Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

1104/2022. Úrskurður frá 2. nóvember 2022

Hinn 2. nóvember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1104/2022 í máli ÚNU 22030005.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. mars 2022, kærði A, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, ákvörðun Isavia ohf. að synja honum um aðgang að gögnum í tengslum við toll- og landamæraskoðun á vegum bandarískra stjórnvalda á Keflavíkurflugvelli.

Með erindi, dags. 12. janúar 2022, óskaði kærandi eftir upplýsingum um stöðu fyrirætlana sem ræddar hefðu verið fyrir nokkrum árum um toll- og landamæraeftirlit í Keflavík á vegum bandarískra stjórnvalda, U.S. Customs and Border Protection (CBP) Preclearance, sem gæti hraðað og einfaldað úrvinnslu farþega þegar komið væri til Banda­ríkjanna.

Í svari Isavia til kæranda, dags. 21. janúar 2022, kom fram að þessi möguleiki hefði verið skoðaður en að kröfur, fyrirkomulag og ávinningur af Preclearance gæti ekki stutt við tengistöðina og vöxt hennar. Verkefnið væri því í bið því kostnaðurinn væri hamlandi og það drægi úr skilvirkni tengistöðvarinnar. Kærandi svaraði Isavia samdægurs með frekari spurningum um verkefnið og hvers vegna það hefði ekki gengið eftir.

Hinn 7. febrúar 2022 óskaði kærandi svo eftir öllum gögnum sem tengdust skoðun á Preclearance, þ.m.t. gögnum sem vörpuðu ljósi á tilkomu málsins, framvindu þess og þá niðurstöðu að ráðast ekki í að koma slíku fyrirkomulagi á fót. Auk gagna sem stöfuðu frá Isavia var óskað eftir gögnum sem stöfuðu frá eða hefði verið beint til þriðja aðila.

Í erindi Isavia, dags. 17. febrúar 2022, kom fram að um tíu skjöl hefðu fundist sem ætla mætti að féllu undir beiðni kæranda. Voru kæranda afhentar tvær fundargerðir stjórnar Isavia, frá því í október 2017 og 2018, auk erindis Isavia til innanríkisráðuneytis frá því í desember 2016 um stöðu mála vegna Pre­clearance-verkefnisins. Önnur gögn sem féllu undir beiðnina yrðu ekki afhent ýmist með vísan til 2. tölul. 10. gr. eða 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Krafa kæranda um rökstuðning fyrir því af hverju aukinn aðgangur yrði ekki veittur, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, ætti aðeins við um stjórnvöld og því ætti hún ekki við í málinu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Isavia með erindi, dags. 15. mars 2022, og félaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Isavia léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Isavia barst úrskurðarnefndinni 30. mars 2022. Í henni kemur fram að kæranda hafi verið synjað um aðgang að níu skjölum:

  1. Ákvörðun byggð á 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga:
    1. Erindi Isavia til U.S. Customs and Border Protection: Preclearance Process – Initial Sub­mis­sion, dags. 29. júlí 2016.
    2. Department of Homeland Security – Non-Disclosure Agreement, dags. 1. ágúst 2016.
    3. Tölvupóstssamskipti, dags. 29. júlí til 6. september 2016.
    4. Tölvupóstssamskipti, dags. 7. september 2016.
    5. Tölvupóstssamskipti, dags. 7. september 2016.
    6. Tölvupóstssamskipti, dags. 9. september 2016.
    7. Tölvupóstssamskipti, dags. 9. september 2016.
  2. Ákvörðun byggð á 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga:
    1. Tölvupóstssamskipti, dags. 8. september 2016.
    2. Tölvupóstssamskipti, dags. 12. september 2016.

Í umsögninni kom fram að samningurinn og samskiptin væru talin viðkvæm og snertu framkvæmd sem hefði gefið tilefni til að Bandaríkin hefðu óskað eftir að gerður yrði trúnaðarsamningur um þau, enda vörðuðu þau landamæra­afgreiðslu og eftirlit. Isavia legði áherslu á mikilvægi þess að sá trúnaður yrði virtur þannig að það að opinbera gögnin hefði ekki neikvæð áhrif á að samningur næðist síðar um forskrán­ingu þótt ekki hefði orðið af henni enn.

Umsögn Isavia var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. mars 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust daginn eftir. Varðandi röksemd Isavia að hluti gagnanna falli undir 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsinga­mál nr. 898/2020, þar sem nefndin tók fram að ekki væri unnt að hafna aðgangi að gögnum á grund­velli 2. tölul. 10. gr. án þess að atviksbundið mat á gögnunum færi fram.

Úrskurðarnefndin óskaði hinn 6. október 2022 eftir frekari rökstuðningi frá Isavia fyrir því að hvaða leyti mikilvægir al­mannahagsmunir stæðu til þess að gögnin skyldu fara leynt, sbr. 2. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga, og hvernig afhending gagnanna til kæranda gæti verið til þess fallin að skaða samskipti við Bandaríkin og þannig raska almannahagsmunum. Þá óskaði úrskurðarnefndin eftir því að Isavia hlut­aðist til um að afla afstöðu bandarískra stjórnvalda til afhendingarinnar.

Í svari Isavia, dags. 20. október 2022, kemur fram að samskipti um forafgreiðsluna varði m.a. fram­kvæmd landamæraeftirlits og flugverndar. Upplýsingar um það séu viðkvæmar í eðli sínu og ofur­áhersla sé lögð á leynd upplýsinga, sér í lagi um málefni flugverndar. Starfsmenn Isavia sem tengist mál­inu, sem og aðrir sem hafi komið að málinu af hálfu flugrekenda og stofnana ríkisins, hafi farið í gegn­um bakgrunnsskoðun eða fengið sérstaka öryggisvottun sem heimili þeim aðkomu að málinu. Að veita aðgang að gögnum sem tengist þessum málaflokkum gæti haft áhrif á möguleika þeirra sem málið varðar til alþjóðasamstarfs.

Í svarinu kemur enn fremur fram að ef erlend ríki geti ekki treyst því að trúnaður í milliríkjasamskipt­um sé undantekningalaust virtur geti traust tapast. Þar með gæti utanríkisþjónustan, vegna milligöngu fyrir félagið, ekki átt árangursrík samskipti og sinnt lögmæltu hagsmunagæsluhlutverki sínu í þágu íslenska ríkisins. Loks er ítrekað að ekki hafi enn komist á samkomulag um forafgreiðslu við bandarísk stjórnvöld. Málið gæti því verið tekið upp aftur og því sé mikilvægt að virða trúnað til að koma í veg fyrir að sam­talið stöðvist. Isavia meti það svo að afhending upplýsinganna myndi skaða samskiptin og þar af leiðandi raska almannahagsmunum.

Að því er varði beiðni úrskurðarnefndarinnar um að afla afstöðu bandarískra stjórnvalda til afhend­ingar gagnanna sé ekki heimild í upplýsingalögum til að óska afstöðu þriðja aðila þegar synjun byggist á 2. tölul. 10. gr. laganna. Slík öflun afstöðu eigi aðeins við þegar upplýsingar kunni að varða einka­hagsmuni, sbr. 2. mgr. 17. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum frá haustinu 2016 sem varða könnun á mögu­leika á því að komið yrði á fót bandarískri toll- og vegabréfaskoðun á Kefla­víkurflugvelli, til að einfalda úrvinnslu farþega á leið til Bandaríkjanna. Samkvæmt frétt á vef Isavia hinn 4. nóvember 2016 tilkynntu bandarísk stjórnvöld að Keflavíkurflugvöllur væri á lista yfir flugvelli þar sem mögulegt væri að taka upp slíka starfsemi.

Bandaríska toll- og landamæraverndin (e. U.S. Customs and Border Protection, CBP), sem er stofnun innan heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna (e. Department of Homeland Security), heldur úti áætlun um forafgreiðslu (e. Preclearance program) sem felst í að hafa starfsmenn CBP á völdum flug­völlum utan Banda­ríkjanna í því skyni að vinna úr og yfirfara farþega sem ferðast til Bandaríkjanna, í stað þess að það sé gert við komu til Bandaríkjanna.

Ákvörðun Isavia byggist ýmist á 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga eða 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna. Í 2. málsl. 10. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýs­ingalögum kemur fram að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í 10. gr. Þá segir jafnframt eftirfarandi:

Ákvæðið á við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Þeir hagsmunir sem hér er verið að vernda eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.

Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða er ljóst að varfærni er eðlileg við skýringu á ákvæðinu.

Í úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur verið fallist á það sjónarmið að til að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi kunni að vera rétt að samskipti, sem fari fram á þeim vettvangi, séu undanþegin upplýsingarétti á meðan samskiptin standa yfir. Þannig megi meðal annars tryggja að samskipti geti farið fram frjálst og óhindrað. Við matið er litið til eðlis þessara samskipta og hvort líta megi á þau sem ófullgerð vinnugögn eða endanlega afgreiðslu mála. Þá er að mati úrskurðarnefndarinnar jafnframt rétt að líta til þess hvort samskiptin snúi að viðkvæmum málefnum, samskiptaleiðum sem hætta er á að lokist ef upplýsingar sem þaðan berast yrðu á almannavitorði, eða öðrum atriðum sem þykja raunverulega geta leitt til þess að traust erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana á íslenskum stjórnvöldum glatist.  Þá er enn fremur rétt að hafa í huga þau sjónarmið sem vitnað er til í athugasemdum við ákvæðið um að gæta beri varfærni við skýringu á ákvæðinu í ljósi þess hversu oft væri um veigamikla hagsmuni að ræða. Ákvæðið verður hins vegar ekki túlkað svo rúmt að stjórnvöld geti, með vísan til mikilvægis trúnaðar, takmarkað aðgang að öllum gögnum er varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir án atviksbundins mats, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. 1048/2021, 1037/2021 og 898/2020. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að skilyrðið um almannahagsmuni væri þá í reynd þýðingarlaust.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögn sem kæranda var synjað um aðgang að á grund­­velli 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Um er að ræða í fyrsta lagi erindi Isavia til CBP, dags. 29. júlí 2016, varðandi möguleika á forafgreiðslu á Kefla­vík­ur­flugvelli. Í öðru lagi er staðlaður samningur um þagnarskyldu (e. Non-Disclosure Agreement) á veg­um heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna, útfylltur og undirritaður af þáverandi forstjóra Isavia hinn 1. ágúst 2016. Í þriðja lagi eru samskipti Isavia við fulltrúa á vegum CBP frá lokum júlí 2016 og fram í september sama ár, í tengslum við heim­sókn til Íslands. Í fjórða lagi eru samskipti við íslensk stjórn­völd vegna málsins.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að verði gögnin afhent kæranda kunni að skapast hætta á því að traust bandarískra stjórnvalda á íslenskum stjórnvöldum og Isavia glatist. Í því samhengi hefur það tals­verða þýðingu að mati nefndarinnar að þótt nokkuð sé um liðið frá því gögnin urðu til og að verk­efnið sé í biðstöðu, þá sé viðræðum um málið ekki lokið og þær kunni að verða teknar upp að nýju. Önnur sjónarmið kynnu eftir atvikum að koma til skoðunar ef ljóst væri að viðræðum væri lokið. Með hliðsjón af framangreindu auk þess sem segir í athugasemdum við 2. tölul. 10. gr. um að varfærni sé eðlileg við skýringu á ákvæðinu, telur úrskurðarnefndin að Isavia hafi verið heim­ilt að synja kæranda um aðgang að gögnunum.

Að því er varðar þau gögn sem Isavia synjaði kæranda um aðgang að á grundvelli þess að um vinnu­gögn væri að ræða innihalda þau að hluta til sambærilegar eða sömu upplýsingar og fram koma í þeim gögnum sem synjað var um aðgang að á grundvelli 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Af þeim sökum er óþarft að taka afstöðu til þess hvort gögnin uppfylla skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnu­gögn. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu um þau gögn sem undirorpin eru 2. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga er því staðfest ákvörðun Isavia um þessi gögn að auki.

Í tilefni af athugasemd Isavia um að upplýsingalög heimili ekki að leitað sé afstöðu þriðja aðila þegar synjun byggist á 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga bendir úrskurðarnefndin á að nauðsynlegt kann að vera að afla upplýsinga frá erlendum stjórnvöldum eða öðrum aðilum til að unnt sé að leggja á það mat hvort þeir hagsmunir sem ákvæðinu er ætlað að vernda séu til staðar. Slík upplýsingaöflun er því liður í því að stjórnvöld og aðrir aðilar sem taka ákvarðanir á grundvelli upplýsingalaga uppfylli rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 4. mgr. 19. gr. upplýsingalaga, og þarfnast ekki sérstakrar lagaheimildar umfram þau ákvæði. Þrátt fyrir að Isavia hafi ekki aflað umræddra upplýsinga telur úrskurðarnefndin að eins og mál þetta er vaxið og með hlið­sjón af því trúnaðar­samkomulagi sem liggur fyrir í málinu hafi það ekki áhrif á niðurstöðu nefnd­ar­innar þótt afstöðu bandarískra stjórnvalda til afhendingar gagnanna hafi ekki verið aflað.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Isavia ohf., dags. 17. febrúar 2022, að synja A um aðgang að gögnum í tengslum við fyrirætlanir um toll- og landamæraskoðun á vegum bandarískra stjórnvalda á Kefla­víkur­flugvelli, er staðfest.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum