Hoppa yfir valmynd
%C3%81fr%C3%BDjunarnefnd%20%C3%AD%20k%C3%A6rum%C3%A1lum%20h%C3%A1sk%C3%B3lanema

2/2022 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2023, 12. maí, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Elvar Jónsson lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson lögfræðingur málinu 

nr. 2/2022

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dags. 12. júní 2022, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti þann sama dag, þar sem kærð var ákvörðun háskólaráðs Háskóla Íslands frá 9. júní 2022 („“ eða „skólinn“). Í ákvörðun HÍ var kæranda synjað um aðgang að nöfnum höfunda framvinduyfirlita í hópverkefni í námskeiðinu Nýsköpun (115F) sem kennt er í MBA-námi HÍ.

Nefndin óskaði eftir athugasemdum HÍ við kæruna þann 16. júní 2022. Viðbrögð HÍ bárust með tölvupósti 22. júní 2022.

Nefndin fundaði með kæranda og fulltrúa HÍ þann 20. febrúar 2023 þar sem þeir komu sjónarmiðum sínum á framfæri munnlega.

Þann 19. október 2022 veitti nefndin álit sitt á málsmeðferð HÍ varðandi gagnabeiðni kæranda með áliti nefndarinnar, sbr. mál nr. 1/2022 og komst að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð HÍ við móttöku beiðni kæranda hefði verið ábótavant. Ekki er því sérstaklega fjallað um málsmeðferð HÍ á gagnabeiðni kæranda í þessu máli.

II.

Málsatvik

Kærandi var nemandi í MBA-námi við HÍ. Á haustönn 2021 tók kærandi áfangann Nýsköpun 115F sem er hluti af MBA-námi við HÍ.

Námsmat fyrir áfangann var þríþætt, hópverkefni (40%), þátttaka og virkni (30%) og lokapróf (30%). Kærandi fékk einkunnina 7,0 fyrir hópverkefnið en aðrir meðlimir hópsins fengu einkunnina 8,0. Fékk kærandi þá skýringu að samkvæmt framvinduyfirlitum samnemenda hans hefði kærandi lítið lagt af mörkum í fyrstu en tekið sig á þegar leið á verkefnavinnuna.

Þá gerði kennari námskeiðsins athugasemdir við þátttökuframlag kæranda í athugasemdum við framvinduyfirlit vegna hópverkefnis og óskaði eftir samtali við kæranda um þann þátt. Nokkur samskipti áttu sér stað milli kæranda og kennarans vegna þessa. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hafi hafnað að ræða framangreint við kennarann og ekkert varð af fundi. Að endingu gaf kennarinn kæranda einkunnina núll fyrir „þátttöku og virkni“ með eftirfarandi rökstuðningi:

Þegar nokkuð var liðið á námskeiðið kom í ljós að nemandinn hafði ekki verið virkur í vinnu hópverkefnisins. Við yfirferð á framvinduyfirlitum í lok námskeiðs kemur í ljós að nemandinn tók sig á, og því var ákveðið að takmarka frádrátt við einn heilann í þeim lið, og nemanda gefin einkunnin 7 fyrir hópverkefni í stað 8. Þar sem Canvas býður ekki upp á mismunandi einkunnagjöf innan hópa kemur þetta ekki fram í hlutaeinkunnum, einungis í heildareinkunn. Við skoðun kennara á þessum og öðrum þáttum kom einnig fram að [kærandi] hafði á engan hátt staðið skil á námsþættinum „Þátttaka og virkni“. Heildstætt mat á þessum námsþætti fer alla jafna fram í lok námskeiðs, enda bera nemendur sjálfir ábyrgð á þátttöku sinni og virkni, en að gefnu tilefni var ákveðið að skoða það nánar í þessu tilviki.

Í kjölfarið taldi kennari upp allnokkur dæmi um skort á þátttöku og virkni nemandans í námskeiðinu. Síðan sagði:

Í ljósi ofangreinds er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að nemandinn hafi í lengri eða skemmri tíma ekki verið á Zoom í raun og veru, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað, og þrátt fyrir að hafa tengst kennslustund í Zoom. Þegar þetta kom í ljós fór kennari þess ítrekað á leit við nemandann að ræða við hann um þátttöku hans í námskeiðinu. Nemandi harðneitaði að ræða við kennara og því voru engar forsendur til annars en að gefa 0 fyrir þennan þátt námskeiðsins.

Kærandi vildi ekki una þessu og með bréfi til HÍ, dags. 23. desember 2021, óskaði kærandi eftir tilteknum upplýsingum og gögnum í tengslum við námsmat kennara fyrir matsþáttinn „þátttöku og virkni“. Nánar tiltekið óskaði kærandi í stuttu máli eftir eftirfarandi gögnum:

  1. Afriti af öllum gögnum sem kennari byggði á við mat sitt, einkunn fyrir matsþáttinn „þátttaka og virkni“ í áfanganum.
  2. Ástæðu þess að kennari gaf kæranda ekki kost á að kynna sér og tjá sig um neikvæð ummæli sem kennari fékk frá þriðja aðila og kennari byggði á við mat sitt á einkunn fyrir matsþáttinn „þátttaka og virkni“.
  3. Upplýsingar um hvernig kennari gætti samræmis og jafnræðis við mat á einkunnum nemanda.
  4. Upplýsingar um lagaheimild kennara fyrir rafrænu eftirliti á Canvas, námsumsjónarkerfi HÍ.
  5. Ópersónugreinanlegum upplýsingum sem sýndu fjölda þeirra nemenda sem ekki spurðu kennara a.m.k. einnar spurningar í tíma, fjölda nemenda sem ekki tóku þátt í skrifa a.m.k. eina athugasemd í Canvas og fjölda nemenda sem gerðu hvorugt.
  6. Ópersónugreinanlegum upplýsingum sem sýndu sundurliðun einkunna nemenda áfangans fyrir matsþáttinn „þátttöku og virkni“.

Engin svör bárust og þann 14. febrúar 2022 sendi kærandi tölvupóst á forstöðumann viðskiptafræðideildar til áréttingar á erindinu.

Forstöðumaður viðskiptafræðistofnunar HÍ svaraði erindinu 15. febrúar 2022 þar sem beiðni kæranda um aðgang að gögnum var hafnað að hluta til með vísan til þess að hluti gagnabeiðni kæranda varðaði trúnaðargögn og að öðru leyti með vísan til þess að einstök gögn væru ekki til eða aðgengileg.

Kærandi kvartaði yfir þessari afgreiðslu málsins til deildarforseta þann 17. febrúar 2022, á grundvelli 50. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009. Niðurstaða deildarforseta lá fyrir 31. mars 2022 þar sem kveðið var á um að kæranda skyldi veittur aðgangur að öllum gögnum sem lágu til grundvallar einkunn fyrir matsþættina „þátttaka og virkni“ og „hópverkefni“ í námskeiðinu Nýsköpun 115F. Með niðurstöðunni fylgdu umbeðin gögn, þ.m.t. afrit af nafnhreinsuðum framvinduyfirlitum samnemenda kæranda á námskeiðinu.

Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli deildarforseta og kæranda vegna ákvörðunar um að afmá nöfn höfunda framvinduyfirlitanna.

Þann 6. apríl 2022 sendi kærandi rektor HÍ tölvupóst sem innihélt drög að kvörtunum til umboðsmanns Alþingis og til Persónuverndar. Rektor HÍ staðfesti móttöku með tölvupósti sama dag og upplýsti jafnframt að hann liti svo á að með erindinu hefði kærandi skotið niðurstöðu deildarforseta til háskólaráðs skv. 50. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009. Kærandi dró kæruna síðar til baka.

Þennan sama dag sendi deildarforseti viðskiptafræðideildar tölvupóst á kæranda með rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun sinni að afhenda kæranda framvinduyfirlit án þess að nöfn höfunda þeirra, og samnemenda kæranda, væru birt. Var ákvörðunin rökstudd með því að einkahagsmunir nemendanna væru slíkir að ástæða hafi verið til að takmarka gögnin að hluta til með vísan til 17. gr. laga nr. 37/1997. Hafa þyrfti í huga að ágreiningurinn varðaði það sérstaklega hvort einkunn kæranda ætti að vera einum lægri en hjá öðrum meðlimum hópsins, sem lækkaði lokaeinkunn fyrir námskeiðið um 0,5. Deildarforseti teldi ákvörðun kennarans vel rökstudda og málefnalega. Í þessu samhengi skipti engu hvaða samnemandi ætti hvaða ummæli í framvinduyfirlitum, enda hafi ummælin öll verið efnislega mjög samhljóða og öll haft sama vægi. Kærandi hefði fengið öll gögn sem hann þyrfti til að sannreyna það. Þá yrði að hafa í huga að rík hefð væri fyrir jafningjamati sem þessu í akademísku starfi og mikilvægt væri að standa vörð um nafnleynd vegna þess. Slíkt mat væri nánast óhugsandi án nafnleyndar og því væru ríkir almannahagsmunir af því að virða hana. Það hafi einnig legið fyrir í þessu tilfelli að nafnleynd yrði virt og að allir nemendur hafi tekið þátt í vinnunni á þeim forsendum.

Kærandi sendi í kjölfar þessa ítrekaða tölvupósta á deildarforseta þar sem þess var krafist að ákvörðunin yrði endurupptekin vegna efnislegra annmarka. Deildarforseti hafnaði því með tölvupósti 13. apríl 2022 og bætti við að ástæða þess að aðgangur kæranda að gögnum málsins væri takmarkaður væri m.a. sú að deildarforseta þætti hagsmunir kæranda af því að nota færa sér vitneskju úr þeim eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum samnemenda kæranda í hópverkefninu. Ítrekaðar tölvupóstsendingar kæranda „nálguðust það að vera áreiti“ og að deildarforseta þætti framkoma hans þannig að samnemendur hans hefðu af því ríka hagsmuni að hann fengi ekki umbeðnar upplýsingar.

Þann 19. apríl 2022 sendi kærandi á ný kæru til háskólaráðs með tölvupósti til rektors HÍ og var í kjölfarið aflað álits frá kærunefnd í málefnum nemenda. Í áliti sínu frá 31. maí 2022 lagði nefndin til við háskólaráð að umsjónakennaranum í námskeiðinu Nýsköpun (115F) yrði falið að endurmeta einkunnagjöf kæranda vegna þáttarins „Þátttaka og virkni“. Að öðru leyti var lagt til að kröfum kæranda yrði hafnað, m.a. kröfu um að fá aðgang að nöfnum þeirra sem rituðu framvinduyfirlitin.

Þann 9. júní 2022 tók háskólaráð kæru kæranda til úrskurðar og hafnaði kröfu hans um að fá aðgang að nöfnum þeirra sem rituðu framvinduyfirlitin.

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi byggir á því að hann eigi rétt því að fá framvinduyfirlit samnemenda í hópverkefninu afhent án þess að nöfn samnemenda séu afmáð.

Kærandi byggir kröfu sína á 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um upplýsingarétt aðila máls. Kærandi telur að 17. gr. laganna um takmörkun á upplýsingarétti aðila máls eigi ekki við.

Kærandi byggir á því að séu nöfn höfunda framvinduyfirlita honum ekki sýnileg sé honum ekki mögulegt að bregðast við efni þeirra. Kærandi hafi gögn undir höndum sem stangist á við framvinduyfirlit samnemenda sinna og af þeim sökum skipti það hann máli að vita hverjir beri ábyrgð á yfirlitum sem fari ekki heim og saman við gögn kæranda.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

HÍ krefst þess að kröfu kæranda um aðgang að nöfnum samnemenda í framvinduyfirlitunum verði hafnað. Um málsástæður sínar og rökstuðning vísar skólinn til úrskurðar háskólaráðs frá 9. júní 2022 sem byggir á áliti kærunefndar í málefnum nemenda dags. 31. maí 2022.

Kærandi hafi ekki upplýst hverjir hagsmunir hans séu af því að fá persónugreinanleg framvinduyfirlit afhent. Hann hafi þegar fengið framvinduyfirlitin afhent að því marki sem hann hafi hagsmuni af og að þau séu öll á einn veg, þ.e. að virkni og þátttöku kæranda hafi í upphafi verið ábótavant en hann síðar tekið sig á. Þó kærandi hafi ekki upplýsingar um það hver samnemenda hans hefði skrifað hvaða framvinduyfirlit, þá hafi hann nú þegar upplýsingar um að höfundar umræddra skjala væru þrír tilgreindir samnemendur hans. Ljóst sé að nöfn nemendanna hefðu enga þýðingu haft fyrir námsmat kæranda heldur eingöngu efni framvinduyfirlitanna og kærandi hafi ekki haldið því fram að efni þeirra væri rangt eða ósanngjarnt. Þá hafi kærandi ekki gert ágreining um einkunnagjöfina og því óljóst hvað hann ætli sér með upplýsingar um hver skrifaði hvaða yfirlit. Kærandi virðist því ekki þurfa aðgang að gögnunum til að leiðrétta upplýsingar sem hann teldi rangar eða til að leggja fram ný gögn og upplýsingar af sinni hálfu.

Á móti hagsmunum kæranda standi ríkir hagsmunir af því að nemendur haldi nafnleynd. Í því sambandi þurfi að líta til þess að hugtakið „einkahagsmunir“ hafi ekki verið túlkað svo þröngt að það nái eingöngu til viðkvæmra persónuupplýsinga.

Einn helsti ókostur hópverkefna í akademísku starfi sé að vinnan lendi oft aðeins á hluta hópsins og að aðrir séu „farþegar“ sem leggi lítið af mörkum. Tilgangur jafningjamats sé að draga úr því vandamáli. Jafningjamat tryggi betur gæði náms þar sem það hvetji nemendur til að taka virkan þátt í hópverkefnum og gefi kennurum betri mynd af framlagi hvers og eins. Þá feli slíkt mat í sér réttlætismál fyrir nemendur, þar sem afar ósanngjarnt væri að þeir sem legðu sig fram fengju sömu einkunn og þeir sem lítið gerðu. Jafningjamat í hópverkefnum sé óhugsandi ef slíkt mat væri ekki nafnlaust. Nyti nafnleyndar ekki við sé ljóst að nemendur myndu veigra sér við að gefa raunsanna mynd af framlagi einstakra nemenda í hópverkefnum. Hópverkefni séu liður í að bjóða upp á fjölbreytt námsmat, sem stuðli að öflugra námi, þar sem nemendur séu virkjaðir til að beita öðrum hæfileikum en eingöngu þeim sem nýtist á lokaprófi. Því séu ríkir hagsmunir sem mæli með því að nöfn þeirra sem vinni jafningjamat séu ekki gerð opinber.

Í kjölfar gagnabeiðni sinnar hefði kærandi sent ítrekaða og stundum ágenga tölvupósta til þeirra sem hafi haft með mál hans að gera og í öllum tilvikum hafi hann sent afrit af tölvupóstsamskiptum til samnemenda sinna. Séu þetta enn frekari rök fyrir því að nöfn nemendanna verði ekki gerð opinber.

V.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort að kærandi eigi rétt á aðgangi að framvinduyfirlitum sem samnemendur kæranda í hópverkefni rituðu í áfanganum Nýsköpun í MBA-námi HÍ þar sem fram komi hvaða nemandi skrifaði hvaða yfirlit. Með framvinduyfirlitunum var nemendum ætlað að leggja mat á það verkefni sem unnið var að ásamt því að leggja mat á framlag annarra nemenda í hópnum.

Eins og rakið er að framan fékk kærandi umrædd framvinduyfirlit afhent samkvæmt beiðni 23. desember 2021, en þau höfðu þá verið nafnahreinsuð og kæranda því ekki unnt að átta sig á hver skrifaði hvaða framvinduyfirlit.

Kærandi byggir á því að hann eigi rétt á að fá afhent framvinduyfirlitin sem sýni nöfn höfunda hvers yfirlits með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggir kærandi á því að honum sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um höfunda framvinduyfirlita til þess að geta brugðist við þeim atriðum sem þar komi fram og varði þátttöku og framlag kæranda í hópverkefninu.

Í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga kemur fram sú meginregla að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Mál þetta varðar beiðni um aðgang að gögnum sem lágu til grundvallar einkunn kæranda í áfanganum Nýsköpun í MBA-námi HÍ. Einkunnagjöf, þegar um er að ræða einkunnir sem reiknast til lokaprófs, telst stjórnvaldsákvörðun, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1852/1996. Sú einkunn sem hér um ræðir varðar hópverkefni í MBA-námi í HÍ en verkefnið sem mál þetta varðar var sérstakur matsliður í lokaeinkunn nemenda í umræddum áfanga. Er því um að ræða stjórnvaldsákvörðun og kærandi á því almennt rétt til að fá afhent þau gögn sem málið varða, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997.

Frá þessari meginreglu er gerð sú undantekning í 17. gr. laganna að stjórnvaldi sé, þegar sérstaklega standi á, heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim eigi að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Af orðalagi ákvæðisins má ráða að um er að ræða undantekningu sem túlka verður þröngt. Þannig á hún eingöngu við „þegar sérstaklega stendur á“. Þá er gerð krafa um að þeir almanna- eða einkahagsmunir sem stjórnvald telur að þurfi að verja séu „mun ríkari“ en hagsmunir aðila af því að fá umræddar upplýsingar. Sjónarmið um túlkun ákvæðisins birtast einnig í greinargerð um 17. gr. með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/1993, þar sem fram kemur að leggja beri á það ríka áherslu að líta beri á „þetta heimildarákvæði sem þrönga undantekningarreglu“.

Við mat á því hvort HÍ hafi verið heimilt að beita undanþáguheimildinni í 17. gr. þarf því að fara fram mat á því hvort undirliggjandi almanna- eða einkahagsmunir séu mun ríkari en hagsmunir  kæranda af því að fá upplýsingar um hvaða nemandi skrifaði hvaða framvinduyfirlit.

Fyrst kemur því til skoðunar hvaða hagsmuni kærandi hefur af því að fá afhentar umbeðnar upplýsingar.

Kærandi hefur vísað til þess að honum sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um nöfn hvers aðila til að honum sé unnt að bregðast við því sem fram komi í skýrslunum. Hann hafi undir höndum upplýsingar og gögn sem ekki rími við ummæli í framvinduyfirlitum, en ekki hefur verið upplýst um hvaða upplýsingar eða gögn þetta eru.

Fyrir liggur að kærandi hefur fengið aðgang að umræddum framvinduyfirlitum, en þau eru þrjú talsins. Þá liggur fyrir að kæranda er kunnugt um hverjir höfundar yfirlitanna eru þó hann hafi ekki fengið upplýst hvaða nemandi skrifaði hvaða yfirlit.

Að mati nefndarinnar er ljóst að kærandi getur brugðist við efni yfirlitanna og þeirra ummæla sem þar er að finna um þátttöku hans og framlag í verkefninu þó að ekki sé ljóst hver hópameðlima skrifaði hvaða framvinduyfirlit. Þannig kemur skýrlega fram í yfirlitunum hvaða atriði það eru sem samnemendur kæranda tiltóku um framlag hans og þátttöku. Ekki verður annað séð en að kæranda hafi, á grundvelli nafnhreinsuðu yfirlitanna, verið unnt að neyta andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir atvikum með athugasemdum eða gögnum sem sýni fram á að ekki sé rétt farið með. Að mati nefndarinnar hafa upplýsingar um nafn höfundar hvers yfirlits, eða öllu heldur vöntun á þeim upplýsingum, engin áhrif á möguleika kæranda til að nýta sér þau réttindi sem honum eru tryggð, m.a. í ákvæðum laga nr. 37/1993.

Að mati nefndarinnar er því vandséð hvaða hagsmuni kærandi kann að hafa af því að fá upplýsingar um hver skrifaði hvaða yfirlit. Í því sambandi skiptir, að mati nefndarinnar, einnig máli að töluverður samhljómur er í framvinduyfirlitum um þátttöku og framlag kæranda.

Að þessu sögðu kemur þá til skoðunar hvort framangreindum skilyrðum fyrir beitingu undantekningarreglu 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fullnægt.

HÍ hefur byggt á því að markmið með jafningjamati sé að tryggja betur gæði náms og draga úr tilteknum vandamálum tengdum mismiklu framlagi nemenda í hópverkefnum. Hópverkefni séu liður í að bjóða upp á fjölbreytt námsmat og stuðla að öflugra námi. Forsenda fyrir því að unnt sé að nýta jafningjamat við námsmat sé sú að nemendum sé tryggð nafnleynd. Ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess því að kröfum kæranda verði hafnað.

Þegar stjórnvöld beita matskenndum lagaheimildum verða ákvarðanir að styðjast við málefnaleg rök. Við mat á því hvort um framangreind rök HÍ hafi verið málefnaleg ber m.a. að líta til þess að hlutverk háskóla er skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla að sinna kennslu og markar háskólaráð heildarstefnu m.a. í kennslu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Hefur HÍ sett sér slíka stefnu, HÍ26, sem er stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026. Í 3. kafla HÍ26, sem ber heitið Afl á grunni gæða, er m.a. fjallað um kennsluhætti. Kemur þar fram að traust kennslufræði séu lögð til grundvallar við hönnun námsleiða til að auðvelda kennurum að miðla þekkingu, tryggja virkni nemenda, styrkja námssamfélag nemenda og kennara og efla endurgjöf og fjölbreytni í námsmati.

Að mati nefndarinnar styðja framangreind sjónarmið HÍ um takmörkun á upplýsingarétti kæranda við stefnu HÍ26. Fallist er á að nafnleynd sé forsenda þess að raunhæft sé að beita jafningjamati við námsmat og miði að því að tryggja virkni nemenda og styðji við fjölbreytni í námsmati. Verður því talið að um málefnaleg sjónarmið hafi verið að ræða.

Framangreindu til viðbótar telur nefndin að líta verði til þess að höfundar framvinduyfirlitanna hafi af því ríka hagsmuni að kærandi fái ekki aðgang að nöfnum þeirra. Í því sambandi verði að líta til þess að þó túlka verði takmarkanir á meginreglu 15. gr. þröngt, hefur hugtakið „einkahagsmunir“ í skilningi 17. gr. ekki verið túlkað svo þröngt að það nái eingöngu til viðkvæmra persónuupplýsinga.

Eins og áður greinir hefur kærandi þegar fengið umþrætt framvinduyfirlit afhent. Að mati áfrýjunarnefndarinnar eru þær upplýsingar fullnægjandi grundvöllur fyrir kæranda til að meta hvort réttilega hafi verið staðið að ákvörðun og nægjanlegar svo kærandi geti neytt alls þess réttar sem honum eru tryggð, m.a. í ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með hliðsjón af framangreindu er það mat nefndarinnar að hagsmunir HÍ, og þeirra nemenda sem rituðu framvinduyfirlitin, af nafnleynd séu mun ríkari en hagsmunir kæranda af því að fá að notfæra sér upplýsingar um hver nemendanna skrifaði hvaða yfirlit, eins og atvikum þessa máls er háttað. 

Með vísan til ofangreinds er kröfum kæranda um aðgang að nöfnum höfunda framvinduyfirlita í hópverkefni í áfanganum Nýsköpun í MBA-námi HÍ hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda um aðgang að nöfnum höfunda framvinduyfirlita í hópverkefni í áfanganum Nýsköpun í MBA-námi Háskóla Íslands er hafnað.

 

Elvar Jónsson

 

Eva Halldórsdóttir                                                                 Pétur Marteinn Urbancic Tómasson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum