Hoppa yfir valmynd

Mál 370/2020

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 370/2020

Miðvikudaginn 16. desember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. júlí 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2020 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 785.684 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins ákvörðun er varðaði beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta sem stofnunin vísaði frá með bréfi, dags. 8. september 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júlí 2020. Með bréfi, dags. 6. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2020, barst beiðni Tryggingastofnunar ríkisins um frávísun málsins. Með bréfi, dags. 16. september 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. október 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Greint er frá því í kæru að kærandi hafi í upphafi árs 2019 fengið eingreiðslu frá lífeyrissjóði fyrir tímabilið 10. nóvember 2017 og út árið 2018. Þessi eingreiðsla hafi leitt til 785.684 kr. kröfu í uppgjöri 2019.

Kærandi hafi lent í því sama á síðasta ári vegna greiðslna frá öðrum lífeyrissjóði en sú upphæð hafi komið rétt fyrir áramótin 2018/2019.

Kærandi sjái ekki hvernig hann geti framfært sig og börn sín ef þetta verði niðurstaðan, hann sé einn og eigi X börn og sé búsettur í húsi X sinnar. Ef kærandi þurfi að greiða þessa fjárhæð verði hann fastur þar sem hann sé en hans markmið sé að reyna að flytja í september/október fái hann leyfi til að byrja að vinna. Kærandi vonist til að það verði farið með þetta mál og síðasta mál hans svo að hann geti haldið áfram lífinu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, kemur fram að í kæru sé farið fram á niðurfellingu ofgreiddra bóta. Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur. Undantekningu á þeirri meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í málinu þar sem beiðni um niðurfellingu hafi borist stofnuninni fyrst með kæru. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa málinu frá, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 379/1993.

Beiðni þessi verði tekin til afgreiðslu hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna eins fljótt og hægt sé. Þegar sú stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir verði hún kæranleg til nefndarinnar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 16. október 2020, kemur fram að kærð sé synjun á umsókn kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu sem hafi myndast í kjölfar uppgjörs tekjuársins 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar, sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”

Málavextir séu þeir að kröfur þær, sem deilt sé um í þessu máli, séu tilkomnar vegna uppgjörs tekjuársins 2019.

Kæranda hafi verið send tekjuáætlun vegna ársins 2019 með bréfi, dags. 17. janúar 2019, þar sem eingöngu hafi verið gert ráð fyrir 2.748 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2019. Á grundvelli þessarar tekjuáætlunar hafi kærandi fengið greitt í janúar 2019.

Við endurmat á endurhæfingarlífeyri í lok janúar 2019 hafi verið komnar upplýsingar í staðgreiðsluskrá um lífeyrissjóðstekjur í lok árs 2018. Tryggingastofnun hafi því gert tillögu að nýrri tekjuáætlun. Í þeirri tekjuáætlun hafi verið gert ráð fyrir 1.192.404 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 2.748 kr. í fjármagnstekjur. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessa tekjuáætlun með bréfi, dags. 29. janúar 2019, en engar athugasemdir hafi borist. Á grundvelli þessarar tekjuáætlunar hafi kærandi fengið greitt frá 1. febrúar 2019 til 31. maí 2019.

Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í maí 2019 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá skattsins. Tryggingastofnun hafi búið til nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann 14. maí 2019 þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að lífeyrissjóðstekjur á árinu yrðu 3.781.645 kr. og fjármagnstekjur 2.748 kr. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þessa tekjuáætlun og hafi hann fengið greitt í samræmi við hana á tímabilinu 1. júní 2019 til 31. ágúst 2019.

Við endurmat á endurhæfingarlífeyri í lok ágúst 2019 hafi upplýsingar úr staðgreiðsluskrá bent til þess að tekjur kæranda hafi enn verið vanáætlaðar. Tryggingastofnun hafi því gert tillögu að nýrri tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir 5.321.914 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 2.748 kr. í fjármagnstekjur. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessa tekjuáætlun í bréfi, dags. 29. janúar 2019, en engar athugasemdir hafi borist. Á grundvelli þessarar tekjuáætlunar hafi kærandi fengið greitt frá 1. september 2019 til 31. desember 2019.

Við bótauppgjör ársins 2019 hafi komið í ljós að á árinu hafi kærandi haft 154.969 kr. í launatekjur, 5.440.098 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 6.309 kr. í fjármagnstekjur. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að greitt hafði verið 6.199 kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs og 6.199 kr. í iðgjald í séreignarsjóð sem hafi komið til frádráttar.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafi verið ofgreiddur í bótaflokkunum framfærsluuppbót, tekjutrygging og heimilisuppbót. Kærandi hafi fengið 1.461.934 kr. greiddar á árinu en hefði með réttu átt að fá 532.739 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 785.684 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Þegar kæra hafi borist þann 6. ágúst 2020 hafi Tryggingastofnun ekki borist nein andmæli eða beiðni um niðurfellingu í málinu. Þar sem engin kæranleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu hafi Tryggingastofnun óskað eftir að málinu yrði vísað frá að svo stöddu svo að hægt væri að taka málið til afgreiðslu hjá stofnuninni. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi umsókninni verið vísað frá með bréfi, dags. 8. september 2020.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu hafi ásamt fyrirliggjandi gögnum meðal annars verið skoðuð ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Við skoðun gagna málsins hafi verið ljóst að krafan hafi að mestu leyti verið tilkomin vegna hárrar eingreiðslu lífeyrissjóðstekna sem kærandi hafi fengið á árinu 2019 en séu vegna áranna 2017 og 2018. Kæranda sé heimilt að óska eftir endurupptöku á skattframtölum við þessar aðstæður. Óski kærandi eftir slíkri endurupptöku og séu mánaðarlegar lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda aftur í tímann í samræmi við það sem þær séu í dag, megi gróflega áætla að heildarkröfur kæranda muni lækka um 500 – 600 þúsund krónur frá þeim 785.684 kr. sem hafi myndast við uppgjör ársins 2019 og heildarkrafa standi þá á bilinu 185.864 kr. – 285.684 kr. eftir breytingu. Ástæðan fyrir þessari miklu lækkun sé meðal annars sú að kærandi hafi eingöngu notið greiðslu endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun frá 1. desember 2018, en virðist hafa fengið greitt frá lífeyrissjóðum fyrir mun lengra tímabil. Rétt sé að ítreka að um grófa áætlun sé að ræða þar sem Tryggingastofnun hafi ekki undir höndum gögn sem sýni fram á það fyrir hvaða tímabil umræddar lífeyrisgreiðslur séu nákvæmlega.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Þar sem gögn málsins bendi sterklega til þess að kærandi gæti lækkað kröfu sína verulega með því að óska eftir endurupptöku skattframtals, telji stofnunin ekki forsendur til þess að beita undanþáguákvæðinu að svo stöddu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. september 2020, hafi kæranda verið leiðbeint um að óska eftir breytingu á skattframtali og einnig að stofnunin myndi fresta allri innheimtu á meðan að það erindi væri tekið fyrir. Slík staðfesting hafi ekki borist.

Verði skattframtal kæranda leiðrétt og kærandi telji eftirstandandi kröfu of háa, eða að sú leiðrétting sé ekki möguleg eða erfið af öðrum ástæðum, þá standi kæranda alltaf til boða að óska eftir niðurfellingu á nýjan leik.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir málið og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Að lokum sé rétt að taka fram að kærandi hafi óskaði eftir niðurfellingu vegna ofgreiðslukröfu ársins 2018. Sú krafa hafi lækkað verulega þegar eingreiðsla í desember 2018 hafi verið flutt yfir á aðra mánuði þess árs.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019. Þá hafði kærandi í kæru farið fram á niðurfellingu skuldarinnar. Undir rekstri málsins var kæranda synjað um niðurfellingu endurgreiðslukröfu með bréfi, dags. 8. september 2020. Mál þetta lýtur að þessum tveimur ákvörðununum.

A. Endurreikningur og uppgjör

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2019. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2019, vegna ársins 2019 þar sem gert var ráð fyrir 2.748 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út í samræmi við þær tekjuforsendur. Í kjölfar endurmats á endurhæfingarlífeyri útbjó Tryggingastofnun nýja tekjuáætlun, dags. 29. janúar 2019, á grundvelli upplýsinga í staðgreiðsluskrá þar sem gert var ráð fyrir greiðslum frá lífeyrissjóði að fjárhæð 1.192.404 kr. og sömu fjármagnstekjum og áður. Kærandi gerði ekki athugasemd við þá áætlun. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá í maí 2019 kom í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda reyndust hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun frá 29. janúar 2019. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun, dags. 14. maí 2019, þar sem gert var ráð fyrir greiðslum frá lífeyrissjóði að fjárhæð 3.781.645 kr. og sömu fjármagnstekjum og áður. Kærandi var upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 727.375 kr. vegna tímabilsins janúar til og með maí 2019. Kærandi gerði ekki athugasemd við þá tekjuáætlun. Við endurmat endurhæfingarlífeyris útbjó Tryggingastofnun nýja tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga í staðgreiðsluskrá. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt um nýja tekjuáætlun þar sem gert var ráð fyrir 5.321.914 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sömu fjármagnstekjum og áður. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá tekjuáætlun.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2019 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera 5.440.098 kr., launatekjur 154.969 kr., fjármagnstekjur 6.309 kr., iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar 6.199 kr. og iðgjald í séreignarsjóð til frádráttar 6.199 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2019 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 785.684 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum framfærsluuppbót, tekjutrygging og heimilisuppbót að fjárhæð 785.684 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að tekjur ársins 2019 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlunum. Um var að ræða umtalsverðar lífeyrissjóðstekjur. Tekjur úr lífeyrissjóði eru tekjustofn sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. hafa lífeyrissjóðstekjur hvorki áhrif á grunnlífeyri né aldurstengda örorkuuppbót, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga um almannatryggingar. Lífeyrissjóðstekjur hafa áhrif á sérstaka uppbót, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar, 3. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Við útreikning sérstakrar uppbótar til framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð teljast allar skattskyldar tekjur til tekna, sbr. 1. málsl. 3. mgr. með undantekningum í 2. málsl. sömu málsgreinar.

Á árinu 2019 var frítekjumark tekjutryggingar vegna lífeyrissjóðstekna 328.800 kr., sbr. reglugerð nr. 1205/2018 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019. Kærandi átti því ekki rétt á tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstakri uppbót sökum tekna.

Kærandi fer fram á að leiðrétting á lífeyrissjóðstekjum, sem greiddar voru í upphafi árs 2019, hafi ekki áhrif á endurreikning Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótaréttindum hans vegna framangreinds árs. Við úrlausn þessa máls horfir úrskurðarnefnd til þess að umræddar tekjur voru greiddar kæranda á árinu 2019 og tilheyra því ári samkvæmt skattframtali kæranda þó svo að um sé að ræða leiðréttingu vegna fyrri ára. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, en úrskurðarnefnd vill benda á að mögulegt er að leita til skattyfirvalda til þess að fá skattframtali breytt, ef forsendur eru til þess eins og Tryggingastofnun hefur leiðbeint kæranda um. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á kröfu kæranda um að umræddar lífeyrissjóðstekjur skerði ekki tekjutengd bótaréttindi hans frá Tryggingastofnun á árinu 2019.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2019.

B. Krafa um niðurfellingu ofgreiddra bóta

Eins og áður hefur komið fram ber Tryggingastofnun lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreind 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta barst fyrst með kæru. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. september 2020, var þeirri beiðni vísað frá á þeim forsendum að stofnunin taldi ekki forsendur til að beita undantekningarákvæðinu að svo stöddu, auk þess sem stofnunin leiðbeindi kæranda um að óska eftir breytingu á skattframtali. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að þar sem gögn málsins bendi sterklega til þess að kærandi gæti lækkað kröfu sína verulega með því að óska eftir endurupptöku skattframtals þá telji stofnunin ekki forsendur til þess að beita undanþáguákvæðinu að svo stöddu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 að gerð sé sú krafa að óska þurfi eftir leiðréttingu á skattframtali áður en ákvæðið komi til skoðunar. Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé heimilt að vísa umsókn um niðurfellingu frá þegar af þeirri ástæðu að ekki hafi verið óskað eftir endurupptöku á skattframtali. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af rökstuðningi Tryggingastofnunar í greinargerð sinni að stofnunin hafi lagt mat á gögn málsins og talið að kærandi gæti lækkað kröfu sína verulega með því að óska eftir endurupptöku á skattframtali. Þar með hafi Tryggingastofnun lagt efnislegt mat á aðstæður kæranda og stofnunin í reynd synjað umsókn kæranda en ekki einungis vísað henni frá, þrátt fyrir að orðalagið hafi verið með þeim hætti í hinni kærðu ákvörðun.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi fékk eingreiðslu frá Lífeyrissjóði B í mars 2019. Gögn frá lífeyrissjóðnum gefa til kynna að greiðslur séu að mestu leyti tilkomnar vegna ársins 2018. Þar sem kærandi fékk einungis greiddan endurhæfingarlífeyri í einn mánuð á árinu 2018, þ.e. desember, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að gögn málsins bendi til þess að kærandi geti lækkað kröfu sína verulega með því að óska eftir leiðréttingu á skattframtali. Gögn málsins gefa til kynna að kærandi hafi ekki látið á það reyna. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að fella niður kröfur kæranda með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 að svo stöddu. Úrskurðarnefndin lítur til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddra bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. september 2020 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum, A, á árinu 2019 og synjun umsóknar um niðurfellingu ofgreiddra bóta, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira