Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 20-/2022- Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

 

Úrskurður

uppkveðinn 13. júlí 2022

í máli nr. 20/2022 (frístundahúsamál)

 

A, B, C, D og E

gegn

F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P og R

 

Miðvikudaginn 13. júlí 2022 var ofangreint mál tekið fyrir í kærunefnd húsamála og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Sigurlaug Helga Pétursdóttir lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar þessa máls eru:

Sóknaraðilar: E, A, D, C og B. Umboðsmaður sóknaraðila er S lögmaður.

Varnaraðilar: F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P, og R. Umboðsmaður varnaraðila T lögmaður.

Krafa sóknaraðila er að beita skuli lögum nr. 75/2008 um framlengingu lóðarleigusamnings til 20 ára frá leigulokum, eða til 1. janúar 2040. Til vara er gerð krafa um að viðurkennt verði að beita skuli lögum nr. 75/2008 um lóðarleigusamninginn og staðfesta að í gildi sé ótímabundinn lóðarleigusamningur sem rennur út 1. janúar 2024.

Krafa varnaraðila er aðallega að kæru verði vísað frá kærunefnd á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en til vara á grundvelli laga nr. 75/2008. Til þrautavara gerir varnaraðilar þá kröfu að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2022, beindu sóknaraðilar til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 3. mars 2022, var varnaraðilum gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 8. apríl 2022, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðilum greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 12. apríl 2022, til upplýsingar og var sóknaraðilum veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Gerður var lóðarleigusamningur 29. júlí 2005 um afnot lóðar nr. […] (U) úr landi V undir frístundahús með fasteignanúmer […]. Lóðin var leigð til fimmtán ára frá 1. janúar 2005 en eftir það framlengist samningurinn um eitt ár í senn nema honum verði sagt upp af öðrum hvorum aðilanum.

Niðurstaða kærunefndar húsamála í máli nr. 115/2020 var sú að lóðarleigusamningurinn félli ekki undir lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, þar sem um tímabundinn samning væri að ræða til fimmtán ára en að þeim tíma loknum haldi samningurinn áfram að vera tímabundinn til eins árs í senn. Var kæru sóknaraðila því vísað frá kærunefnd.

II. Niðurstaða

Aðalkrafa sóknaraðila lýtur að því að viðurkennt verði að beita skuli lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, um framlengingu lóðarleigusamnings aðila og að hann verði þannig framlengdur um tuttugu ár frá lokum samnings að telja, eða til 1. janúar 2040. Hér er um að ræða sömu kröfu og sóknaraðili gerði fyrir kærunefnd í máli nr. 115/2020 þar sem þess var krafist að samningurinn yrði framlengdur um tuttugu ár á grundvelli ákvæða laganna. Engin efni eru til að taka kröfuna til úrlausnar að nýju í máli þessu og er henni því vísað frá.

Seinni krafa sóknaraðila varðar viðurkenningu á því að í gildi sé ótímabundinn lóðarleigusamningur á milli aðila og þar með gildi um hann ákvæði laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008. Eins og fram kemur í niðurstöðu kærunefndar í máli nr. 115/2020 var um að ræða tímabundinn samning til fimmtán ára og að þeim tíma liðnum var samningurinn áfram tímabundinn til eins árs í senn. Ekki eru því efni til að fallast á þessa kröfu sóknaraðila.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Kröfum sóknaraðila er vísað frá og hafnað.

 

 

Reykjavík, 13. júlí 2022

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Sigurlaug Helga Pétursdóttir                                                Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum