Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 478/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 478/2020

Miðvikudaginn 2. desember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 1. október 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. september 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 14. september 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. september 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. október 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Þann 13. október 2020 barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi stundað endurhæfingu í þrjú ár hjá VIRK, hún hafi verið í skóla og úrræðinu B á vegum þeirra. Kærandi hafi verið greind með alvarlegt þunglyndi, kvíðaröskun, mikla áfallastreitu frá barnsaldri, ADHD og mikla verki í mjaðmarlið sem hafi áhrif á daglegt líf hennar. Kærandi hafi […] og hafi ekki náð sér eftir það og að auki hafi hún verið gift ofbeldismanni. Hún hafi sótt sér aðstoð hjá VIRK, ein með […] börn. Kærandi hafi skilað inn rökstuddu vottorði frá heimilislækni, sálfræðivottorði/greinargerð og einnig greinargerð frá meðferðaraðila. Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um örorku vegna þess að VIRK hafi vísað henni á heilbrigðiskerfið. Hún hafi ekki verið sett í starfsgetumat. Þessi þrjú ár hafi kærandi stundað mjög mörg úrræði og hafi staðið sig vel eftir bestu getu.

Kærandi sé ekki vinnufær að svo stöddu eins og komi fram í beiðni um örorku frá lækni og staðfestingu frá sálfræðingi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 14. september 2020, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 30. september 2020, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað.

Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar komi fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé meðferð og endurhæfingu kæranda ekki lokið, starfsendurhæfingaraðilinn VIRK hafi sent kæranda til frekari meðferðar í heilbrigðiskerfinu. Búast megi við að færni aukist með tímanum. Þá segi í bréfinu að kærandi hafi hlotið 36 mánuði í endurhæfingarlífeyri og eigi því ekki rétt á frekari endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun vegna þeirra veikinda sem lífeyrir hafi verið veittur vegna.

Við mat á umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi tryggingalæknir stuðst við umsókn, dags. 14. september 2020, læknisvottorð, dags. 15. september 2020, spurningalista, dags. 14. september 2020, og önnur fylgigögn, dags. 8. og 15. september 2020.

Í læknisvottorði, dags. 15. september 2020, vegna umsóknar um örorkulífeyri segi um heilsuvanda kæranda að hún telji sig þurfa meiri meðferð, vitnað sé um áfallastreituröskun (meðal annars vegna misnotkunar í æsku), þunglyndi og andlega þreytu. Fram komi að kærandi taki lyf vegna þunglyndis. Læknir telji kæranda óvinnufæra síðan 4. janúar 2019 en að búast megi við að færni aukist með tímanum.

Í svörum við spurningalista vegna færniskerðingar segi kærandi að hún finni fyrir bruna í mjöðm eftir langa setu eða eftir að hafa verið að krjúpa. Þá sofi hún illa eftir mikla hreyfingu. Um geðræn vandamál sé skráð að þunglyndi, mikil áfallastreita og kvíði, ítrekuð áföll frá barnæsku og X hafi haft áhrif.

Samkvæmt greinargerð sálfræðings, dags. 15. september 2020, hafi kærandi verið í sálfræðimeðferð í tvö ár, eða frá 13. september 2018. Upphaflega hafi hún verið í viðtölum á vegum B í samstarfi við VIRK, en hafi svo verið á eigin vegum frá upphafi árs 2020. Kærandi hafi átt góða vinnusögu áður en hún hafi byrjað í endurhæfingu, nokkrum mánuðum áður en sálfræðingur hafi hitt hana fyrst. Í greinargerðinni segi að kærandi glími við alvarleg einkenni áfallastreituröskunar, kvíða, þunglyndis og streitu og hafi þessi einkenni verið til staðar til lengri tíma. Mikil áfallasaga sé til staðar og hún eigi sögu um ofbeldi í æsku og á fullorðinsárum, gróft einelti og afar erfiðan X. Einkenni áfallastreitu, kvíða og þunglyndis séu enn alvarleg. Meðferð við áfallastreitu gangi vel og árangur hafi náðst hvað varði ákveðin einkenni, en sökum þess hve upphafsstaða hafi verið alvarleg hafi meðferðin ekki enn skilað sér í mikilli minnkun einkenna og endurhæfing hafi því ekki skilað tilætluðum árangri. Kærandi þurfi að mati sálfræðings meiri tíma í áfallameðferð en endurhæfingaráætlun hennar gerði ráð fyrir, enda með mikla og langa áfallasögu. Að mati sálfræðings sé kærandi ekki vinnufær að svo stöddu vegna áfallastreituröskunar, þunglyndis og kvíða.

Í greinargerð B við lok þjónustutímabils, dags. 8. september 2020, komi sömu upplýsingar fram um heilsufar kæranda og í greinargerð sálfræðings og læknisvottorði, dags. 15. september 2020. Upplýsingarnar séu þó nokkuð ítarlegri varðandi aðstæður hennar í uppvexti, þar með talið heimilisaðstæður, einelti í grunnskóla kynferðislegt ofbeldi, sem hafi haft neikvæð áhrif á félagslega stöðu hennar og samskipti við annað fólk. Kærandi hafi sinnt endurhæfingu af bestu getu en margt hafi komið upp sem hafi haft áhrif á mætingu. Hún sýni löngun til þess að endurhæfast í vinnu eða námi en andleg líðan hafi verið sveiflukennd. Í greinargerð B komi fram upplýsingar um mætingu kæranda í einstök úrræði, einkum ýmis námskeið og fræðslu, á vegum B á tímabilinu apríl 2018 til ágúst 2020. Mæting hafi verið sveiflukennd í gegnum allt endurhæfingartímabilið.

Á tímabilinu mars til ágúst 2020 hafi kærandi verið í vinnuprufu á C sem hafi tekið verulega á. Hún hafi mætt tvisvar í viku sem hafi gengið vel og hafi kærandi fengið góða umsögn hjá yfirmanni sínum. Hún hafi hins vegar ekki treyst sér til meiri viðveru að svo stöddu og hafi ekki treyst sér til að taka heila vakt. Hún upplifi það þannig að hún þurfi lengri tíma til þess að vinna úr þeim áföllum sem hún hafi lent í um ævina. Kærandi hafi löngun til þess að komast á vinnumarkaðinn en hafi ekki andlega heilsu til að ráða við það á þessum tímapunkti. Mál hennar hafi verið rýnt með sérfræðingum VIRK í lok ágústmánaðar 2020. Þar hafi verið tekin ákvörðun um að vísa henni í heilbrigðiskerfið þar sem kærandi gæti fengið frekari aðstoð með andlega líðan sína.

Tryggingastofnun hafi farið yfir framangreind gögn og hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau geti verið grundvöllur að samþykkt umsóknar kæranda um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar.

Eins og komi fram í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. september 2020, hafi kærandi fengið endurhæfingarlífeyri greiddan í 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og hafi því tæmt rétt sinn til slíkra greiðslna. Sú niðurstaða komi hins vegar ekki í veg fyrir að forsendur séu fyrir áframhaldandi þátttöku í úrræðum til starfsendurhæfingar eða öðrum úrræðum innan heilbrigðiskerfisins sem geti stuðlað að starfshæfni viðkomandi og endurkomu á vinnumarkað. Eins og fram komi í umsögn B hafi kæranda verið vísað í heilbrigðiskerfið þar sem hún geti fengið frekari aðstoð með andlega líðan sína.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar í viðeigandi úrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. september 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð D, dags. 7. september 2020. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„[Mixed anxiety depressive disorder

Post-traumatic stress disorder]“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Ok, utan PTSD

[…]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„Telur sig þurfa meiri meðferð, áfallastreituröskun (m.a. misn. í æsku ) og þunglyndi og andlega þreytt.

Verið hjá VIRK í 36 mán...

Sálfr. og fl...enn að vinna með sálfr..

Geðlæknir fljótlega E[…].

Er á esopra og Wellbuterini. 6 eða 8 lyf sem prófar..

VIRK 36 mán... reynt starf á þeim tíma C aðhlynning,, 20--30-% í X en lauk nýlega, gekk ekki mikið þungl og kvíði...Nú að telur föst í lægð..

Eirðarl. einb og áhugaleysi...'´rosa gleymin'´'

Mikið gengið á undanf. vinir X.. faðir X..og ekki f löngu.

Sækja um tímab. örorku...

Mjaðmir , versnandi e barnseignir. . ligg á hlið er vont stingandi sárt.. staðið lengi nokk ár, sjúkraþj ekki að græja...og sk. Ekki mjaðmarliður né álag á grind en mest eymsl diffus palp troch lat og aftur fyrir auk þess vont að abducetra meira en flectera. (( rætt v F Er að æfa töluvert.

Fá greinarg. frá VIRK og sálfr.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. apríl 2019 og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í athugasemdum segir:

„Á stutt eftir að klára X.“

Í greinargerð B, dags. 8. september 2020, segir meðal annars:

Markmið endurhæfingar í upphafi tímabils: Andlegir þættir: Markmið að draga úr einkennum þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða. Talið líklegt að hún þurfi einhverja áfallaúrvinnslu þrátt fyrir að uppfylla ekki greiningarskilmerki fyrir áfallastreitu-röskun Líkamlegir þættir: regluleg hreyfing með það fyrir augum að bæta virkni og almenn heilsuefling.

Menntun / atvinna: Eftir grunnskóla fór A fyrst í X og síðan í X, hætti þar til þess að fara að vinna og aðstoða X sína fjárhagslega. […] A hafði verið í þjónustu Virk frá september 2017 þegar hún byrjaði í B í mars 2018. A hóf nám í X þegar hún var í þjónustu Virk, hún á eftir tvö fög til þess að ljúka því námi. A tók ákvörðun um að hætta námi þar sem álagið var of mikið.

Félagsleg staða / samskipti: A er einstæð X barna móðir, hún býr í leiguíbúð […] ásamt X sínum sem eru fæddar […]. […]. X A eru báðir að glíma við erfið veikindi, […] Það var óstöðugleiki í félagsumhverfi á uppvaxtaárum, […] A upplifir að kerfið hafi brugðist henni ítrekað.

Heilsubrestur / vandi einstaklings: A hefur mikla áfallasögu alveg aftur í barnæsku og ítrekuð áföll á lífsleiðinni. A telur að hún hafi verið kvíðin frá því að hún var barn og svaf illa sökum þessa. Hún glímir við ýmsar almennar áhyggjur og þolir illa óvissu. Hún varð fyrir alvarlegu einelti í grunnskóla sem ýtti undir lágt sjálfsmat, samskipta- og tengslavanda. Hún hefur orðið fyrir kynferðilegu ofbeldi, líkamsárás og kynferðislegri misnotkun. […] […]. A upplifir að eitthvað hafi skemmst innra með sér við það að horfa […]. […] A telur að áföll og álag hafi mótað hana í gegnum tíðina. Hún á erfitt með að treysta öðru fólki, er áhyggjufull og hefur mikla þörf fyrir að gera hlutina óaðfinnanlega. Meðferðaraðilar á endurhæfingartímabilinu hafa grun um undirliggjandi persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum. A hefur verið að glíma við langvarandi óstöðugleika í félags og tilfinningalífi með endurteknum áföllum, bæði í uppvexti og á fullorðinsárum, allt reynsla sem hefur haft áhrif á samskipti, tengsl og persónuleikaþroska.

[…]

Heildarástundun einstaklings: […] mæting A sveiflukennd í gegnum allt endurhæfingar tímabilið. […] Andleg líðan hafði mikil áhrif á mætingu, ásamt veikindum, áföllum og einstaka sinnum var veðrið það leiðinlegt að erfitt var að […] […] A er stundvís og áburðarfull.

Samskipti: A er frekar lokuð og á erfitt með að treysta fólki. Hún er orðin færi í að setja upp þær grímur sem samfélagið ætlast til af henni, þótt að andleg líðan sé ekki góð. […]

Staða einstaklings: Það sem áunnist hefur á endurhæfingartímabilinu er að A gat hafið áfallavinnu með sálfræðingi. Henni er ekki lokið en A er á eigin vegum hjá F sálfræðingi og er þær í áfallavinnu. F hefur þá trú að A kom til með að fara á vinnumarkaðinn en hún þurfi meiri tíma til þess að vinna með sínar hindranir áður en af því verður. […] F sálfræðingur kom henni að hjá E geðlækni og á hún tíma hjá henni í september. […]

Útskrift/starfsgeta: A hefur verið í vinnuprufu […] síðan í mars 2020. Hún hefur mætt tvisvar í viku og hefur það gengið vel og A hefur fengið góða umsögn frá yfirmanni sínum. A treystir sér ekki í meiri viðveru að svo stöddu og hefur hún ekki treyst sér til þess að taka heila vakt. Hún upplifir að hún þurfi lengri tíma til þess að vinna úr þeim áföllum sem hún hefur lent í um ævina. […] A hefur löngun til þess að komast á vinnumarkaðinn en hefur ekki andlega heilsu til þess að ráða við það á þessum tímapunkti. Mál A var rýnt með sérfræðingum Virk í lok ágústmánaðar 2020, þar var tekin ákvörðun um að vísa A í heilbrigðiskerfið, þar sem A gæti fengið frekari aðstoð með andlega líðan sína.

[…]“

Greinargerð F sálfræðings, dags. 15. september 2020, liggur fyrir meðal gagna málsins, þar segir meðal annars:

„A glímir við alvarleg einkenni áfallastreituröskunar, kvíða, þunglyndis og streitu og hafa þessi einkenni verið til staðar í lengri tíma. Mikil áfallasaga til staðar […]

A varð fyrir mjög grófri misnotkun X ára gömul, og geymdi það með sjálfri sér fram á fullorðins aldur. […] Hún varð svo fyrir grófu líkamlegu og andlegu einelti í grunnskóla. […] Hún var svo aðeins X árs gömul þegar […]. Hún fékk enga aðstoð til þess að takast á við þetta mikla áfall og líðan hennar fór stöðugt versnandi árin á eftir.Í kjölfarið fylgdu fleiri áföll, eins og t.d. hjónaband með ofbeldismanni sem beitti hana grófu ofbeldi og alvarleg líkamleg veikindi X hennar

Frá því að undirrituð hitti A fyrst hefur hún ávallt sýnt mikinn vilja til að vinna að bættri líðan. Hún hefur farið að þeim ráðum henni hafa verið gefin og á meðferðartímanum hefur ýmislegt áunnist; sjáfsmat hefur aukist, hún er komin með ýmis bjargráð við kvíða, tilfinningastjórn er betri, færni í að setja mörk er betri og forgangsröðun í daglegu lífi hefur hjálpað. En einkenni áfallastreitu, kvíða og þunglyndis eru enn alvarleg. Meðferð við áfallastreitu gengur vel, og árangur hefur náðst hvað varðar ákveðin einkenni, en sökum þess hve upphafsstaða var alvarleg hefur meðferðin ekki enn skilað sér í mikilli minnkun einkenna, og endurhæfing því ekki skilað tilætluðum árangri. A þarf að mínu mati meiri tíma í áfallameðferð en endurhæfingaráætlun hennar gerði ráð fyrir, enda með mikla og langa áfallasögu.

Ég undirrituð, tel A því ekki vinnufæra að svo stöddu vegna áfallastreituröskunar, þunglyndis og kvíða.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja. Hvað varðar andlega færni kæranda merkir kærandi við að hún glími við andleg vandamál og tilgreinir þar þunglyndi, mikla áfallastreitu og kvíða. Einnig greinir hún frá ítrekuðum áföllum í barnæsku og X.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem meðferð og endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Vísar þar Tryggingastofnun til þess að mat VIRK sé að búast megi við að færni kæranda aukist með tímanum og að henni hafi verið vísað til frekari meðferðar í heilbrigðiskerfinu. Í bréfinu er athygli kæranda vakin á því að þar sem hún hafi þegið endurhæfingarlífeyri í 36 mánuði hafi hún tæmt rétt sinn til frekari greiðslna endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af geðrænum toga og hefur hún verið í umtalsverðri endurhæfingu vegna þeirra í 36 mánuði en ekki er heimilt samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð að greiða endurhæfingarlífeyri í lengri tíma. Samkvæmt læknisvottorði D, dags. 7. september 2020, telur hann kæranda vera óvinnufæra en að líkur séu á að færni geti aukist. Fram kemur í vottorðinu að kærandi sé í sálfræðimeðferð og muni einnig hefja meðferð hjá geðlækni. Nýleg vinnuprufa hafi ekki gengið og að hún sé föst í lægð þunglyndis og kvíða og á þeim forsendum sé sótt um tímabundna örorku. Samkvæmt greinargerð F sálfræðings, dags. 15. september 2020, eru einkenni áfallastreitu, kvíða og þunglyndis enn alvarleg og sökum þess hve upphafsstaða hennar var alvarleg hefur meðferðin ekki enn skilað sér í mikilli minnkun einkenna og því hafi endurhæfing ekki skilað tilætluðum árangri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af greinargerð B, dags. 8. september 2020, að starfsendurhæfing á þeirra vegum sé fullreynd en kæranda var vísað á heilbrigðiskerfið til frekari meðferðar. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja um heilsufar kæranda fær úrskurðarnefnd ráðið að meiri líkur en minni séu á að kærandi þurfi langan tíma í læknismeðferð áður en tímabært verði að reyna hugsanlega starfsendurhæfingu á ný. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að kærandi hefur nú þegar reynt starfsendurhæfingu í 36 mánuði.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að frekari starfsendurhæfing sé ekki raunhæf að sinni eins og ástandi kæranda er háttað. Úrskurðarnefndin telur því rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli að undangenginni læknisskoðun.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. september 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um örorkumat, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum