Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu að afturkalla leyfi til að endurvigta sjávarafla.

Atvinnuvega – og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi:

Úrskurð

Efni: Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 18. febrúar 2019, frá X, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags 30. janúar 2019, að afturkalla leyfi kæranda til að endurvigta sjávarafla, með vísan til 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.  

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. janúar 2019, um afturköllun á endurvigtunarleyfi kæranda frá og með 2. mars 2019, verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Málsatvikum er líst í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 10. september 2018, þar sem segir að við eftirlit hafi komið í ljós að innsigli vogar með verksmiðjunúmerið Y hafi rofnað þann 22. maí 2017. Einnig hafi komið í ljós að innsigli vogar með verksmiðjunúmerið Z hafi rofið þann 31. maí 2017. Báðar vogarnar hafi verið fluttar í annað rými í húsnæðinu í maí 2017 og hefðu innsigli trúlega rofnað við það.

Þann 17. janúar 2019 sendi Fiskistofa bréf til kæranda þar sem tilkynnt var um meðferð málsins, málsatvik reifuð og kæranda gefinn kostur á að koma andmælum eða athugasemdum á framfæri, áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Athugasemdir kæranda bárust Fiskistofu, þann 25. janúar 2019, þar sem fram kom að þegar vogarnar hafi verið færðar í maí 2017 hafi starfsmaður framleiðanda voganna, Marel hf., verið fenginn til að aftengja og setja þær upp á ný. Hafi löggildir vigtarmenn kæranda ekki áttað sig á að það þyrfti að löggilda þær á nýjan leik, enda hafi löggildingamiði verið á vogunum og þeir ekki haft kunnáttu til að fara inn í vogar hausana og athuga tölur þar.

Með ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. janúar 2019, var leyfi kæranda til að endurvigta sjávarafla afturkallað, með vísan til 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar.

Stjórnsýslukæra vegna framangreindrar ákvörðunar barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með bréfi, dags. 18. febrúar 2019. Óskaði ráðuneytið í kjölfarið eftir umsögn Fiskistofu með tölvupósti, þann 1. mars. 2019. Barst umsögn Fiskistofu með bréfi ásamt fylgiskjölum, þann. 8. mars. 2019. Með tölvupósti, dags. 16. apríl 2019, var kæranda gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Fiskistofu. Bárust athugasemdir kæranda, dags. 6. maí 2019. Ekki var talin þörf á að senda athugasemdir kæranda til Fiskistofu og er málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2019, óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa meðan kærumálið væri til meðferðar. Framsendi Fiskistofa beiðni kæranda til ráðuneytisins með tölvupósti sama dag. Með bréfi, dags. 1. mars. 2019, hafnaði ráðuneytið umræddri beiðni með þeim rökum að ekki væri hægt að sjá að ákvörðun Fiskistofu ylli kæranda tjóni, né hafi það verið augljóst af lestri stjórnsýslukærunnar að ákvörðun Fiskistofu yrði felld úr gildi.

Málsástæður og sjónarmið í stjórnsýslukæru

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærandi telji að Fiskistofa hafi brotið gegn meðalhófi við ákvörðun um sviptingu leyfis til endurvigtunar. Hið meinta brot sé minni háttar brot í skilningi 3. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996,  og það hafi verið fyrsta brot kæranda. Einnig hafi brot kæranda ekki haft í för með sér ávinning fyrir kæranda þar sem það leiddi ekki til rangrar aflaskráningar.

 

Kærandi telur að Fiskistofa hafi brotið gegn rannsóknarskyldu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að hafa ekki hlutast til um að málið væri að fullu upplýst áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Bendir kærandi á að Fiskistofa hafi ekki rannsakað fyllilega hvernig vogir kæranda vigtuðu, þ.e. hvort rof á innsiglum hafi leitt til rangskráningar á afla og jafnframt hvernig það hafi komið til að innsigli hafi verið rofin.

Sjónarmið Fiskistofu

Í umsögn Fiskistofu kemur fram að ákvörðun um afturköllun á leyfi til enduvigtunar feli í sér afturköllun á sérstöku leyfi yfirvalda sem veitt sé, skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Því er hafnað að ákvæði 3. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 beri að skilja þannig að þar sé átt við fyrsta brot sem ekki leiði til rangrar aflaskráningar. Fiskistofa telji að skýra beri ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan en brot vigtunarleyfishafa geta verið meiriháttar brot án þess að þau hafi bersýnilega leitt til rangrar aflaskráningar. Óumdeilt sé að brot kæranda hafi verið fyrsta brot í skilningi 3. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 og að um gáleysisbrot hafi verið að ræða.

Fiskistofa hafnar því að um minniháttar brot sé að ræða enda sé lögfest sú grundvallaregla að öll vigtun sjávarafla skuli framkvæmd með löggildri vog. Vogirnar sem um ræðir hafi verið án löggildingar í tæpa 15 mánuði.

 

Forsendur og niðurstaða

I.          Kærufrestur

Ákvörðun Fiskistofu um afturköllun á endurvigtunarleyfi kæranda er dagsett 30. janúar 2019 og barst stjórnsýslukæran 18. febrúar 2019. Kærufrestur er einn mánuður, skv. 18. gr. laga nr. 57/1996 og barst því kæran innan tilskilins frests og er málið tekið til efnismeðferðar.

 

II.         Meiriháttar eða minniháttar brot

Fiskistofa veitti kæranda leyfi til endurvigtunar á sjávarafla, skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, dags. 6. júlí 2017. Við eftirlit Fiskistofu hjá kæranda, dags. 6. september 2018, kom í ljós að innsigli á vog með verksmiðjunúmerið Y var rofið á tímabilinu 22. maí 2017 –  6. september 2018. Einnig kom í ljós að innsigli á vog með verksmiðjunúmerið Z var rofið á tímabilinu 31. maí 2017 – 6. september 2018. Ekki er ágreiningur í málinu um hvort innsigli hafi verið rofið, einnig hefur ekki verið sýnt fram á að ásetningur kæranda hafi verið til þess að rjúfa innsiglið.

Kærandi telur að í ljósi þess að ekki hafi verið ásetningur til að rjúfa innsiglin og að vogirnar vigtuðu ekki rangt verði að meta brot kæranda sem minni háttar og þannig hafi Fiskistofu borið að veita kæranda skriflega áminningu, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 56/1997. Í ákvörðun Fiskistofu kemur fram að löggjafinn hafi með lagasetningu lagt áherslu á að öll vigtun sjávarafla sem opinber skráning sé byggð á, skuli framkvæmd af löggiltum vigtarmanni og að við hana sé notuð löggilt vog. Um ófrávíkjanlegt skilyrði sé að ræða og sé þeim ætlað að vernda mikilsverða hagsmuni. Brot gegn þeim geti því ekki talist minniháttar brot.

Ráðuneytið tekur undir með Fiskistofu að vigtun sjávarafla sé mikilvægur hluti fiskveiðistjórnunarkerfisins og er það ófrávíkjanlegt skilyrði að vigtun vigtunarleyfishafa skuli fara fram á löggildri vog sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996 og 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Ráðuneytið getur hins vegar ekki fallist á svo fortakslausa túlkun að sérhvert tilfelli þar sem vigtun hefur farið fram á vog sem ekki sé löggilt skuli leiða til sviptingar á leyfi til vigtunar. Ráðuneytið telur að Fiskistofu beri að leggja mat á sérhvert tilfelli hvort um minni háttar eða meiri háttar brot sé að ræða og þá hvort beita skuli 1. eða 3. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar.

Í því máli sem hér er til skoðunar var innsigli rofið á tveimur vogum, annars vegar á tímabilinu 22. maí 2017 – 6. september 2018, og hins vegar frá 31. maí 2017 – 6. september 2018, eða í rúmlega 15 mánuði. Kærandi hefur bent á að vogirnar voru rétt stilltar og afli því rétt veginn. Kærandi telur að innsigli voganna hafi verið rofið af starfsmanni Marel ehf., sem fenginn var til þess að aftengja og setja vogarnar upp á ný, og því um gáleysisbrot að ræða. Fiskistofa hefur ekki mótmælt þessum málsástæðum kæranda.

Í 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla segir að vigtun afla skuli framkvæmd af vigtarmanni sem hlotið hefur löggildingu til vigtunar og notuð til þess löggilt vog. Með því að gera kröfu um að löggiltir vigtunarmenn framkvæmi vigtun er reynt að tryggja að ákveðin þekking sé til staðar hjá vigtunarleyfishafa sem er m.a. ætlað að tryggja eftirlit með því að vogir uppfylli lagalegar kröfur, m.a. að þær fullnægi skilyrðum um löggildingu. Í ljósi þess hve lengi innsigli var rofið verði að telja að kærandi hafi sýnt vítavert gáleysi að hafa ekki fylgst með því hvort vigtin væri löggilt. Er því ekki hægt að meta brot kæranda sem minniháttar brot. Af því leiðir einnig að Fiskistofa braut ekki gegn meðalhófsreglu við meðferð málsins, skv. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðuneytið getur ekki tekið undir þá málsástæðu kæranda að Fiskistofa hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, við meðferð málsins. Telst það einnig ekki hafa áhrif á úrlausn þessa máls hvernig vogir kæranda vigtuðu og hvernig það kom til að innsigli voru rofin. Sýnt hefur verið fram á að um gáleysisbrot hafi verið að ræða en eins og fyrr greinir hvíla ákveðnar skyldur á þeim aðilum sem hafa leyfi til endurvigtunar, þ.a.m. að gæta þess að vogar sem notaðar eru séu löggildar og var þeirri skyldu ekki sinnt í 15 mánuði og vogirnar í notkun.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að líta verði á þá háttsemi kæranda að nota vogir nr. Y og Z, sem ekki voru löggildar í 15 mánuði, sem meiriháttar brot.

 

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. janúar 2019, um að afturkalla, með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar, leyfi skv. 2. mgr. 6. gr. sömu laga til endurvigtunar sjávarafla á V, útgefið 6. júlí 2017.

 

 

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum