Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 30/2022

Úrskurður 30/2022

 

Þriðjudaginn 22. nóvember 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 20. maí 2022, kærði [...] (hér eftir kærandi), málsmeðferð embættis landlæknis vegna álits, dags. 4. nóvember 2021, vegna kvörtunar [...] (hér eftir A).

 

Kærandi krefst þess að ráðuneytið ómerki málsmeðferð landlæknis og mæli fyrir að það verði tekið fyrir að nýju af þar til hæfum aðilum.

 

Kæruheimild er í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og barst kæra fyrir lok kærufrests.

 

I. Málavextir og meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Samkvæmt gögnum málsins kvartaði aðstandandi A, þann 20. mars 2018, til embættis landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu á X, m.a. af kæranda. Með áliti, dags. 4. nóvember 2021, komst embætti landlæknis að þeirri niðurstöðu að mistök og vanræksla hefðu verið gerð við veitingu heilbrigðisþjónustu til A.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæru sem barst með bréfi, dags. 21. júlí sl. Kærandi gerði athugasemdir við umsögnina þann 29. ágúst. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru gerir kærandi athugasemdir við hæfi tiltekins starfsmanns embættis landlæknis sem kom að gerð álitsins. Byggir kærandi á því að starfsmaðurinn sé vanhæfur á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna meintrar óviðeigandi framkomu við meðferð annars kvörtunarmáls sem embætti landlæknis hafði til meðferðar vegna kæranda. Þá byggir kærandi á því að hann hafi ekki fengið kost á að koma athugasemdum á framfæri við umsögn óháðs sérfræðings, sem feli í sér brot gegn andmælarétti hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga.

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis og athugasemdir kæranda.

Vegna málsástæðu kæranda um hæfi starfsmanns embættis landlæknis vísar embættið til þess að ráðuneytið hafi þegar tekið afstöðu til hennar í úrskurðum nr. 19/2020 og 5/2021, þar sem ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að starfsmaðurinn hafi ekki verið vanhæfur til að koma að málum kæranda. Að því er varðar andmælarétt kemur fram að umsögn óháðs sérfræðings hafi verið send til kæranda með rafrænum hætti og í ábyrgðarpósti, en kærandi hafi ekki vitjað bréfsins á pósthús. Í athugasemdum kæranda eru málsástæður í kæru ítrekaðar.

 

IV. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

 

Í II. kafla laganna er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um kvörtun til landlæknis í 12. gr., en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

 

Kærandi hefur borið því við í tveimur öðrum málum, sem ráðuneytið hefur haft til meðferðar, að fyrrgreindur starfsmaður hafi verið vanhæfur til að koma að meðferð kvartana sem beindust gegn kæranda. Þann 26. júní 2020 kvað ráðuneytið upp úrskurð nr. 19/2020, en í úrskurðinum var tekin afstaða til hæfis með þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilegur grundvöllur fyrir því að draga mætti hlutleysi starfsmanns embættis landlækni í efa með réttu. Starfsmaðurinn hafi því verið hæfur til að fjalla um það mál kæranda. Tók ráðuneytið einnig fram að miðað við fyrirliggjandi gögn í því máli væri rétt að líta svo á að starfsmaðurinn væri einnig hæfur til að fjalla um önnur mál sem tengdust kæranda. Í úrskurði nr. 5/2021, uppkveðnum 18. júní 2021, komst ráðuneytið að sömu niðurstöðu um hæfi starfsmannsins með vísan til úrskurðar nr. 19/2020. Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir úrskurði nr. 5/2021 en með áliti þann 20. september sl., í máli nr. 11447/2021, kom fram að umboðsmaður hefði ekki forsendur til að líta svo á að starfsmaður embættis landlæknis hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna óvildar. Málsástæður kæranda nú varðandi meint vanhæfi varða ekki nein ný atvik í samskiptum við umræddan starfsmann. Að framangreindu virtu verður ekki fallist á að starfsmaður embættis landlæknis hafi verið vanhæfur til að koma að meðferð kvörtunar kæranda á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

 

Hvað andmælarétt varðar kemur fram í áliti embættis landlæknis, dags. 4. nóvember 2021, að embættið hafi sent kæranda kvörtun í málinu ásamt athugasemdum kvartanda í ábyrgðarpósti, þar sem óskað hafi verið greinargerð hans í málinu. Er greinargerð kæranda rakin í álitinu. Þá kemur fram í álitinu að X hafi sent kæranda ábyrgðarbréf, dags. 21. ágúst 2020, með umsögn óháðs sérfræðings, þar sem kæranda hafi verið veitt tækifæri til að koma að athugasemdum um umsögnina. Í álitinu kemur fram að kærandi hafi ekki sótt ábyrgðarbréfið. Í umsögn embættis landlæknis um kæru er vísað í tölvupóst X til kæranda þann 21. ágúst 2020, þar sem fram kemur að kæranda hafi verið send gögnin með rafrænum hætti. Kærandi hafi borið því við að hafa ekki móttekið gögnin og óskað eftir að þau yrðu send í ábyrgðarpósti.

 

Meðal gagna málsins er yfirlit frá Íslandspósti um stöðu fyrrnefnds ábyrgðarbréfs til kæranda. Af yfirlitinu má ráða að gerð hafi verið tilraun til að afhenda bréfið 24. ágúst 2020 án árangurs. Þann 25. ágúst 2020 hafi tilkynning verið skilin eftir hjá kæranda um að hann gæti nálgast bréfið á pósthúsi. Kom bréfið á pósthús þann dag. Tilkynning um bréfið var ítrekuð 1. og 11. september án þess að bréfið hafi verið sótt. Var það endursent X þann 24. september 2020. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi fengið umsögn óháðs sérfræðings senda í tölvupósti í þeim tilgangi að koma athugasemdum við hana á framfæri.

 

Í viðmiðum um fresti í stjórnsýslurétti er almennt litið svo á að tilkynning teljist komin til aðila þegar hann hefur kost á að kynna sér efni hennar. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 51/2003, um breytingu á stjórnsýslulögum, segir að tilkynning um stjórnvaldsákvörðun teljist komin til aðila þegar bréf með tilkynningu hefur verið borin út til heimilis aðila eða í pósthólf hans. Þá segir um rafræn gögn að almennt myndu þau teljast komin til einhvers þegar hann á þess kost að kynna sér efni þeirra. Ef tölvuskeyti er t.d. aðgengilegt aðila hjá vefþjóni hans myndi skeytið teljast komið til hans í framangreindum skilningi. Telur ráðuneytið að leggja megi sambærileg sjónarmið til grundvallar þegar metið er hvort gögn hafi borist til málsaðila við meðferð máls.

 

Í samræmi við þessi sjónarmið verður að leggja til grundvallar kæranda hafi verið veitt fullnægjandi tækifæri til að kynna sér umsögn óháðs sérfræðings í málinu og koma á framfæri athugasemdum við hana. Vísar ráðuneytið einnig til fyrrgreinds álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11447/2021, en í því máli lá fyrir að umsögn óháðs sérfræðings hafði verið send á lögheimili kæranda. Taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til annars en að líta svo á að kæranda hefði verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum við umsögnina á framfæri.

 

Þótt líta megi svo á að umsögnin hafi verið komin til kæranda þegar hún var send til hans í tölvupósti varð X við óskum kæranda um að senda gögnin í ábyrgðarpósti. Skiptir í því sambandi engu þótt kærandi hafi ekki sótt bréfið á pósthús enda lét hann sjálfur hjá líða að vitja gagna sem send voru til hans með hætti sem hann óskaði sérstaklega eftir. Við þær aðstæður getur kærandi ekki borið því við að brotið hafi verið gegn rétti hans til að koma að andmælum. Þá verður ekki séð að neinir annmarkar hafi verið á málsmeðferð embættis landlæknis í málinu sem gætu leitt til ómerkingar hennar.

 

Samkvæmt framangreindu verður málsmeðferð embættis landlæknis staðfest.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar, dags. 20. mars 2018, er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum