Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Úthlutun byggðakvóta til sveitarfélags.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A ehf.], dags. 26. desember 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag og einnig með pósti, þar sem kærð er til ráðuneytisins byggðakvótaúthlutun til Tálknafjarðarhrepps vegna fiskveiðiársins 2021/2022. Í stjórnsýslukæru er vísað til fiskveiðiársins 2019/2020 en ráðuneytið lítur svo á að átt sé við fiskveiðiárið 2021/2022.

Kæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur kæranda

Kröfur kæranda koma fram í stjórnsýslukæru sem undirrituð er af fyrirsvarsmönnum kæranda en þar segir að undirrituð kæri byggðakvótaúthlutun vegna ársins 2019/2020 þar sem þau geti ekki sætt sig við að sjálfstætt sveitarfélag eins og Tálknafjörður sé fái engu um það ráðið hvernig úthlutunin sé þar sem Tálknafjarðarhreppur sé einn skilgreindur sem byggðarlag en engin önnur sveitarfélög séu skilgreind sem slík og þar af leiðandi geti bátar ekki landað á markaði í Tálknafirði og fengið úthlutað byggðakvóta. Þar sem engin vinnsla sé til staðar í Tálknafirði séu þau skikkuð til að gera samning við vinnslu í öðru sveitafélagi. Á öðrum stöðum á landinu þar sem byggðakvóta sé úthlutað og ekki sé vinnsla á staðnum geti bátar landað á markaði. Það séu t.d. Akureyrarkaupstaður, Norðurfjörður, Hólmavík, Hvammstangi, Skagaströnd, Blönduós svo eitthvað sé nefnt. Þeim finnist gróflega á þeim brotið miðað við aðra í sömu stöðu og fari fram á að ráðuneytið geri grein fyrir því hvaða lög séu á bak við þessa mismunun.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að hinn 21. desember 2021 sendi ráðuneytið tilteknum sveitarfélögum bréf og upplýsti að samkvæmt reglugerð nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, hafi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra allt að 4.623 þorskígildistonn af botnfiski til ráðstöfunar til byggðarlaga sem falli undir skilyrði a. og b. liðar í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar og var viðkomandi sveitarstjórn tilkynnt á grundvelli 5. gr. reglugerðarinnar hversu miklar aflaheimildir komu í hlut hvers byggðarlags innan sveitarfélagsins sem gæti átt rétt á úthlutuðum byggðakvóta.

Tálknafjarðarhreppi var tilkynnt að úthlutun innan sveitarfélagsins yrði á þann veg að í hlut byggðarlagsins Tálknafjarðar komi 300 þorskígildistonn.

Einnig kom þar fram að þar sem endanleg úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022 liggi fyrir væri sveitarfélögum gefinn frestur til 21. janúar 2022 til að senda ráðuneytinu tillögur um sérreglur. Tillögur sveitarfélaga yrðu eftir það birtar til kynningar á vef ráðuneytisins til 31. janúar 2022 og í framhaldinu yrðu sérreglur fyrir hlutaðeigandi byggðarlög teknar til efnislegrar meðferðar. Í þeim tilvikum sem ekki komi fram óskir um sérreglur innan framangreinds tímafrests muni ráðuneytið beina því til Fiskistofu að auglýsa byggðakvóta fyrir viðkomandi byggðarlög til umsóknar eins fljótt og auðið verði.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. desember 2021, kærði [A ehf], úthlutun byggðakvóta til Tálknafjarðar í Tálknafjarðarhreppi vegna fiskveiðiársins 2021/2022.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram m.a. að kærð sé umrædd byggðakvótaúthlutun þar sem kærandi geti ekki sætt sig við að sjálfstætt sveitarfélag eins og Tálknafjörður sé fái engu um það ráðið hvernig úthlutunin sé, þar sem Tálknafjarðarhreppur sé skilgreindur sem byggðarlag en engin önnur sveitarfélög séu skilgreind sem slík og þar af leiðandi geti bátar ekki landað á markaði í Tálknafirði og fengið úthlutað byggðakvóta. Þar sem engin vinnsla sé til staðar í Tálknafirði sé félagið skikkað til að gera samning við vinnslu í öðru sveitarfélagi. Á öðrum stöðum á landinu þar sem byggðakvóta sé úthlutað og ekki sé vinnsla á staðnum geti bátar landað á markaði og eru þar nefnd í dæmaskyni tiltekin sveitarfélög. Kærandi telji að brotið sé á félaginu miðað við aðra í sömu stöðu og fer fram á að ráðuneytið geri grein fyrir því hvaða lög séu á bak við þessa mismunun.

Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.

 

 

Rökstuðningur

I.  Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram að ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda til einstakra byggðarlaga. Þar skal kveðið á um skilgreiningu á byggðarlagi, viðmiðunar- og útreikningsreglur og aðrar reglur um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem breytt var með reglugerð nr. 1493/2021. Í 1. gr. segir að á fiskveiðiárinu 2021/2022 skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthluta aflamarki sem nemur allt að 4.623 þorskígildistonnum af botnfiski og ráðstafa til stuðnings byggðarlögum, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og/eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn. einnig kemur þar fram að byggðarlög skv. 1. mgr. séu byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2021. Í 2. gr. eru ákvæði um skiptingu aflaheimilda eftir botnfisktegundum. Í 3. gr. eru ákvæði um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga. Í 4. gr. eru ákvæði um útreikning á aflaheimildum til byggðarlaga. Í 5. gr. segir að ráðuneytið tilkynni sveitarstjórnum hversu miklar aflaheimilda komi í hlut hvers byggðarlags sem undir þær falli.

 

II.  Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Einnig byggir kæruheimild samkvæmt ákvæðinu á því að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórnvöldum, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að þau gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þau gilda ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla.

Það er afstaða ráðuneytisins að skipting byggðakvóta milli byggðarlaga sé ekki stjórnvaldsákvörðun og gilda því ekki ákvæði 1. mgr. 26. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild til ráðuneytisins. Ekki er heldur að finna í öðrum lögum kæruheimildir til ráðuneytisins vegna úthlutunarinnar.

Einnig er það mat ráðuneytisins að málsástæður í stjórnsýslukæru í máli þessu varði aðeins efni reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, þ.e. ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar.

Ekki er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. framangreint ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í stjórnsýslukæru þessari eru ekki gerðar sérstakar kröfur sem lúta að tiltekinni ákvörðun stjórnvalds um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa heldur hefur kæran að geyma almenna kvörtun sem lýtur að því að sveitarfélaginu Tálknafjarðarhreppi hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 21. desember 2021, á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 919/2021, um að tilteknu magni af byggðakvóta hafi verið úthlutað til byggðarlagsins Tálknafjarðar í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 og að tilteknar reglur gildi um úthlutunina.

Þegar litið er til framanritaðs verður ekki séð að kröfur í þessu máli lúti að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993. Samkvæmt því er það mat ráðuneytisins að ekki liggi fyrir í máli þessu ákvörðun sem sé kæranleg til ráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða öðrum ákvæðum íslenskra laga.

Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru þessari.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Stjórnsýslukæru [A ehf.] í máli þessu er vísað frá.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum