Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ráðuneytið staðfesti ákvörðun Fiskistofu um að veita útgerð skriflega áminningu þar sem veiðiferð skips hafði ekki verið færð í afladagbók áður en skip lagðist að bryggju.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 28. febrúar 2018, [X,] f.h. Z ehf.] þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. febrúar 2018, um að veita [Z ehf.] skriflega áminningu vegna þess að skipstjóri færði ekki veiðiferð [A], þann 3. ágúst 2017, í afladagbók áður en báturinn lagðist að bryggju sbr. 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og er kærufrestur einn mánuður.

Kröfur kæranda.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. febrúar 2018, um að veita útgerð skipsins [A] skriflega áminningu verði felld úr gildi.

Málsatvik og málsmeðferð.

Í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu er málsatvikum lýst þannig að veiðieftirlitsmaður hafi verið á höfninni á Húsavík þegar bátur kæranda, [A] hafi komið inn til löndunar. Veiðieftirlitsmaðurinn kveðst hafa spurt skipstjórann hvort hann mætti sjá afladagbók bátsins. Við skoðun á afladagbókinni hafi komið í ljós að veiðiferð þennan, dag 3. ágúst 2017, hafi ekki verið færð í afladagbókina.

Með bréfi, dags 6. febrúar 2018, veitti Fiskstofu útgerð [A] skriflega áminningu vegna brots á 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur. Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2018. Ráðuneytið framsendi stjórnsýslukæruna til Fiskistofu með tölvupósti, dags. 26. mars 2016, og óskaði eftir umsögn stofnunarinnar og öllum gögnum málsins fyrir 18. apríl 2018. Með tölvupósti, dags. 3. október 2018, ítrekaði ráðuneytið fyrri beiðni um umsögn Fiskistofu og öll gögn málsins. Með bréfi, dags. 9. október 2018, barst umsögn Fiskistofu. Ráðuneytið framsendi umsögn Fiskistofu og fylgiskjöl til kæranda með tölvupósti, dags. 10. október 2018, og bauð kæranda að koma með athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Engar athugasemdir bárust frá kæranda og er málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna. 

Sjónarmið kæranda.

Í stjórnsýslukæru segir að báturinn [A] hafi verið á veiðum í 5 mínútna siglingarfjarlægð frá Húsavíkurhöfn. Á leið til hafnar hafi skipstjórinn ákveðið að skola af bátnum og skrá afladagbók þegar beðið væri eftir löndun. Þegar komið hefði verið til hafnar hefði hann tyllt spotta við landfestar til að tryggja að báturinn færi ekki á ferð meðan beðið væri eftir lönduninni, því aðrir bátar hafi verið á siglingu um höfnina. Í sömu andrá hafi eftirlitsmaður Fiskistofu komið um borð og óskað eftir að sjá afladagbókina. Eftirlitsmaðurinn hafi bent á að skipstjóri eigi að færa í afladagbókina í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst hefði verið að bryggju. Kærandi líti svo á að veiðiferðinni hafi ekki verið lokið, enda vissi skipstjórinn af því að bið yrði á því að landað yrði úr bátnum og hafi ætlað að nýta þann tíma til að færa afla veiðiferðarinnar í afladagbókina. Kærandi telur að bátur sé ekki lagstur að bryggju fyrr en áhöfn sé búin að binda landfestar og veiðiferð ljúki þegar búið sé að landa upp úr bátnum.

Kærandi vísar til þess að markmið laga um stjórn fiskveiða sé annars vegar að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskveiða og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu og hins vegar um að bæta umgengni um auðlindir sjávar og stuðla að því að þær verði nýttar með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarks afrakstur fyrir íslensku þjóðina. Kærandi bendir á að skilgreiningar á því hvenær veiðiferð ljúki eða að bátur sé lagstur að bryggju séu mjög óljósar og villandi og ekki að finna neinar leiðbeiningar í reglugerðinni. Að mati kæranda sé brýnt að líta til markmiða um aflaskráningar. Skylda til að halda afladagbók og skrá afla séu í þágu fiskveiðistjórnunar þannig að allar nauðsynlegar upplýsingar fáist með sem einföldustum hætti fyrir eftirlitsaðila. Kunnugt sé að löndun úr bátnum hafi ekki verið hafin þegar eftirlitsmaður Fiskistofu óskaði eftir afladagbók. Kærandi fær ekki séð að skráning í afladagbók á meðan beðið sé eftir löndun stríði gegn markmiðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða eða laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Kærandi vísar til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Megin sjónarmið að baki reglunni sé að stjórnvaldi sé ekki einvörðungu skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess er helgað heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og rétttinda þeirra aðila sem athafnir stjórnvaldsins beinast að. Þá skuli stjórnvald ekki ganga lengra í að taka íþyngjandi ákvarðanir en þörf krefji og ekki fara strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Stjórnvaldi sé óheimilt að taka íþyngjandi ákvörðun ef hægt sé að ná markmiðinu án þess að íþyngja þeim sem ákvörðun varði. Meðalhófsreglan feli einnig í sér að stjórnvald skuli beita vægasta úrræði sem völ sé á miðað við þá hagsmuni sem í húfi séu. Stjórnvaldi sé því skylt, þegar það velji úrræði til lausnar á máli að vega og meta andstæða hagsmuni og fara meðalveginn. Þá beri Fiskistofu að haf í huga meginreglur stjórnsýsluréttarins sem geti haft þýðingu við ákvörðun.

Kærandi telur að þau sjónarmið sem stjórnvaldsákvörðun byggi á þurfi að vera skynsamleg og forsvaranleg. Þau þurfi að geta leitt með skynsamlegum hætti til þeirrar niðurstöðu sem komist er að með hliðsjón af málsatvikum. Í þessu sambandi bendir kærandi á að Fiskistofu sé skylt að byggja stjórnvaldsákvörðun sína út frá markmiðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Kærandi bendir einnig á mikilvægi þess að verklagsreglur eftirlitsmanna Fiskistofu séu samrýmanlegar ákvæðum reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur og stríði ekki gegn markmiðum framangreindra laga.

Sjónarmið Fiskistofu.

Í umsögn Fiskistofu kemur fram að skilja megi málatilbúnað kæranda annars vegar að hann telji að veiðiferð hafi ekki verið lokið þegar eftirlitsmaður Fiskistofu fékk að líta á afladagbók bátsins [A] og hins vegar að kærandi telji að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 standi því í vegi að Fiskistofu hafi verið heimilt að veita kæranda skriflega áminningu.

Fiskistofa hafnar þeim málatilbúnaði og áréttar að veiðiferð báts sé lokið þegar hann sé kominn til hafnar úr veiðiferð. Bátur sé lagstur að bryggju þegar hann hafi lagst að bryggju þannig að unnt sé að komast af bryggjunni í bátinn og úr bátnum á bryggjuna. Óumdeilt sé að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi stigið í bátinn af bryggjunni í bát kæranda þegar eftirlitsmaðurinn hafi beðið skipstjórann um að framvísa afladagbókinni. Báturinn hafi því verið lagstur að bryggju í skilningi 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur.

Þá vísar Fiskistofa til þess að í 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar sé mælt fyrir um viðurlög vegna brota á þeim lögum. Fiskistofa telur ákvæði laganna og reglugerðar nr. 745/2016, um afladagbækur, sem fjalla um skyldu skipstjóra til færslu afladagbóka séu skýr og viðurlagaheimildir skýrar og afdráttarlausar og í samræmi við tilgang framangreindra laga.

Niðurstaða

            Kærufrestur.

Ákvörðun Fiskistofu sem kærð er í málinu er frá 6. febrúar 2018. Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar og er kærufrestur einn mánuður. Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2018. Kæra er því komin innan tilskilins frests.

Skráning í afladagbækur áður en bátur leggst að bryggju.

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærandi telji það ekki stríða gegn markmiðum laga og reglna um fiskveiðistjórnun að ekki hafi verið búið að færa í afladagbók bátsins þegar eftirlitsmaður Fiskistofu kom um borð. Einnig má ráða af málatilbúnaði kæranda að af því leiði að með ákvörðun um að veita kæranda skriflega áminningu vegna þess að ekki hafi verið búið að færa veiðiferð bátsins í afladagbók áður en báturinn lagðist að bryggju hafi Fiskistofa brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ráðuneytið getur ekki fallist á framangreind sjónarmið kæranda.

Reglur um vigtun og skráningu afla eru einn af hornsteinum fiskveiðistjórnunarkerfisins og reglur varðandi skráningu í afladagbækur eru hluti af því regluverki. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur segir að skipstjórar allra íslenskra fiskiskipa sem stundi veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skuli halda afladagbók. Í 2. mgr. kemur fram að þær upplýsingar sem skráðar eru í afladagbækur skulu nýtast í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna sem varða stjórnun fiskveiða. Í 7. gr. reglugerðarinnar koma fram reglur varðandi færslu í afladagbók og í 4. mgr. þeirrar greinar kemur fram að í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju skuli afladagbók skips vera að fullu færð.

Rök að baki því að skylda skipstjóra til að færa afladagbækur áður en lagst er að bryggju eru tvíþætt. Annars vegar eftirlitsleg, þ.e. að samræmi sé milli þess sem skráð er í afladagbókina og þess sem skráð er við vigtun. Hins vegar vísindaleg, þar sem meiri líkur eru á því að aðilar muni samsetningu afla og magn ef aflinn er skráður áður en veiðiferð lýkur. Þá tekur ráðuneytið einnig undir þau sjónarmið Fiskistofu að skip sé lagst að bryggju ef það liggur við bryggju og búið er eð festa það við bryggjuna.

Í ákvörðun Fiskistofu var brot kæranda metið sem minniháttar brot og kæranda veitt skrifleg áminning, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar. Ráðuneytið telur að með því hafi Fiskistofa litið til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sem er í 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og valið vægasta úrræði sem völ var á þegar ákvörðun um viðurlög voru tekin. Ráðuneytið fellst því ekki á sjónarmið kæranda um að ákvörðun Fiskistofu fari gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Með vísan til alls framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu dags., 6. febrúar 2018, um að veita [Z ehf.] skriflega áminningu fyrir að hafa ekki fært í afladagbók [A], veiðiferð skipsins áður en skipið lagðist að bryggju. skv. 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur.

Ráðuneytið biðst velvirðingar á töfum á uppkvaðningu úrskurðarins en hana má rekja til anna í ráðuneytinu.

Úrskurður.

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. febrúar 2018, um að veita [Z ehf.] skriflega áminningu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum