Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 11. apríl 2003

Ár 2003, föstudaginn 11. apríl, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matmálið nr. 7/2002

Garðabær

gegn

Ástráði Valdimarssyni, Jakobi Valdimarssyni, Dagnýju Guðmundsdóttur, Hrönn Pétursdóttur og Hömlum ehf.

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Garðabær.

Eignarnámsþolar eru Ástráður Valdimarsson, Hraunsholtsvegi 2, Garðabæ, Jakob Valdimarsson, Löngufit 18, Garðabæ, Dagný Guðmundsdóttir, Hraunhólum 18, Garðabæ, Hrönn Pétursdóttir, Kjarrmóum 33, Garðabæ, og Hömlur ehf. Höfðabakka 9, Garðabæ.

Mál þetta á sér þann aðdraganda að með bréfi dagsettu 28. janúar 2002 fór eignarnemi þess á leit við umhverfisráðherra, í samræmi við 1. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, að sveitarstjórn Garðabæjar yrði veitt heimild til að taka eignarnámi landsvæði innan sveitarfélagsins, nánar tiltekið 216.987 fermetra land, svokallað Hraunsholtsland. Með bréfi, dagsettu 3. júní 2002, féllst umhverfisráðherra á erindi eignarnema og veitti bæjarstjórn Garðabæjar heimild til að taka umrætt land eignarnámi. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 18. júní 2002 fól bæjarráðið bæjarstjóra að hefja undirbúning að framkvæmd eignarnáms á Hraunsholtslandi og áskildi Garðabæ jafnframt rétt til að hverfa frá fyrirhuguðu eignarnámi þegar eignarnámsbætur lægju fyrir, sbr. 15. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Með beiðni dagsettri 6. september 2002 beiddist Garðabær þess að matsnefnd eignarnámsbóta mæti eignarnámsbætur fyrir umrædda spildu.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 17. desember 2002 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að hún samþykkti eftirfarandi tillögu: "Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir með vísan til 32. gr. laga nr. 73/1997, og heimildar umhverfisráðuneytisins frá 3. júní 2002 að taka eignarnámi 216.987 fermetra spildu úr landi Hraunsholts, austan Hafnarfjarðarvegar, Garðabæ, sbr. uppdrátt verkfræðistofunnar Forverks ehf. dags. 19. febr. 1999.

Bæjarstjórn Garðabæjar áskilur sér rétt til að hverfa frá eignarnámi þegar mat á eignarnámsbótum liggur fyrir, sbr. ákvæði 15. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973."

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 19. desember 2002 var framangreind tillaga samþykkt.

Að fenginni þeirri ákvörðun eignarnema að taka spilduna eignarnámi kannaði matsnefnd vettvang og talsmenn aðila fluttu sjónarmið sín munnlega fyrir nefndinni þann 20. desember sl. en áður höfðu verið lagðar fram greinargerðir beggja aðila svo og fjöldi gagna er varða álitaefnið.

KRÖFUGERÐ EIGNARNEMA:

Af hálfu eignarnema eru eftirfarandi kröfur gerðar fyrir matsnefndinni:

a) að honum verði gert að greiða eignarnámsþolum kr. 550 fyrir hvern fermetra þess hluta hins eignarnumda lands úr Hraunsholtslandi, utan hraunsvæðis, og afmarkað er með dökkgrænum lit á uppdrætti verkfræðistofunnar Forverks ehf. dags. 19. febrúar 1999, að stærð 69.881 m2 eða kr. 38.434.550.

b) að honum verði gert að greiða eignarnámsþolum kr. 180 fyrir hvern fermetra þess hluta hins eignarnumda lands, sem er innan hraunsvæðis, afmarkað með ljósbrúnum lit á uppdrætti verkfræðistofunnar Forverks ehf. dags. 19. febrúar 1999, að stærð 147.101 m2, eða kr. 26.478.180.

Til vara krefst eignarnemi þess, að fjárhæð eignarnámsbóta vegna hins eignarnumda lands verði ákveðin eins hófleg og frekast er kostur, skv. mati matsnefndar eignarnámsbóta.

Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi gagnaðila, skv. mati matsnefndar eignarnámsbóta eða skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, en áskilinn er réttur til að leggja fram slíkan reikning. Jafnframt er gerð sú krafa að gagnaðili verði dæmdur til að greiða allan kostnað af störfum matsnefndar. Til vara er þess krafist að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

KRÖFUGERÐ EIGNARNÁMSÞOLA

Eignarnámsþolar gera þær kröfur fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþolum kr. 2.300 - tvö þúsund og þrjú hundruð krónur - fyrir hvern fermetra lands úr Hraunsholtslandi, sem eignarnámið beinist að.

Þá er þess krafist að eignarnámið nái einnig til fimm spildna sem merktar eru með grænu á skj. nr. 21 með stærðunum 1.204 m2 577 m2 2.987 m2 387 og 663 m2 eða samtals 5.818 m2.

Þannig reiknuð nemur krafa eignarnámsþola kr. 512.451.500.

Jafnframt er þess krafist að matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði eignarnámsþolum málskostnað allan að skaðlausu úr hendi eignarnema og verði m.a. tekið tillit til þeirra verðmæta sem í húfi eru og langs aðdraganda eignarnáms og tímafrekra samningaumleitana eignarnámsþola og eignarnema.

Verði ekki fallist á að eignarnámið skuli einnig ná til smáspildnanna er krafan miðuð við 216.987 m2 á kr. 2.300 eða kr. 499.070.100.

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA

Um byggingar- og skipulagslegar forsendur vegna „hraunsvæðis"

Af hálfu eignarnema er á því byggt að við mat á verðmæti hins eignarnumda lands í Hraunsholti beri að taka mið af legu landsins og landgerð, þ.e. að landið skiptist annars vegar í hraunsvæði, þar sem um er að ræða úfið hraun, sem stendur hátt og verður ekki nýtt til íbúðabyggðar, og hins vegar annað svæði, sem að hluta til er nú ræktað svæði, tún o.fl. og tengist núverandi íbúðabyggð. Framangreind náttúruleg skipting landsins endurspeglist í samþykktu skipulagi Garðabæjar. Bendir eignarnemi á að samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sé vestari hluti landsins, 69.981 m2 að flatarmáli, skipulagður sem íbúðabyggð, en austari og syðri hluti landsins, 147.101 m2 að flatarmáli skipulagður sem útivistarsvæði, opin svæði til sérstakra nota. Engin áform séu uppi um að nýta landið til annars um ókomna framtíð. Reisir eignarnemi því kröfur sínar á því að ekki sé unnt að meta verðmæti hins eignarnumda hærra en annars vegar sem nemur verði fyrir land undir íbúðabyggð, hvað varðar þann hluta landsins sem skipulagður er undir slíka byggð, og hins vegar sem óbyggt land (útivistarland), hvað þann hluta varðar sem skipulagður er sem útivistarsvæði.

Ekki sé unnt að setja hraunsvæðið á hinu eignarnumda landi undir íbúðabyggð. Komi þar helst til, að svæðið sé erfitt til slíkra byggingarframkvæmda vegna legu, en hraunið er í mun meiri hæð en nálæg byggð, sbr. t.d. hæðarlega afstöðu gagnvart Flatahverfi. Íbúðabyggð á hraunsvæðinu yrði því fyrirsjáanlega í litlu skipulagslegu samræmi við næstu íbúðahverfi. Þá myndi slíkum framkvæmdum fylgja verulegt og óhagkvæmt jarðrask á landinu. Framkvæmdir við umbreytingu hraunsvæðisins í íbúðabyggð yrðu auk þess mjög kostnaðarsamar, sem hefði veruleg áhrif til hækkunar á lóðaverði.

Hraunsvæðið á landinu sé hluti af svonefndu Garðahrauni. Í aðalskipulagi Garðabæjar 1985-2005 hafi einnig komið fram að þessum hluta hins eignarnumda hafi verið ætlað að vera óbyggt svæði. Í lið 4.1 í aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sé fjallað um landnotkun og landnýtingu, og í lið 4.1.6 um óbyggð svæði, komi fram að Garðahraun, sunnan við Flatir, sé ætlað til útivistar. Fyrirhugað sé að leggja göngu- og hjólastíga frá Hraunsholti að Reykjanesbraut. Sjá nánar lið G-2 á bls. 47 í aðalskipulagi. Eignarnemi styður einnig kröfuna um að sá hluti hins eignarnumda sem tilheyrir Garðahrauni (nú útivistarsvæði) verði metinn sem útivistarsvæði, með eftirfarandi sjónarmiðum:

Eignarnemi sé bundinn af ákvæðum náttúruverndarlaga nr. 44/1999 um landslagsvernd, nánar tiltekið ákvæðum um sérstaka vernd, en í l. mgr. 37. gr. laganna sé m.a. kveðið á um að eldhraun skuli njóta sérstakrar verndar og skuli forðast röskun þeirra eins og kostur er.

Hraunsvæðið, þ.e. útivistarsvæðið, sem tilheyri landinu njóti bæjarverndar í Garðabæ. Bæjarvernd sé ákvörðuð af bæjaryfirvöldum og er þá um að ræða verndun svæða vegna sérstakrar náttúru, landslags, söguminja eða umhverfis- og útivistargildis. Meðal svæða sem þessarar verndar njóta séu bæði Garðahraun og Hraunsholtslækur, sem meðfram hraunjaðrinum liggur.

Framangreint aðalskipulag geri ráð fyrir að sá hluti Garðahrauns sem er innan landsins sé og verði útivistarsvæði. Í samræmi við það hafi eignarnemi m.a. útbúið malbikaða og upplýsta göngustíga um hraunið.

Afar óæskilegt sé að byggð rísi á því svæði hins eignarnumda sem hraun er á, að teknu tilliti til tengingar slíkrar byggðar við aðra hluta bæjarins.

Norð-austur af hraunsvæðinu liggi Flatahverfið í Garðabæ. Við skipulagningu og byggingu Flatahverfisins á sjöunda áratuginum hafi mið verið tekið af því að hraunsvæðið yrði óbreytt um ókomna tíð.

Garðahraun í Hraunsholti hafi mikið náttúrugildi og beri að taka sérstakt tillit til þess að hraunjaðarinn er gerður af náttúrunnar hendi og hefur ekki verið við honum hróflað. Sé svæðið auk þess á náttúruminjaskrá og njóti því verndar sem slíkt. Í ljósi þess sé eignarnema sem og yfirvöldum umhverfismála í mun að hraunjaðarinn og hraunsvæðið séu varðveitt í óbreyttri mynd, þ.e. sem óbyggt útivistarsvæði.

Þá byggir eignarnemi ennfremur á því, að við gerð aðalskipulags í Garðabæ og svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið hafi þær skipulagslegu forsendur verið hafðar að leiðarljósi, að óbrotin lína væri milli fjalls og fjöru, þ.e. að ætíð sé gengt frá hæstu mörkum sveitarfélags niður til sjávar um óbyggt svæði. Hafi eignarnemi þannig leitast við að marka þessa línu meðfram Vífilstaðahrauni og Garðahrauni, meðfram byggðinni, niður að sjó. Því verður talið að íbúðabyggð á hraunsvæði hins eignarnumda lands bryti gegn þessu markmiði skipulagsáætlana.

Um byggingarland skv. aðalskipulagi

Hvað varðar vestari hluta landsins sérstaklega, þ.e. íbúðarsvæði skv. aðalskipulagi, byggir eignarnemi á því að skipulag svæðisins sé þó ekki fullmótað og engin framkvæmdaáform, þrátt fyrir að samþykkt hafi verið að svæðið skuli í framtíð verða íbúðasvæði. Þannig hafi svæðið ekki verið deiliskipulagt undir íbúðabyggð. Umrætt svæði sem eins og áður segi sé skipulagt skv. aðalskipulagi sem íbúðabyggð, sé í dag græn tún og liggi svæðið að jaðri hraunsvæðisins. Í fyrrgildandi aðalskipulagi, 1985-2005, hafi verið gert ráð fyrir að hluti af hinu eignarnumda landi yrði ætlað fyrir íbúðabyggð.

Eignarnemi gerir því jafnframt þá kröfu að matsnefnd miði bótafjárhæð við þá staðreynd að óvíst er hvenær íbúðabyggð muni rísa á þessum hluta landsins og með hvaða kjörum verður leyft að byggja á svæðinu. Beri því við ákvörðun bóta fyrir land undir íbúðabyggð, að taka tillit til afvöxtunar, þar sem ekki megi reikna með að unnt sé að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en eftir allt að 5-10 ár, þar sem ekkert deiliskipulag liggi fyrir. Reikna megi með að deiliskipulag svæðis innan þéttbýliskjarna taki verulegan tíma í vinnslu.

Þá beri einnig að taka tillit til þess að veruleg aukning hafi orðið á framboði byggingarlands á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum, sem dregið hafi úr þeirri verðþenslu, sem orðið hafi á tímabilinu 1996-1999.

Um fjárhæð eignarnámsbóta

Af hálfu eignarnema er gerð sú krafa að matsnefndin ákvarði fjárhæð bóta fyrir hið eignarnumda í samræmi við eðlilega og fyrirsjáanlega nýtingu landsins, sem telst vera í samræmi við skipulagsáætlanir á landinu. Er þess því krafist að fjárhæð eignarnámsbóta fyrir vestari hluta landsins fram að hraunjaðri, þar sem nú eru tún, verði ákvörðuð í samræmi við verð fyrir byggingarhæft land sem síðar verði nýtt undir íbúðabyggð, í samræmi við áætlanir í aðalskipulagi. Ennfremur að fjárhæð eignarnámsbóta fyrir þann hluta eignarnumda þar sem hraunsvæði liggur, verði ákvörðuð í samræmi við verð fyrir óbyggt land og/eða land undir útivistarsvæði, sbr. og aðalskipulag.

Sérstaklega um verð fyrir byggingarhæft land

Til stuðnings kröfu sinni um 550 kr. fermetraverð fyrir hinn byggingarhæfa hluta eignarnumda, vísar eignarnemi til framlagðs yfirlits yfir ýmsa samninga vegna landakaupa á höfuðborgarsvæðinu og kveður yfirlitið sýna verð á ýmsum seldum byggingarlöndum, framreiknað m.v. vísitölu byggingarkostnaðar, en nokkrir samningar þar að baki hafi verið lagðir fram. Með byggingarlandi sé átt við ósnert land sem tækt sé til að byggja á sökum hæðar og legu, rétt eins og reyndin sé með umræddan hluta hins eignarnumda. Eignarnemi telur að þessar verðtölur gefi góð viðmið um sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir byggingarland. Hér beri þó að taka tillit til þess, að svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt, og reikna megi með að landið verði ekki byggingarhæft fyrr en eftir 5-10 ár.

Í matsgerð vegna landspildu á Rjúpnahæð í Fífuhvammslandi í Kópavogi, dags. l. nóv. 2001, hafi hluti þess lands verið metinn að verðgildi sem byggingarland. Hafi matsmönnum þótt hæfilegt verð fyrir þann hluta vera á fermetra kr. 950. Ráða megi af matsgerðinni að þetta mat hafi verið í hærri kantinum þar sem vitnað sé til þess að lóðaframboð í Kópavogi sé orðið af skornum skammti. Þegar ríkissjóður hafi selt Kópavogskaupstað landið hinn 22. apríl 2002 hafi fermetraverðið á landspildunni verið mun lægra eða kr. 464 á hvern fermetra framreiknað. Það verð hafi verið mjög í takt við matsgerð, dags. 16. júní 1998, vegna sama hluta á Vatnsendalandi, en í henni hafi fermetraverð byggingarlands á spildunni verið metið kr. 314, miðað við staðgreiðsluverð.

Talið hafi verið að verð fyrir byggingarland sem ekki hefur verið deiliskipulagt undir íbúðabyggð sé lægra en ella. Í þessu tilviki hafi byggingarhæfi hluti hins eignarnumda ekki verið deiliskipulagður og óvíst hvort íbúðabyggð muni rísa á svæðinu á allra næstu árum. Séu rök til þess að taka þessa staðreynd sérstaklega inn í verðmat. Megi í þessu sambandi vísa til kaupa Reykjavíkurborgar á landi Hamars og Fellsmúla (Úlfarsfellsdalur), í byrjun árs 2002, þar sem fermetraverð fyrir byggingarland hafi verið ákveðið kr. 450. Samkvæmt upplýsingum sem eignarnemi hafi aflað hafi ástæðan fyrir þessu lægra verði verið sú, að ekki sé ætlunin að reisa íbúðabyggð á svæðinu fyrr en eftir 15 ár, en þar sé um ákjósanlegt byggingarland á höfuðborgarsvæðinu að ræða. Að framansögðu verði því ráðið að krafa eignarnema um 550 kr. fermetraverð fyrir byggingarland sé í öllu tilliti sanngjörn og í takt við gangverð sambærilegra lóða í dag.

Sérstaklega um verð fyrir óbyggt land og útivistarland

Eignarnemi bendir sérstaklega á, að hraunsvæði hins eignarnumda hafi alla tíð verið skipulagt sem óbyggt land til útivistar. Þessi hluti landsins hafi því ávallt verið metinn út frá sömu forsendum og því hafi skipulagsáætlanir ekki með neinum hætti rýrt verðgildið. Aftur á móti hljóti verðgildi þessa hluta landsins sem óbyggðs lands að hafa hækkað í áranna rás, eftir því sem þéttbýli hafi risið allt í kring og svæðið orðið vinsælla til útivistar. Beri að líta til þess að eignarnámsþolar njóta nú þeirra hækkana, þrátt fyrir að landið verði áfram óbyggt útivistarsvæði.

Krafa eignarnema um 180 kr. fermetraverð fyrir hið óbyggða land/útivistarland sé mjög í samræmi við það á hvaða verði slíkar landspildur á höfuðborgarsvæðinu seljist í dag. Hér beri þó sérstaklega að hafa í huga, sem óhjákvæmilega hafi veruleg áhrif til lækkunar, að hér sé um mjög stórt útivistarsvæði að ræða, eða nálægt 14 ha. Megi sem dæmi taka kaup eignarnema á löndum í Selskarðslandi í Garðabæ á árinu 2002, þar sem fermetraverð hafi verið á bilinu kr. 290-300 fyrir mun minni lönd. Einnig er vísað til áðurnefnds samnings Reykjavíkurborgar um kaup á landi Hamars og Fellsmúla (Úlfarsfellsdalur). Eignarnemi hafi upplýsingar um að hluti þess lands sé óbyggt útivistarland og hafi fermetraverð þess í kaupunum numið minna en 300 kr. Í áðurnefndu mati vegna landspildu á Rjúpnahæð sé ósnortið útivistarland á því svæði metið á kr. 180 per fermetra. Í matsgerð vegna lands á Vatnsendahvarfi og Rjúpnahæð, dags. 16. júní 1998, sé hins vegar hæfilegt fermetraverð fyrir útivistarsvæði á sömu slóðum ákvarðað kr. 50. Sé mið tekið af þessu verði framreiknuðu og það heimfært á hið eignarnumda hraunsvæði, sé ljóst að fermetraverð fyrir slíkt óbyggt útivistarsvæði væri vart hægt að ákvarða hærra en á bilinu 60-190 kr. Leiði þetta líkum að því að krafa eignarnema vegna hraunsvæðisins sé mjög viðunandi að teknu tilliti til gangverðs og ríflega það.

Tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna.

Af hálfu eignarnema er auk framangreindra lagaraka vísað til almennra réttarreglna og sjónarmiða um eignarnám og eignarnámsbætur, þ.m.t. laga nr. 11/1973. Ennfremur er vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Um áskilnað skv. 15. gr. laga nr. 11/1973 um eignarnám, sjá erindi matsbeiðanda til nefndarinnar, dags. 6. september 2002.

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA

Verðmæti lands

Eignarnámsþolar kveða kröfugerð sína taka mið af upplýsingum um markaðsverð á landi í útjaðri Reykjavíkur og nágrennis á síðustu árum án þess að krafa sé gerð um það verð sem hæst mætti rökstyðja.

Þess sé fyrst að geta að veruleg hækkun hafi orðið á landi á þessu svæði á árinu 1998 og síðan. Mikil eftirspurn sé eftir landi og hafi verð hækkað verulega meira en nemur almennum verðhækkunum. Eru rakin dæmi úr gögnum málsins um verðbreytingar og m.a er á það bent að meðallandverð sé á bilinu kr. 1.200-1.400 hver m2 uppreiknað, vegna verðbreytinga.

Eignarnámsþolar krefjast þess að Hraunsholtsland verði metið á kr. 2.300 hver m2. Ástæður þessa verðs séu m.a. þessar:

Lega landsins

Aðgengi að þjónustu

Útsýni frjálst

Auðvelt að byggja

Sérstaða byggingarlands í hrauni

Hraunsholtslækur rennur um landið

Eftirspurn eftir landi til bygginga

Verðþróun síðustu ára

Í skipulagstillögu eignarnámsþola frá 12. október 1999 er gert ráð fyrir 150 einbýlishúsum og 69 par- og raðhúsum, eða samtals 219 íbúðum í lágreistri byggð.

Eignarnámsþolar geri sér grein fyrir að unnt sé að rökstyðja verulega hærra verð en sem nemi kröfugerð þeirra, en þrátt fyrir það séu þeir reiðubúnir nú sem fyrr að gæta fyllstu sanngirni í garð eignarnema.

Um verðsjónarmið eignarnema

Eignarnemi krefjist þess að það land sem hann kalli byggingarland verði metið á 500 kr. m2. Annað land verði metið á 150 kr. m2.

Eignarnemi hafi lagt fram skrá um landverð á tímabilinu 1980 til 2002 og uppfært verðið m/v byggingavísitölu í september 2002. Kveðist eignarnemi sækja upplýsingar þessar í kaupsamninga, eignarnámssáttir, úrskurði ME, dóm Hæstaréttar og mat yfirfasteignamatsnefndar. Lægsta framreiknaða verðið sé ein króna m2 og það hæsta 987 krónur m2 og sé þar ærið mikill munur á. Þá hafi eignarnemi lagt fram ellefu kaupsamninga, tvö afsöl og tvær matsgerðir um verðmæti lands.

Ekki sé unnt að fallast á sönnunargildi þeirra upplýsinga sem sé að finna á ofannefndri skrá um landverð á tímabilinu 1980 til 2002 og er öllum slíkum upplýsingum sem fara í bága við kröfur eignarnámsþola mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Þá gera eignarnámsþolar ýmsar athugasemdir við einstök sönnunargögn framlögð af eignarnema.

Samkvæmt framansögðu hafi eignarnema ekki tekist að leiða neinar líkur að því að rétt meðalverð sé nálægt 299 kr. m2 eins og krafist sé. Það verð sé langtum lægra en það verð sem eignarnemi þó bendir á með völdum samningum og mötum. Eignarnema hafi ekki einu sinni tekist að leiða að því neinar líkur að verðið 550 kr. m2 sé nálægt markaðverði lands af þeim gæðum sem hér um ræðir. Þvert á móti hafi hann sannað að krafa hans sé alltof lág.

Um mismun verðs eftir fyrirhugaðri notkun eignarnema

Ein helsta röksemd eignarnema fyrir hinu lága kaupverði Hraunsholtslandsins sé sú, að hann hyggist nota u.þ.b. 67% landsins til að auka lífsgæði íbúanna í Garðabæ með því nota það sem hann kallar hraunsvæði sem útivistarsvæði. Fyrirhugað er að hafa þar stíga fyrir gangandi og hjólandi fólk.

Sú röksemd eignarnema að hann geti haft áhrif á verð landsins með því að ákveða að hafa þar starfsemi sem sé lítt arðsöm sé á misskilningi byggð og eigi sér enga stoð í neinum réttarheimildum. Eignarnemi þurfi ekki annað en að hugsa sér að hann hyggist taka eignarnámi tvö samliggjandi jafnstór lönd tveggja eigenda jöfn að gæðum og nota annað landið fyrir útvist, en hitt undir arðsamar byggingar. Miðað við framkomin sjónarmið telji eignarnemi að honum sé heimilt að mismuna þessum tveimur eigendum, sem fram til þessa hafi átt jafnverðmæt lönd og greitt skatta og skyldur samkvæmt því, með því að verðfella annað landið með rökum um fyrirhugaða notkun þess. Sé nokkuð augljóst að slíkt standist ekki og að almenn lög sem kvæðu á um slíkt brytu í bága við bæði eignarverndarákvæði og jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Eignarnemi geti ekki einhliða skert nýtingarmöguleika lands með ákvörðunum sínum og lækkað þannig verðmæti landsins við eignarnám.

Íslenskir dómstólar hafi fjallað um þetta álitaefni og vitna eignanámsþolar til HR 1937 492 (Skildinganessmál) og HR 1984 906 (Ásgarðsmál), en í þessum málum hafi nýtingarmöguleikar ráðið verðmætinu (hlutlægt nytjavirði), en ekki fyrirhuguð not.

Á þetta álitamál hafi reynt í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 11. nóvember 2002 í máli Bessastaðahrepps gegn eigendum Sviðholts. Eignarnemi hafi krafist þess að fyrirhuguð not landsins hefðu áhrif á verðmæti þess. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi sagt um þetta:

Við mat á bótum fyrir spilduna telur matsnefndin að líta beri til þess að spildan er hentug til að byggja á henni, þó ákvörðun sveitarfélagsins sé að nýta hana einungis að hluta til þeirra nota.

Matsnefndin byggi hér augljóslega á fordæmum í fyrrgreindum dómum HR, enda er úrskurður hennar í fullu samræmi við fordæmi HR.

Eignarnemi getur þannig ekki borið fyrir sig fyrirhuguð not sín til lækkunar á verðmæti landsins. Þar sem allt landið sé afar heppilegt sem byggingarland beri matsnefnd eignarnámsbóta að ákvarða bætur fyrir landið í samræmi við hlutlægt nytjavirði. Eignarnemi verði sjálfur að bera kostnaðinn af því að kaupa land undir útivistarsvæði. Þeim kostnaði verði ekki komið á landeigendur.

Byggð í hrauni

Eignarnámsþolar vitna til vottorðs Jóhanns G. Bergþórssonar, verkfræðings, sem hafi mikla reynslu af byggð í hrauni, þar sem hann segir að slíkt land sé síst verr fallið til bygginga en annað land og halda megi því fram að hraunland sé almennt verðmætara vegna vinnslu þess og annarra möguleika í hraunlóð.

Vitnað er til blaðafregnar þar sem segir frá byggð í Völlunum við Ástjörn í Hafnarfirði, en þar er hraunland. Kostir hraunsins séu látnir njóta síns og hraunkantar og hraunbollar fái að halda sér. Í viðtali við hönnuð segi hann að hann trúi því að arkitektarnir muni notfæra sér hraunið til þess að gefa lóðunum og svæðinu skemmtilegt og sérstakt yfirbragð. Augljóst sé að það er talinn betri kostur að byggja í hrauninu en annars staðar og eftirspurn verði meiri og því verðmæti lands meira.

Því sé rangt sem segi í greinargerð eignarnema að hraunið sé erfitt til byggingaframkvæmda. Þá sé það heldur ekki rétt að hraunið sé í slíkri hæð yfir sjávarmáli að það raski nýtingu þess til bygginga. Þvert á móti sé lega hraunsins þannig að hún kalli á byggingu húsa. Einnig sé rangt að framkvæmdum myndi fylgja óhagkvæmt jarðrask. Verkfræðingar og framkvæmdaaðilar hafi fyrir löngu leyst slík vandkvæði og hraunið muni halda náttúrulegum einkennum sínum þrátt fyrir byggðina. Þá sé það og rangt sem segi í greinargerð eignarnema að "framkvæmdir við umbreytingu hraunsvæðisins í íbúðabyggð yrðu auk þess mjög kostnaðarsamar, sem hefði veruleg áhrif til hækkunar á lóðarverði." Þessu er mótmælt og því haldið fram að þessu sé öfugt farið. Kostnaður yrði minni en venjulega og því standi landið undir hærra landverði en ella.

Niðurstaðan sé því sú að hafna verði sjónarmiðum eignarnema um vandkvæði við að byggja í hrauni.

Náttúru- og bæjarvernd ofl.

Í greinargerð eignarnema sé á því byggt að sú skylda verði lögð á eignarnema að bera kostnað af náttúru- og bæjarvernd þannig að hann leggi til eignir sínar annaðhvort bótalaust eða gegn skertum bótum. Slíkar eignaskerðingar eigi sér ekki stoð í gildandi réttarheimildum rétt túlkuðum og skerðingarnar væru að auki brot á eignarréttarverndarákvæði stjórnarskrárinnar.

Eignarnemi teflir fram nokkrum öðrum sjónarmiðum til stuðnings því að skerða eigi bætur til eignarnámsþola vegna hraunlandsins sérstaklega. Þau sjónarmið séu þó fyrst og fremst til að rökstyðja það hvers vegna eignarnemi þurfi nauðsynlega að eignast landið til að ná fram markmiðum sem lýst er í greinargerðinni. Uppfylling þeirra markmiða geti aldrei orðið á kostnað eignarnámsþola. Þeim sé því öllum mótmælt sem málinu óviðkomandi.

Um eftirspurn og framkvæmdatíma

Lækkunarkröfur eignarnema almennt séu og á því byggðar að langt sé þar til framkvæmdir hefjist þar sem eftirspurn eftir landi til bygginga sé lítil. Þess sé fyrst að geta að með því að leggja fram tillögu til deiliskipulags árið 1993 hafi sú stefna verið mótuð að hefja framkvæmdir á landi Hraunsholts, enda rökrænt framhald uppbyggingar í Garðabæ vegna miðlægni svæðisins. Af skipulagsástæðum, sem varða eignarnema hafi ekki orðið úr því að deiliskipulagið yrði samþykkt. Málið hafi því dregist af ástæðum sem séu eignarnámsþolum óviðkomandi. Svo sem gögn málsins beri með sér sé eftirspurn eftir landi til bygginga íbúðarhúsnæðis mikil í Garðabæ. Skortur á eftirspurn muni því ekki hamla framkvæmdum. Svo virðist sem eignarnemi hafi frestað frekari skipulagsaðgerðum til þess að freista þess að fá land eignarnámsþola á sem hagstæðustu verði.

Vakin er á því athygli, að samkvæmt bréfi eignarnema til lögmanns eignarámsþola hinn 25. september 2001 sé ráðgert að frá þeim tíma séu fimm ár þar til eignarnemi hyggist nota landið, en það jafngildi tæpum fjórum árum nú. Að sjálfsögðu muni eignarnemi flýta því að taka landið í notkun þegar hann hafi eignast það sjálfur. Notkunin sé undir eignarnema sjálfum komin.

Eignarnámsþolar geti ekki notað landið sjálfir. Þeir fái ekki að byggja á því og hafi verið synjað um byggingarleyfi. Eignarnemi hafi skv. greinargerð lögmanns hans ráðstafað hraunlandinu fyrir löngu. Allur dráttur á yfirtöku landsins sé því á kostnað eignarnámsþola en í hag eignaranema.

Komi til afvöxtunar matsverðs skv. kröfu eignarnema er þess krafist að beitt verði 1,5 til 2,5% afvöxtun hið mesta.

Málskostnaður

Eignarnemi geri kröfu um málskostnað úr hendi eignarnámsþola. Slík krafa sé andstæð lögum, enda segi í 11. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973:

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hefur af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn.

Því verði að hafna kröfu eignarnema og taka kröfu eignarnámsþola um málskostnað til greina. Við ákvörðun hans beri m.a. að hafa í huga 24. gr. l. nr. 77/1998 um lögmenn.

NIÐURSTAÐA

Eignarnámsþoli hefur gert kröfu um að auk þeirrar 216.987 fermetra spildu sem eignarnámsheimild umhverfisráðherra tekur til og bæjarstjorn Garðabæjar samþykkti að taka eignarnámi verði eignarnámið látið ná til fimm spildna samtals 5.818 fermetra sem eru í landi hans. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignanáms segir að skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar, sem eftir er, verði ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, geti matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar. Spildurnar fimm eru sjálfstæðar einingar og voru áður skildar frá landi því sem hér er tekið eignanámi fyrir tilverknað eignanámsþola. Staða þessara spildna breytist í engu við eignarnámið. Framangreint skilyrði 12. gr. laga um framkvæmd eignarnáms er því ekki fyrir hendi hér og kröfu eignarnema því hafnað.

Land það sem tekið er eignarnámi eru tæpir 22 hektarar að flatarmáli. Þar af eru um 6 ha sem liggja með Hraunsholtslæk og á hraunkanti suðvestan við lækinn og suðaustan við göngustíg sem liggur þvert um hið eignarnumda land. Matsnefnd metur þetta land ekki sem byggingarland. Koma þar m.a. til náttúruverndar-, vatnsverndar- og heilbrigðissjónarmið, sbr. ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er umrætt land síður ákjósanlegt af byggingarfræðilegum ástæðum.

Land það sem þá er eftir er um 16 ha að flatarmáli og er allt byggingarhæft enda þótt það sé misjafnt að gæðum. Af hálfu eignarnema er miðað við að um 11 ha af því sé skipulagt útivistarsvæði og beri að meta sem slíkt. Við mat á bótum fyrir þetta land er þess annars vegar að gæta, að almennt séð geta sveitarfélög ekki í krafti skipulagsvalds stýrt verðmyndun lands með ákvörðunum um nýtingu þess í skipulagsáætlunum. Hins vegar hagar svo sérstaklega til í máli þessu að þegar á árinu 1973 lagði Náttúruverndarnefnd Garðabæjar til að tvö óbyggð svæði lægju í gegnum byggðina til sjávar og miðaðist fyrsta staðfesta aðalskipulag frá 1985 við það. Er land það sem hér er fjallað um á öðru þeirra. Hefur þannig um árabil verið gert ráð fyrir að umræddur hluti hraunsins yrði ekki nýttur sem byggingarsvæði heldur til útivistar. Niðurstaða um þetta er því sú, að ekki er fallist á það með eignarnema að fyrirætlanir hans um notkun landsins, eins og þeirra sér stað í aðalskipulagi, ráði verðmyndun hraunsvæðisins þó svo að líta verði að nokkru til þeirrar skipulagssögu sem að framan greinir.

Þeir 5 ha sem eftir standa og liggja vestan göngustígs verða metnir sem byggingarland án fyrirvara.

Af hálfu aðila hafa verið lögð fram ýmis gögn er lúta að verði lenda, spildna og lóða á stór-Reykjavíkursvæðinu allt frá árinu 1985. Auk þess hefur nefndin kannað sambærileg gögn frá sl. 15 árum. Samkvæmt þessu lítur nefndin við mat sitt til þróunar verðs á lóðum og lendum á Reykjavíkursvæðinu svo og þess hversu stórt svæðið er sem tekið er eignarnámi. Þá er til þess að líta að hluti landsins verður óhjákvæmilega að nýta undir götur og aðrar almannaþarfir.

Samkvæmt þessu eru framangreindir 6 ha sem ekki eru metnir sem byggingarland að verðmæti 24 milljónir króna.

Tæpir 11 ha hraunsvæðis eru metnir á 97 milljónir króna.

Loks eru 5 ha óskerts byggingarlands metnir á 60 milljónir króna.

Heildarmat hins eignarnumda lands er því 181 milljón króna.

Þá þykir hæfilegt að eignarnemi greiði eignanámsþolum 2.300.000 krónur í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og 950.000 krónur til ríkissjóðs vegna kostnaðar við störf matsnefndarinnar í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Garðabær, greiði eignarnámsþolum, Ástráði Valdimarssyni, Jakobi Valdimarssyni, Dagnýju Guðmundsdóttur, Hrönn Pétursdóttur og Hömlum ehf., 181 milljón króna fyrir 216.987 fermetra spildu úr landi Hraunsholts, austan Hafnarfjarðarvegar, Garðabæ.

Eignarnemi greiði eignarnámsþolum 2.300.000 krónur í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

Eignarnemi greiði 950.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf mats-nefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Allan V. Magnússon

Karl Axelsson

Vífill Oddsson

Ár 2003, föstudaginn 11. apríl, er í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matmálið nr. 8/2002

Garðabær

gegn

Einari og Guðmundi Bjarnasonum

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Garðabær.

Eignarnámsþolar eru eru Guðmundur Bjarnason, kt. 190939-7319 og Einar Bjarnason, kt. 130549-2339, Stórási 20, Garðabæ.

Eignarnemi beiddist þess í bréfi dagsettu 6. nóvember 2002 að fram fari mat á 13.542 m2 ræktunarlandi á Hraunsholtshæð, sbr. 4. gr. laga um eignarnám nr. 11/1973, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997. Jafnfram beiddist hann þess með vísan til 1. mgr. 14. gr. laga um eignarnám að honum yrði fengin umráð spildunnar.

Landspilda sú sem tekin er eignarnámi er hluti úr landi Garðatorfu hinnar fornu og var leigð samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 11. júlí 1950 til Bjarna Jónssonar, sbr. samning 18. júli 1951. Landspildan var eingöngu leigð til ræktunar með skilyrðum og takmörkunum sem nánar er lýst í leigusamningnum.

Garðabær er nú eigandi landsins, en kveðst bundinn af ákvæðum samningsins um afnot eignarnámsþola vegna leigu þess.

Umrædd landspilda er á svæði sem nú þegar hefur verið deiliskipulagt sem íbúðarsvæði. Deiliskipulagið var samþykkt í skipulagsnefnd bæjarins 5. nóv. 1997, bæjarstjórn 20. nóv. 1997 og af skipulagsstjóra ríkisins 10. des. 1997. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að á svæðinu verði byggðar 380 íbúðir. Uppbygging svæðisins hófst á árinu 1999 og hefur nú þegar verið úthlutað nær öllum lóðum, en eftir er að úthluta 20 einbýlishúsalóðum, 4 parhúsalóðum (8 íbúðir) og einni raðhúsalóð (3 íbúðir). Hluti þeirra lóða er á landi því sem umræddur samningur nær til og nú er tekið eignarnámi

Eignarnemi lýsir því í greinargerð sinni, og enn fremur kemur fram í gögnum málsins, að allt frá því að uppbygging hófst á svæðinu hafa farið fram viðræður við eigendur ræktunarlandsins um kaup bæjarins á landinu. Á árinu 2000 var samþykkt breyting á deiliskipulagi svæðisins sem fólst í því að sameina tvær lóðir, Brúnás 10-12 í eina, sem nú nefnist þá Brúnás 12. Með skipulagsbreytingunni var hugmyndin að koma á móts við sjónarmið eignarnámsþola, en þeir eru eigendur fasteignarinnar að Stórási 20 og eiga þar lögheimili. Á hinni nýju sameinuðu lóð, er gert ráð fyrir að hús eignarnámsþola að Stórási 20 standi áfram og þá sem Brúnás 12, samkvæmt breyttu skipulagi.

Af hálfu Garðabæjar hefur verið lýst yfir vilja til að afsala til eignarnámsþola, án endurgjalds, lóðinni að Brúnási 12, sem þá yrði eignarlóð eignarnámsþola, en ekki leigulóð eins og almennt er um lóðir á svæðinu. Sú lóð væri um 1000 m2 stærri en núverandi lóð eignarnámsþola að Stórási 20.

Í framhaldi af breytingu skipulagsins hafa átt sér stað viðræður af hálfu Garðabæjar við eignarnámsþola en án árangurs. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem haldinn var 19. mars 2002 var samþykkt að gera eignarnámsþolum formlegt tilboð í réttindi þeirra til landsins að fjárhæð kr. 3.724.050. Við ákvörðun á fjárhæð tilboðsins var höfð hliðsjón af kaupsamningi er Garðabær gerði við eigendur ræktunarlands á Grundum, sem keypt var vegna framkvæmda við Vífilsstaðaveg frá Sjávargrund að hinu nýja íbúðahverfi í Ásum.

Síðan þá hefur tilboð bæjarins verið ítrekað með bréfum til lóðarhafa, dags. 20. apríl, 26. ágúst og 1. okt. sl.

Engin formleg viðbrögð hafi borist frá lóðarhöfum, en þeir hafa átt samtöl við starfsmenn Garðabæjar og lýst sjónarmiðum sínum til málsins, án þess að leggja til gagntilboð.

Af hálfu Garðabæjar hefur verið horft til þess við tilboðsgerð að réttindi eignarnámsþola til landsins eru verulegum takmörkum háð og verður þeim ekki jafnað til hefðbundins eignarréttar. Þannig er í samningi um leigu landsins tekið fram að landspildan sé einungis leigð til ræktunar, en ekki til annarra afnota. Þá er í samningnum skýrt ákvæði um að leigutaka beri skylda til að láta leigurétt sinn af hendi, hvenær sem réttur eigandi þess krefst vegna notkunar undir opinber mannvirki ofl.

Í bréfum til lóðarhafa hefur komið fram að Garðabæ er nauðsynlegt að fá umráð landsins til að þróa það skipulag sem lýst er í deiliskipulagi er samþykkt hefur verið fyrir svæðið. Þá hefur verið vísað til þess að ef ekki náist samkomulag um verðmæti ræktunar, sé nauðsynlegt að fram fari mat á landinu og í því sambandi bent á ákvæði ræktunarsamnings þar sem kveðið er á um að leita skuli eftir mati dómkvaddra manna á verðmæti ræktunar eða annarra mannvirkja. Í bréfi til lóðarhafa, dags. 1. okt. sl. var sérstaklega tekið fram að náist ekki samkomulag um verðmæti landsins eða um málsmeðferð verði gerð tillaga um það til bæjarráðs Garðabæjar að taka landið eignarnámi og að þess verði þá krafist að Garðabær fái umráð landsins áður en matsnefndin úrskurði um bætur.

Með bréfi, dags. 11. okt. sl. leitaði Garðabær eftir umsögn Skipulagsstofnunar ríkisins vegna fyrirhugaðs eignarnáms, sbr. skilyrði 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi, dags. 15. okt. sl., og í bréfinu kemur fram að stofnunin telur skilyrði 2. og 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga uppfyllt og gerir ekki athugasemd við eignarnám Garðabæjar á landspildunni.

Bréf Skipulagsstofnunar var sent eignarnámsþolum með bréfi, dags. 23. okt. sl. og þeim gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina, jafnframt sem tilboð Garðabæjar var ítrekað. Af hálfu eignarnámsþola bárust engin viðbrögð.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem haldinn var 29. okt. sl., var umsögn Skipulagsstofnunar lögð fram og samþykkt að fela bæjarstjóra að fara þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að fram fari mat á eignarnámsbótum. Fundargerð þessa fundar bæjarráðs var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 7. nóvember sl.

Eftir að matsnenfd hafði tekið til meðferðar þótti henni skorta á að formleg ákvörðun bæjarstjórnar um beitingu eignanáms og umráðatöku lægi fyrir. Frestaði nefndin því málinu þar til úr yrði bætt. Á fundi sínum 10. apríl sl. samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar að taka umrædda spildu eignarnámi og að krefjast umráða spildunnar.

Það álitaefni er til úrlausnar hér, að Garðabær fer þess á leit að matsnefndin heimili bænum sem eignarnema að taka umráð þess landsvæðis sem samþykkt hefur verið að taka eignarnámi og auglýsa úthlutun lóða og ráðast í þær framkvæmdir sem lýst er í deiliskipulagi fyrir svæðið, sbr. ákvæði 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Verði þess krafist mun af hálfu Garðabæjar verða sett trygging vegna væntanlegra bóta, samkvæmt ákvörðun matsnefndar.

Með bréfi matsnefndarinnar til eignanámsþola dagsettu 19. mars sl. sem birt var þeim af stefnuvotti Garðabæjar var þeim tilkynnt um meðferð máls þessa og þeir boðaðir til fyrirtöku þess 24. mars sl. ella yrði litið svo á að Jón Ármann Guðjónson, hdl. færi með hagsmuni þeirra við matið. Eignanámsþolar mættu ekki til fyrirtökunnar og Jón Ármann Guðjónsson, tilkynnti nefndinni að eignanámsþolar hefðu tilkynnt honum að þess væri ekki óskað að hann færi með hagsmuni þeirra.

Þá voru eignarnámsþolar boðaðir með sama hætti til vettvangsgöngu þann 4. apríl sl. og tilkynnt að krafa um umráðatöku yrði tekin til úrskurðar að henni lokinni. Eignarnámsþolar sinntu þessari boðun ekki að heldur.

Ekki er að sjá merki þess að spilda sú, er eignanámið beinist að, sé eða hafi verið í ræktun undanfarin ár og ekki verður séð hverja sérstaka hagsmuni eignanámsþolar hafi af því að halda umráðum hennar.

Deiliskipulag var samþykkt 1997 og af gögnum málsins er ljóst að eignarnemi hefur reynt til þrautar að ná samkomulagi við eignarnámsþola um að fá umráð spildunnar og hvert verð skuli greiða sem bætur fyrir réttindi þeirra. Ljóst er að eignarnema er brýnt að fá umráð spildunnar vegna áframhaldandi framkvæmdar deiliskipulagsins.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á þá kröfu eignarnema að honum verði fengin umráð 13.542 fermetra spildu á Hraunholtshæð sem hann gerir kröfu um.

Ekki þykja efni til þess að gera eignarnema að setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum enda hefur þeirra ekki verið krafist.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnema Garðabæ er heimilt að taka í umráð sín 13.542 fermetra ræktunarland á Hraunsholtshæð.

Allan V. Magnússon

Karl Axelsson

Vífill Oddsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum