Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 156/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 156/2020

Þriðjudaginn 23. júní 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. mars 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2020, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 7. febrúar 2020. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda þar sem fram kemur að kærandi hafi sjálf sagt starfi sínu lausu. Með umsókn kæranda barst einnig yfirlýsing hennar vegna starfsloka. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá síðasta vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. mars 2020. Með bréfi, dags. 2. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. maí 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún mótmæli niðurstöðu Vinnumálastofnunnar um að hún hafi sagt upp starfi sínu á hóteli. Það sé alfarið rangt eins og sjá megi í meðfylgjandi afriti af samtali kæranda við yfirmann sinn þar sem ekki hafi verið óskað eftir frekara vinnuframlagi af hálfu kæranda og það tekið gildi strax.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að í skýringum kæranda til stofnunarinnar vegna starfsloka komi fram að hún hafa verið í prufu á vinnustað og hafi ætlað að hefja þar störf sem nemi í B. Kærandi hafi fljótlega séð að starfið myndi ekki henta sér með vísan til vinnuálags og brota á kjarasamningum. Hún hafi ekki verið með fasta ráðningu þegar hún hafi sagt starfinu lausu. Meðal gagna í málinu sé að finna skjáskot af samtali kæranda við, að því er virðist, yfirmann hennar eða vaktstjóra á vinnustað. Þar komi fram að kæranda standi til boða að starfa hjá fyrirtækinu en að ákvörðun kæranda um starfslok sé virt. Þá liggi fyrir erindi frá mannauðsstjóra vinnuveitanda þar sem aðdraganda að starfslokum kæranda sé lýst og að kærandi hafi sjálf ákveðið að hætta störfum.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi sjálf tekið ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Það hafi ekki áhrif á mat stofnunarinnar að kærandi hafi verið í tímabundnu ráðningarsambandi eða á reynslutíma þegar hún hafi hætt störfum. Þá verði ekki fallist á að aðrar ástæður er kærandi hafi fært fram í máli sínu geti talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá síðasta vinnuveitanda kæranda þess efnis að hún hafi sjálf sagt upp starfi sínu. Kærandi hefur mótmælt því sem röngu og vísað til þess að ekki hafi verið óskað eftir frekara vinnuframlagi af hennar hálfu. Í gögnum málsins liggur fyrir erindi frá mannauðsstjóra vinnuveitanda þar sem aðdraganda að starfslokum kæranda er lýst og tekið fram að kærandi hafi sjálf ákveðið að hætta störfum. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því fyrir að kærandi hafi sjálf slitið ráðningarsambandi en það að hún hafi verið á reynslutíma hefur ekki áhrif hvað það varðar.

Kemur því til skoðunar hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir á því hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi verið í prufu á vinnustaðnum með það að markmiði að koma inn sem nemi í B. Hún hafi unnið þar í fjóra daga til reynslu en ekki hafi verið um að ræða fastráðningu á þeim tímapunkti. Eftir þessa fjóra daga hafi kærandi séð að það myndi ekki ganga upp þar sem vinnuálag væri verulegt og kjarasamningum ekki fylgt. Ástæður kæranda lúta þannig að stöðu hennar á vinnustaðnum. Í framkvæmd hefur verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem að leita til síns stéttarfélags, áður en þeir ákveða að segja starfi sínu lausu. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi leitað eftir úrbótum áður en hún sagði starfi sínu lausu. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilgreindar ástæður kæranda fyrir starfslokum hennar séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi átti því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2020, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum