Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 4/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7. maí 2018
í máli nr. 4/2018:
Á. Guðmundsson ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Axis-húsgögnum ehf.
Bústoð ehf.
Egilssyni ehf.
Hirzlunni ehf.
Nýformi húsgagnaverslun
Pennanum ehf.
og Sýrusson hönnunarstofu ehf.

Með kæru 28. mars 2018 kærði Á. Guðmundsson ehf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 20563 „RS - Húsgögn“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um val á tilboðum og að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda. Til vara er þess krafist að útboðið verði fellt úr gildi og varnaraðila verði gert að auglýsa útboðið að nýju. Þá er jafnframt gerð krafa um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Kæran barst innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og leiddi þannig til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laganna. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í desember 2017 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð á Evrópska Efnahagssvæðinu í þeim tilgangi að gera rammasamning um húsgögn fyrir áskrifendur að rammasamningum ríkisins. Óskað var eftir tilboðum í þrjá flokka: 1. Almenn skrifstofuhúsgögn, 2. Skólahúsgögn og 3. Önnur húsgögn (s.s. bið-, kaffistofu- og mötuneytishúsgögn). Í 2. kafla útboðsgagna komu fram kröfur um hæfi bjóðenda. Í grein 2.4 sagði m.a. um fjárhagsstöðu bjóðanda: „Fjárhagsstaða bjóðanda skal vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda, sbr. 71. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Heimilt er að byggja á fjárhagslegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá. Meðalársvelta bjóðanda skal vera að lágmarki 100 milljónir á ári síðastliðin 2 ár. Bjóðandi skal hafa jákvætt eigið fé. Bjóðandi skal leggja fram ársreikning, á því formi sem fyrirtækjaskrá RSK gerir kröfu um, til staðfestingar á ofangreindum kröfum.“ Í grein 2.5 sagði: „Tæknileg og fagleg geta fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Fyrirtæki er heimilt að byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá. Bjóðandi skal að auki uppfylla eftirfarandi kröfur á opnunardegi tilboðs: „Bjóðandi skal hafa a.m.k tveggja (2) ára reynslu í sölu og þjónustu húsgagna. Bjóðandi skal að lágmarki bjóða upp á tveggja (2) ára ábyrgð á boðnum húsgögnum. Bjóðandi skal hafa a.m.k. einn fagmann (ss. húsgagnasmið, arkitekt, innanhússarkitekt o.s.frv.) á sínum snærum.“ Í 3. kafla útboðsgagna kom fram að samið yrði við fjóra bjóðendur í hverjum flokki en val tilboða réðust af stigakerfi þar sem verð gaf 60 stig, gæði þjónustu 10 stig og gæði 30 stig.

Tilboð bárust frá ellefu bjóðendum, meðal annars kæranda sem skilaði tilboði í alla þrjá flokka. Kærandi átti fimmta lægsta verðtilboð í flokki 1, sjöunda lægsta í flokki 2 og sjöunda lægsta í flokki 3. Með tölvubréfi 19. mars 2018 tilkynnti varnaraðili um val tilboða en í öllum tilvikum voru valin tilboð þeirra fjögurra sem áttu lægstu verðtilboð í hverjum flokki. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir vali tilboða og sendi varnaraðili rökstuðning 27. mars 2018 þar sem fram kom að kærandi hefði fengið 6 stig af 10 mögulegum fyrir gæði þjónustu. Þá sagði einnig að tilboð kæranda hefði ekki átt möguleika á að verða eitt af fjórum hagkvæmustu í neinum flokki og því hefði ekki verið framkvæmt gæðamat á vörum kæranda.

Kærandi telur að mat á fjárhagslegu hæfi hafi verið miðað við mismunandi tímabil eftir bjóðendum og þeim þannig mismunað. Þannig hafi komið fram í samtölum við varnaraðila að flestir bjóðendur hafi skilað inn árituðum ársreikningi fyrir árið 2016 en að a.m.k. einn bjóðandi hafi skilað inn ársreikningi fyrir árið 2017. Réttast hefði hins vegar verið að allir bjóðendur yrðu metnir á grundvelli ársreiknings fyrir árið 2016. Samkvæmt ársreikningi Hirzlunnar ehf. fyrir árið 2016 hafi ársvelta þess árs verið rúmar 35 milljónir króna en árið 2015 hafi ársveltan verið 0 krónur. Þá sé Hirzlan ehf. ekki með tveggja ára reynslu enda hafi engin starfsemi verið í fyrirtækinu fyrr en árið 2016. Hafi því borið að hafna tilboði fyrirtækisins. Að lokum telur kærandi að útboðsgögn hafi verið óskýr, villandi og ekki innihaldið nægar upplýsingar til þess að bjóðendur gætu skilið hvernig ætti að ganga frá tilboði.

Varnaraðili vísar einkum til þess að bjóðendum hafi verið í sjálfsvald sett hvort þeir skiluðu inn ársreikningi fyrir árið 2016 eða 2017 enda misjafnt hvenær fyrirtæki séu tilbúin með ársreikning sinn. Velta Hirzlunnar ehf. árið 2016 hafi verið 35 milljónir króna en 170 milljónir króna árið 2017 og meðaltalið hafi því verið 102 milljónir króna fyrir þessi tvö ár. Því er mótmælt að tilboð Hirzlunnar ehf. hafi verið ógilt. Einnig er því mótmælt að annmarkar hafi verið á útboðsgögnum.

Niðurstaða

Í gögnum umrædds útboðs var gerð krafa um að bjóðandi sýndi fram á að „meðalársvelta“ væri að lágmarki 100 milljón krónur „síðastliðin 2 ár“. Útboðið var auglýst í desember 2017 en upphaflega átti að skila tilboðum í janúarlok 2018. Í tilboði Hirzlunnar ehf. var miðað við veltu tveggja síðast liðinna ára, þ.e. árin 2016 og 2017. Að mati nefndarinnar liggur fyrir að fyrirtækið uppfyllir kröfur útboðsgagna sé miðað við téð ár en ekki ef miðað er við árin 2015 og 2016.

Hæfiskröfum í opinberum innkaupum er ætlað að tryggja að þeir sem veljast til samningsgerðar hafi getu til þess að standa við skyldur sínar samkvæmt þeim samningi sem stefnt er að. Kröfur um fjárhagslegt hæfi verður þannig að túlka í því ljósi að þeim er ætlað að útiloka bjóðendur sem hafa ekki fjárhagslega burði til þess að standa við fyrirhugaðan samning. Samkvæmt framansögðu uppfyllti Hirzlan ehf. skilyrði útboðsins um fjárhagslega getu sé miðað við árin 2016 og 2017. Er enn fremur ljóst að þau ár gefa betri mynd af raunverulegri fjárhagslegri getu fyrirtækisins en árin 2015 og 2016. Að mati nefndarinnar hefði, í samræmi við við grunnreglu opinberra innkaupa um gagnsæi, í útboðsgögnum átt að taka skýrar fram hvaða ársreikninga væri krafist svo tryggt væri að samanburður á fjárhagslegu getu bjóðenda færi fram þannig að fullt jafnræði væri tryggt. Með hliðsjón af framangreindu markmiði hæfisreglna við opinber innkaup getur þessi annmarki þó ekki leitt til þess að útboðið teljist ógilt í heild sinni. Eins og málið liggur fyrir verður einnig að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi valið hagkvæmustu tilboðin sem bárust frá þeim bjóðendum sem uppfylltu kröfur til fjárhagslegrar getu.

Kærandi byggir á því að bjóðendum hafi borið að hafa a.m.k. tveggja ára reynslu á opnunardegi tilboða. Samkvæmt ársreikningi Hirzlunnar ehf. fyrir árið 2016 var félagið stofnað á árinu 2013 en engin starfsemi var í því fyrr en á árinu 2016 þegar félagið keypti rekstur „Hirzlunnar“ en það fyrirtæki mun hafa verið starfandi í fjölda ára. Eins og áður segir er tilgangur hæfisreglna almennt sá að tryggja að til samningsgerðar veljist fyrirtæki sem ráði við að efna samninginn og verður að túlka skilyrði útboðsgagna í samræmi við það. Til hliðsjónar er bent á að samkvæmt 76. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup getur fyrirtæki byggt á starfsreynslu annars aðila. Telur kærunefnd útboðsmála því að reynsla skuli ekki fortakslaust miða við aldur lögaðila heldur megi einnig miða við rekstur sem fyrirtæki hafi tekið yfir, svo sem með yfirtöku eða samruna. Þegar tilboð voru opnuð í febrúar 2018 hafði húsgagnafyrirtækið Hirzlan verið rekið í fjölda ára og bjóðandinn Hirzlan ehf. uppfyllti samkvæmt þessu umrædda kröfu útboðsgagna.

Samkvæmt framangreindu verður ekki á það fallist með kæranda að líkur hafi verið leiddar að því að útboðsgögn hafi verið svo óljós eða haldin svo verulegum annmörkum að leiði til ógildis umrædds útboðs.

Með vísan til alls framangreinds telur nefndin að ekki hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildis ákvörðunar varnaraðila um val á tilboðum. Verður því aflétt stöðvun samningsgerðar á grundvelli útboðsins að kröfu varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 107. gr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun varnaraðila, Ríkiskaupa, við Axis-húsgögn ehf., Bústoð ehf., Egilsson ehf., Hirzluna ehf., Nýform húsgagnaverslun, Pennann ehf. og Sýrusson hönnunarstofu ehf. á grundvelli rammasamningsútboðs nr. 20563 RS-Húsgögn.

Reykjavík, 7. maí 2018.

Skúli Magnússon

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum