Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 381/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 381/2022

Fimmtudaginn 22. september 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júní 2022, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. maí 2021 og var umsóknin samþykkt 16. ágúst 2021. Þann 25. apríl 2022 var kærandi boðaður í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram daginn eftir. Vakin var athygli á að forföll þyrfti að boða án tafar og að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysistrygginga yrðu stöðvaðar. Kærandi mætti ekki í boðað viðtal. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2022, var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á því hvers vegna hann hefði ekki mætt í boðað viðtal og upplýsinga um ótilkynnta dvöl erlendis. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júní 2022, var kæranda tilkynnt að þar sem hann hefði látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um dvöl sína erlendis væri bótaréttur hans felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 61.863 sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í kjölfar endurupptöku Vinnumálastofnunar á máli kæranda í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/993 var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest þann 13. júlí 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júlí 2022. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. ágúst 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi beitt hann viðurlögum sem nemi niðurfellingu á bótarétti í tvo mánuði vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Kærandi hafi þurft að fljúga í skyndi til síns heimalands vegna alvarlegra og skyndilegra veikinda móður sinnar. Hún hafi fengið heilablóðfall og ástand hennar sé tvísýnt. Kærandi kveðst hafa gert tilraun til að hafa samband við Vinnumálastofnun en hafi verið í vandræðum með að ná sambandi. Kærandi viti ekki hvað hann eigi nú að gera þar sem hann eigi börn og íbúð til að greiða af. Kærandi telji að hann hafi ekki gert neitt rangt og að hann hafi ekki brotið reglur vísvitandi. Kærandi lýsir því að um hafi verið að ræða móður hans og hafi hann tekið ákvarðanir varðandi umrædda ferð á meðan hann hafi verið í tilfinningalegu uppnámi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 29. mars 2022 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar frá ónafngreindum aðila að kærandi hygðist dvelja erlendis og hefði ekki í hyggju að tilkynna Vinnumálastofnun um umrædda ferð. Í kjölfar framangreindra skilaboða hafi kærandi verið boðaður í viðtal þann 26. apríl 2022, klukkan 14:25 í eftirlitsskyni. Kæranda hafi verið tjáð að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll þyrfti að boða án ástæðulausrar tafar. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans yrðu stöðvaðar. Boðunin hafi verið send á netfang kæranda þann 25. apríl 2022. Kærandi hafi aftur á móti ekki mætt til umrædds viðtals. Þann 28. apríl hafi kærandi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og sagst ekki hafa mætt í viðtalið vegna þess að sími hans hafi verið bilaður og hann hafi því ekki fengið tilkynningu um boðun í viðtal. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi spurt kæranda hvort hann hefði verið erlendis en kærandi hafi svarað því neitandi.

Með erindi, dags 3. maí 2022, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt til boðaðs viðtals. Kæranda hafi sömuleiðis verið greint frá því að Vinnumálastofnun hefði borist þær upplýsingar að hann hefði verið erlendis samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um dvöl sína erlendis. Með umræddu erindi hafi kæranda því jafnframt verið veittur frestur til að skila inn skýringum og farseðlum, hafi hann verið erlendis. Sama dag, þ.e. þann 3. maí 2022, hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi greint frá því að hann hefði fengið skilaboð frá sjúkrahúsi í Póllandi um að móðir hans hefði skyndilega veikst og lægi inni á taugadeild. Í kjölfar þessara frétta hafi kærandi ásamt bróður sínum keypt sér flugmiða til Póllands. Kærandi hafi reynt að hringja í Greiðslustofu Vinnumálastofnunar en enginn hafi svarað símtali hans. Sumardaginn fyrsta hafi kærandi jafnframt hringt en þá hafi skrifstofan verið lokuð. Kærandi hafi verið andlega brotinn og áhyggjufullur og því hafi hann ekki greint frá ferð sinni erlendis fyrr. Þá hafi kærandi greint frá því að sími hans hafi bilað áður en hann hafi snúið aftur til Íslands og því hafi hann ekki séð skilaboðin um boðun í viðtal. Meðfylgjandi skýringum kæranda hafi verið farseðlar, gefnir út 19. apríl 2022. Þar megi sjá að kærandi hafi flogið til Berlínar morguninn 20. apríl 2022 og til baka til Íslands þann 27. apríl 2022.

Með erindi, dags. 14. júní 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hann hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um dvöl sína erlendis væri bótaréttur hans felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, sbr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 61.863 kr. sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 7. júlí 2022 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar frá kæranda. Kærandi hafi óskað eftir því að mál hans yrði tekið til meðferðar að nýju. Kærandi hafi greint frá því að staða hans væri mjög alvarleg þar sem móðir hans lægi enn í alvarlegu ástandi á spítala. Því hafi hann skyndilega flogið til hennar. Hann hafi þó reynt að tilkynna Vinnumálastofnun um ferð sína erlendis en enginn hafi svarað símanum. Hann hafi komið aftur til Íslands eftir helgina og strax mætt á þjónustuskrifstofuna þar sem hann hafi ekki viljað svíkja stofnunina. Kærandi hafi ítrekað að um óviljaverk hafi verið að ræða og að hann hafi ekki verið erlendis í fríi heldur hjá veikri móður sinni. Kærandi hafi sagst geta framvísað vottorði til stuðnings veikindum móður sinnar. Þann 13. júlí 2022 hafi kæranda verið tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra ganga. Það væri þó mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli kæranda. Þann 26. júlí 2022 hafi kærandi aftur óskað þess að mál hans yrði tekið fyrir að nýju. Kærandi hafi ítrekað enn og aftur að hann hefði ekki verið erlendis í fríi heldur hjá veikri móður sinni sem hafi þá legið á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi eftir heilablóðfall. Hann hafi skyndilega bókað miða þann 19. apríl og brottför ákveðin daginn eftir, eða þann 20. apríl. Þann 21. apríl hafi verið frídagur og því hafi kærandi reynt að hringja til stofnunarinnar föstudaginn 22. apríl en ekkert svar fengið. Strax eftir helgi hafi kærandi svo sjálfur mætt til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi verið í áfalli og undir miklu álagi og því ekki áttað sig á hvaða afleiðingar ferð hans erlendis kynni að hafa í för með sér. Aftur hafi kærandi sagst geta framvísað vottorði til stuðnings veikindum móður sinnar. Með erindi, dags. 27. júlí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að beiðni hans um endurupptöku á málinu væri hafnað, enda hefðu ekki komið fram nýjar upplýsingar sem gætu haft þýðingu í máli hans. Þá yrði ekki séð að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjenda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða. Þar segi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis frá 20. apríl til 27. apríl 2022. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um utanlandsferð sína, líkt og honum hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því verið beittur viðurlögum samkvæmt 59. gr. laganna.

Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar greini kærandi frá því að móðir hans hafi skyndilega veikst og að hún hafi þurft að leggjast í alvarlegu ástandi inn á spítala í Póllandi. Kærandi hafi því með litlum fyrirvara ákveðið að fara til Póllands til að vera hjá móður sinni. Kærandi hafi þó greint frá því að hann hafi reynt að hafa samband við Vinnumálastofnun símleiðis til þess að greina stofnuninni frá ferð sinni erlendis, en án árangurs. Þótt fallast megi á með kæranda að hann hafi skyndilega þurft að ferðast erlendis vegna heilsu móður sinnar sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt upplýsinga- og trúnaðarskyldu sína gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að tilkynning um utanlandsferð geti verið bæði í formi símtals eða tölvupósts til stofnunarinnar og því hefði kæranda verið í lófa lagið að senda stofnuninni tölvupóst áður en hann hafi haldið af landi brott. Máli sínu til stuðnings vísi Vinnumálastofnun jafnframt til þess að kærandi hafi verið spurður þann 28. apríl 2022 af ráðgjafa stofnunarinnar hvort hann hefði verið erlendis en kærandi hafi þá svarað því neitandi. Vinnumálastofnun þyki það enn frekar styðja þá niðurstöðu að rétt hafi verið að beita kæranda viðurlögum, enda hafi kærandi þá vísvitandi haldið upplýsingum um ferð sína erlendis leyndum fyrir stofnuninni.  

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að hann hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum. Skylda atvinnuleitanda sem þiggi atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrir fram um utanlandsferðir sínar sé fortakslaus, enda sé um að ræða upplýsingar um atvik sem hafi bein áhrif á rétt atvinnuleitanda til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi staddur erlendis á tímabilinu 20. til 27. apríl 2022 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi ekki tilkynnt um ferð sína þar sem hann hafi ekki náð sambandi við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Auk þess kveðst kærandi hafa verið í miklu áfalli og undir miklu álagi og hafi því ekki áttað sig á afleiðingum ferðar sinnar erlendis.

Þann 26. maí 2021 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá var kæranda bent á að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis. Líkt og Vinnumálastofnun hefur vísað til geta slíkar tilkynningar bæði verið í formi símtals eða tölvupósts til stofnunarinnar. 

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann tilkynnti ekki fyrir fram um ferð sína erlendis. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur vegna tímabilsins sem hann var erlendis. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilinu 20. til 27. apríl 2022 uppfyllti hann ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera staddur hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína erlendis og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júní 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum