Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 24/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. ágúst 2019
í máli nr. 24/2019:
Almenna umhverfisþjónustan ehf.
gegn
Grundarfjarðarbæ og
Þ. G. Þorkelsson verktaki ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 6. ágúst 2019 kærir Almenna umhverfisþjónustan ehf. innkaup Grundafjarðarbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) á verki auðkennt „Steypt gata við G. Run – milli Nesvegar og Sólvalla“. Skilja verður kæru svo að þess sé krafist að sú ákvörðun varnaraðila að ganga til samninga við Þ.G. Þorkelsson verktaka ehf. um verkið sé ógild og að samið verði við kæranda. Auk þess er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð um stundarsakir á meðan leyst er úr kæru þessari.

Í júní 2019 kveðst varnaraðili hafa framkvæmt verðfyrirspurn þar sem óskað var eftir tilboðum í ofangreint verk frá tveimur aðilum, kæranda og Þ.G. Þorkelssyni verktaka ehf. Verkið fólst í í yfirborðsfrágangi götu á milli Nesvegar og Sólvalla í Grundarfjarðarbæ, þ.e. steypu yfirborðs og gerð gagnstéttar meðfram götunni. Samkvæmt kostnaðaráætlun sem virðist hafa verið gerð í september 2018 var gert ráð fyrir að kostnaður við verkið myndi nema ríflega 23 milljónum króna. Nánar var fjallað um fyrirkomulag framkvæmda í verklýsingu sem hafði jafnframt að geyma magnskrá og teikningar. Af fundargerð opnunarfundar 4. júlí 2019 verður ráðið að tilboð hafi borist frá báðum aðilum. Var tilboð kæranda að fjárhæð 15.715.195 krónur en tilboð Þ.G. Þorkelssonar verktaka ehf. að fjárhæð 15.296.080 krónur. Fyrir liggur að fyrirsvarsmanni Þ.G. Þorkelssonar verktaka ehf. var gefið færi á því að bæta magnskrá við tilboð sitt eftir opnun tilboða. Hinn 5. júlí 2019 var bjóðendum sendur tölvupóstur frá ráðgjafa varnaraðila þar sem fram kom að farið hefði verið yfir bæði tilboðin og væru þau bæði talin fullgild. Lagt var til að samið yrði við lægstbjóðanda. Þá liggur fyrir að gerður var verksamningur um verkið milli varnaraðila og Þ.G. Þorkelssonar verktaka ehf. 10. júlí 2019. Að sögn varnaraðila var fyrirkomulagi verksins breytt eftir gerð samnings í tveimur tilteknum atriðum.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að fyrirsvarsmanni Þ.G. Þorkelssonar verktaka ehf. hafi verið leyft, eftir opnun tilboða, að sækja frekari gögn sem hefðu átt að fylgja tilboði hans þegar við opnun tilboða. Jafnframt er byggt á því að verklagi hafi verið breytt í tilteknum atriðum frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í verklýsingu. Þá hafi verið gengið ómálefnalega langt í gæðakröfum í verklýsingu með því að gera kröfu um að múrarameistari með tilskilin leyfi frá Mannvirkjastofnun skyldi hafa yfirumsjón með útlögn og frágangi steypu.

Niðurstaða

Í máli þessu verður að miða við að varnaraðili hafi stefnt að gerð verksamnings í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. sömu laga er viðmiðunarfjárhæð verksamninga vegna útboðskyldu á Íslandi 49 milljón krónur. Fyrir liggur að kostnaðaráætlun vegna framangreinds verks nam ríflega 23 milljónum króna, og tvö tilboð bárust að fjárhæð ríflega 15 milljónir króna. Ekki var því skylt að bjóða út umrædd innkaup í samræmi við þau innkaupaferli sem mælt er fyrir í lögunum. Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laganna er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim. Verður því að miða við, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að mál þetta falli ekki undir valdsvið kærunefndar útboðsmála. Þá liggur fyrir að varnaraðili hefur þegar gert samning um hið kærða verk. Eru því ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á meðan leyst er úr kröfum í máli þessu samkvæmt 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Almennu umhverfisþjónustunnar ehf., um að samningsgerð um verkið auðkennt „Steypt gata við G. Run – milli Nesvegar og Sólvalla“, verði stöðvuð um stundarsakir, er hafnað.

Reykjavík, 15. ágúst 2019

Sandra Baldvinsdóttir

Eiríkur Jónsson

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum