Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 214/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 214/2017

Fimmtudaginn 14. desember 2017

A
gegn
Eyjafjarðarsveit

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. maí 2017, kærir B félagsráðgjafi, f.h. A, ákvörðun Eyjafjarðarsveitar, dags. 12. maí 2017, um synjun á beiðni hennar um ferðaþjónustu fatlaðra.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi óskaði eftir ferðaþjónustu frá Eyjafjarðarsveit á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Beiðni kæranda var synjað með bréfi sveitarfélagsins, dags. 12. maí 2017, með þeim rökum að hún hefði náð 67 ára aldri og því ættu lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra við í hennar tilviki. Þá kom einnig fram að ekki væri boðið upp á almenningssamgöngur í sveitarfélaginu.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með kæru, dags. 29. maí 2017. Með bréfi, dags. 8. júní 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Eyjafjarðarsveitar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Eyjafjarðarsveitar barst með bréfi, dags. 29. júní 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé lögblind á báðum augum og með þröngt sjónsvið. Hún sé því háð því að einhver annar keyri hana þangað sem hún þurfi að fara. Eiginmaður kæranda hafi að mestu séð um aksturinn en vegna veikinda hans og aldurs sé ekki hægt að treysta á að það gangi alltaf upp. Kærandi tekur fram að hún hafi óskað eftir akstursþjónustu frá sveitarfélaginu frá árinu 2012 en lítil sem engin svör fengið. Kærandi þurfi akstur til þess að stunda félagsstarf, sinna ýmsum útréttingum, fara í klippingu og hitta fólk.

Kærandi vísar til þess að hún falli undir lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks vegna sjónskerðingarinnar en í þeim lögum sé ekki að finna nein aldursmörk. Samkvæmt 5. gr. laganna eigi fatlaður einstaklingur rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og samkvæmt 10. gr. skuli fatlað fólk eiga kost á félagslegri þjónustu. Kærandi vísar einnig til 1. og 8. gr. leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk ásamt 19. og 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til stuðnings kæru sinni. Með vísan til framangreinds óskar kærandi eftir ferðaþjónustu til þess að verða sjálfstæðari með að komast á milli staða, draga úr einangrun og létta undir með eiginmanni sínum.

III. Sjónarmið Eyjafjarðarsveitar

Í greinargerð Eyjafjarðarsveitar er farið fram á að kröfu kæranda verði vísað frá en til vara að kröfu kæranda verði hafnað. Sveitarfélagið tekur fram að kærandi hafi ekki persónulega óskað eftir akstursþjónustu heldur hafi komið erindi árið 2012 frá Blindrafélaginu og Þjónustumiðstöð blindra og sjónskertra. Í því sé byggt á málsástæðum um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk en ekki sett fram krafa í nafni einstaklings. Krafa kæranda komi fram á lokablaðsíðu kærunnar þar sem óskað sé eftir að hún fái ferðaþjónustu til þess að vera sjálfstæðari með því að komast á milli staða, draga úr einangrun og létta undir með eiginmanni hennar. Framsetning kröfu kæranda sé með þeim hætti að Eyjafjarðarsveit telji hana ótæka til úrskurðar og því verði ekki hjá því komist að vísa henni frá. Þrátt fyrir að almennt eigi að gera minni kröfur til almennings við framsetningu stjórnsýslukæru verði ekki fram hjá því litið að Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hafi tekið að sér málareksturinn fyrir hönd kæranda. Því verði að gera strangari kröfur um framsetningu kröfugerðar í því tilviki en almennt yrðu gerðar til einstaklinga.

Eyjafjarðarsveit telur að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð í málinu þar sem henni hafi verið gerð grein fyrir að hún gæti óskað eftir ferliþjónustu í þeim tilvikum þegar hún hafi ekki aðrar bjargir og leitast yrði við að leysa úr þeim. Síðan þá hafi kærandi ekki óskað eftir akstursþjónustu svo kunnugt sé. Eyjafjarðarsveit tekur fram að fáir fatlaðir og aldraðir einstaklingar í sveitarfélaginu þurfi á ferliþjónustu að halda og aðstæður þeirra séu ólíkar. Óraunhæft sé að setja almennar reglur við þær aðstæður þar sem þær gætu um leið dregið úr möguleikum til að bregðast við einstaklingsbundnum tilvikum sem ekki féllu undir reglurnar. Þau tilvik sem upp hafi komið, þar sem þörf hafi verið á ferliþjónustu, hafi verið leyst í samstarfi við viðkomandi þjónustuþega eða fulltrúa hans, bæði viðvíkjandi fötluðum og öldruðum. Sveitarfélagið hafi stundum gengið lengra en lagafyrirmæli og skyldur segi til um og því reynt að leysa þarfir og óskir íbúanna í ferlimálum eftir því sem kostur er, oft í samstarfi við ættingja viðkomandi. Þar sem um sé að ræða fá tilvik á ári og aðstæður síbreytilegar, til að mynda á milli barns sem sæki skóla og þess sem ekki sæki skóla, sé ekki komin næg reynsla á þjónustuþörf og þá hvernig útfæra mætti almennar reglur um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk í sveitarfélaginu.

Eyjafjarðarsveit tekur fram að kærandi hafi verið orðin X ára gömul þegar beiðni um ferðaþjónustu hafi verið sett fram. Málefni kæranda og umbeðin ferðaþjónusta eigi því undir lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra, enda um að ræða öldrunarþjónustu. Að mati sveitarfélagsins séu lög nr. 125/1999 sérlög sem gangi framar lögum nr. 59/1992 og því séu ekki forsendur til að úrskurðarnefndin taki til greina kröfu kæranda. Fyrir liggi að kærandi sé búsett með eiginmanni sínum í heimahúsi en hann sé með ökuréttindi og þau hafi bifreið til umráða. Þannig verði ekki séð að kærandi þurfi á ferðaþjónustu að halda til að komast á milli staða og draga úr einangrun. Þá verði ekki séð að aðstæður kæranda séu að þessu leyti aðrar en annarra aldraðra einstaklinga sem ekki hafi sjálfir gild ökuréttindi.

Eyjafjarðarsveit vísar til þess að sveitarfélagið sé afar víðfeðmt og ef það yrði skikkað til að setja almennar reglur um ferliþjónustu, með tíðni sem tæki mið af því sem þekkist í þéttbýlissveitarfélögum á borð við Akureyri eða sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, gæti það haft mjög veruleg og íþyngjandi áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Líkur séu á því að slíkt myndi stappa nærri sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga og sjálfstæði. Að mati sveitarfélagsins verði að vera sanngjarnt hlutfall á milli þeirra tekna sem sveitarfélögum sé heimilt að afla og þeirrar þjónustu sem þeim sé skylt að veita. Í Eyjafjarðarsveit séu ekki almenningssamgöngur, hvorki reglulegar né óreglulegar og aðstæður kæranda því ekki að nokkru leyti verri en annarra íbúa sveitarfélagsins sem ekki hafi ökuréttindi eða ökutæki til umráða. Reglur og skuldbindingar um að tryggja fötluðum jöfn tækifæri á við aðra til að komast leiða sinna hafi alla jafna tekið mið af aðstöðu þeirra sem háðir séu almenningssamgöngum. Ekki geti staðið til að kærandi njóti betri stöðu en aðrir íbúar sveitarfélagsins til að njóta aksturs á vegum sveitarfélagsins. Því sé fullt jafnræði á með kæranda og öðrum sem ekki hafi ökuréttindi eða bifreið til umráða. Þannig sé það ekki fötlun kæranda sem komi í veg fyrir að hún fái notið tómstunda og afþreyinga, heldur sú staðreynd að ekki séu almenningssamgöngur í sveitarfélaginu.

Eyjafjarðarsveit bendir á að þær reglur sem kærandi vísi til séu leiðbeinandi en ekki bindandi fyrir sveitarfélögin með sama hætti og lög eða stjórnvaldsfyrirmæli. Sveitarfélögin hafi innan marka laga sjálfsákvörðunarrétt um ráðstöfum fjármuna sveitarsjóðs. Á meðan sveitarfélag hafi ekki ákveðið að til staðar skuli vera almenningssamgöngur sé ekki fyrir hendi mismunun á tækifærum þótt ekki liggi fyrir fastmótaðar, almennar reglur um ferliþjónustu. Áður en komist yrði að þeirri niðurstöðu þyrfti löggjafinn með skýrum hætti að taka afstöðu til lagaskila, heimilda sveitarfélaga til öflunar tekna og fleiri atriða en það hafi ekki verið gert.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Eyjafjarðarsveitar á beiðni kæranda um ferðaþjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Samkvæmt 5. gr. a laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er fötluðum einstaklingi heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í bréfi sveitarfélagsins frá 12. maí 2017 er fjallað um erindi kæranda þar sem óskað er eftir ferðaþjónustu og því svarað, auk þess sem kæranda er kynntur réttur til að fá niðurstöðuna rökstudda og vísað til kæruheimildar. Samkvæmt gögnum málsins var því tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda.

Kærandi í máli þessu er X árs gömul og á því rétt á þjónustu á grundvelli laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Kærandi er lögblind og á því einnig rétt á þjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, sbr. 2. gr. laganna. Úrskurðarnefndin tekur fram að í lögum nr. 59/1992 eru engin ákvæði er útiloka þá, sem eru eldri en 67 ára og með fötlun, til að njóta þeirrar þjónustu sem lögin kveða á um, svo sem ferðaþjónustu. Aldur hefur því einn og sér ekki úrslitaáhrif um rétt kæranda til þjónustu ætlaðri fötluðu fólki.

Markmið laga um málefni aldraðra er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast, miðað við þörf og ástand hins aldraða. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.

Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega. Í 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli ákvæðisins. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Eyjafjarðarsveit hefur ekki sett sér slíkar reglur en ber samt sem áður ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992.

Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Sveitarfélagið hefur byggt á því að kærandi sé ekki í þörf fyrir akstursþjónustu en ekki lagt fram nein gögn sem benda til þess að mat á þeirri þörf hafi farið fram varðandi umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðra, enda byggði synjunin einungis á aldri hennar og á því að í sveitarfélaginu væru ekki almenningssamgöngur.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún ætti rétt á ferðaþjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992. Að því virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til Eyjafjarðarsveitar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Eyjafjarðarsveitar, dags. 12. maí 2017, um synjun á umsókn A, um ferðaþjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum