Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 344/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 344/2022

Mánudaginn 12. september 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, móttekinni 3. júlí 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 16. júní 2022 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul stúlka sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna og er með lögheimili hjá móður. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis móður frá 7. febrúar 2022 á grundvelli 27. og 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Frá 30. mars 2022 hefur stúlkan verið í umsjá föður síns, sem er búsettur í E, samkvæmt b-lið 67. gr. bvl.

Mál stúlkunnar og eldri systur hennar á sér langa forsögu og hafa alls 55 tilkynningar borist barnavernd frá árinu 2009. Mál þeirra hafa níu sinnum verið til meðferðar á grundvelli barnaverndarlaga vegna áhyggna af aðstæðum stúlknanna í umsjá móður.

Mál stúlkunnar var lagt fyrir Barnaverndarnefnd B 1. mars síðastliðinn með tillögu um vistun hennar utan heimilis til 1. júlí 2022 eftir að stúlkan og eldri systir hennar greindu frá andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu móður og stjúpföður. Kærandi hafnaði vistun stúlkunnar utan heimilis og var málið tekið til úrskurðar samkvæmt 27. gr. bvl. Kærandi undirritaði dómsátt í Héraðsdómi B þann 26. apríl 2022 og féllst á vistun stúlkunnar til 1. júlí 2022.

Ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag umgengni á vistunartíma stúlkunnar. Kærandi samþykkti ekki tillögur starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar þann 16. júní 2022. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi ekki umgengni við móður sína, A.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. júlí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. júlí 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 20. júlí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 29. júlí 2022, var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda 12. ágúst 2022 og voru þær sendar barnaverndarnefnd með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. ágúst 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að fyrir hönd kæranda sé með vísan til 8. mgr. 74. gr. bvl. skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurði Barnaverndarnefndar B um umgengni móður við dóttur sína, sem hafi verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B 7. júní 2022, en úrskurður hafi ekki verið kveðinn upp fyrr en 16. júní 2022. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar sé svohljóðandi:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi ekki umgengni við móður sína, A. Úrskurður þessi gildir út vistunartímann.“

Í fyrsta lagi sé gerð alvarleg athugasemd við að Barnaverndarnefnd B hafi ekki kveðið upp úrskurð fyrr en 16. júní eftir fundinn 7. júní. Það verði að teljast of langur tími í slíku máli og til viðbótar hafi úrskurðurinn ekki verið sendur lögmanni kæranda fyrr en 1. júlí þó að gengið hafi verið eftir úrskurðinum ítrekað.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála felli fyrrgreindan úrskurð úr gildi.

Stúlkan hafi verið úrskurðuð í vistun utan heimilis í tvo mánuði til viðbótar, eða til 1. september 2022. Margt hafi verið borið ranglega á kæranda í gegnum árin og margt rangt sé í gögnum Barnaverndar B. Eini úrskurður Barnaverndarnefndar B, sem hafi verið gerður um vistun stúlkunnar utan heimilis í gegnum árin fram að úrskurði í mars 2022, hafi verið felldur úr gildi af Héraðsdómi B árið 2014.

Nú hafi verið borið á kæranda ofbeldi gagnvart stúlkunni og stangist það á við allt sem stúlkan hafi áður sagt um atlæti kæranda við sig. Stúlkan hafi sagt „mamma er best“ og staðfest hafi verið í forsjármati að tengsl stúlkunnar við kæranda væru náin og góð. Stúlkunni hafi gengið vel í skóla og mætingu ekki verið ábótavant. Þá hafi hún alltaf verið sögð hrein og vel til fara. Það sé því með ólíkindum að nú sé borið á kæranda vanræksla og líkamlegt og andlegt ofbeldi gagnvart stúlkunni. Stúlkan hafi einnig verið sögð glöð og ánægð, bæði í leikskóla og frá upphafi grunnskólagöngu. Stúlkan hafi því ekki borið með sér vanrækslu eða slæman aðbúnað að neinu leyti.

Ljóst sé að faðir sé í forsjárdeilu við kæranda og virðist hann beita Barnaverndarnefnd B fyrir sig í málinu. Faðir stúlkunnar búi í E og hafi búið þar undanfarin ár og ekki komið að uppeldi stúlkunnar. Hann hafi hent kæranda út af sameiginlegu heimili þeirra þegar kærandi hafi gengið með stúlkuna og jafnframt tekið af henni lykilinn. Þannig hafi hann skilið kæranda eftir ófríska á götunni með eldra barn hennar sem hafi þá verið um X ára. Maðurinn hafi einn setið eftir í íbúðinni og vinafólk hafi hirt konuna upp af götunni og farið með hana í Kvennaathvarfið. Þetta hafi verið aðkoma föður að lífi og uppeldi stúlkunnar.

Eftir að stúlkan hafi komið til föður hafi kærandi haft heimild til að hringja tvisvar í viku í stúlkuna á ákveðnum tíma. Kærandi hafi gert það í eitt skipti í viðurvist lögmanns síns og í önnur skipti í viðurvist sálfræðings sem hún hafi verið í viðtölum hjá að ráði barnaverndar. Síðustu símtöl hafi hún reynt að hringja af skrifstofu lögmanns í viðurvist lögmanns sem hafi verið vitni að sendingum einkaskilaboða föður á þessum tilgreinda tíma sem símtöl hafi verið ákveðin af barnavernd. Þau viðtöl sem kærandi hafi náð að eiga við dóttur sína hafi gengið vel fyrir utan það að faðir hafi gripið inn í símtölin, verið með skæting við kæranda og leiðindasvör, og gripið fram í fyrir stúlkunni. Það hafi stressað stúlkuna. Í síðasta skiptið sem kærandi hafi náð samband við stúlkuna hafi stúlkan beðið hana um að hringja í sig aftur á morgun.

Lögmaður kæranda og sálfræðingur hennar, sem hafi verið vitni að símtölunum, hafi staðfest að kærandi hafi hvorki verið með hótanir né skammir við stúlkuna og ekki talað við hana á H, líkt og faðir stúlkunnar hafi haldið fram. Umsagnir föður um símtölin séu því ósannar. Símtöl þeirra hafi virst kærleiksrík og farið vel með þeim mæðgum í símtölunum.

Í eitt skiptið þegar kærandi hafi verið hjá sálfræðingi til að hringja í dóttur sína hafi ekki verið svarað, þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað reynt að hringja. Haft hafi verið samband við barnavernd sem hafi sagt að faðirinn hefði hringt til barnaverndar og látið vita að hann hefði ekki náð að svara og reynt að hringja til baka í kæranda sem hefði ekki svarað. Það sé ósatt því að ekkert ósvarað símtal hafi verið á síma kæranda sem komi sé reynt að hringja. Sálfræðingurinn sé vitni að því að ekki hafi verið hringt í kæranda á þessum tíma og að ekki hafi verið „missed call.“ Ljóst sé að faðir greini barnavernd ranglega frá í þessu tilviki. Einnig telji lögmaður kæranda mjög ótrúlegt að stúlkan vilji ekki tala við kæranda eins og faðir segi að staðan sé núna. Lögmaður kæranda telji frekar að faðir beiti stúlkuna þrýstingi til að tala ekki við kæranda því að ljóst sé að hann ætli að láta taka stúlkuna af kæranda og fá forsjá hennar einn. Eftir tilgreint tilvik hafi ekki verið svarað í símann á þeim tíma sem kæranda hafi verið heimilað að hringja en faðir hafi svarað kæranda með sms skilaboðum og fylgi þau með til upplýsingar. Barnaverndarnefnd hafi einnig þessi skilaboð frá föður til kæranda sem sýni framkomu hans en ekki sé tekið tillit til kæranda í máli þessu. Henni sé ekki trúað á nokkurn hátt en hún segist ekki hafa beitt dætur sínar ofbeldi, hvorki andlegu né líkamlegu.

Kærandi hafi fallist á að undirgangast forsjárhæfnismat og að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis til 1. júlí 2022. Dómari hafi lagt áherslu á það við vinnslu réttarsáttar að reynt yrði að hafa samskipti á milli kæranda og barna og að kærandi fengi að minnsta kosti að hafa símasamskipti við dætur sínar.

Forsjárhæfnismati sé lokið en ljóst sé að kærandi hafi ekki notið túlks fyllilega við vinnslu málsins eins og til hafi staðið og próf verið lögð fyrir matsþola í of langan tíma í einu, allt að sex tíma án matar, og kveðist kærandi ekki hafa skilið allar spurningar. Jafnframt segi sálfræðingur sem hafi framkvæmt matið að við vinnslu prófa hafi hann bent kæranda á hvernig hún ætti að svara. Slíkt valdi auðvitað því að matið sé marklaust og ógilt en á það hafi barnavernd ekki fallist og ekki fallist á að láta þýða matið á ensku svo að kærandi gæti lesið það sjálf. Kærandi sé nú í heimalandi sínu F og því mjög erfitt að þýða fyrir hana 50 blaðsíður frá orði til orðs munnlega og símleiðis. Því verði þessi afstaða barnaverndar að teljast alvarlegt brot stjórnvalds en þýðingu hafi verið neitað á þeim forsendum að kærandi hafi lögmannsaðstoð. Ekki sé hægt að ætlast til þess að lögmaður þýði slíkt mat frá orði til orðs munnnlega og símleiðis, án þess að fá greitt fyrir. Lögmaður aðstoði með réttindi og skyldur lögum samkvæmt en eigi ekki að veita slíka túlkaþjónustu. Eðlilega hafi lögmaðurinn greint kæranda efnislega frá matinu og niðurstöðu þess og að beiðni kæranda mótmælt því og krafist að nýtt mat yrði gert. Á það hafi barnavernd ekki hlustað.

Í ljósi þess, sem að framan greinir, sé þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úrskurðinn úr gildi. Til frekari glöggvunar sé í viðhengi greinargerð lögmanns kæranda sem hafi verið lögð fram á fundi 7. júní 2022 og einnig greinargerð lögmanns sem hafi verið lögð fram á fundi 21. júní 2022. Einnig fylgi með skjáskot af einkaskilaboðum föður til kæranda þegar hún hafi verið að reyna tala símleiðis við dóttur sína á þeim tíma sem barnavernd hafi heimilað. Jafnframt fylgi hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar B.

Í athugasemdum lögmanns kæranda, dags. 12. ágúst 2022, kemur fram að þess sé krafist að kærandi fái að hringja minnst tvisvar í viku en helst oftar í stúlkuna. Kærandi ítreki eftirfarandi skrif í greinargerð sinni til Barnaverndarnefndar B og hafi forsendur síðar en svo breyst. Ekki sé fallist á að faðir stúlkunnar hafi eftirlit með símtölum líkt og hann hafi gert því að ljóst sé að hann sé algerlega ófær um það. Í fyrsta lagi svari hann ekki í símann á þeim tíma sem kærandi megi hringja. Í eitt skipti hafi hann hringt í starfsmann barnaverndar og sagt ósatt um að hann hafi reynt að hringja í kæranda en hún hafi ekki svarað. Ekkert „missed call“ hafi komið á síma kæranda en það komi á alla síma sé reynt að hringja og ekki svarað. Kærandi hafi oftar en einu sinni reynt að hringja og faðir stúlkunnar hafi ekki svarað. Kærandi hafi þá verið hjá G sálfræðingi, en lögmaður kæranda hafi beðið hana að leyfa kæranda að hringja hjá henni og vera vitni að símtölum því að faðir stúlkunnar hafi þá borið upp á kæranda að hún væri með hótanir og skammir við stúlkuna í símann. Kærandi hafi hringt af skrifstofu lögmanns síns og lögmaðurinn verið vitni að símtölum þar sem kærandi hafi verið mjög blíð og góð við stúlkuna og sagst elska hana og sakna hennar. Lögmaður kæranda geti ekki túlkað það sem skammir. Síðan hafi þær spjallað saman elskulega og kærandi bæði verið hlýleg og blíð við hana. Faðir stúlkunnar hafi hins vegar ítrekað gripið inn í símtölin með dónaskap og skæting við kæranda. Auðheyrt hafi verið að það olli stúlkunni vanlíðan og heyrðist að henni hafi orðið þungt um andardrátt.

Lögmaður kæranda hafi ekki heyrt hana segja eitt orð á H í símtölunum. Allt frá því að faðir stúlkunnar hafi ekki svarað í símann og hringt til starfsmanna barnaverndar til að tilkynna að hann hefði hringt í kæranda en hún ekki svarað, hafi hann ekki svarað í símann á þeim tíma þegar kærandi hafi hringt á umsömdum tíma í stúlkuna, þ.e. miðvikudögum og föstudögum. Um tilsvör föður stúlkunnar og vistunaraðila hennar sé vísað til skjáskota sem hafi fylgt með greinargerð lögmanns kæranda til Barnaverndarnefndar B.

Ljóst sé að hér stjórni faðir stúlkunnar ferðinni sem virðist leggja kæranda í einelti sem sé ekki í forsjárdeilu við hana og beiti fyrir sig bæði stúlkunni og barnaverndarnefnd. Kærandi kannist ekki við að hafa beitt stúlkuna slíku ofbeldi og sé sú frásögn ekki marktæk.

Forsjárhæfnismatsgerð sé verulega illa unnin, miklar rangfærslur og ósannar frásagnir séu í henni að krafa hafi verið gerð um að yfirmat yrði gert á kæranda. Ekki sé hægt að leggja matið til grundvallar í málinu. Óskiljanlegt sé hvað matsmanni hafi gengið til með skrifum sínum og röngum upplýsingum um staðreyndir, svo sem þann tíma sem það hafi tekið matsþola að svara matslistum. Slíkt valdi ógildi mats.

Barnaverndarnefnd hafi ekki svarað kröfu um yfirmat og slíkt sé valdníðsla. Þá hafi Barnavernd B einnig neitað að láta í té skriflega þýðingu á ensku til að matsþoli gæti sjálf lesið matið. Þessi framkvæmd sé einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar. Telja verði að matsþoli eigi rétt á að fá svo íþyngjandi skrif um sig á því tungumáli sem hún geti lesið. Matsþoli sé erlendis og ekki nægilegt að túlkur þýði munnlega fyrir hana símleiðis. Það sé ekki það sama og að geta lesið sjálfur. Krafist sé þess að úrskurðarnefndin úrskurði einnig um þann þátt þar sem ljóst sé að matið sé lagt til grundvallar í úrskurðinum og fylgi með gögnum málsins þó að það hafi borist eftir fund barnaverndarnefndar.

Í ljósi alls ofangreinds sé kæra og framangreindar kröfur ítrekuð.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að um sé að ræða mál stúlkunnar D, X ára gamla, sem lúti sameiginlegri forsjá forseldra sinna og sé með lögheimili hjá kæranda. Stúlkan eigi eina eldri systur sem sé X ára. Þá eigi hún tvær yngri hálfsystur sammæðra og tvær eldri hálfsystur samfeðra.

Mál stúlkunnar og eldri systur hennar eigi sér langa forsögu hjá Barnavernd B og hafi áhyggjur verið af stúlkunum í umsjá kæranda með hléum frá árinu 2009 þegar fyrsta tilkynning hafi borist. Alls hafi 55 tilkynningar borist frá árinu 2009. Um sé að ræða tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun eldri stúlkunnar. Mál systranna hafi níu sinnum verið til meðferðar á grundvelli barnaverndarlaga vegna áhyggna af aðstæðum stúlknanna í umsjá kæranda. Mál þeirra hafi verið í samfelldri vinnslu síðan 2019 eftir að eldri stúlkan greindi frá andlegu ofbeldi af hálfu kæranda. Samkvæmt áætlun um meðferð máls hafi stúlkan og kærandi verið í reglulegum fjölskyldumeðferðarviðtölum hjá fagaðila en erfiðlega hafi gengið að framfylgja því þar sem kærandi hefði dvalið erlendis frá dætrum sínum til margra mánaða. Í lok janúar 2022 hafi borist tilkynning um að báðar stúlkurnar væru beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu kæranda. Þá hafi einnig komið fram í tilkynningu að sambýlismaður kæranda beitti þær ofbeldi. Rætt hafi verið við báðar stúlkurnar og þær lýst grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu kæranda sem og andlegu ofbeldi af hálfu sambýlismanns móður, auk eins tilviks þar sem hann hafi beitt yngri stúlkuna ofbeldi. Stúlkurnar hafi þegar verið farnar af heimilinu þegar tilkynning hafi borist. Þann 9. febrúar síðastliðinn hafi stúlkurnar verið vistaðar utan heimilis kæranda með samþykki hennar á grundvelli 25. gr. bvl. Þær hafi dvalið hjá hálfsystur sinni, samfeðra, á Akranesi. Þann 15. febrúar 2022 hafi mál stúlknanna verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þar sem ákveðið hafi verið að vísa máli stúlknanna í lögreglurannsókn. Þá hafi stúlkurnar lýst því hvernig kærandi hefði lamið þær, meðal annars með belti, í bak, hendur og fætur.

Mál stúlkunnar hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B 1. mars síðastliðinn með tillögu um vistun hennar og systur hennar utan heimilis til 1. júlí 2022. Kærandi hafi hafnað vistun og málið tekið til úrskurðar samkvæmt 27. gr. bvl. og borgarlögmanni falið að höfða mál fyrir Héraðsdómi B og gera kröfu um vistun til tveggja mánaða í viðbót, eða til 1. júlí 2022. Kærandi hafi undirritað dómsátt í Héraðsdómi B þann 26. apríl 2022 og fallist á vistun stúlknanna til 1. júlí 2022.

Stúlkan hafi frá 30. mars 2022 verið í umsjá kæranda, sem sé búsettur í E, á grundvelli b-liðar 67. gr. bvl. Ekki hafi náðst samkomulag um umgengni en kærandi hafi farið fram á að fá að hringja í stúlkuna að vild og ræða við hana í síma án afskipta föður. Málið hafi því verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann 7. júní 2022 með tillögu um að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði tvisvar sinnum í viku í síma, yrði stúlkan í samvinnu um það. Lagt hafi verið til að faðir sinnti eftirliti með umgengninni. Skilyrði umgengni sé að hún fari ekki fram á H. Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 31. maí 2022, komi fram það mat að það séu ekki hagsmunir stúlkunnar að umgengni verði með þeim hætti sem kærandi hafi óskað eftir. Mikilvægt sé að stúlkan, sem hafi lýst langvarandi og ítrekuðu líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu kæranda, upplifi öryggi í þeim aðstæðum sem hún dvelji í og komið verði til móts við skoðanir hennar og vilja. Þá komi fram að stúlkan hafi greint starfsmanni frá því að hún vilji tala við kæranda í síma og að hún vilji að faðir hlusti á símtölin. Hún hafi sagt frá því að henni finnist óþægilegt þegar kærandi sé með ásakanir gegn henni og hún vilji ekki að hún hringi oftar en tvisvar sinnum í viku. Einnig hafi hún sagt að hún viti ekki alveg um hvað hún eigi að tala við mömmu sína og að henni finnist það erfitt.

Lögmaður kæranda hafi mætt á fund barnaverndarnefndar 7. júní síðastliðinn. Lögmaður kæranda hafi lagt fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og gert grein fyrir sjónarmiðum kæranda. Faðir stúlkunnar hafi einnig mætt á fund nefndarinnar í gegnum fjarfundabúnað. Löglærður talsmaður stúlkunnar hafi einnig mætt á fund nefndarinnar. Hún hafi komið á framfæri sjónarmiðum stúlkunnar og lagt fram skýrslu sína, dags. 6. júní 2022. Í máli talsmanns komi fram að stúlkan hafi verið skýr í afstöðu sinni til þess að hún vildi ekki tala við kæranda. Talsmaður hafi sagt að stúlkan þekkti sig, þær hefðu hist fyrr í vetur og stúlkan viti vel hvaða hlutverki hún gegni fyrir hennar hönd. Talsmaður hafi ekki ástæðu til að efa að stúlkan greini rétt og satt frá. Hún hafi spurt hana hversu oft og hve lengi hún vilji umgengni en stúlkan hafi ekki svarað því. Þegar talsmaður hafi umorðað spurninguna hvort hún vildi umgengni hafi hún svarað því skýrt neitandi. Talsmaður hafi sagt mikilvægt að stúlkan fái frið í þeim aðstæðum sem hún sé núna. Það væri vissulega álag sem hafi fylgt breyttum högum hennar, hún væri í nýju landi og nýjum skóla en stúlkan væri alveg skýr um það að hún vilji ekki tala við kæranda. Talsmaður hafi bent á mikilvægi þess að taka tillit til afstöðu stúlkunnar. Í framlagðri skýrslu talsmanns, dags. 6. júní 2022, komi jafnframt fram að það séu mikilvægir hagsmunir fyrir stúlkuna að hún fái frið í fóstrinu og upplifi stöðugleika og öryggi í aðstæðum sínum.

Í ljósi skýrs vilja stúlkunnar hafi nefndin ákveðið þann 7. júní 2022 að engin umgengni færi fram á tímabili vistunar og málið tekið til úrskurðar á grundvelli 4. mgr. 74. gr. bvl. Úrskurður nefndarinnar hafi legið fyrir þann 16. júní 2022 þar sem tekið hafi verið undir mat starfsmanna í greinargerð, dags. 31. maí 2022. Vísað hafi verið til þess að markmið með vistun stúlkunnar sé að bæta uppeldisaðstæður hennar í umsjá kæranda. Umgengni verði að meta með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar og það sé mat nefndarinnar að í ljósi skýrs vilja stúlkunnar þjóni það ekki hagsmunum hennar að vera í umgengni við kæranda. Mikilvægt sé að stúlkan upplifi ró í þeim aðstæðum sem hún dvelji nú í hjá föður. Með vísan til gagna málsins og með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar og skýrs vilja hennar hafi Barnaverndarnefnd B ákveðið að stúlkan hefði ekki umgengni við kæranda.

Mál stúlkunnar og systur hennar hafi verið tekið að nýju fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 21. júní 2022 með tillögu starfsmanna um að systurnar verði áfram vistaðar utan heimilis og að gerð verði krafa fyrir dómstólum um að kærandi verði svipt forsjá þeirra. Barnaverndarnefnd B hafi samþykkt tillögur starfsmanna eins og þær hafi legið fyrir á fundinum í greinargerð starfsmanna, dags. 14. júní 2022, og hafi málið verið tekið til úrskurðar. Úrskurður nefndarinnar um vistun samkvæmt 27. gr. bvl. hafi legið fyrir þann 28. júní 2022. Embætti borgarlögmanns hafi verið falið að krefjast þess fyrir dómi að kærandi verði svipt forsjá stúlknanna með bréfi, dags. 6. júlí 2022, sbr. bókun nefndarinnar, dags. 21. júní og úrskurður nefndarinnar þann 28. júní 2022.

Í 74. gr. bvl. sé að finna reglur um umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar eigi barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem séu því nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Þá segi í 2. mgr. 74. gr. að foreldrar eigi sama rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vera. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

Umgengni samkvæmt 74. gr. bvl. þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum stúlkunnar þar sem meðal annars beri að taka tillit til markmiða sem stefnt sé að og hversu lengi vistun sé ætlað að vara. Fari hagsmunir stúlkunnar og kæranda ekki saman verði hagsmunir kæranda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl.

Með úrskurði nefndarinnar þann 16. júní 2022 sé fyrst og fremst horft til hagsmuna og velferðar stúlkunnar. Umgengni í andstöðu við skýran vilja stúlkunnar sé að mati Barnaverndarnefndar B andstæð hagsmunum hennar. Umgengni geti aðeins farið fram sé stúlkan tilbúin til þess og vilji það.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni og vilja stúlkunnar að leiðarljósi, gerir Barnaverndarnefnd B kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða stúlkunnar

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að stúlkan hafi greint starfsmanni frá því að hún vilji tala við kæranda í síma og að hún vilji að faðir sinn hlusti á símtölin. Stúlkan hafi sagt frá því að henni finnist óþægilegt þegar kærandi sé með ásakanir gegn henni og vilji ekki að hún hringi oftar en tvisvar sinnum í viku. Einnig hafi hún sagt að hún viti ekki alveg um hvað hún eigi að tala við kæranda og að henni finnist það erfitt.

Á fundi barnaverndarnefndarinnar 7. júní 2022 lagði löglærður talsmaður stúlkunnar fram skýrslu, dags. 6. júní 2022, þar sem gerð var grein fyrir sjónarmiðum stúlkunnar. Þar komi fram að stúlkan hefði verið skýr í afstöðu sinni til þess að hún vildi ekki tala við kæranda. Talsmaður hafi ekki ástæðu til að efast um að stúlkan greini satt og rétt frá. Hún hafi spurt hana hversu oft og hve lengi hún vilji umgengni en stúlkan hafi ekki svarað því. Þegar talsmaður hafi umorðað spurninguna hvort hún vildi umgengni hafi hún svarað skýrt neitandi. Talsmaður hafi sagt mikilvægt að stúlkan fái frið í þeim aðstæðum sem hún sé núna. Það væri vissulega álag sem hafi fylgt breyttum högum hennar, hún væri í nýju landi og nýjum skóla en stúlkan væri alveg skýr um það að hún vildi ekki tala við kæranda. Talsmaður hafi bent á mikilvægi þess að taka tillit til afstöðu stúlkunnar.

V. Afstaða föður

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við vinnslu málsins hafi komið fram hjá föður að hann telji nauðsynlegt að hann hlusti á símtöl á milli stúlkunnar og kæranda þar sem kærandi hafi í fyrri símtölum við stúlkuna skammað hana. Hún hafi þá talað við hana á H. Faðir segir að það hafi valdið stúlkunni vanlíðan og að hún upplifi óöryggi sé síminn ekki stilltur á hátalara. Einnig hafi faðir sagt að kærandi hafi ónáðað stúlkuna mikið þegar hún hafi verið með símann sinn og verið með hótanir við hana.

Þá kemur fram að faðir sé samþykkur tillögum og hann sé hlynntur umgengni stúlkunnar við kæranda í gegnum síma. Hann hafi greint frá því að hann telji mikilvægt að hann sé með stúlkunni þegar símaumgengni eigi sér stað og að hann hlusti á símtölin.

Faðir hafi mætt á fund barnaverndarnefndar 7. júní 2022 í fjarfundabúnaði. Faðir hafi sagt í þau skipti sem hann hefði ekki svarað að það hefði verið vegna þess að stúlkan hefði verið alveg skýr um að hún vildi ekki tala við kæranda. Stúlkan hefði samþykkt það í símtali að heyra aftur í kæranda daginn eftir einungis til að losna við hana úr símanum. Faðir hafi vísað til nýlegs símtals þar sem stúlkan hafi komið fram eftir símtalið og sagt að hann mætti ekki deyja.


 

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna og er með lögheimili hjá móður. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 16. júní 2022 var ákveðið að stúlkan skyldi ekki eiga umgengni við kæranda á vistunartíma stúlkunnar. Stúlkan hefur verið í umsjá föður frá 30. mars 2022 á grundvelli 67. gr. b. bvl. Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við stúlkuna á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 31. maí 2022, segir að það sé mat starfsmanna að það sé mikilvægt að stúlkan, sem hafi lýst langvarandi og ítrekuðu líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu kæranda, upplifi öryggi í þeim aðstæðum sem hún nú dvelji í og að komið verði til móts við skoðanir hennar og vilja. Þá segir í skýrslu talsmanns, dags. 6. júní 2022, að talsmaður hafi átt símtal við stúlkuna. Þar hafi talsmaður spurt stúlkuna hvort hún vildi tala við kæranda í síma og hafi stúlkan sagt skýrt nei. Að mati talsmanns sé mikilvægt að taka réttmætt tillit til afstöðu stúlkunnar, eins og hún eigi rétt á með tilliti til aldurs og þroska. Það séu mikilvægir hagsmunir stúlkunnar að fá frið og að hún upplifi stöðugleika og öryggi í aðstæðum sínum.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til vilja stúlkunnar og þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B er varðar umgengni stúlkunnar við kæranda.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 16. júní 2022 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum