Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 611/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 611/2021

Þriðjudaginn 22. febrúar 2022

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 16. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B um að synja beiðni hennar um að taka barnið C, í fóstur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C X ára gömul og er barnabarn kæranda.

Með umsókn, dags. 12. október 2021, óskaði kærandi eftir því að taka barnabarn sitt, C, í tímabundið fóstur nú þegar og í varanlegt fóstur færi svo að Landsréttur staðfesti Héraðsdóm B á þá leið að faðir yrði sviptur forsjá dóttur sinnar. Með erindi kæranda fylgdi leyfi Barnaverndarstofu, dags. 27. september 2021, þar sem kæranda var veitt heimild til að taka ættingjabarn í fóstur.

Erindi kæranda var tekið fyrir á meðferðarfundi hjá Barnavernd B 12. október 2021. Í bókun fundarins kemur fram það mat starfsmanna barnaverndar að það væri andstætt hagsmunum stúlkunnar að hún verði færð af því fósturheimili sem hún dvelji nú á. Stúlkan hafi aðlagast vel á fósturheimilinu og starfsmenn telji það vera of mikla röskun á högum hennar að taka hana úr umsjá núverandi fósturforeldra sinna og færa á annað fósturheimili, þrátt fyrir að um sé að ræða beiðni frá föðurömmu stúlkunnar. Í hinni kærðu ákvörðun er vakin athygli á að hægt sé að skjóta ákvörðun barnaverndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur.

Í kæru eru farið ítarlega yfir atvik og aðdraganda málsins. Fram kemur að kærandi telji að þau gögn er liggi að baki hinni kærðu ákvörðun séu afar mótsagnarkennd og mikið af upplýsingum sem samræmist ekki og gangi jafnframt beinlínis gegn staðhæfingum barnaverndar. Varðandi kæruheimild er vísað til 18. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004.

Barnavernd B krefst þess að staðfest verði ákvörðun hennar um að hafna því að kæranda verði falið að taka barnið C í fóstur.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B vegna málsins. Viðbótargögn bárust frá kæranda 21. nóvember 2021 og voru þau send Barnavernd B með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. nóvember 2021. Greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins barst með bréfi, dags. 2. desember 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2021. Með bréfi, dags. 16. desember 2021, bárust viðbótarathugasemdir lögmanns kæranda, auk frekari gagna, og voru þau send Barnavernd B til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um að taka C í fóstur og synjun Barnaverndar B á þeirri beiðni.

Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl) er barnaverndarnefnd heimilt að fela könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka samkvæmt reglum sem hún sjálf setur. Barnaverndarnefnd B samþykkti málsmeðferðarreglur Barnaverndar B 16. ágúst 2019, með síðari breytingum. Samkvæmt 19. gr. reglnanna er það Barnavernd B sem tekur ákvörðun um að ráðstafa barni í fóstur í samræmi við XII. kafla barnaverndarlaga.

Í kæru og hinni kærðu ákvörðun er vísað til kæruheimildar í 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur. Í reglugerðarákvæðinu kemur fram að hafi nákominn ættingi fengið leyfi Barnaverndarstofu til að taka barn í fóstur ber barnaverndarnefnd að meta hvort það þjóni hagsmunum barnsins best að ráðstafa því í fóstur til viðkomandi. Samkvæmt reglugerðarákvæðinu getur nákominn ættingi skotið synjun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála, nú úrskurðarnefndar velferðarmála.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. bvl. er hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015, afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til nefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum.

 

Í 33. gr. barnaverndarlaga er fjallað um umsjá barns sem er vistað utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd, sem tekið hefur við umsjá eða forsjá barns með heimild í lögunum, gera skriflega áætlun um trygga umsjá barnsins. Val barnaverndarnefndar á þeim, sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis samkvæmt 25. og 27.–29. gr. barnaverndarlaga, er ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar velferðarmála eða annars stjórnvalds samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 80/2011 um breytingu á barnaverndarlögum kemur fram það nýmæli að tekið er af skarið og mælt fyrir um að val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis sé ekki kæranleg ákvörðun. Það hefur í för með sér að hvorki foreldrar sem barn hefur búið hjá né þeir sem óska eftir að annast barn, geta skotið ákvörðun barnaverndarnefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála eða annars stjórnvalds. Þess má einnig geta að þeir sem eru ósáttir við ákvörðun barnaverndarnefndar geta kvartað til Barnaverndarstofu sem getur metið hvort barnaverndarnefnd hafi gætt lögmætra sjónarmiða og komið á framfæri ábendingum ef þurfa þykir, þótt ekki sé unnt að fella ákvörðun úr gildi. Samkvæmt þessu á 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur ekki við um úrlausn þessa máls.

 

Í XII. kafla laganna er fjallað um ráðstöfun barna í fóstur. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. er með fóstri í lögunum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í að minnsta kosti þrjá mánuði þegar foreldrar fara ekki lengur með forsjá barns af ástæðum sem tilgreindar eru nánar í lagaákvæðinu, þar á meðal þegar foreldrar hafa verið sviptir forsjá barns með dómi. Markmiðið með fóstri er samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum barnsins. Um val á fósturforeldrum er fjallað í 67. gr. laganna en ekki kemur fram að ákvarðanir samkvæmt lagagreininni sæti kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

 

Barnaverndarstofa veitir barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að barnaverndarnefnd, sem ráðstafar barni í fóstur, skuli senda beiðni til Barnaverndarstofu og velja fósturforeldra úr hópi þeirra sem eru á skrá samkvæmt 1. mgr. í samráði við Barnaverndarstofu. Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga annast Barnaverndarstofa leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum samkvæmt XII. kafla laganna. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga hefur Barnaverndarstofa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd laganna og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir. Barnaverndarstofa hefur jafnframt eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum.

 

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður ekki séð að sú ákvörðun, sem kærð hefur verið, sé kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt því ber að vísa kæru frá úrskurðarnefndinni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna ákvörðunar Barnaverndar B um að synja beiðni hennar um að taka barnið C í fóstur, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum