Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

863/2020. Úrskurður frá 29. janúar 2020

Úrskurður

Hinn 29. janúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 863/2020 í máli ÚNU 19040017.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 9. apríl 2019, kærðu Kærleikssamtökin f.h. A töf þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis á afgreiðslu beiðni þeirra um gögn er vörðuðu A. Með kærunni fylgdi erindi samtakanna til þjónustumiðstöðvarinnar, dags. 19. nóvember 2018, þar sem óskað var eftir gögnunum.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 30. apríl 2019, var kæran kynnt þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis og því beint til þjónustumiðstöðvarinnar að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið.

Í erindi þjónustumiðstöðvarinnar til Kærleikssamtakanna, dags. 10. maí 2019, kom fram að öll gögn er vörðuðu A hefðu verið flutt á Borgarskjalasafn árið 2015. Engin gögn lægju því fyrir um hann í þjónustumiðstöðinni eða öðrum þjónustumiðstöðvum Reykja-víkurborgar. Í erindi Kærleikssamtakanna til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2019, kemur fram að þjónustufulltrúi hjá þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis hafi tjáð fulltrúa samtakanna þegar hann mætti í afgreiðslu þjónustumiðstöðvarinnar í nóvember 2018 að fáein skjöl sem vörðuðu A lægju fyrir þar. Samtökin drægju því í efa skýringar þjónustumiðstöðvarinnar um að gögn um A hefðu verið flutt á Borgarskjalasafn árið 2015.

Úrskurðarnefndin óskaði nánari skýringa frá þjónustumiðstöðinni með tölvupósti, dags. 6. desember 2019. Í svari þjónustumiðstöðvarinnar, dags. 17. desember sama ár, kemur fram að svar miðstöðvarinnar í erindinu frá 10. maí standi. Þjónustufulltrúi hafi vissulega tjáð full¬trúa Kærleikssamtakanna að A ætti mál hjá miðstöðinni í málaskrá hennar. Hins vegar hefðu öll gögn sannarlega verið flutt á Borgarskjalasafn.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis á beiðni kæranda um aðgang að gögnum varðandi tiltekinn einstakling. Í málinu hefur þjónustumiðstöðin gefið þær skýringar, bæði til kæranda og úrskurðarnefndarinnar, að ekki liggi fyrir gögn um A hjá þjónustumiðstöðinni þar sem þau hafi verið flutt á Borgarskjalasafn árið 2015. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu þjónustumiðstöðvarinnar í efa.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru Kærleikssamtakanna, dags. 9. apríl 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum