Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

947/2020. Úrskurður frá 23. nóvember 2020

Úrskurður

Hinn 23. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 947/2020 í máli ÚNU 20080014.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 17. ágúst 2020, kærði A afgreiðslu Herjólfs ohf., dags. 12. ágúst 2020, á beiðni um aðgang að öllum fundargerðum félagsins frá því fundir hófust, með vísan til 5. gr. eigendastefnu félagsins. Í svari Herjólfs ohf. til kæranda, dags. 12. ágúst 2020, kemur fram að allar fundargerðir séu birtar á vefsíðu sveitarfélagsins sem fari með eigendahlut í félaginu og bent er á slóðina þar sem þær er að finna.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um aðgang að fundargerðum Herjólfs ohf. en í svari félagsins til kæranda var bent á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar þar sem nálgast má fundargerðirnar.

Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar.

Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.

Samkvæmt framangreindu var Herjólfi ohf. heimilt að afgreiða beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum með því að vísa á vefslóð Vestmannaeyjabæjar þar sem unnt er með einföldum hætti að nálgast þær, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar nr. 598/2015, 675/2017, 896/2020 og 914/2020. Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun um að synja kæranda um aðgang að gögnum með umbeðnum upplýsingum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 17. ágúst 2020, vegna afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að fundargerðum félagsins er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum