Hoppa yfir valmynd
%EF%BF%BD%EF%BF%BDrskur%EF%BF%BD%EF%BF%BDarnefnd%20velfer%EF%BF%BD%EF%BF%BDarm%EF%BF%BD%EF%BF%BDla%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 446/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 446/2022

Miðvikudaginn 26. október 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 6. september 2022, kærði B, f.h. ólögráða dóttur sinnar, A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. júní 2022 á umsókn um styrk til kaupa á þríhjóli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 11. maí 2022, var sótt um styrk til kaupa á þríhjóli. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 10. júní 2022, var umsókn kæranda synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. september 2022. Með bréfi, dags. 8. september 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 3. október 2022, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að kærandi óski eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði synjun Sjúkratrygginga Íslands á styrk til kaupa á þríhjóli.

Í kæru kemur fram að um sé að ræða aðra neitun Sjúkratrygginga Íslands vegna svipaðs hjálpartækis en synjanirnar séu mismunandi og í raun í þversögn að mati umboðsmanns kæranda.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 10. júní 2022, hafi umsókn verið synjað á þeim grundvelli að reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja hafi ekki heimilað greiðsluþátttöku. Í niðurlagi bréfs hafi komið fram frekari rökstuðningur fyrir synjun:

„Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021 segir að Sjúkratryggingar Íslands greiða styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivist og íþróttir). Tæki til líkamsæfinga flokkast ekki undir hjálpartæki skv. þessari reglugerð. Það er mat SÍ að umrætt tæki sé eingöngu ætlað til nota í frístundum eða til afþreyingar en ekki til annarra athafna sem auðvelda einstaklingnum að fást við athafnir dagslegs lífs. Sótt er um umrætt tæki í þeim tilgangi að gera umsækjanda kleift að fara í lengri hjólatúra með foreldrum meðstuðningi með því að sá aðili hjólar með á tækinu. Að mati SÍ er um að ræða tæki sem aðeins nýtist við líkamsþjálfun eða útivist.“

Þessi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Tekið er fram að ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar gildi um hjálpartæki. Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna kveði á um að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji.

Í 2. mgr. 26. gr. sé hjálpartæki í skilningi laganna skilgreint sem tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig komi fram að hjálpartækið verði að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja sé sett með stoð í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að hjálpartæki sé tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar komi fram að einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur sé ekki greiddur sé hjálpartæki eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivistar og íþrótta). Tæki til líkamsæfinga flokkist ekki undir hjálpartæki samkvæmt þessari reglugerð.

Sjúkratryggingum Íslands sé falið að gera einstaklingsbundið mat vegna hverrar umsóknar og taka ákvörðun á grundvelli gildandi laga og reglugerða.

Farið hafi verið yfir umsókn kæranda á sínum tíma og framkvæmt einstaklingsbundið mat vegna hennar.

Í rökstuðningi með umsókn um þríhjól komi fram að kærandi sé greind með flókinn taugasjúkdóm sem komi í köstum og valdi tímabundinni hreyfihömlun. Köstunum fylgi meðal annars krampar og þau séu oft tengd ákveðnum utanaðkomandi þáttum svo sem líkamlegri áreynslu og því þurfi að stilla sjálfsprottinni hreyfingu hennar í hóf. Þá komi fram að hjólatúrar á hjólastólahjóli hafi haft mikil áhrif á umönnun kæranda, hjólatúrar hjálpi henni að komast úr köstum og að slökun og vellíðan sem hún upplifi í hjólatúrum auðveldi næringarinntöku hennar. Kærandi geti ekki hjólað langar vegalengdir í einu og mikilvægt sé að hún geti stýrt ákefð sinni eftir dagsformi. Því sé sótt um Fun2Go þríhjólið þar sem það er tveggja manna hjól og kærandi geti þá valið á milli þess að hjóla ein, með aðstoð eða að hvíla sig á meðan aðstoðarmaður hjólar. Þá sé mikilvægt að hjólið sé rafknúið þar sem hjólið sé þungt og erfitt að hjóla þegar tvær manneskjur sitji á því, sérstaklega þegar kærandi þreytist og geti ekki lengur hjólað.

Umsókn um Fun2Go tveggja manna þríhjól hafi verið synjað 10. júní 2022. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafi borist hafi ekki verið talið að hjólið myndi auka sjálfsbjargargetu kæranda. Styrkur væri greiddur vegna hjálpartækja sem auðveldi einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum væri um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur sé ekki greiddur sé hjálpartæki eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ.á.m. útivistar og íþrótta). Tæki til líkamsæfinga flokkist ekki undir hjálpartæki samkvæmt reglugerðinni. Í fyrri umsókn kæranda til Sjúkratrygginga Íslands um Opair 3 hjólastólahjól, sem synjað hafi verið 23. júní 2021 á þeim grundvelli að ekki væri heimild fyrir því í reglugerð, hafi komið fram í svarbréfi að af þeim upplýsingum sem fyrir lægju myndi umrætt hjálpartæki ekki nýtast sem ferlihjálpartæki sem greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands næði til þar sem það yki ekki sjálfsbjargargetu hennar og/eða gerði henni kleift að komast um án aðstoðar. Þá væri tækið ætlað til notkunar í frístundum og til afþreyingar (útivistar) og það heimili reglugerðin ekki.

Af þeim rökstuðningi sem hafi fylgt umsókn kæranda sé ljóst að kærandi muni ekki geta notað hjólið einsömul, heldur yrði hún ávallt með aðstoðarmanneskju með sér sem stigi hjólið með henni og aðstoðaði hana við að stýra því. Í rökstuðningnum komi fram að hjólið sé hugsað til þess að kærandi geti farið í hjólatúra með foreldrum sínum til þess að hún fái tækifæri til að upplifa náttúruna og eiga félagsleg samskipti við fólk sem verði á vegi hennar, gefa öndum brauð og svo framvegis. Þá gangi betur að fá kæranda til þess að nærast á meðan hún stundi útivist.

Við mat á umsókninni hafi verið hafður til hliðsjónar úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. [376/2019] þar sem fram hafi komið að ljóst væri að umsækjandi hjólaði ekki sjálf á hjólastólahjóli sem sótt hafi verið um, heldur aðstoðarmaður hennar. Í umsókninni hafi komið fram að hjálpartækið myndi létta umönnun og það að geta verið úti á ferðinni þroski hana mikið. Það hafi verið mat nefndarinnar að þrátt fyrir að hjálpartækið gæti verið gagnlegt fyrir kæranda, yrði ekki ráðið af gögnum málsins að hjálpartækið væri henni nauðsynlegt líkt og áskilið sé í 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008. Það að tækið auðveldi umönnun gæti ekki talist kæranda nauðsynlegt í framangreindum skilningi og var greiðsluþátttaka því ekki samþykkt.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands geti umrætt hjól ekki talist nauðsynlegt samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008, auk þess sem það muni ekki auka sjálfstæði eða sjálfsbjargargetu hennar þar sem hún yrði algerlega háð öðrum við notkun þess. Þá sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að sú notkun sem lýst sé í rökstuðningi með umsókn sé ekki þess eðlis að heimilt sé að samþykkja greiðsluþátttöku í hjálpartækinu þar sem tækið sé ætlað til notkunar í frístundum og til afþreyingar (útivistar).

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021 skuli hjálpartæki vera nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé reglugerðin afdráttarlaus varðandi það skilyrði að styrkur sé ekki greiddur sé hjálpartæki eingöngu til nota í frístundum og til afþreyingar (útivistar) og að tæki til líkamsæfinga sé ekki hjálpartæki í skilningi reglugerðarinnar. Tveggja manna þríhjól auki ekki sjálfsbjargargetu kæranda og auðveldi ekki athafnir daglegs lífs og geti því ekki talist nauðsynlegt í skilningi reglugerðar nr. 760/2021.

Það sé því mat Sjúkratrygginga Íslands að með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur sé ekki greiddur sé hjálpartæki eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar, þar á meðal útivistar og íþrótta.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar.

Í umsókn kæranda kemur fram að sótt sé um styrk til kaupa á þríhjóli með fótstigi samkvæmt lið 12 18 06 í fylgiskjali með reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja. Flokkur 12 í fylgiskjalinu fjallar um ferlihjálpartæki og hjálpartæki við flutning. Í flokki 12 18 er fjallað um hjól og þar segir:

„Sjúkratryggingar Íslands greiða einungis fyrir þríhjól. Þríhjól eru greidd fyrir fjölfatlaða ef ekki er hægt að nota tvíhjól með stuðningshjólum. Að jafnaði er ekki greitt fyrir þríhjól fyrir börn yngri en tveggja ára.“

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda á þeirri forsendu að þríhjól muni ekki auka sjálfstæði kæranda við að sinna daglegum erindum eða auðvelda athafnir daglegs lífs þar sem hún sé ekki fær um að bjarga sér án aðstoðar við að komast á hjólið eða af því. Hjálpartækið geti þannig ekki talist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi reglugerðar, auk þess sem hjólið virðist fyrst og fremst ætlað til útivistar og afþreyingar en ekki sem ferlihjálpartæki.

Í fyrri umsókn kæranda um Opair 3 hjólastólahjól, dags. 9. júní 2021, útfylltri af C C sjúkraþjálfara, segir svo:

„A er greind með […] sem er flókinn taugasjúkdómur. Sjúkdómurinn kemur í köstum og veldur tímabundinni hreyfihömlun. Köstin eru margbreytileg og ná til annarrar eða beggja líkamshliða í einu. Oft fylgja köstunum óeðlilegar augnhreyfingar og stundum krampar. Köstin eru oft tengd ákveðnum utanaðkomandi þáttum, s.s. líkamlegri áreynslu. Sökum þessa er mikilvægt að stilla sjálfsprottinni hreyfingu A í hóf og situr hún því stærstan hluta dagsins í hjólastól. Það að vera á hreyfingu hefur góð áhrif á sjúkdómseinkenni ef það felur ekki í sér áreynslu fyrir A. Það sem hefur reynst henni best er að fara út í hjólatúra með foreldrum sínum. A var fyrir átta árum gefið gamalt hjólastólahjól og hefur það gjörbreytt umönnun hennar. Það að upplifa útiveru og hraðann sem hjólatúr býður upp á hjálpar henni að slaka á og komast úr […] köstum. Ein stærsta hindrunin í umönnun A í gegnum tíðina hefur verið að fá hana til að nærast almennilega en það er þekktur fylgikvilli sjúkdómsins. Slökunin og vellíðanin sem hún upplifir í hjólatúrum auðveldar næringarinntöku til muna. Núverandi hjól er orðið þreytt og þarfnast endurnýjunar. Foreldrar vilja halda áfram að hjóla með A og vilja því fá sambærilegt hjól og þau hafa notað. Opair 3 frá VanRaam er nýrri týpa af hjólinu sem hún á í dag. Það skiptir miklu máli fyrir þroska A að hún geti haldið áfram að fara út í hjólatúra með foreldrum sínum. Þannig nær hún tengingu við samfélagið sem hún hefur ekki kost á að upplifa öðruvísi. Göngutúrar og bíltúrar hafa til að mynda ekki sömu áhrif varðandi vellíðan. Í göngutúrum er hraðinn minni og ferðirnar styttri og í bíltúrum upplifir A ekki útiveruna og ferska loftið sem hún fær í hjólatúrum. Mikilvægt er hjólið verði rafknúið¿þar sem það er mjög þungt þegar setið er í stólnum framan á því og ekki raunhæft að fara í langa hjólatúra þannig.“

Í umsókn kæranda um Fun2Go þríhjól, dags. 11. maí 2022, útfylltri af C sjúkraþjálfara, er rökstuðningur fyrir hjálpartækinu eftirfarandi:

„A er greind með […] sem er flókinn taugasjúkdómur. Sjúkdómurinn kemur í köstum og veldur tímabundinni hreyfihömlun. Köstin eru margbreytileg og ná til annarrar eða beggja líkamshliða í einu. Oft fylgja köstunum óeðlilegar augnhreyfingar og stundum krampar. Köstin eru oft tengd ákveðnum utanaðkomandi þáttum, s.s. líkamlegri áreynslu. Sökum þessa er mikilvægt að stilla sjálfsprottinni hreyfingu A í hóf og situr hún því stærstan hluta dagsins í hjólastól. Það að vera á hreyfingu hefur góð áhrif á sjúkdómseinkenni ef það felur ekki í sér áreynslu fyrir A. Það sem hefur reynst henni best er að fara út í hjólatúra með foreldrum sínum. Til þessa hefur hún farið um á Opair 3 hjólastólahjóli sem foreldrar fjárfestu í. Þá hjóla foreldrar og hún situr í hjólastól framan á hjólinu. Hjólatúrarnir hafa gjörbreytt umönnun hennar síðastliðinn áratug. Það að upplifa útiveru og hraðann sem hjólatúr býður upp á hjálpar henni að slaka á og komast úr […] köstum. Ein stærsta hindrunin í umönnun A í gegnum tíðina hefur verið að fá hana til að nærast almennilega en það er þekktur fylgikvilli sjúkdómsins. Slökunin og vellíðanin sem hún upplifir í hjólatúrum auðveldar næringarinntöku til muna. A er farið að langa að taka virkari þátt í hjólatúrum. Hún getur hjólað sjálf en sökum aukinnar áhættu á köstum við líkamlega áreynslu getur hún ekki hjólað langar vegalengdir í einu og það er mikilvægt að geta valið ákefð hverju sinni eftir dagsformi. Fun2Go þríhjólið frá VanRaam er tveggja manna hjól sem gefur möguleika á þessu. Þá getur A valið á milli þess að hjóla ein, með aðstoðarmanni eða að hvíla sig á meðan aðstoðarmaður hjólar og hún getur því notað hjólið flesta daga, óháð dagsformi. Við teljum að þetta sé rétta hjólið fyrir A og sækjum um það. Mikilvægt er að hjólið verði rafknúið þar sem hjólið sjálft er bæði mjög þungt og erfitt að hjóla þegar tvær manneskjur sitja á því, sérstaklega þegar A er orðin þreytt og getur ekki lengur hjólað.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir styrk til kaupa á þríhjóli. Við það mat lítur úrskurðarnefndin til allra fyrirliggjandi gagna um aðstæður kæranda og metur þær með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti. Í umsókn, dags. 9. júní 2021, segir að kærandi sitji stærstan hluta dagsins í hjólastól. Það að vera á hreyfingu hafi góð áhrif á sjúkdómseinkenni en feli ekki í sér áreynslu fyrir kæranda. Henni hafi reynst best að fara út í hjólatúra með foreldrum sínum á hjólastólahjóli og það hafi gjörbreytt umönnun hennar. Það að upplifa útiveru og hraðann í hjólatúr hjálpi kæranda að slaka á og komast úr […] köstum, auk þess að auðvelda næringarinntöku til muna. Þá nái hún tengingu við samfélagið sem hún hafi ekki kost á að upplifa öðruvísi og myndu göngutúrar og bíltúrar ekki hafa sömu áhrif varðandi vellíðan. Í umsókn, dags. 11. maí 2022, er því lýst að kæranda sé farið að langa til að taka virkari þátt í hjólatúrum. Hún geti hjólað sjálf en sökum aukinnar áhættu á köstum við líkamlega áreynslu geti hún ekki hjólað langar vegalengdir í einu og það sé mikilvægt að hún geti stýrt ákefð sinni eftir dagsformi. Fun2Go þríhjólið sé tveggja manna hjól þar sem kærandi geti valið á milli þess að hjóla ein, með aðstoðarmanni eða hvíla sig á meðan aðstoðarmaður hjóli. Því geti hún notað hjólið flesta daga, óháð dagsformi.

Ráða má af framangreindu að fyrirhuguð notkun þríhjólsins sé fyrst og fremst til afþreyingar. Eins og áður hefur komið fram er styrkur ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021. Úrskurðarnefndin telur því ekki heimilt að samþykkja umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli á þeim grundvelli að það sé til afþreyingar fyrir kæranda.

Úrskurðarnefndin lítur til þess að skilyrði fyrir styrk til kaupa á hjálpartæki samkvæmt orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 er að hjálpartækið teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir dagslegs lífs. Við mat á því hvort framangreind skilyrði séu uppfyllt ber meðal annars að líta til markmiða laga nr. 112/2008, 1. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá metur nefndin hvort notkun hjálpartækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði kæranda í víðtækum skilningi í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.

Heimilt er að greiða fyrir þríhjól sem ferlihjálpartæki samkvæmt flokki 12 18 í fylgiskjali með reglugerð nr. 760/2021. Fyrir liggur að kærandi hefur hjólastól til umráða og situr stærstan hluta dagsins í hjólastól. Fram kemur í umsókn að þríhjól sé ætlað til að kærandi upplifi útiveru, hjálpi henni að slaka á og auðveldi næringarinntöku þar sem hún upplifi slökun og velllíðan í hjólatúrum. Af lýsingu á færni kæranda má ráða að hún getur hjólað sjálf en sökum aukinnar áhættu á köstum við líkamlega áreynslu getur hún ekki hjólað langar vegalengdir í einu. Hún mun því alltaf vera með aðstoðarmann með sér á hjólinu sem getur hjólað með henni eða hjólað alfarið á meðan hún hvílir sig. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála myndi þríhjólið koma sér vel fyrir kæranda en greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands er hins vegar bundin ákveðnum skilyrðum samkvæmt 26. gr. laga um sjúkratryggingar. Úrskurðarnefndin fær ekki ráðið að umrætt þríhjól væri til þess fallið að auka sjálfstæði kæranda, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá verður hvorki ráðið af gögnum málsins að þríhjólið sé kæranda nauðsynlegt til að bæta möguleika hennar til að annast daglegar athafnir sínar, draga úr fötlun hennar né að auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu líkt og áskilið er í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008. Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku vegna kaupa á þríhjóli eru því ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um styrk til kaupa á þríhjóli, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum