Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 35/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. október 2021
í máli nr. 35/2021:
Leiktæki og sport ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Metatron ehf.

Lykilorð
Stöðvunarkröfu hafnað. Bindandi samningur.

Útdráttur
Kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar var hafnað þar sem kominn var á bindandi samningur, sbr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni af kærunefnd útboðsmála 15. september 2021 kærði Leiktæki og sport ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 15276 auðkennt „Keppnisvöllur Vals á Hlíðarenda í Reykjavík. Endurnýjun gervigrass 2021“. Kærandi krefst þess aðallega að hið kærða útboð verði fellt úr gildi og lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik en til vara að „felldir verði niður tveir skilmálar í grein 1.1.4 í útboðsgögnum. Annars vegar skilmáli um „stitches=Frá 180/m“ og hins vegar „Stöðluð silica sandfylling. 18-22 kg/m2.“ Að því frágengnu krefst kærandi þess að framangreindir skilmálar „verði gerðir valkvæðir“. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðili greiði kæranda málskostnað. Loks krefst kærandi þess að samningsgerð milli varnaraðila og Metatron ehf. í kjölfar hins kærða útboðs verði stöðvuð um stundarsakir en hafi samningur verið gerður krefst kærandi þess að hann verði lýstur óvirkur.

Með tölvupósti kærunefndar útboðsmála 15. september 2021 var kæranda tilkynnt að kæra hans fullnægði ekki áskilnaði 2. mgr. 106. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 og honum veittur frestur til 17. sama mánaðar til að bæta úr, sbr. 3. mgr. sama lagaákvæðis. Kærandi sendi lagfærða kæru ásamt gögnum til nefndarinnar 17. september 2021.

Varnaraðila og Metatron ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Varnaraðili sendi athugasemdir til nefndarinnar með tölvupósti 20. september 2021 og krafðist þess að stöðvunarkröfunni yrði hafnað meðal annars með vísan til þess að kominn væri á bindandi samningur í málinu. Metatron ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um að samningsgerð milli varnaraðila og Metatron ehf. í kjölfar hins kærða útboðs verði stöðvuð um stundarsakir en málið bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í júlí 2021 stóð varnaraðili fyrir hinu kærða útboði þar sem óskað var eftir tilboðum í endurnýjun á gervigrasi keppnisvallar Vals á Hlíðarenda í Reykjavík. Tilboð voru opnuð 11. ágúst 2021 og bárust tilboð frá kæranda og Metatron ehf. en síðarnefnda fyrirtækið skilaði þremur tilboðum í útboðinu. Samkvæmt fundargerð opnunarfundar var tilboð kæranda lægst að fjárhæð. Með tölvupósti 26. ágúst 2021 tilkynnti varnaraðili kæranda að ákveðið hefði verið að ganga að „Tilboði 2“ frá Metatron ehf. og að tilboð kæranda uppfyllti ekki kröfur í útboðsgögnum. Kærandi óskaði samdægurs eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Varnaraðili veitti slíkan rökstuðning með tölvupósti 2. september 2021. Með tölvupósti 1. september 2021 var bjóðendum tilkynnt að tilboð Metatron ehf. væri endanlega samþykkt og því kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs fyrirtækisins.

Niðurstaða
Í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að bindandi samningur samkvæmt lögunum verði ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Eins og rakið hefur verið var ákvörðun um val tilboðs kynnt bjóðendum 26. ágúst 2021 og að loknum biðtíma, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna, var tilboð Metatron ehf. endanlegt samþykkt 1. september sama ár. Hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016, sbr. 3. mgr. 86. gr. laganna, og verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Leiktækja og sport ehf., um stöðvun á samningsgerð milli varnaraðila, Reykjavíkurborgar, og Metatron ehf. í kjölfar útboðs nr. 15276 auðkennt „Keppnisvöllur Vals á Hlíðarenda í Reykjavík. Endurnýjun gervigrass 2021“ er hafnað.


Reykjavík, 11. október 2021

Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum