Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Nr. 166/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 166/2019

Mánudaginn 30. september 2019

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með tölvupósti 29. apríl 2019 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 25. mars 2019, birtur kæranda 1. apríl sama ár, vegna umgengni kæranda við son sinn, D.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er X ára gamall drengur. Hann lýtur forsjá móður sinnar en kærandi er kynfaðir drengsins.

Barnaverndarnefnd B hefur haft afskipti af drengnum frá því að henni barst tilkynning um vanrækslu vegna foreldra [...] í X. Í kjölfarið tók barnaverndarnefnd ákvörðun um að hefja könnun máls. Á meðan á því ferli stóð bárust barnaverndarnefndinni fleiri tilkynningar varðandi málið. Var það niðurstaða Barnaverndarnefndar B að þörf væri á áætlun ásamt stuðningsúrræðum samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Var lagt til að drengurinn yrði vistaður utan heimilis og að móðir fengi aðstoð við að [...].

Drengurinn hefur verið í tímabundnu fóstri frá X. Til stóð að drengurinn færi til móður X 2019 en með samþykki móður var fósturtímabilið framlengt til X 2019. Á fósturtímabilinu hefur drengurinn farið í umgengni við kæranda undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar. Umgengnissamningur var gerður við kæranda til X 2019 þar sem áætlað var að barnið færi til móður á þeim tíma. Á fundi Barnaverndarnefndar B X 2019 var mál drengsins tekið fyrir þar sem ekki hafði náðst samkomulag um umgengni kæranda við drenginn í tímabundnu fóstri. Kærandi óskaði eftir að umgengni yrði aukin til muna en tillaga starfsmanna barnaverndarnefndar var að umgengni við kæranda yrði einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn. Þar sem samkomulag náðist ekki um umgengni var málið tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. bvl. 

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við ákvörðun á umgengni þurfi barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmið fósturráðstöfunar. Með vísan til fyrirliggjandi gagna telji Barnaverndarnefnd B að umgengni við kæranda hafa gengið misvel, það séu lítil tengsl barns við kæranda og auk þess eigi barnið erfitt með að vera í aðstæðum sem það þekkir sig ekki í.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni D við föður sinn A, umgengni verði þriðju hverja viku tvo tíma í senn á heimili fósturforeldra og undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Umgengni verði endurskoðuð eftir fimm mánuði.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og honum verði veitt umgengni við D aðra hvora helgi frá 18:00 á föstudegi til 18:00 á sunnudegi á meðan fósturvist stendur. Til vara krefst kærandi að hinum kærða úrskurði verði hrundið og Barnaverndarnefnd B verði gert að taka málið fyrir að nýju.

Kærandi vísi aðallega til atvikalýsingar, málsástæðna og lagaraka sem komi fram í greinargerð kæranda sem hafði verið lögð fram fyrir Barnaverndarnefnd B.

Í greinargerðinni komi meðal annars fram að kröfur kæranda lúti að því að auka og styrkja tengsl hans við son sinn á ný, enda sé hann faðir drengsins og telji sig eiga rétt á að þekkja og umgangast hann. Drengurinn sé í tímabundnu fóstri en slíku úrræði sé beitt samkvæmt 2. mgr. 65. gr. bvl. og 2. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur „þegar ætla má að unnt verði að bæta aðstæður þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum sínum“ og markmiðið sé samkvæmt greininni að „...búa barni tryggar uppeldisaðstæður þann tíma sem fóstri er ætlað að vara og skapa aðstæður til að veita barninu og foreldrum þess þegar það á við nauðsynlegan stuðning þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna.“ Markmið úrræða nú sé því að barnið fari aftur til foreldra.

Þá kemur fram í greinargerð að samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn og foreldri gagnkvæman rétt til umgengni. Gildi það nema umgengni sé „...bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur.“ Kærandi telji engar slíkar aðstæður vera uppi. Kærandi sé á góðum stað í lífinu og fullhæfur til þess að rækja samband við barnið. Telja verði að þar sem markmið fósturs sé að barnið fari aftur til foreldra sé ástæða til þess að hafa umgengni rýmri en tillögur barnaverndar gangi út á. Nauðsynlegt sé að auka umgengni til að koma í veg fyrir tengslarof. Kærandi telji að slíkt sé hægt með góðri samvinnu við barnavernd, fósturforeldra og eftir atvikum með aðstoð sérfræðings.

Kærandi hafi fullan hug á að koma að uppeldi og umönnun sonar síns. Hann miði að því að vera umgengnisforeldri, að því gefnu að móðir nái að [...], en sé viðbúinn að krefjast forsjár drengsins ef [...]. Kærandi telji að réttur þeirra feðga samkvæmt 74. gr. bvl. og réttindi drengsins samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum 7.–9. gr., feli í sér að barnavernd beri að stuðla að umgengni og aðstoð við að styrkja samband þeirra feðga eftir fremsta megni. Því beri barnaverndarnefnd að fallast á kröfur kæranda, hugsanlega með einhverjum breytingum sem feli í sér að aðlögun eigi sér stað yfir lengri tíma. Kærandi lýsi jafnframt yfir vilja til þess að lúta skilyrðum sem kunna að vera æskileg, svo sem [...].

Kærandi telji að sú takmarkaða umgengni sem barnavernd ætli þeim feðgum sé til þess fallin að auka tengslarof á milli þeirra. Hann telji málið illa rannsakað af hálfu barnaverndarnefndar. Ekki sé að sjá að neinn þar til bær sérfræðingur hafi komið að málum og metið áhrif umgengni á barnið. Virðist sem úrskurður nefndarinnar byggi helst á skoðunum fósturforeldra og móður en ekki á áreiðanlegu mati. Þá sé ekki að sjá að neitt hafi verið reynt af hálfu Barnaverndar B til þess að vinna með þá erfiðleika sem hafi, samkvæmt fósturforeldrum, komið í kjölfar umgengni. Í staðinn sé umgengni skorin niður í lágmark undir eftirliti. Þessi málsmeðferð feli í sér brot gegn 7. mgr. 4. gr. bvl. sem kveði á um að veita skuli fjölskyldum stuðning og beita vægustu úrræðum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Ljóst sé að kærandi hafi náð verulegum árangri í að bæta líf sitt. Hann hafi [...] og sé í föstu starfi og verði því í ljósi bættrar stöðu kæranda að leitast við að styrkja tengsl þeirra feðga og leita leiða til þess að virða rétt þeirra feðga til umgengni.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hinn kærða úrskurð frá 25. mars 2019 sem kveði á um að umgengni D við kæranda verði þriðju hverja viku, tvo tíma í senn, á heimili fósturforeldra og undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Einnig sé kveðið á um að umgengni verði endurskoðuð eftir fimm mánuði.

Drengurinn hafi verið í tímabundnu fóstri frá X. Á fósturtímabilinu hafi drengurinn farið í X skipti í umgengni við kæranda. Fyrsta umgengni hafi farið fram hinn X á heimili kæranda undir eftirliti starfsmanns barnaverndar en kærandi hafi þá verið búinn að vera edrú í um X. Eftir þá umgengni hafi kærandi óskað eftir annarri umgengni fljótlega og barnavernd hafi orðið við þeirri beiðni. Sú umgengni hafi farið fram X en varað stutt þar sem kærandi hafi sagst vera í tímaþröng með að [...].

Starfsmenn barnaverndar hafi ekki heyrt í kæranda aftur fyrr en í X. Þá hafi kærandi haft samband við starfsmann og óskað eftir umgengni en hann hafði þá ekki hitt drenginn í X mánuði. Næsta umgengni hafi farið fram X í E í B og hafi sú umgengni gengið vel. Umgengni hafi því næst farið fram X en hún hafi ekki gengið eins vel þar sem drengurinn hafi verið illa stemmdur og ekki tilbúinn að verða eftir í E Næsta umgengni hafi farið fram X 2019 með samþykki kæranda á heimili fósturforeldra. Kærandi hafi mætt 30 mínútum of seint í þá umgengni en að öðru leyti hafi hún gengið vel.

Umgengnissamningur hafi verið gerður við kæranda til X 2019 þar sem áætlað hafi verið að barnið færi heim til móður á þeim tíma. Fósturtímabilið hafi hins vegar verið framlengt til X 2019. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag við kæranda um umgengni hafi málið verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann X 2019 og kveðinn upp úrskurður.

Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga skuli barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Það sé rangt sem fram komi í kæru til úrskurðarnefndarinnar að barnaverndarnefnd hafi tekið hina kærðu ákvörðun að illa rannsökuðu máli og án þess að „neinn þar til bær sérfræðingur hafi komið að málum“. Hið rétta sé að mál sonar kæranda hafi verið í vinnslu hjá nefndinni frá árinu X og fyrir liggi fjöldi gagna er málið varða. Fjölmargir sérfræðingar, sem starfi hjá Barnaverndarnefnd B, hafi komið að málinu og lagt mat á málið byggt á sérfræðiþekkingu sinni og út frá hagsmunum drengsins. Þannig að frá því að drengurinn hafi farið í tímabundið fóstur hafi reglulega farið fram mat á umgengni kæranda við son sinn. Fyrir fund barnaverndarnefndar hafi því öll nauðsynleg gögn legið fyrir þannig að unnt hafi verið að taka afstöðu áður en ákvörðunin hafi verið tekin.

Af hálfu barnaverndar sé á því byggt að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 50/2002 og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið syni kæranda fyrir bestu, með hagsmuni kæranda og sonar hans í huga, sbr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefnd B byggi á því að það þjóni hagsmunum sonar kæranda best að umgengni hans við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Af greinargerð um könnun máls, dags. 9. janúar 2018, megi ráða að fjölmargar tilkynningar hafi borist barnavernd um [...]. Móðir fari ein með forsjá drengsins en kærandi [...]. Í greinargerðinni komi einnig fram að foreldrar drengsins hafi búið saman í stuttan tíma en [...]. [...]. Meðal annars af þessum sökum hafi drengurinn ekki verið í reglulegri umgengni við kæranda áður en hann hafði verið vistaður utan heimilis.

Í ljósi forsögu málsins og með vísan til fyrirliggjandi gagna telji Barnaverndarnefnd B að rýmri umgengni á þessum tímapunkti sé andstæð hagsmunum drengsins. Með vísan til þess að umgengni hafi gengið misvel, lítil tengsl séu á milli kæranda og drengsins, afstöðu móður og fósturforeldra, eigi umgengni við kæranda ekki að vera tíðari en einu sinni í mánuði og á heimili fósturforeldra undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Enn fremur vísast til umsagnar frá [...] þar sem meðal annars komi fram að starfsmenn hafi fundið fyrir því að drengurinn hafi verið [...] í kjölfar umgengni við kæranda.

Þá byggi Barnaverndarnefnd B á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Drengurinn hafi ekki verið í reglulegri umgengni við kæranda áður en hann hafi verið vistaður utan heimilis þar sem kærandi hafi [...]. Eftir að drengurinn hafi farið í fóstur hafi umgengni á milli feðganna verið eftir því sem aðstæður hafi boðið upp á. Tekið hafi verið mið af óskum kæranda í þessum efnum að því marki sem þær samrýmast hagsmunum drengsins. Barnaverndarnefnd telji að rýmri umgengni en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði sé ekki í samræmi við hagsmuni drengsins.

Vakin sé athygli á því að í hinum kærða úrskurði sé kveðið á um rýmri umgengni en tillögur starfsmanns barnaverndar hafi kveðið á um í greinargerð hennar frá 14. mars 2019. Þar sé lagt til að umgengni yrði einu sinni í mánuði í tvo tíma í senn. Þessi tillaga hafi verið í samræmi við afstöðu móður og fósturforeldra til umgengni. Í hinum kærða úrskurði hafi hins vegar verið ákveðin rýmri umgengni en framangreind tillaga hafi gert ráð fyrir og mælt fyrir um að umgengni yrði endurskoðuð eftir fimm mánuði. Að baki þessari ákvörðun búi meðalhófssjónarmið og með því sé leitast við að auka tengslamyndun á milli feðganna þvert á það sem ranglega sé haldið fram í kæru.

 

IV.  Sjónarmið fósturforeldra

Úrskurðarnefndin leitaði eftir afstöðu fósturforeldra til kærunnar. Í svari þeirra, dags. 28. ágúst 2019, kemur fram að drengurinn hafi verið í fóstri hjá þeim frá X. Á X til X 2019 hafi drengurinn farið í X skipti í umgengni við kæranda. Frá X hafi umgengi farið að meðaltali fram á þriggja vikna fresti á heimili D og fósturforeldra.

D sé í greiningarferli hjá Greiningarstöð ríkisins en grunur sé um […]. Hann eigi erfitt með allar breytingar og þurfi dagleg rútína að vera skýr. […]. Fyrir X hafi hann sýnt sterk einkenni […]. Meðal annars hafi hann […]. Hann hafi ekki […]. Á X ári hafa miklar framfarir verið hjá drengnum sem lýsi sér helst í því að hann sé […]. […]

Í X hafi fósturforeldrar gert samantekt og afstöðu til umgengni að ósk Barnaverndar B þar sem komi fram að umgengni við kynforeldra hafi gengið að mestu leyti vel en hann hafi sýnt sterk einkenni í kjölfar umgengni. Hann sýni einkenni sem hafi verið skýr í byrjun þegar hann kom til fósturforeldra eins og að […] Þessi einkenni hafi auk þess komið fram á […] alveg upp í X eftir umgengni. Fósturforeldrar hafi þá meðal annars lagt til að umgengni færi fram á heimili Dog fósturforeldra. D sé öruggari á heimili sínu og í því ljósi telji þau það mikilvægt að umgengni sé í hans umhverfi til að skapa honum öruggar aðstæður. Jafnframt telji þau að umgengnin reyni mikið á D og í því ljósi hafi fósturforeldrar lagt til að umgengni verði einu sinni í mánuði en á þeim tíma hafi hann tvisvar í mánuði verið í umgengi hjá móður. Það sé mat fósturforeldra að minna beri á einkennum og vanlíðan eftir að umgengni hafi farið fram á heimili drengsins og í hans umhverfi.

Taka þurfi tillit til að um sé að ræða barn með sérþarfir sem þurfi mikinn ramma og öryggi í kringum sig. Huga þurfi að öllum breytingum í lífi hans með hliðsjón af hans velferð.

 

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er fæddur árið X og lýtur forsjá móður sinnar. Barnaverndaryfirvöld munu hafa haft afskipti af málefnum hans frá því í X í kjölfar tilkynninga um [...]. Eftir könnun máls voru gerðar áætlanir um meðferð máls á grundvelli 23. gr. bvl.

Drengurinn er í tímabundnu fóstri til X 2019 hjá fósturforeldrum sínum, F og G. Umgengnissamningur var gerður við kæranda til X 2019 en þar sem fósturtímabilið var framlengt náðist ekki samkomulag við kæranda um umfang umgengni. Var málið því tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 25. mars 2019 og kveðinn upp úrskurður í málinu.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn þriðju hverja viku, tvo tíma í senn á heimili fósturforeldra og undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Umgengni yrði endurskoðuð eftir fimm mánuði. Í úrskurðinum er byggt á því að við ákvörðun á umgengni þurfi barnaverndarnefnd að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmið fósturráðstöfunar. Með vísan til fyrirliggjandi gagna telji Barnaverndarnefnd B að umgengni kæranda hafi gengið misvel og að það séu lítil tengsl barns við kæranda, auk þess sem barnið eigi erfitt með að vera í aðstæðum sem hann þekki sig ekki í.

Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð barnaverndar. Hann telur að barnavernd hafi ekki gætt meðalhófsreglu og ekki sinnt rannsóknarskyldu með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Kærandi telur að rannsaka hefði mátt málið betur. Hann telur að ekki sé að sjá að neinn sérfræðingur hafi komið að málinu og metið áhrif umgengni á barnið. Í málinu liggja fyrir gögn sem Barnaverndarnefnd B aflaði við meðferð málsins svo sem greinargerð um könnun máls, upplýsingar frá [...] og afstaða fósturforeldra til umgengni. Eins og málið er nú vaxið telur úrskurðarnefndin að barnaverndarnefndin hafi aflað viðhlítandi gagna og að rannsókn málsins hafi verið í samræmi við 1. mgr. 41. gr. bvl., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kæranda verði veitt umgengni við D aðra hvora helgi frá 18:00 á föstudegi til 18:00 á sunnudegi á meðan fósturvist stendur. Til vara krefst kærandi að hinum kærða úrskurði verði hrundið og Barnaverndarnefnd B verði gert að taka málið fyrir að nýju.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kærendur á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hans við drenginn verði aukin með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til þeirrar stöðu sem hann er í. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem að er stefnt með ráðstöfun hans í fóstur.

Hinn kærði úrskurður er byggður á því að umgengni kæranda við drenginn hafi gengið misvel og það séu lítil tengsl á milli þeirra. Drengurinn eigi erfitt með að vera í aðstæðum sem hann þekki sig ekki í. Hann sé í greiningarferli þar sem grunur sé um einhverfu og líðan hans hafi ekki verið góð eftir umgengni. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi drengsins í fóstrinu. Verði það ekki gert ber að líta svo á að ekki hafi verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmunir drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Drengurinn er í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum til X 2019. Fósturforeldrar hafa lýst því yfir í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. ágúst 2019, að taka þurfi tillit til þess að um sé að ræða barn með sérþarfir sem þurfi mikinn ramma og öryggi í kringum sig. Haga verði breytingum í lífi hans með hliðsjón af hans velferð.

Úrskurðarnefndin telur það lögvarða hagsmuni drengsins að hann búi við stöðugleika í fóstrinu og umgengni valdi sem minnstri truflun. Samkvæmt gögnum málsins er lítil tengsl á milli kæranda og drengsins eins og að framan greinir. Þá hefur drengurinn sýnt merki um vanlíðan og óöryggi í kjölfar umgengni. Með því að gera þá breytingu á umgengni sem kærandi krefst yrði tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem drengurinn hefur tvímælalaust mikla þörf fyrir.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til þess er að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 25. mars 2019 varðandi umgengni D við A, er staðfest.

 

 

Kári Gunndórsson

           Guðfinna Eydal                                                     Björn Jóhannesson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum