Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 28. nóvember 2007

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 14/2006

Vegagerðin

gegn

Dagbjarti Boga Ingimundarsyni og

Rafni Ingimundarsyni,

eigendum Brekku í Núpasveit.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, dr. Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Benedikt Bogason, dómstjóri, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 5. október 2006 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 16. október 2006 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi) þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á landi og jarðefni úr jörðinni Brekka í Núpasveit, Norðurþingi. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar þeir Dagbjartur Bogi Ingimundarson, kt. 171258-5539 og Rafn Ingimundarson, kt. 020553-3759.

 

Andlag eignarnámsins í matsbeiðninni er sem hér segir:

 

Land undir veg:

Ræktunarland                                        1,04 ha.

Beitiland á láglendi, ræktunarhæft      11,72 ha.

Heiðarland, beitiland                           17,25 ha.

Samtals                                                30,01 ha.

 

 

 

Jarðefni til vegagerðar:

Fyllingarefni                                       52.500 m³

Efra burðarlagsefni                             84.000 m³

Samtals jarðefni                                136.500 m³

 

Eftir að málið hafði verið munnlega flutt fyrir matsnefndinni breytti eignarnemi kröfugerð sinni eftir ábendingar frá eignarnámsþolum. Kvað eignarnemi matsbeiðnina ná til of mikils magns malarefnis og krefst einungis eignarnáms og mats á 73.000 burðarlagsefnis en ekki 84.000 m³. Heildarmagn efnis sem krafist er mats á er því 125.500 m³.

 

Eignarnámið styðst við 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 16. október 2006.  Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Af hálfu eignarnámsþola var framgangi matsmálsins fyrir nefndinni andmælt. Var það í fyrsta lagi reist á því  að ekki lægi fyrir ákvörðun um eignarnám og í öðru lagi að rekið væri matsmál um samkynja efni og í þriðja lagi þar sem niðurstaða um endanlega veglínu lægi ekki fyrir. Matsnefndin bókaði að hún teldi lagaskilyrði fyrir hendi til að málinu yrði fram haldið fyrir nefndinni. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 9. nóvember 2006.

 

Ekkert varð af vettvangsgöngunni í nóvember 2006 og var hún ekki farin fyrr en miðvikudaginn 22. ágúst 2007 eftir samkomulag aðila þar að lútandi. Gengið var á vettvang og hið eignarnumda landsvæði skoðað og malarnámur einnig.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

 

Miðvikudaginn 12. september 2007 var málið tekið fyrir og lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum frá eignarnámsþolum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.

 

Miðvikudaginn 24. október 2007 var málið flutt munnlega fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta og tekið til úrskurðar að því búnu. Fyrir flutning málsins voru sættir reyndar með aðilum en án árangurs.

 

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi telur allra formreglna hafa verið gætt í málinu og að lögmæt eignarnámsákvörðun liggi fyrir. Að því gættu telur eignarnemi að krafa eignarnámsþola um frávísun málsins sé með öllu haldlaus.

 

Eignarnemi kveður tilefni eignarnámsins vera fyrirhugaðar framkvæmdir við lagningu Norðausturvegar milli Öxarfjarðar og Þistilsfjarðar yfir Hólaheiði um Hófaskarð á Melrakkasléttu. Tilgangur framkvæmdanna sé að bæta samgöngur milli byggðakjara á Norðausturlandi, með styttingu leiða milli þéttbýliskjarna auk þess sem sjónarmið um umferðaröryggi liggi að baki framkvæmdunum.

 

Fram kemur hjá eignarnema að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram vegna veglagningarinnar, en eignarnámsþolar hafi ekki unað þeirri veglínu sem eignarnemi hyggist fara eftir. Sá ágreiningur sé til meðferðar fyrir dómstólum.

 

 

 

Varðandi fjárhæð bóta fyrir hið eignarnumda gerir eignarnemi eftirfarandi kröfur:

 

Aðalkrafa:

 

Ræktunarland            1,04 ha.            150.000 kr./ha.                        156.000 kr.

Beitiland láglendi    11,72 ha.            100.000 kr./ha.                     1.172.000 kr.

Beitiland heiði         17,25 ha.              25.000 kr./ha.                        431.250 kr.

Samtals                                                                                            1.759.250 kr.

 

Fyllingarefni          52.500                        9 kr./ m³                        472.500 kr.

Efra burðarlag        73.000 m³                     45kr./ m³                     3.285.000 kr.

 

Bætur fyrir jarðrask og átroðning                                                   1.500.000 kr.

 

Bætur alls                                                                                        7.016.750 kr.

 

Varakrafa:

 

Til vara krefst eignarnemi þess að bætur fyrir land undir veg verði að hámarki ákveðnar kr. 3.160.800 en bætur að öðru leyti eftir því sem að framan greinir. Bætur nemi því samtals kr. 8.913.300-.  Þá gerir eignarnemi þá kröfu að matsnefndin ákveði hæfilegar bætur til eignarnámsþola í kostnað vegna rekstus málsins fyrir nefndinni.

 

Eignarnemi kveður eignarnámsþola ekki hafa svarað tilboði eignarnema um bætur efnislega, einkum vegna þess að eignarnámsþolar sætti sig ekki við þá veglínu sem eignarnemi hyggst fara við lagningu vegarins.

 

Eignarnemi kveðst hafa gert eignarnámsþolum eftirfarandi tilboð um bætur vegna framkvæmdanna:

 

Bætur fyrir land undir veg                   1.855.050 kr.

Bætur fyrir jarðefni til vegagerðar        3.360.000 kr.

Bætur fyrir rask og átroðining              1.500.000 kr.

Samtals                                                 6.715.060 kr.

 

Eignarnemi kveðst í tilboði sínu hafa skipt landinu í þrjá flokka eftir landgæðum og landnotkun. Í fyrsta lagi ræktunarhæft land (vestasti hluti þess), þar sem m.a. hefur verið stunduð skógrækt, en þar sé hektaraverðið metið á 150.000 kr./ha., í öðru lagi beitiland á láglendi þar sem hektaraverðið sé metið á kr. 100.000 kr./ha. og í þriðja lagi heiðarland, eða sumarbeitaland sem sé metið á 25.000 kr./ha.

 

Eignarnemi telur að eignarnámsbætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemi raunverulegu tjóni eignarnámsþola vegna veglagningarinnar. Til frádráttar bótunum eigi að koma það hagræði sem framkvæmdin hafi í för með sér fyrir eignarnámsþola. Eignarnemi heldur því fram að tilboð hans feli í sér fullnaðarbætur. Við ákvörðun bóta telur eignarnemi að líta beri til orðsendingar hans nr. 2/2007 við mat á bótunum, enda hafi fjárhæðir í orðsendingunni verið hækkaðar verulega til samræmis við verðhækkun á landi og úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta.

 

Eignarnemi telur hið eignarnumda land vera landbúnaðarland og tilboð hans miðist við það, enda sé önnur nýting landsins ekki fyrirsjáanleg. Telur eignarnemi að fyrirhuguð sumarhúsabyggð geti risið á jörðinni þrátt fyrir veglagninguna, enda sé jörðin víðáttumikil. Þá hafi engin áform eignarnámsþola um sumarhúsabyggð á jörðinni verið útfærð og því liggi ekkert fyrir um eftirspurn eftir slíkum notum landsins.

 

Eignarnemi bendir á að lítið hafi verið um jarðasölur á þessu svæði undanfarið, en af ásettu verði þeirra jarða sem auglýstar hafi verið til sölu sé ljóst að jarðaverð á þessu svæði sé mun lægra heldur en t.d. í Skagafirði. Þá sýni útreikningar Fasteignamats ríkisins að meðalverð íbúðarhúsnæðis á Húsavík sé um 75% af meðalverði sambærilegs húsnæðis í Skagafirði.

 

Eignarnemi bendir á að land Brekku sé mjög víðáttumikið og vegurinn liggi við landamerki jarðarinnar og skeri því ekki jörðina með óheppilegum hætti. Jeppaslóð sé þegar þar sem vegurinn muni liggja þannig að ekki sé um það að ræða að óspjallað land verði brotið vegna framkvæmdarinnar. Þá telur eignarnemi ljóst að framkvæmdin muni auðvelda aðgengi eignarnámsþola að landi sínu og að umferð um veginn muni ekki valda ábúendum á Brekku óþægindum, enda komi vegurinn til með að liggja fjarri íbúðarhúsunum á Brekku.

 

Eignarnemi kveður fasteignamat jarðnæðis Brekku í heild vera 433.000 kr.  og ræktað land 33,6 ha. sé metið á 1.410.000 kr. Eignarnemi vísar til fyrri úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta, t.a.m. máls nr. 5/2006, er varðar veglagningu í Skagafirði, en þar hafi meðalverð lands verið ákvarðað 125.000 kr./ha. Þá vísar eignarnemi enn fremur til mála nr. 7 og 8/1998 er hafi varðað lagningu hringvegar um svokallaða Háreksstaðaleið, en þar hafi gróið heiðarland verið metið á 7.200 kr./ha. Frá því sá úrskurður gekk hafi vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 285%, en tilboð eignarnema upp á 25.000 kr./ha. sé 288% hærra en úrskurðaðar bætur í framangreindum málum. Telur eignarnemi að prósentuhækkun á fasteignaverði á þessu landsvæði hafi ekki verið eins mikil og hún hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. Því sé ljóst að eignarnámsþolar séu látnir njóta alls vafa í þessu sambandi í tilboði eignarnema.

 

Varðandi mat á bótum vegna jarðefnatöku telur eignarnemi að miða eigi bætur við orðsendingu hans nr. 2/2007 og jafnframt að taka eigi tillit til að námurnar séu utan markaðssvæða. Telur eignarnemi að jarðefni það sem tekið verði sé algerlega verðlaust fyrir eignarnámsþola, enda hafi þeir ekki sýnt fram á eftirspurn frá öðrum aðilum eftir efninu.

 

Eignarnemi kveður áætlaða efnistöku úr Klapparósnámunni vera 89.000 m³, en þar sé meirihluti efnisins nýtilegur í efra burðarlag eða slitlag og því hafi verið boðnar 40 kr./ m³ fyrir það efni sem sé rausnarlegt boð boð miðað við markaðsaðstæður á svæðinu. Þá sé áætlað að taka 14.000 m³ af fyllingarefni úr námu við Álftatjörn og 23.000 m³ úr námu í Kötluvíðrum. Boðnar séu 8 kr./ m³ fyrir það efni. Eignarnemi telur það jarðefni í raun verðlaust fyrir eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á áralanga venju í úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta sem hafi hingað til litið til orðsendingar eignarnema við mat á malarefni í sambærilegum tilvikum.

 

Eignarnemi mótmælir því sérstaklega að höfð sé hliðsjón af samkomulagi dags. 15. mars 2007 við mat á verðmæti malarefnisins, enda hafi forsendur þess samkomulags verði allt aðrar auk þess sem það samkomulag taki til ýmissa annarra þátta en malartekju. Þá geti það samkomulag á engan hátt endurspeglað markaðsverð malarefnis á þessu svæði.

 

Eignarnemi telur að fram boðnar bætur fyrir jarðrask, átroðning, tímabundið rask og afnot lands utan hinnar eignarnumdu spildur séu ríflegar. Þá áréttar eignarnemi að samkvæmt venju muni allt jarðrask verða jafnað og sáð í sár á grónu landi, en það sé í samræmi við lagaskyldur í vegalögum og náttúruverndarlögum.

 

Eignarnemi tekur fram að eignarnámsþolar hafi hafnað boði hans um gerð undirgangna fyrir sauðfé undir veginn við Álftatjörn.

 

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Eignarnámsþolar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta. Til vara er þess krafist að matsnefndin ákveða þeim bætur og að við mat á þeim bótum verði að fullu tekið tillit til fram lagðar matsgerðar dómkvaddra matsmanna.Samkvæmt því mati teljast hæfilegar bætur vegna veglagningarinnar vera 34.720.529 kr. sé veglína 140 farin en 33.718.103 kr. sé veglína 141 farin. Þá beri matsnefndinni að meta bætur fyrir hið eignarnumda malarefni í samræmi við framlag samkomulag milli aðila málsins frá 15. mars 2007 þar sem meðalverð efnis úr landi eignarnámsþola sé ákveðið 60 kr./m³ auk virðisaukaskatts. Þá gera eignarnámsþolar kröfu um 8.836.512 kr. auk vsk. í kostnað vegna málsins.

 

Eignarnámsþolar telja að engar raunverulegar tilraunir til samninga hafi farið fram, heldur hafi eignarnemi tekið af skarið og óskað eftir mati Matsnefndar eignarnámsbóta án þess að sættir væru fullreyndar. Telja þeir að fram komin boð frá eignarnema um bætur hafi falið í sér of lágar fjárhæðir og óskilgreindar. Telja eignarnámsþolar að ekki liggi fyrir fullnægjandi lögmæt ákvörðun um eignarnámið auk þess sem þeir telja að vegamálastjóri geti ekki verið sá aðili sem taki slíka ákvörðun, þar sem hann sé eðli málsins samkvæmt vanhæfur til þess. Benda eignarnámsþolar á að samkvæmt 4. gr. vegalaga nr. 45/1994 komi fram að ráðherra sá sem fari með samgöngumál hafi yfirstjórn vegamála en í 11. gr. laganna segi að ráðherra geti að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega, reiðvea, hjólreiða- og göngustíga, enda komi fullar bætur fyrir.

 

Nái frávísunarkrafa eignarnámsþola ekki fram að ganga gera þeir þá kröfu að þeim verði ákveðna fullar bætur fyrir það tjón sem vegaframkvæmdin mun hafa í för með sér fyrir þá. Bent er á að með veglagningunni sé verið að breyta ósnortu landi í land í alfaraleið með tilheyrandi ágangi og möguleikum óviðkomandi til að nýta sér landið til útivistar og jafnvel veiða, sem þó hafi verið bannaðar í landinu hingað til. Þetta sjáist m.a. á því að á áætlun sé að setja upp áningar- eða útsýnisstaði við hinn fyrirhugaða veg sem muni ekki gera neitt annað en auka líkur á óviðkomandi umferð um land eignarnámsþola.

 

Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega skilgreiningu eignarnema á gæðum hins eignarnumda lands auk þess sem þeir gera alvarlegar athugasemdir við þá veglínu sem eignarnemi hyggst fara. Benda þeir á að rekið sé dómsmál um þann ágreining.

 

Eignarnámsþolar vísa til mats þeirra Freys Jóhannessonar, byggingatæknifræðings og Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, um verðmæti hins eignarnumda lands. Þeir tveir hafi verið dómkvaddir m.a. til að meta til verðs það land sem fer undir vegstæði og helgunarsvæði þess vegar sem mál þetta fjallar um, auk þess að meta annað tjón sem veglagningin muni valda eignarnámsþolum.

 

Í hinni fram lögðu matsgerð komi fram að mikil verðhækkun hafi orðið á landi sl. ár og þar sé landverð í Öxarfirði og á „Sléttu“ engin undantekning. Töluvert sé um viðskipti innan fjölskyldna eða viðskipti þar sem verð sé ekki gefið upp sem torveldi að finna út rétt og raunverulegt markaðsverð lands á svæðinu. Matsmenn telji að meðalverð í Öxarfirði liggi á bilinu 25.000 kr. til 60.000 kr. á ha. Miðað við það álíti matsmenn að raunhæft meðalverð á Brekkulandi í hinu ósnortna víðerni þess sé um 28.000 kr./ha. Jafnframt telji matsmenn að sú staðreynd að Brekkulandið sé í raun ósnert víðátta eigi að virka til hækkunar á matsverði, enda fari slíkum ósnertum löndum fækkandi og landið verði ekki með þessum gæðum eftir að vegurinn hefur verið lagður þvert í gegnum það.

 

Hinir dómkvöddu matsmenn verðmeti landið og það tjón sem eignarnámsþolar verða fyrir vegna veglagningarinnar svo sem hér verður nánar rakið. Varðandi mat á landi undir veg er það breytilegt eftir því hvaða veglína verður farin:

 

 

 

 

Liður a) Veglína 140 og 141 (Land vestan Könguáss).

 

Veglína 140      Land undir vegsvæði 7,6678 ha x 180.000 kr./ha                           1.380.204 kr.

                            Land sunnan vegsv. 24.70664 ha x  120.000 kr./ha                      2.964.768 kr.

 

 

Veglína 141      Land undir vegsvæði 7,5791 ha x 180.000 kr./ha                           1.364.238 kr.

                            Land sunnan vegsv. 16,4859 ha x 120.000 kr./ha                          1.978.308 kr.

 

Liður b) Veglína 140 og 150 (Land austan Könguáss).

 

Veglína 140 Land undir vegsvæði 37,4105 ha x 90.000 kr./ha                                3.366.945 kr.

og 150 Land sunnan vegsvæðis 69,3102 ha x 60.000 kr./ha                                    4.158.612 kr.

 

Samantekt:

 

Veglína 140 liður a)      4.344.973 kr.

                      liður b)       7.525.557 kr.                              Samtals                              11.870.529 kr.

 

Veglína 141                              liður a)                    3.342.546 kr.

                      liður b)       7.525.557 kr.                              Samtals                              10.868.103 kr.

 

 

Þá telja matsmenn að 35 ha. lands sem nýta mætti fyrir sumarhúsabyggð sé hæfilega metið á 2.800.000 kr. og plöntur sem eyðileggist vegna framkvæmdanna á 300.000 kr. og girðingar 150.000 kr. Þá telja matsmenn að verðrýrnun á landi Brekku sökum þess að landið verður ekki lengur ósnortið víðerni nema 19.600.000 kr. og er sú tala 10% af grunnverði landsins (2.800 kr.) margfölduð með 7000 ha.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það álit hinna dómkvöddu matsmanna að verðmæti þess lands sem fer undir veginn og þeirrar verðrýrnunar sem framkvæmdin hefur í för með sér séu 24.720.529 kr. verði veglína 140 valin en 33.718.103 kr. verði veglína 141 valin.

 

Um verðmat á hinu eignarnumda malarefni vísa eignarnámsþolar til samkomulags dags. 15. mars 2007 milli málsaðila þar sem m.a. var samið um 60 kr./m³ auk vsk. vegna efnistöku eignarnema úr landi eignarnámsþola vegna endurbyggingar á þjóðvegi 85 að Kópaskeri. Telja eignarnámsþolar með vísan til þessa samkomulags að markaðsverð malarefnisins sé mun hærra en eignarnemi álítur í sínum málatilbúnaði.

 

Málskostnaðarkrafa eignarnámsþola sundurliðast þannig:

 

Bætur fyrir ferðakostnað og eigin vinnu aðila við málið:

Dagbjartur                                                                                       2.365.617 kr.

Rafn                                                                                                2.061.964 kr.

 

Vinna lögmanns 13.500 kr. x 244 klst.                                           3.294.000 kr.

Útlagður kostnaður vegna matsgerðar                                               627.476 kr.

Útlagður kostnaður vegna skjalaöflunar                                              73.009 kr.

Útlagður ferðakostnaður lögmanns                                                    414.446 kr.

Samtals                                                                                            8.836.512 kr.

 

Þá er krafist virðisaukaskatts.

 

 

VI. Niðurstaða:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Stærð og lega hins eignarnumda lands er ágreiningslaus með aðilum. Þá er lega efnisnáma einnig ágreiningslaus með aðilum.

 

Frávísunarkrafa eignarnámsþola:

 

Í 4. gr. vegalaga nr. 45/1994 kemur fram að ráðherra sá er fari með samgöngumál hafi yfirstjórn vegamála. Þá kemur enn fremur fram í nefndri lagagrein að ráðherrann skipi vegamálastjóra til að stjórna framkvæmdum í þeim málum og að hann veiti Vegagerðinni forstöðu. Engar undanþágur frá þessu koma fram í lögunum. Af þessum sökum er ekki fallist á það sjónarmið eignarnema að Vegagerðin sé ekki til þess bær að beita eignarnámsheimildunum í vegalögum án íhlutunar ráðherra í hvert sinn. 

 

Með bréfi dags. 2. maí 2006 upplýsti eignarnemi eignarnámsþola um að eignarnemi hefði sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Öxarfjarðarhrepps vegna lagningar umrædds vegar um veglínu 141. Í bréfinu er tekið fram að fáist framkæmdaleyfið muni eignarnemi leita heimildar eignarnámsþola til að hefja framkvæmdir í landi Brekku gegn fullum bótum fyrir land og efnistöku, en fáist slík heimild ekki, sé eignarnema nauðugur sá kostur einn að beita eignarnámsheimild í IX. kafla vegalaga nr. 45/1994.

 

Með bréfi dags. 30. ágúst 2006 bauð eignarnemi bætur vegna lands og jarðefnatöku upp á 6.715.060 kr. Í bréfinu er óskað eftir afstöðu eignarnámsþola til boðsins, en jafnframt tekið fram að búast megi við að málinu verði vísað til Matsnefndar eignarnámsbóta hafi svar ekki borist við tilboðinu fyrir 15. september 2006.

 

Í bréfi eignarnema dags. 4. október 2006 kemur fram að engin viðbrögð hafi borist til tilboði eignarnema frá 30. ágúst 2006. Í bréfinu kemur enn fremur fram að í ljósi andstöðu eignarnámsþola við framkvæmdunum sé eignarnema nauðsyn að neyta eignarnámsheimildar í 45. gr. vegalaga í málinu. Matsbeiðni eignarnema er dagsett 5. október 2006.

 

Með vísan til framangreindra bréfaskipta eignarnema þykir ljóst að eignarnámsþolum hafi gefist fullt tækifæri til að gæta andmælaréttar síns vegna fyrirhugaðs eignarnáms. Af þessum sökum er ekki fallist á það sjónarmið eignarnámsþola að ekki liggi fyrir lögmæt eignarnámsákvörðun í máli þessu. Því er kröfu eignarnámsþola um frávísun málsins frá matsnefndinni hafnað.

 

Bætur fyrir land undir veg:

 

Fyrir liggur að land það sem eignarnemi hefur tekið eignarnámi er samtals 30,01 ha. að stærð. Eignarnemi hefur skipt landinu niður í þrjár tegundir lands. Ræktunarland, beitiland á láglendi og heiðarland. Ekki er fallist á að land það sem eignarnemi telur heiðarland sé annarar og verri gerðar en það sem talið er beitiland á láglendi, enda er allt landið vel gróið og það sem hæst liggur ekki ýkja hátt yfir sjó. Af þessum sökum miðar matsnefndin við að 1,04 ha. lands séu ræktunarland en 28,97 ha. lands séu gróið land, en ekki heiðarland.

 

Með vísan til landkosta, staðsetningar, gróðurfars og annarra aðstæðna þykja hæfilegar bætur fyrir ræktunarlandið vera 416.000 kr. Bætur fyrir annað land þykja hæfilegar 5.794.000 kr.

 

Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að veglagningin sem slík hafi í för með sér almenna verðlækkun Brekku umfram það sem að framan greinir, enda er jörðin afar landmikil auk þess sem hinn fyrirhugaði vegur liggur nálægt landamerkjum jarðarinnar og sker hana því ekki með óheppilegum hætti. Aðstæður í máli þessu eru því gjörólíkar að þessu leyti en þær voru í máli Matsnefndar eignarnámsbóta nr. 2/2002.

 

Bætur fyrir malarefni:

 

Varðandi hið eignarnumda malarefni liggur fyrir að aðilar máls þessa gerðu með sér samkomulag dags. 15. mars 2007 þar sem m.a. er samið um verð fyrir malartöku til notkunar við lagfæringu á þjóðvegi nr. 85 að Kópaskeri. Meðalverð malarefnis samkvæmt því samkomulagi er 60 kr./m³. Fallist er á það með eignarnema að það verð gefi á engan hátt rétta mynd af markaðsverði malarefnis á þessu landsvæði. Þá ber einnig að líta til þess að nefnt samkomulag tekur til fjölmargra annarra þátta en malartekju og því að áliti matsnefndarinnar ekki hægt að líta einhliða til þess við ákvörðun bóta fyrir hið eignarnumda malarefni.

 

Við mat á hinu eignarnumda malarefni ber að líta til orðsendingar eignarnema nr. 2/2007. Rétt þykir að eignarnámsþolar njóti þess við matið að malarefnið er nálægt notkunarstað þess sem felur í sér augljósa kosti fyrir eignarnema. Hæfilegar bætur fyrir 52.500 m³ þykja vera 525.000 kr. og fyrir 73.000 m³ burðarlagsefnis 3.650.000 kr.

 

Bætur fyrir rask o.fl.:

 

Matsnefndinni þykir ljóst að hin fyrirhugaða veglagning um land eignarnámsþola mun fela í sér nokkuð rask og óhjákvæmileg óþægindi og átroðning á land þeirra. Eignarnemi hefur þegar boðið 1.500.000 kr. í bætur af því tilefni og þykja þær hæfilegar.

 

 

 

 

Kostnaður:

 

Eignarnámsþoli hefur lagt fram ítarlegan og sundurliðaðan málskostnaðarreikning. Ljóst er af þeim reikningi að stór hluti kostnaðar þess sem eignarnámsþolar hafa orðið að þola vegna málsins er vegna reksturs dómsmáls þeirra gegn eignarnema, en ekki vegna mats á verðmæti þess lands sem tekið hefur verið eignarnámi. Þannig hafa verið dómkvaddir matsmenn m.a. til að fjalla um atriði er falla innan lögbundins hlutverks Matsnefndar eignarnámsbóta. Ekki er fallist á að eignarnámsþolum verði ákvarðaðar bætur vegna alls þess kostnaðar í máli þessu, þó vissulega sé hluti hans tengdur eignarnáminu og rekstri málsins fyrir matsnefndinni. Hæfilegar bætur að þessu leyti þykja vera  3.500.000 kr. auk virðisaukaskatts.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.600.000 kr. í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Dagbjarti Boga Ingimundarsyni, kt. 171258-5539 og Rafni Ingimundarsyni, kt. 020553-3759, sameiginlega kr. 11.885.000 í eignarnámsbætur og 3.500.000 kr. auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

Þá greiði eignarnemi 1.600.000 kr. í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

______________________________________

Helgi Jóhannesson

 

 

__________________________                    _____________________________

Benedikt Bogason                                          Ragnar Ingimarsson

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum