Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 608//2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 608/2020

Föstudaginn 12. febrúar 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 23. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2020 vegna umgengni við C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er tæplega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá föður síns. Móðir stúlkunnar var að kröfu Barnaverndarnefndar B svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B, uppkveðnum 25. nóvember 2020, en þeim dómi hefur verið áfrýjað til Landsréttar. Barnaverndarnefnd B hefur jafnframt gert kröfu um að faðir stúlkunnar verði sviptur forsjá stúlkunnar. Kærandi er föðuramma stúlkunnar.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 16. september 2020 var fjallað um beiðni kæranda um sérstaka umgengni við sonardóttur sína þar sem bókað var að litið væri svo á að kærandi ætti umgengni við stúlkuna á sama tíma og umgengni föður við barnið færi fram, enda væri faðir búsettur á heimili kæranda og umgengni færi fram á heimili þeirra beggja án eftirlits. Kærandi féllst ekki á tillögur starfsmanna barnaverndar og var málið því lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B þann 3. nóvember 2020.

Lögmaður kæranda mætti á fund barnaverndarnefndar þann 3. nóvember 2020 og gerði þar grein fyrir afstöðu kæranda. Vísað var til þess að bæði stúlkan og kærandi ættu rétt á sérstakri umgengni sem ekki væri ætluð föður samtímis. Barnaverndarnefnd B tók málið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.)

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að A hafi umgengni við C, einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn á sama tíma og faðir stúlkunnar á umgengni við hana. Umgengni fari fram á heimili föður og föðurömmu eða öðrum fyrirfram ákveðnum stað sem aðilar koma sér saman um. Umgengni verði með þessum hætti á meðan forsjársviptingarmál gagnvart föður er rekið fyrir dómstólum.“

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi kæri úrskurð barnaverndarnefndar þar sem henni sé synjað um sérstaka umgengni við sonardóttur sína.

Stúlkan fái að hitta kæranda og föður sinn í þrjár klukkustundir á mánuði. Stúlkan sé mjög hænd að pabba sínum og finnst kæranda að þau eigi að fá að njóta sín sem mest tvö ein þegar þau hittast. Stúlkan hafi búið á heimili kæranda í nokkra mánuði og þekki hana vel og sé einnig hænd að henni. Kærandi kveðst vera einn af föstu punktunum í lífi stúlkunnar fyrir utan föður hennar og því óski hún innilega eftir því að þær tvær geti einnig haft tíma saman þar sem þær eigi gæðastundir. Kærandi kveðst sjálf vita hvað ömmustundir séu mikilvægur þáttur í þroska barns.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. desember 2020, kemur fram að kærandi kæri einnig ákvörðun Barnaverndar B um að ekki yrði umgengni við stúlkuna yfir síðustu jól. Í tölvupósti barnaverndar til kæranda hafi komið fram að kærandi hafi átt að minnast á umgengni við stúlkuna um jólin þegar hún hafi óskað eftir umgengni við hana á fundi barnaverndarnefndar þann 3. nóvember 2020. Kærandi segir að það hefði verið æskilegt ef henni og syni hennar hefði verið leiðbeint í þessum efnum.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að með ákvörðun nefndarinnar þann 1. september 2020 hafi sú breyting orðið í vinnslu málsins að ekki sé lengur stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður á heimili hans og kæranda, heldur sé nú stefnt að því að hún alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að stúlkan upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Það sé mat nefndarinnar að stúlkan eigi nú þegar umgengni við kæranda og að sérstök umgengni kæranda til handa geti raskað ró stúlkunnar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja henni á fósturheimilinu. Þegar nauðsynlegt sé að vista svo ungt barn utan heimilis, án þess að vitað sé hvað framtíðin beri með sér, sé mikilvægt að vistunin raski sem minnst ró og öryggi barnsins. Mikil umgengni við kynforeldra og aðra nákomna á óvissutímum geti haft í för með sér hættu á að barnið upplifi kvíða og spennu. Ungur aldur stúlkunnar hafi í för með sér að hún ráði illa við breytingar og geti ekki tjáð sig sjálf um eigin hag.

Umgengni samkvæmt 74. gr. bvl. þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum hennar þar sem meðal annars beri að taka tillit til markmiðanna sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Fari hagsmunir stúlkunnar og kæranda ekki saman verði hagsmunir kæranda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að með úrskurði nefndarinnar þann 10. nóvember 2020 hafi fyrst og fremst verið horft til hagsmuna stúlkunnar. Óumdeilt sé að kærandi og faðir stúlkunnar séu búsett á sama heimili þar sem umgengni fari fram og kæranda gefist þannig kostur á að njóta umgengni við stúlkuna á sama tíma.

IV.  Niðurstaða

Stúlkan C er tæplega X ára stúlka sem lýtur forsjá föður síns. Kærandi er föðuramma stúlkunnar. Kærandi gerir athugasemdir við að henni skuli ekki hafa verið úrskurðuð sérstök umgengni við stúlkuna í samræmi við kröfu hennar þar um. Þá gerir kærandi einnig athugasemdir við að ekki skuli hafa verið umgengni við stúlkuna um síðustu jól.

Samkvæmt 6. mgr. 74. gr. bvl. geta þeir sem eiga umgengni að rækja krafist þess að barnaverndarnefnd endurskoði fyrri úrskurð sinn um umgengni. Barnaverndarnefnd er ekki skylt að taka slíka kröfu til efnisúrlausnar nema liðnir séu tólf mánuðir hið skemmsta frá því að úrskurður barnaverndarnefndar var kveðinn upp. Ráða má af kvörtun kæranda að málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við 40. gr. bvl. sem kveður á um leiðbeiningarskyldu barnaverndarnefndar.   

Eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt bvl. er hjá Barnaverndarstofu á grundvelli þess sem fram kemur í 3. mgr. 7. gr. og 8. gr. bvl. Með vísan til þess verður að líta svo á að Barnaverndarstofa hafi í þessu tilliti eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt 3. mgr. 7. gr. bvl. Barnaverndarstofu ber einnig að veita barnaverndarnefnd leiðbeiningar um málsmeðferð og beina til hennar ábendingum um það sem betur má fara, sbr. 4. mgr. 8. gr. bvl. 

Þar sem ekki liggur fyrir úrskurður um umgengni kæranda um síðustu jól með þeim hætti sem barnaverndarlög gera kröfu um, er kæru hvað þetta atriði varðar vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála en kærandi á þess kost að beina kvörtun sinni varðandi málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar til Barnaverndarstofu, telji kærandi ástæðu til slíks.

Með hinum kærða úrskurði frá 10. nóvember 2020 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði einu sinni í mánuði, þrjár klukkustundir í senn, á sama tíma og faðir stúlkunnar á umgengni við hana. Umgengnin fari fram á heimili föður og kæranda eða öðrum fyrir fram ákveðnum stað sem aðilar koma sér saman um. Umgengni verði með þessum hætti á meðan forsjársviptingarmál gagnvart föður stúlkunnar er rekið fyrir dómstólum.

Kærandi kærir úrskurð Barnaverndarnefndar B þar sem henni er synjað um sérstaka umgengni við stúlkuna. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það sé mat barnaverndarnefndar að mikilvægt sé að stúlkan fái næði til að aðlagast breyttum aðstæðum í lífi sínu en hún sé nýlega komin í umsjá fósturforeldra og hafi fyrir skemmstu hafið leikskólagöngu í grennd við heimili þeirra. Miklar breytingar hafi verið á högum hennar undanfarið og stúlkan sé í ríkri þörf fyrir ró og stöðugleika.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 26. október 2020, kemur fram það mat að ekki séu forsendur fyrir umgengni með þeim hætti sem kærandi hafi óskað eftir miðað við stöðu málsins. Ekki sé lengur stefnt að því að stúlkan fari í umsjá föður á heimili hans og kæranda að nýju þar sem talið er fullreynt að veita föður stuðning á grundvelli barnaverndarlaga. Að mati starfsmanna barnaverndar eru ekki forsendur fyrir því að kærandi fái sérstaka umgengni við stúlkuna þar sem hún eigi umgengni við stúlkuna á sama tíma og faðir stúlkunnar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur barnaverndarnefndin úrskurðað að foreldri njóti ekki umgengnisréttar við barnið.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Varðandi kröfu kæranda til sérstakrar umgengni við stúlkuna, verður að líta til þess hverjir séu hagsmunir stúlkunnar og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hennar að njóta frekari umgengni við kæranda en nú er. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin einu sinni í mánuði, í þrjár klukkustundir í senn, með föður. Þannig var umgengni kæranda við stúlkuna ákveðin á sama tíma og föður, og var í því sambandi meðal annars vísað til þess að kærandi og faðir stúlkunnar búi á sama heimili. Líkt og fram hefur komið er litið svo á að meta skuli hagsmuni til umgengni við kynforeldra og aðra nákomna með ólíkum hætti, þ.e. réttur annarra nákominna er ekki jafnríkur og kynforeldra. Með hinum kærða úrskurði var umgengni kæranda við stúlkuna tengd við umgengni föður þar sem hann og kærandi búa um þessar mundir á sama heimili. Að mati úrskurðarnefndarinnar er það verulegur ágalli á málsmeðferðinni að meta ekki sérstaklega umgengni kæranda við stúlkuna, óháð búsetu föður, þar sem ólíkt hagsmunamat skal fara fram hvað varðar hagmuni barnsins af umgengni við kynforeldri annars vegar og aðra nákomna hins vegar.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju. Kæru varðandi umgengni kæranda við stúlkuna um síðustu jól er hins vegar vísað frá úrskurðarnefndinni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2020 varðandi umgengni C, við A, er felldur úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndarnefndar B. Kæru vegna umgengni um jól er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum