Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 528/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 528/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110079

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 163/2022, dags. 13. apríl 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. febrúar 2022 um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

    Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda 25. apríl 2022. Hinn 28. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir síðan hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð.

    Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn hans því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 580/2017 hafi athugasemdir við 36. gr. sem fylgdu frumvarpi til laga um útlendinga verið raktar. Þar komi fram að mál sem falli undir c-lið 1. mgr. 36. gr. og hafi dregist lengur en 12 mánuði og ástæður þess séu ekki á ábyrgð umsækjenda geti leitt til þess að taka beri umsókn viðkomandi til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laganna. Niðurstaða kærunefndar hafi verið sú að skýra bæri ákvæðið í samræmi við orðalag þess og því bæri stjórnvaldi skylda til að taka mál sem það hefði til meðferðar til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir höfðu liðið frá því að umsókn barst fyrst íslenskum stjórnvöldum nema tafir á afgreiðslu hennar séu á ábyrgð umsækjanda sjálfs.

    Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 580/2017 beri að endurupptaka mál kæranda, fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og gera stofnuninni að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum en ekki við komu til landsins. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 26. nóvember 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 26. nóvember 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 28. nóvember 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari Útlendingastofnunar sem barst þann sama dag, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi kæranda verið fylgt til Grikklands 6. júlí 2022.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 30. nóvember 2022, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í svari frá talsmanni kæranda, þann sama dag, kom fram að kærandi hygðist ekki leggja fram andmæli.

Líkt og að framan greinir hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að 12 mánaða tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur. Í ljósi þess að kærandi er farinn af landi brott er það mat kærunefndar að afgreiðslu máls hans hér á landi sé lokið og að hann eigi því ekki rétt á efnismeðferð vegna tafa á afgreiðslu þess, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að synja beiðni kæranda um endurupptöku.

Í ljósi þess að endurupptökubeiðni kæranda barst kærunefnd 28. nóvember 2022, eftir að kærandi hafði verið fluttur úr landi innan 12 mánaða tímamarksins, telur kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku bersýnlega tilhæfulausa og gerir kærunefnd athugasemd við vinnubrögð talsmanns að þessu leyti.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum