Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 617/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 617/2020

Fimmtudaginn 10. desember 2020

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. nóvember 2020, kærði B ráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar, dags. 25. ágúst 2020, um synjun á beiðni hans um sérstakan húsnæðisstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 24. nóvember 2020. Meðfylgjandi kæru var bréf fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar, dags. 25. ágúst 2020, þar sem kæranda var tilkynnt sú ákvörðun að beiðni hans um sérstakan húsnæðisstuðning hefði verið synjað. Í bréfinu var kæranda bent á að heimilt væri að skjóta ákvörðuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar innan fjögurra vikna. Ákvörðun fjölskylduráðsins mætti síðan skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða.

Með erindi til umboðsmanns kæranda 1. desember 2020 óskaði starfsmaður úrskurðarnefndar velferðarmála eftir upplýsingum um hvort fyrir lægi ákvörðun frá fjölskylduráði Hafnarfjarðar vegna málsins. Svar barst samdægur þess efnis að málið hefði ekki verið borið undir fjölskylduráðið.

II.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar, dags. 25. ágúst 2020, um synjun á beiðni kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um sérstakan húsnæðisstuðning er fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 3. mgr. 6. gr. er þó tekið fram að sveitarstjórn geti ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr., skuli máli fyrst skotið til félagsmálanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.

Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 37/2018 um breytingu á lögum nr. 40/1991 er vísað til þess að breytingin komi til vegna orðalags í þágildandi lögum um að endanleg afstaða félagsmálanefndar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun verði kærð. Það hafi valdið vafa um heimildir starfsmanna og hvaða réttaráhrif verði bundin við afgreiðslu starfsmanna á umsóknum um þjónustu. Þá sé einnig mismunandi hvernig framkvæmdin sé milli sveitarfélaga og mismunandi hversu mikið félagsmálanefndir í raun komi að ákvarðanatöku í einstaka málum. Í stærri sveitarfélögum sé þessi innri endurskoðun eða endurupptaka mála mjög virk, til dæmis í Reykjavík þar sem starfandi sé sérstök áfrýjunarnefnd innan velferðarsviðs og hafi það fyrirkomulag reynst vel. Í öðrum sveitarfélögum hafi verið farin sú leið að líta á afgreiðslu starfsmanna sem fullnaðarafgreiðslu mála þar sem félagsmálanefnd setji reglur og marki stefnu en komi minna að einstaklingsmálum. Það þætti því rétt að fela sveitarstjórnum að taka afstöðu til þess hvernig þessu yrði háttað og gerð var sú krafa að það lægi skýrt fyrir hvort afgreiðslu starfsmanna mætti kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála eða hvort fyrst þyrfti að skjóta henni til félagsmálanefndar. Slík innri endurskoðun þurfi að vera skjótvirk og megi ekki leiða til óþarfa tafa á málinu. Þá kemur fram í almennum athugasemdum um meginefni frumvarpsins að lagðar séu til breytingar á skipulagi félagsþjónustu innan sveitarfélaga til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Breytingarnar lúti líka að því að skýra feril ágreiningsmála og kæra innan stjórnkerfisins.

Samkvæmt 57. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar fer fjölskylduráð með mál sem heyra undir lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 2. mgr. 57. gr. samþykktarinnar segir að fjölskylduráð geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar. Þá geti bæjarstjórn falið fjölskylduráði og einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg, sbr. 41. og 42. gr. samþykktarinnar. Í 41. gr. kemur meðal annars fram að fjölskylduráði, sbr. 2. tölul. A-liðar 39. gr., sé heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs samkvæmt 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar ef annars vegar lög eða eðli máls mæli ekki sérstaklega gegn því og hins vegar þegar þau varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið sé á um í fjárhagsáætlun og þau víki ekki frá stefnu bæjarins. Í 42. gr. er síðan fjallað um framsal bæjarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála. Þar er sviðsstjóra fjölskylduþjónustu falin heimild til fullnaðarafgreiðslu mála er varða fjárhagsaðstoð til framfærslu í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð en að öðru leyti er ekki til staðar heimild starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála er eiga undir lög nr. 40/1991, þar á meðal mála sem varða sérstakan húsnæðisstuðning.

Af framangreindu er ljóst að það er nauðsynlegur undanfari kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála að mál hljóti fyrst afgreiðslu fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum