Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 239/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 239/2019

Miðvikudaginn 18. september 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. júní 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá X 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 22. maí 2019, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með barni þeirra frá X. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. maí 2019, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar um meðlagsgreiðslur til barnsmóður hans frá X 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júní 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. júní 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júní 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru verður ráðið að kærandi geri kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi og barnsmóðir hans hafi á árinu X skrifað undir samning við slit sambúðar þeirra um að lögheimili barns þeirra yrði hjá móður og að kærandi myndi greiða meðlag með barninu. Sá sem hafi séð um gerð samningsins hafi sagt að svona samningar væru alltaf gerðir en að þau myndu ákveða hvernig þau vildu hafa þetta. Þau hafi samið um að barnið myndi dvelja viku og viku í senn hjá þeim og að öllum greiðslum yrði skipt og því yrði ekki greitt meðlag með barninu. Þá hafi þau verið sammála um að lögheimili barnsins yrði annað hvort ár hjá hvoru þeirra þangað til að reglum yrði breytt á þá leið að börn mættu hafa lögheimili á tveimur stöðum.

Barnsmóðir kæranda hafi allt í einu farið fram á greiðslu meðlags þrátt fyrir að þau séu enn með barnið viku og viku og greiðslum sé skipt varðandi barnið, þó svo hann geti svarið fyrir það að fleiri greiðslur hafi komið úr hans vasa undanfarin ár. Barnsmóðir hans neiti honum um öll samskipti og nú hafi hann fengið reikning upp á X kr., þ.e. meðlag X ár aftur í tímann. Að mati kæranda séu þetta forneskjuleg vinnubrögð.

Kærandi sé ekki sáttur við þessa ákvörðun. Kærandi hafi enga trú á því að þessi fjárhæð fari í barnið og því finnist honum það ekki eiga við nein rök að styðjast að honum sé gert að greiða barnsmóður sinni X króna eingöngu vegna þess að hún eigi rétt á því. Nauðsynlegt sé að skoða málið frá ýmsum hliðum áður en gamlar hefðir og reglugerðir geti gert veikum einstaklingum það kleift að ráðast á annað fólk með þessum hætti. Hagsmunir barnsins séu ekki hafðir að leiðarljósi heldur einungis lagalegur réttur veiks einstaklings til að ná sér niðri á kæranda.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með syni þeirra, B, frá X 2018.

Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. maí 2019, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá X 2018 með syni þeirra. Tryggingastofnun hafði borist umsókn barnsmóður kæranda þann 22. maí 2019 um meðlag frá X, ásamt staðfestingu á samkomulagi um lögheimili og meðlag frá Sýslumanninum C, dags. X, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með syni sínum frá X til 18 ára aldurs.

Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. staðfesting á samkomulagi um lögheimili og meðlag, dags. X, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsmóður hans. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um meðlag.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun, sé þess farið á leit við stofnunina, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. maí 2018, eða 12 mánuði aftur í tímann frá því umsókn hennar hafi borist og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá X 2018.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að tólf mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur allt að tólf mánuði aftur í tímann, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með syni þeirra með rafrænni umsókn þann 22. maí 2019 frá X til 18 ára aldurs hans. Stofnunin samþykkti umsóknina frá X 2018 á grundvelli staðfestingar Sýslumannsins C á samkomulagi um meðlag, dags. X. Samkvæmt samkomulaginu ber kæranda að greiða barnsmóður sinni meðlag frá X til 18 ára aldurs barnsins. Þá liggur fyrir að greiðslurnar voru ekki samþykktar lengra aftur í tímann en heimild 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar kveður á um.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber stofnuninni lögbundin skylda til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum og sama gildir um staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur.

Í kæru kemur fram að sonur kæranda dvelji til jafns hjá honum og barnsmóður hans og að öllum greiðslum er varði barnið sé skipt á milli þeirra. Þar segir enn fremur að kærandi hafi ekki greitt meðlag í samræmi við samkomulag um lögheimili og meðlag, dags. X, uns milliganga Tryggingastofnunar hófst. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að greiða meðlag í samræmi við meðlagsákvörðun. Þá telur úrskurðarnefndin að ákvæði 4. mgr. 63. gr. laganna feli í sér takmörkun á greiðslu meðlags aftur í tímann, þ.e. að ekki sé heimilt að greiða meðlag lengra en tólf mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem viðeigandi gögn bárust Tryggingastofnun. Í ljósi þess og með hliðsjón af þróun lagaákvæðisins og lögskýringargögnum telur úrskurðarnefnd velferðarmála að túlka verði heimild Tryggingastofnunar til greiðslu aftur í tímann samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar á þá leið að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann í samræmi við lagaákvæðið ef meðlagsákvörðun kveður á um það, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá X 2018.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá X 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum