfun.

Afstaða barns

Stúlkunni hafi verið skipaður talsmaður áður en úrskurður félagsmálanefndar hafi verið kveðinn upp. Talsmaðurinn hafði sérþekkingu á málefnum barna og á sérþörfum stúlkunnar. Í skýrslu talsmanns, dags. 30. janúar 2021, hafi komið fram að í viðtali við stúlkuna hinn 29. janúar 2021 hafi hún almennt lýst vilja til að umgangast kæranda meira.

Byggir sveitarfélagið á því að þrátt fyrir að stúlkan hafi lýst yfir vilja sínum til þess að dveljast meira hjá kæranda í umgengni, megi í skýrslu talsmanns sjá vísbendingar um að sú afstaða stúlkunnar skýrist frekar af vilja hennar til að geðjast kæranda fremur en á eigin vilja til aukinnar samveru með kæranda. Þannig komi meðal annars fram í skýrslu talsmanns að stúlkan hafi greint frá því að hún viti að mamma sín kunni ekki að hugsa um hana og að stúlkunni þætti leiðinlegt að fara svona sjaldan til mömmu sinnar af því að mamma hennar vilji fá hana alla daga. Þannig byggi afstaða stúlkunnar fyrst og fremst á vilja kæranda til aukinnar umgengni, en ekki á vilja stúlkunnar sjálfrar til að umgangast kæranda meira. Jafnframt greini stúlkan frá því að það væri gott að vera lengi hjá kæranda til að kærandi gæti æft sig í að hugsa um stúlkuna. Virðist afstaða stúlkunnar taka mið af því sem ítrekað hafi komið fram í málinu á fyrri stigum, það er að kærandi virðist ekki taka af allan vafa um það í samtölum sínum við stúlkuna að fósturráðstöfun stúlkunnar sé varanleg. Þessi vangeta kæranda til að eiga hreinskilið samtal við stúlkuna um að núverandi forsjárfyrirkomulag sé varanlegt, hafi aukið á óstöðugleika í lífi stúlkunnar og virðist afstaða hennar til umgengni nú ráðast af því að með aukinni umgengni geti kærandi ef til vill æft sig í móðurhlutverkinu, væntanlega með það að markmiði að kærandi gæti síðan mögulega tekið við umsjá stúlkunnar alfarið. Að mati sveitarfélagsins endurspegli þessi lýsing stúlkunnar óraunhæfar væntingar kæranda til framtíðarinnar og vangetu kæranda til að koma því afdráttarlaust á framfæri við stúlkuna að vistun hennar í fóstri sé varanleg ráðstöfun. Þetta valdi væntanlega mikilli hollustuklemmu stúlkunnar gagnvart fósturforeldrum sínum og svo kæranda. Þessa hollustuklemmu stúlkunnar megi jafnframt ráða af ummælum hennar þegar að talsmaður hafi spurt hana hvers vegna hún teldi það best að búa hjá kæranda. Stúlkan hafi svarað því þannig að það væri best fyrir hana því að mömmur væru góðar við börnin sín. Þó hafi stúlkan bætt því við að hún viti að kærandi geti ekki passað hana. Að mati sveitarfélagsins megi af skýrslu talsmanns ráða að stúlkan sé í hollustuklemmu gagnvart kæranda sem leiði til þess að hún tjái afstöðu eða óskir sem hún jafnframt viti að geti ef til vill aldrei ræst. Afstaða stúlkunnar og vilji virðist öðru fremur stýrast af vilja kæranda en ekki því að stúlkan telji hag sínum betur borgið með aukinni umgengni. Geti afstaða stúlkunnar af þessum ástæðum aðeins haft takmarkaða þýðingu fyrir úrlausn málsins og hafi því verið nauðsynlegt að úrskurða um umgengni þvert á tillögu stúlkunnar með tilliti til hagsmuna stúlkunnar og þess sem fram hafi komið í skýrslu talsmanns um afstöðu hennar og vilja. Í þessu sambandi skuli jafnframt á það bent að stúlkan sé aðeins tíu ára gömul og hafi enn sem komið er takmarkaðar forsendur í ljósi aldurs, aðstæðna og hollustu gagnvart móður til að móta afstöðu.

Byggir Félagsmálanefnd B á því að ummæli stúlkunnar um að hún vilji ekki búa hjá ömmu hafi takmarkaða þýðingu. Samkvæmt stúlkunni séu samskipti hennar og frænda sem búsettur sé á heimilinu ekki með besta móti, en við rannsókn málsins hafi ekki annað komið fram en að þar væri um hefðbundin systkinaríg að ræða og virðist stúlkan að öllu leyti una hag sínum ágætlega á heimilinu. Af þessum sökum hafi ekki þótt ástæða til að úrskurða um aukinn rétt kæranda til umgengni vegna þessarar afstöðu stúlkunnar til núverandi fósturheimilis. Að mati sveitarfélagsins hafi stúlkan ekki enn nægjanlegan þroska til að hafa yfirsýn yfir heildaraðstæður sínar og meta hvað sé henni fyrir bestu. Það er því mat sveitarfélagsins að hagsmunir stúlkunnar krefjist þess að hinn kærði úrskurður Félagsmálanefndar B verði staðfestur, þrátt fyrir að stúlkan lýsi því yfir að hún myndi vilja aukna umgengni við móður.

Stöðugleiki

Ekki sé tilefni til að fjalla um rökstuðning fyrir eldra umgengnismáli sem hafi verið til umfjöllunar í fyrri úrskurði frá 2019, enda hafi hinn kærði úrskurður ekki byggt á sömu sjónarmiðum.

Hvað varði það að kærandi hafi ítrekað vakið vonir og væntingar hjá stúlkunni um að hún gæti flutt aftur til kæranda byggir sveitarfélagið á því að ráða megi af samtölum við fósturmóður og skýrslum talsmanns að kærandi hafi í það minnsta ekki getað miðlað því nægilega vel til stúlkunnar að vistun stúlkunnar sé til frambúðar. Þá skuli í því sambandi einnig bent á það að kærandi virðist eiga erfitt með að sætta sig við þær aðstæður sem uppi séu og hafi meðal annars freistað þess að fá forsjársviptingunni frá 2016 hnekkt fyrir dómi þó svo að hún hafi fellt það mál niður eftir að forsjárhæfnismats hafði verið aflað. Einnig virðast kröfur kæranda um umgengni taka mið af því sem almennt gerist í samningum og úrskurðum á milli tveggja foreldra samkvæmt barnalögum fremur en að þar sé miðað við þá umgengni sem almennt tíðkist og þyki æskileg í langtímafóstri samkvæmt barnaverndarlögum. Að mati sveitarfélagsins styðji þessi atvik við það mat Barnaverndar B að ástæða sé til að ætla að kærandi hafi í samskiptum sínum við stúlkuna áhrif á hana og raski stöðugleika hennar með því að vekja hjá henni meðvitað eða ómeðvitað vonir og væntingar um að stúlkan kunni síðar meir að flytjast til kæranda.

Með vísan til alls þess, sem hafi verið rakið, séu að mati sveitarfélagsins ekki til staðar neinar þær ástæður sem réttlæti það að fallist verði á kröfur kæranda, enda hafi úrskurður um umgengni verið kveðinn upp í samræmi við stjórnsýslulög og barnaverndarlög að undangenginni vandaðri stjórnsýslumeðferð. Þannig hafi málsmeðferðin að fullu samrýmst reglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf, rökstuðning og rannsóknarreglu. Þá taki hinn kærði úrskurður fullt mið af bestu hagsmunum barnsins og sé með úrskurðinum gengið eins langt og unnt sé að mati sveitarfélagsins í því að styðja við tengsl kynmóður og stúlkunnar, án þess að raska stöðugleika og líðan barnsins. Þannig hafi umgengni við kæranda verið ákvörðuð í fullu samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. gr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra sé ákveðin. Beri því að staðfesta hinn kærða úrskurð Félagsmálanefndar B.

IV.  Sjónarmið fósturmóður stúlkunnar

Í málinu liggur fyrir afstaða fósturmóður, dags. 4. maí 2021. Fósturmóðir telur að stúlkan sé í meira jafnvægi eftir að umgengni hafi verið breytt í annan hvorn mánuð, hún sé rólegri og það taki styttri tíma að ná henni niður.

V. Sjónarmið barnsins

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns, dags. 30. janúar 2021, þar sem aflað var upplýsinga um líðan barns á heimili kæranda, hvað barnið geri með kæranda og hverjir búi á heimili kæranda. Auk þess sem óskað var eftir að tekið yrði fram í skýrslu ef aðrar upplýsingar kæmu fram hjá barninu sem skipt gætu máli og hvernig barnið vildi að umgengni við kæranda yrði háttað. Stúlkan greindi frá sambýlismanni kæranda ásamt því að hafa einnig greint frá fyrrverandi sambýlismanni kæranda sem búi ekki lengur hjá kæranda. Stúlkunni hafi fundist það skrýtið að hann hafi bara allt í einu verið farinn og nýr sambýlismaður kominn. Aðspurð um líðan sína á heimili kæranda sagði hún að sér liði vel, þær baki, horfi, kúri og spili í leikjatölvu. Þegar þær spili saman í leikjatölvu spili sambýlismaður kæranda með þeim líka. Stúlkan greindi frá því að þær mæðgur færu oft ásamt frænku hennar til G til ömmu hennar. Þá tók hún fram að þær ferðuðust með strætó þar sem kærandi kunni ekki að keyra. Stúlkan sagði frá því að kærandi hefði áhyggjur af því hvað sé að gerast í íbúðinni við hliðina þar sem mikil læti komi þaðan, svo sem öskur. Hvað svefnaðstöðu stúlkunnar varðar hjá kæranda greindi stúlkan frá því að hún eigi ekki herbergi þar en sofi í svefnsófa. Þá tók hún fram að hún sé ekki með mikið dót hjá kæranda þar sem það sé ekkert pláss.

Stúlkan sagði talsmanni frá því að pabbi hennar hafi ekki verið tilbúinn þegar hún fæddist og kærandi hafi ekki getað passað hana og þess vegna hafi amma hennar og afi fengið að taka hana. Stúlkan sagði að hún hefði viljað geta verið áfram hjá foreldrum sínum til skiptis en hún viti að kærandi kunni ekki að hugsa um hana og pabbi hennar sé bara stundum hjá henni.

Stúlkan greindi frá því að hún fari til kæranda tvo daga í mánuði og að henni finnist leiðinlegt að fara svo sjaldan því að kærandi vilji fá hana alla daga. Stúlkan útskýrði fyrir talsmanni að það væri best fyrir sig að fá að vera hjá kæranda í tíu daga því að þá gæti kærandi æft sig í að hugsa um hana. Aðspurð hvers vegna það sé best fyrir hana að búa hjá kæranda sagði stúlkan „það er best fyrir mig að búa hjá mömmu því mömmur eru góðar við börnin sín. En ég veit að hún getur ekki passað mig og mamma segir við mig... hver á að keyra þig í skólann“. Þá greindi stúlkan frá því að kærandi sé pínu veik, hún hósti stundum og sé pínu illt í maganum. Kærandi og sambýlismaður hennar reyki sígarettur en kærandi sé að reyna að hætta því.

Stúlkan hafi jafnframt greint frá því að amma sín, sem sé fósturmóðir hennar, hafi sagt að hún muni aldrei búa hjá kæranda en hún viti ekki af hverju hún segi það.

Stúlkan greindi frá því að hún vilji alveg líka vera hjá pabba sínum og hún vilji ekki búa hjá ömmu sinni. Lífið hennar sé ekki gott þegar frændi hennar sé að stríða henni og henni sé kennt um eitthvað sem hún gerði ekki. Þá greindi hún frá því að jólin hafi verið skemmtileg, hún hafi fengið marga pakka frá ömmu sinni, mömmu og pabba.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er fædd X og er því rúmlega X ára gömul. Hún er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum.

Kærandi byggir á því að Félagsmálanefnd B hafi brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að hafa ekki borið hátíðarumgengni sérstaklega undir stúlkuna til að afla afstöðu hennar vegna þess. Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. með því að takmarka hátíðarumgengni kæranda við tvo daga á milli jóla og nýárs, en samkvæmt meðalhófsreglunni eigi að beita vægustu úrræðum sem möguleg eru til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Í þessu felst að stjórnvaldi ber að afla þeirra upplýsinga og gagna í máli sem nauðsynleg eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Við ákvörðun í málinu þarf að meta stöðu stúlkunnar út frá líðan hennar og aðstæðum og taka ákvörðun miðað við hagsmuni hennar, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Úrskurðarnefndin telur að Félagsmálanefnd B hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins en í því felst það mat úrskurðarnefndarinnar að barnavernd hafi rannsakað málið á fullnægjandi hátt. Úrskurðarnefndin telur að rannsókn málsins hafi ekki verið áfátt þó að barnið hafi ekki verið innt sérstaklega eftir afstöðu sinni til umgengni við kæranda um hátíðir. Telja verður að barnaverndnefnd hafi metið hagsmuni barnsins heildstætt til umgengni með hliðsjón af öllum þeim gögnum sem fyrir lágu í málinu. Úrskurðarnefndin tekur undir það með Félagsmálanefnd B að það sé í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að hún fái notið viðbótarumgengni við kæranda í jólaleyfi frá skóla. Úrskurðarnefndin telur að það séu hagsmunir stúlkunnar að hún fái notið jólanna á því heimili sem hún dvelur mest á og hefur undirbúið jólin. Telur nefndin því það vera í samræmi við meðalhóf að umgengni kæranda við stúlkuna fari fram tvo sólarhringa á milli jóla og nýárs hvert ár.

Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E frá 23. maí 2016 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands. Kærandi óskaði eftir því með bréfi 30. október 2018 að stúlkan færi aftur í hennar umsjá en til vara að umgengni yrði aukin verulega. Félagsmálanefnd B taldi það hins vegar vera í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að minnka umgengni við kæranda. Með úrskurði Félagsmálanefndar B frá 5. nóvember 2019 hafi verið ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði fyrstu helgi annars hvors mánaðar í stað fyrstu helgar hvers mánaðar. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þann 20. mars 2020 var úrskurður um umgengni aðra hvora helgi staðfestur.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að lögmaður kæranda hafi sent inn beiðni fyrir kæranda um aukna umgengni á ný, auk hátíðarumgengni og heimildar til að vera viðstödd skólaviðburði. Starfsmanni Félagsmálanefndar B var í kjölfarið falið að taka afstöðu allra aðila málsins til aukinnar umgengni og meta hvað þjónaði hagsmunum barnsins best ásamt því að gera tillögu að skriflegum umgengnissamningi. Í kjölfar athugasemda frá kæranda tók félagsmálanefnd ákvörðun um að fresta uppkvaðningu úrskurðar til að afla afstöðu stúlkunnar með milligöngu talsmanns. Starfsmenn Barnaverndar B fóru yfir skýrslu talsmanns og töldu hagsmuni stúlkunnar krefjast þess að regluleg umgengni yrði óbreytt frá því sem verið hefur, hátíðarumgengni fari fram tvo sólarhringa á milli jóla og nýárs, kæranda verði heimilt að sækja skólaviðburði og að umgengni verði ekki undir eftirliti. Umgengnissamningur þess efnis var lagður fyrir kæranda sem hafnaði honum. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni tók Félagsmálanefnd B málið til úrskurðar í samræmi við 74. gr. bvl.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni verði einu sinni í mánuði þannig að kærandi sæki stúlkuna í skóla á fimmtudegi og skili henni til baka í skóla á mánudegi. Þá krefst kærandi þess að fá að vera viðstödd alla viðburði í skólanum þar sem aðstandendur megi koma. Enn fremur að hátíðarumgengni við stúlkuna verði 23.-.27. desember ár hvert, fyrst árið 2021. Í öllum tilvikum krefst kærandi þess að umgengni verði án eftirlits. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði einu sinni í mánuði, frá föstudegi til mánudags. Þá krefst kærandi þess einnig til vara að hátíðarumgengni við stúlkuna verði 23.-.27. desember annað hvort ár, fyrst árið 2021. Í hinum kærða úrskurði féllst Félagsmálanefnd B á kröfu kæranda þess efnis að umgengni yrði án eftirlits og að kæranda væri heimilt að vera viðstödd skólaviðburði.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd hennar.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Samkvæmt því sem þarna kemur fram skal barn í fóstri, kynforeldrar þess og aðrir nákomnir eiga rétt á umgengni, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Þegar barnaverndarnefnd telur að umgengni barns við foreldra þess sé andstæð hag þess og þörfum þurfa að vera til staðar sérstök atvik sem valda því.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla á meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu ber barnaverndaryfirvöldum að leita eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Afstöðu barnsins til umgengni var aflað með skýrslu talsmanns stúlkunnar, dags. 30. janúar 2021.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barns best með tilliti til stöðu þeirra, en samkvæmt dómi Héraðsdóms E frá 23. maí 2016 hefur kærandi verið svipt forsjá stúlkunnar. Í máli stúlkunnar er því ljóst að ekki er stefnt að því að hún fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við stúlkuna þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja henni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum hennar, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum stúlkunnar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni stúlkunnar við kæranda þannig að hún fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni stúlkunnar, öryggi hennar og þroskamöguleika. Einnig ber að líta til þess að með umgengni kæranda við stúlkuna er ekki verið að reyna að styrkja tengsl hennar við kæranda frekar, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn. Ber að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að móðir stúlkunnar hefur tekið sig á. Það eru lögvarðir hagsmunir stúlkunnar að hún búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Stúlkunni líður vel hjá fósturfjölskyldunni og ekkert bendir til að hún hafi þörf fyrir breytingar. Þó að umgengni hafi gengið vel, líkt og hún hefur verið annan hvorn mánuð, verður að telja að með því að gera breytingu á umgengni yrði þar með tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem stúlkan hefur þörf fyrir. Það er því mat úrskurðarnefndinnar að hagsmunir stúlkunnar séu best tryggðir með því að staðfesta hinn kærða úrskurð, þrátt fyrir að stúlkan lýsi því yfir að henni finnist leiðinlegt að fara svona sjaldan til kæranda. Þá verði að horfa til svara stúlkunnar í skýrslu talsmanns, dags. 30. janúar 2021, sem bendi til ákveðinnar hollustuklemmu þar sem afstaða stúlkunnar virðist fremur ráðast af vilja kæranda en eigin hag. Fósturmóðir stúlkunnar hefur enn fremur greint frá því að stúlkan sé í meira jafnvægi eftir að umgengni hafi verið breytt í annan hvorn mánuð.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Félagsmálanefndar B.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Félagsmálanefndar B frá 9. febrúar 2021 um umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum