Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 5/2022 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 5/2022

 

Ákvörðun húsfundar: Kattahald.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 18. janúar 2022, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 30. janúar 2022, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 15. mars 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C 11-13 í D. Aðilar eru eigendur hvor að sínum eignarhlutanum í húsi nr. 13 og sitja í stjórn húsfélagsins. Ágreiningur er um hvort fullnægjandi samþykki sé til staðar fyrir kattahaldi í stigagangi húss nr. 11a.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að ákvörðun húsfundar 8. nóvember 2021 um að heimila dýrahald sé ólögmæt.

Í álitsbeiðni kemur fram að haustið 2021 hafi nýr eigandi flutt í hús nr. 11a með tvo inniketti og fengið undirskrift þrettán íbúa af fimmtán sem hafi samþykkt kattahaldið. Samkvæmt húsreglum frá árinu 2012 sé allt dýrahald bannað. Stjórn húsfélagsins hafi ekki talið þetta nægilegt samkvæmt lögum um fjöleignarhús og hafi boðað til húsfundar með íbúum í 11a. Sá fundur hafi verið haldinn 8. nóvember 2021 og verið boðaður með löglegum fyrirvara. Á fundinn hafi mætt níu íbúar af fimmtán. Tillaga um kattahaldið hafi verið samþykkt með sex atkvæðum gegn þremur. Stjórnin hafi talið að þar sem meirihluti á fundinum hefði samþykkt kattahaldið væri málinu lokið. Á það hafi verið bent að þetta stæðist ekki þar sem 2/3 íbúa í stigagangi þyrfti til að samþykkja kattahaldið með vísan til fjöleignarhúsalaga. Fyrir liggi að þeir sex sem hafi samþykkt séu ekki 2/3 hluta íbúa í stigagangi hússins.

Í greinargerð gagnaðila segir að hann sem formaður húsfélagsins hafi samþykkt að niðurstaða húsfundarins hafi jafngilt því að kattahald væri leyfilegt í íbúð 402. Löglega hafi verið boðað til fundarins, meirihluti íbúa stigagangsins hafi mætt, eða níu eigendur af fimmtán, og meirihluti þeirra samþykkt kattahaldið, eða sex af níu.

III. Forsendur

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. e. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang, sbr. einnig 10. tölul. B liðar 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 42. gr. segir að sé um að ræða ákvarðanir sem falli undir B lið 41. gr. verði að minnsta kosti helmingur eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta að vera á fundi og tilskilinn meirihluti þeirra að greiða atkvæði með tillögu. Í 3. mgr. sömu greinar segir að sé fundarsókn ekki nægileg samkvæmt 2. mgr. en tillagan þó samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða á fundinum, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, skuli innan fjórtán daga halda nýjan fund og bera tillöguna aftur upp á honum. Sá fundur geti tekið ákvörðun án tillits til fundarsóknar og fái tillagan tilskilinn meiri hluta (2/3) á fundinum teljist hún samþykkt.

Á húsfundi stigagangsins í C 11a sem haldinn var 8. nóvember 2021 var borin upp til atkvæðagreiðslu tillaga um að heimila tilteknum eiganda kattahald í íbúð sinni. Samkvæmt fundargerð húsfundarins voru mættir níu eigendur af fimmtán. Sex eigendur greiddu atkvæði með tillögunni en þrír eigendur greiddu gegn tillögunni. Ljóst er að fundarsókn var nægileg til þess að unnt væri að taka ákvörðun um kattahaldið og einnig að 2/3 hluta eigenda þeirra sem mættu greiddu atkvæði með tillögunni, sbr. framangreind 2. mgr. 42. gr. laga um fjöleignarhús. Telur kærunefnd því að ákvörðun húsfundar um að heimila kattahald í íbúð 402 hafi verið lögmæt.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

 


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 15. mars 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum