Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Nr. 240/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 240/2019

Fimmtudaginn 5. september 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. júní 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. apríl 2019, um að synja umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 27. mars 2019, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í þrjá mánuði vegna fæðingar barns hans X 2018. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. apríl 2019, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði um fullt nám á vorönn 2018 væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 7. júní 2019. Með bréfi, dags. 12. júní 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 25. júní 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2019. Viðbótargögn bárust frá kæranda 8. júlí 2019 og voru þau send Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2019. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá Fæðingarorlofssjóði 31. júlí 2019 og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. ágúst 2019. Undir rekstri málsins tók B við máli kæranda og bárust viðbótarathugasemdir frá honum með bréfi, dags. 3. september 2019. Athugasemdirnar voru sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi lokið 58,5 einingum (ECTS) síðustu sex mánuðina fyrir fæðingu barns síns og hafi litið á sig sem nemanda í fullu námi og það hafi háskólinn líka gert. Fæðingarorlofssjóður reyni að halda því fram að þar sem hann hafi tekið 39 einingar (ECTS) á fyrri önn og 19,5 á þeirri seinni þá geti hann ekki talist vera í fullu námi. Kærandi telur þetta mjög ósanngjarna túlkun á lögunum sem endurspegli ekki markmið þeirra en hann hafi tekið fleiri einingar á fyrri önninni til þess að vinna í ritgerð sinni á seinni önninni. Kærandi óskar eftir endurskoðun málsins í ljósi þess að fjárhagsstaða hans í feðraorlofinu sé mjög slæm sökum þessa. Í athugasemdum kæranda er tilgreint að hann hafi unnið á […] tvo og hálfan dag á viku.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að skilgreining á 75–100% námi sé háð þeirri menntastofnun sem um ræði hverju sinni, enda sé sá einingafjöldi sem rúmist innan þessa marka ekki tiltekinn í lögum eða reglugerðum. Í tilfelli kæranda hafi skólinn heimilað tilfærslu eininga sem rúmist innan 100% náms á vorönn yfir á haustönn og hafi skólinn lagt fram staðfestingu þess efnis. Skólinn kveði að kærandi hafi verið í fullu námi allt skólaárið, þ.e.a.s. bæði á vorönn og haustönn og þar af leiðandi um lengra tímabil en sex mánuði. Að mati kæranda útiloki orðalag 4. mgr. 7. gr. um 75–100% nám á háskólastigi í að minnsta kosti sex mánuði ekki þau tilfelli þar sem nám nái yfir lengra tímabil en sex mánuði. Frá september 2017 til september 2018 hafi kærandi verið í námi við [háskóla] og lokið 58 einingum. Fullt nám á skólaári kæranda séu 60 einingar. Þar sem skólinn hafi heimilað 39 einingar á haustönn hefði kærandi að hámarki getað tekið 21 einingu á vorönn. Kærandi hafi lagt fram staðfestingu frá skólanum þess efnis að hann hafi verið í fullu námi og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Því ættu aðstæður kæranda um 39 einingar á haustönn 2017 og 19 einingar á vorönn 2018 ekki að útiloka rétt hans til fæðingarstyrks. Kærandi telur að taka ætti tillit til þess að sé litið yfir lengra tímabil en sex mánuði hafi hann verið í fullu námi samkvæmt staðfestingu skólans. Þá telji kærandi að orðalagið „að minnsta kosti“ geri ráð fyrir að heimilt sé að líta til lengra tímabils, til dæmis þegar menntastofnun sem um ræðir heimili slíkt fyrirkomulag á tólf mánaða tímabili. Fallist nefndin ekki á framangreind sjónarmið byggir kærandi á því að orðalag 19. gr. laganna um að [foreldri þurfi að hafa verið í fullu námi í að] minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sé ekki bundið við síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag þess líkt og orðalag 13. gr. laganna gefi skýrt til kynna um [að foreldri þurfi að hafa verið] samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Því sé heimilt í tilfelli kæranda að líta til haustannar 2017 í ríkari mæli en nefndin geri.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst X 2018. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé því horft til tímabilsins frá X 2017 fram að fæðingardegi þess. Samkvæmt námsferilsyfirliti frá [háskóla] hafi kærandi lokið 39 ECTS einingum á haustönn 2017 sem teljist fullt nám tímabilið X til 31. desember. Á vorönn 2018 hafi kærandi lokið 19,5 ECTS einingum sem teljist ekki vera fullt nám. Þá hafi kærandi verið skráður í 30 ECTS einingar á haustönn 2018 við fæðingardag barnsins sem teljist fullt nám tímabilið 16. ágúst og fram að fæðingu þess þann X 2018.

Á háskólastigi jafngildi 30 ECTS einingar á önn almennt 100% námi og því teljist 22–30  ECTS einingar á önn vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu [háskóla] um námsleiðina [...] þá sé um að ræða 120 ECTS eininga nám sem miðist við tvö ár eða 4 misseri. Þannig sé 100% nám skipulagt sem 30 ECTS einingar á önn í 4 misseri eða alls 120 ECTS einingar. Með hliðsjón af þeim gögnum, sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda, uppfylli hann ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem kærandi hafi ekki staðist kröfur um námsframvindu á vorönn 2018. Fullt nám kæranda á haustönn 2017 og haustönn 2018 nái einungis 4,5 mánuðum af því 6 mánaða tímabili sem hann hefði þurft að standast.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk, sbr. greiðsluáætlun, dags. 12. júní 2019.

Í athugasemdum Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að bréf [háskóla], dags. 5. júlí 2019, sem kærandi hafi lagt fram hafi ekki áhrif á úrlausn málsins. Það liggi skýrt fyrir að kærandi hafi ekki verið í fullu námi á vormisseri 2018 og breyti þá engu að hann hafi verið í rúmlega fullu námi á haustmisseri 2017. Varðandi nýjar upplýsingar frá kæranda sjálfum um að hann hafi unnið tvo og hálfan dag á viku á [..], sbr. tölvupóstur frá 8. júlí 2019, þá hafi það verið kannað sérstaklega í framhaldinu hvort hann gæti í samræmi við þær upplýsingar mögulega uppfyllt skilyrði um að hafa starfað í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á mánuði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns, þ.e. tímabilið X til X 2018. Samkvæmt meðfylgjandi upplýsingum úr skrám Ríkisskattstjóra og frá C sé ljóst að hann uppfylli ekki framangreint skilyrði og eigi því ekki tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður þar sem hann hafi ekki náð að minnsta kosti 25% starfshlutfalli tímabilið X til X og X til X 2018. Í samræmi við framangreint árétti Fæðingarorlofssjóður greinargerð sína frá 25. júní 2019.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X 2018. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2017 fram að fæðingu barnsins. Kærandi stundaði nám í [...] við [háskóla] en um er að ræða 120 ECTS eininga fullt nám í tvö námsár eða 30 ECTS eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Samkvæmt yfirliti frá [háskóla], dags. 2. apríl 2019, lauk kærandi 39 ECTS einingum á haustönn 2017 sem telst vera fullt nám tímabilið X til 31. desember 2019. Á vorönn 2018 lauk kærandi 19,5 ECTS einingum sem telst ekki vera fullt nám, svo sem rakið er að framan. Kærandi var skráður í 30 ECTS einingar á haustönn 2018 sem telur frá 16. ágúst og fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi var því einungis í fullu námi í um fjóran og hálfan mánuð á 12 mánaða viðmiðunartímabili í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000.

Í málinu liggur fyrir vottorð frá [háskóla] þar sem fram kemur að skólinn líti svo á að kærandi hafi verið í fullu námi á haustönn 2018 en eins og fram hefur komið lauk kærandi 58,5 ECTS einingum á því misseri. Þrátt fyrir framangreinda yfirlýsingu [háskóla] þykir, í ljósi þess er að framan greinir, sýnt að mati úrskurðarnefndarinnar að kærandi fullnægði ekki fyrrnefndu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þá er engin heimild fyrir hendi, hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, til að taka tillit til þeirra aðstæðna kæranda sem vísað er til í kæru. Enn fremur þykja framlögð gögn vegna starfa kæranda á [...] sýna fram á að kærandi eigi ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í skilningi laga nr. 95/2000 sem starfsmaður, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 7. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. apríl 2019, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum