Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 1/2016, úrskurður 3. nóvember 2016

Ár 2016, fimmtudaginn 3. nóvember er í Matsnefnd eignarnámsbóta, samkvæmt lögum nr. 11/1973, tekið fyrir matsmálið nr. 1/2016.

                                                        Landsnet hf.                                                           gegn                                                            Finni Sigfúsi Illugasyni                                                           Sólveigu Illugadóttur                                                           Kristínu Þ. Sverrisdóttur                                                           og Héðni Sverrissyni 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Landsnet hf., kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík.  Eignarnámsþolar eru þinglýstir eigendur um 11,46% óskipts lands jarðarinnar Reykjahlíðar:

1)         Finnur Sigfús Illugason, kt. 261148-7819, vegna 50% eignarhluta í jörðinni Bjarg landnr. 153542, og þar af leiðandi um 6,25% í óskiptu landi Reykjahlíðar, 

2)         Sólveig Illugadóttir, kt. 210739-2389, vegna 25% eignarhluta í jörðinni Bjarg landnr. 153542, og þar af leiðandi um 3,13% í óskiptu landi Reykjahlíðar,

3)         Kristín Þ. Sverrisdóttir, kt. 061259-3849, vegna 25% eignarhluta í jörðinni Víðihlíð landnr. 153612, og þar af leiðandi um 1,56% í óskiptu landi Reykjahlíðar,

4)         Héðinn Sverrisson, kt. 200949-3319, vegna 8% eignarhluta í jörðinni Víðihlíð landnr. 153612, og þar af leiðandi um 0,52% í óskiptu landi Reykjahlíðar.

 

MÁLSMEÐFERÐ NEFNDARINNAR

Með bréfi, dagsettu 17. október, fór eignarnemi með vísan til eignarnámsheimildar, dags. 14. október 2016, svo og með vísan til 4. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta, að hún meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og hæfilegt endurgjald vegna kostnaðar þeirra, sbr. niðurlag 11. gr. laganna. Framkvæmdin og matið varði 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, sem lagðar verði um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar, líkt og í eignarnámsheimild greinir. Með bréfi dagsettu sama dag beiddist eignarnemi þess með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003 og laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, að honum yrðu fengin umráð lands undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennulínubelti   vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða á því svæði sem eignarnámið beinist að, en með ákvörðun Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytisins hinn 14. október 2016, var Landsneti hf. heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám í óskiptum réttindum vegna 11,46% eignarhluta í landi jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi.

Hinn 27. október 2016 hélt nefndin fund með lögmönnum aðila og aðilunum Finni Sigfúsi Illugasyni, Héðni Sverrissyni og Kristínu Þ. Sverrisdóttur að hótel Reykjahlíð þar sem lögð var fram beiðni eignarnema ásamt fylgiskjölum. Þann sama dag fóru framanritaðir á vettvang að undanskildum Héðni og enn fremur var ákveðið að lögmenn aðila fengju sameiginlegan frest til greinargerða til miðvikudagsins 2. nóvember um það hvort verða skyldi við beiðni eignarnema um umráðatöku vegna Kröflulínu 4.

Hinn 1. nóvember 2016 var haldinn fundur nefndarinnar þar sem lagðar voru fram greinargerðir og að því búnu fluttu lögmenn aðila fram sjónarmið sín um kröfu eignarnema um umráðatöku.

 

MÁLSATVIK

Hinn 14. október 2016 veitti Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytið eignarnema heimild með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003 til þess að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulína (Kröflulínu 4 og 5). Fyrirhugaðar háspennulínur munu liggja um land jarðarinnar Reykjahlíðar.

Eignarnámið er heimilað til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf. Eftirfarandi kvöð hafi verið þinglýst á jarðirnar Bjarg, landnr. 153542 og Víðihlíð, landnr. 153612, að teknu tilliti til fjölda burðarmastra:

1.         Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar tvær 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, ásamt því að reisa 72 stauravirki í landinu til að bera línurnar uppi, nánar tiltekið 60 burðarmöstur og 12 hornmöstur, sbr. meðfylgjandi yfirlitskort, fylgiskjal 1 frá eignarnámsbeiðanda. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til.

2.         Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, sbr. og 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja o.fl., nr. 146/1996, bæði með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 99,2 metra breitt undir og við línurnar. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínu í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt en ekki skylt í þessu skyni, að leggja samtals 10.833 metra langa vegslóða að línunum og meðfram þeim og halda slóðunum við eftir því sem þörf krefur að mati Landsnets hf. en ber enga skyldu til þess. Landsnet hf. gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti við að landeigandi nýti slóðina og skrái hana sem sinn einkaveg, enda sé Landsneti hf. ávallt tryggður óheftur aðgangur og umferðarréttur, sbr. 3. gr. hér að neðan. Ef vegslóðanum er lokað af landeigendum skal Landsneti tryggður framangreindur afnota- og umferðarréttur með afhendingu lykils að þeim lokunarbúnaði.

3.         Mega mannvirki þau sem yfirlýsing þessi tekur til standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar. Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínanna í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar. Ákveði Landsnet hf. að hætta rekstri Kröflulínu 4 og 5 að fullu og öllu og rífa mannvirkin og fjarlægja, skal það gert án kostnaðar fyrir landeigendur. Skal landinu þá skilað til baka með snyrtilegum frágangi er tekur mið af næsta umhverfi hins raskaða svæðis eins og kostur er.

 

 

KRÖFUR AÐILA

Eignarnemi gerir þá kröfu í þessum þætti málsins að honum verði heimiluð umráðataka í óskiptu landi Reykjahlíðar, Skútustaðahreppi, vegna jarðanna Bjargs landnr. 153542 og Víðihlíðar landnr. 153612 sbr. ákvörðun um heimild til eignarnáms, dags. 14. október 2016, á landi undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennulínubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða.

 

Af hálfu eignarnámsþola er því mótmælt að skilyrði 14. gr. laga nr. 11/1973 séu uppfyllt og krefjast eignarnámsþolar þess að kröfu eignarnema um umráðatöku verði hafnað.

Verði umráðataka heimiluð er þess krafist að matsnefndin kveði á um að eignarnemi skuli setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum.

Þá er krafist máskostnaðar úr hendi eignarnema fyrir þennan þátt málsins að skaðlausu eftir tímaskráningaryfirliti lögmanns eignarnámsþola sem lagt er fram.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA UM UMRÁÐATÖKU

Mjög brýnt sé að hefja framkvæmdir nú þegar í óskiptu landi Reykjahlíðar vegna jarðvegsvinnu við Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu. Af sérstökum ástæðum sé eignarnema, tímans vegna, mikil nauðsyn á að fá umsvifalaust umráð hinna eignarnumdu réttinda og sé honum verulegt óhagræði af því að bíða ákvörðun bóta. Myndi það leiða til mikils tjóns, ekki bara fyrir eignarnema heldur og þá aðila sem tengjast þurfa raforkukerfinu fyrir ákveðin tímamörk. Í því sambandi skuli bent á að rekstur virkjunar Landsvirkjunar að Þeistareykjum sé háður því að virkjunin verði tengd raforkuflutningskerfinu. Hafi eignarnemi skuldbundið sig til að tengja Þeistareykjavirkjun við flutningskerfi raforku á miðju ári 2017, sbr. frekari umfjöllun síðar.

Mjög mikilvægt sé að undirbúningsvinnu við slóðir og möstur ljúki sem mest er unnt á árinu 2016, en á framkvæmdasvæðinu gangi vetur fljótt í garð og tíðarfar að hausti og vetri hamli framkvæmdum og geri þær ómögulegar. Er vísað til heimildar 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 53/2015, frá 13. maí 2015, en samkvæmt þeirri lögskýringu sem þar komi fram séu ástæður eignarnema einmitt á þann veg í þessu máli að beita beri undanþáguheimild 14. gr. laga nr. 11/1973. 

Eignarnemi hafi samið við alla landeigendur á línuleiðinni frá Kröflu að Bakka um heimild til framkvæmda, að undanskildum eigendum að 11,46% af óskiptu landi Reykjahlíðar. Hafi samningar tekist við um 98% af landeigendum á línuleiðinni allri.

Tilboð eignarnema um fébætur til eignarnámsþola byggi á nákvæmlega sama grunni og samningur sem gerður hafi verið í október 2014 við Landeigendur Reykjahlíðar ehf. og 88,54% sameigenda í hinu óskipta landi Reykjahlíðar hafi samþykkt. Í samningum við landeigendur á allri línuleiðinni hafi grunnverð hektara verið miðað við 350.000 krónur.

Óskipt land Reykjahlíðar, Skútustaðahreppi, Mývatnssveit sé í eigu sjö jarða.

Snúi eignarnámsheimild að eignarnámsþolum, sem séu hluti þinglýstra eigenda jarðanna Víðihlíðar og Bjargs, líkt og að framan greini.

Samið hafi verið við alla landeigendur í hinu óskipta landi Reykjahlíðar nema fjóra landeigendur sem eignarnám snúi að. Eigi þeir samtals 11,46% réttindi í hinu óskipta landi Reykjahlíðar.

Miðað við umsamdar heildarfébætur til sameigenda eignarnámsþola, samtals að fjárhæð 27.499.000 krónur vegna framkvæmda í hinu óskipta landi Reykjahlíðar, séu hlutfallslegir fjárhagslegir hagsmunir eignarnámsþola, miðað við eignarhlutdeild þeirra, eftirfarandi:

1. Finnur Sigfús Illugason (6,25% í óskiptu landi Reykjahlíðar):                1.718.688 kr.

2. Sólveig Illugadóttir (3,13% í óskiptu landi Reykjahlíðar):                          860.718 kr.

3. Kristín Þ. Sverrisdóttir (1,56% í óskiptu landi Reykjahlíðar):                     428.984 kr.

4. Héðinn Sverrisson: (0,52% í óskiptu landi Reykjahlíðar)                            142.995 kr.

Samtals:                                                                                                        3.151.385 kr.

 

Megi gera ráð fyrir að málsmeðferð matsnefndar eignarnámsbóta taki í það minnsta 8-12 vikur, áður en unnt sé að kveða upp úrskurð um fjárhæð bóta, sbr. 13. gr. laga nr. 11/1973. Framkvæmdir geti hins vegar ekki beðið og sé þar um gífurlega fjárhagslega hagsmuni að ræða auk þess sem keppt sé við tíma til framkvæmda áður en vetur skellur á.

Hinn 21. september 2016 hafi iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram stjórnarfrumvarp, vegna hinnar alvarlegu stöðu sem upp hafi verið komin vegna tafa á framkvæmdum við háspennulínurnar, auk réttaróvissu um lagaskil eldri og nýrri náttúruverndarlaga. Hafi frumvarpið gert ráð fyrir að eignarnemi fengi með lögum heimild til að reisa og reka raflínur frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Vísar eignarnemi til athugasemda og röksemda með frumvarpinu til stuðnings beiðni sinni um umráðatöku. Frumvarpið hafi ekki hlotið afgreiðslu á þinginu áður en því var frestað vegna kosninga. Eigi að síður sýni sú staðreynd að ríkisstjórn Íslands hafi talið nauðsynlegt að leggja frumvarpið fram að málið sé brýnt og mikilvægt að framkvæmdir tefjist ekki til að unnt sé að komast hjá því að verulegt tjón verði vegna tafa.

Með úrskurði, hinn 10. október 2016, í máli nr. 46/2016, hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellt úr gildi þá ákvörðun Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi til handa eignarnema fyrir Kröflulínu 4.

Í úrskurði ÚUA sé tekið fram að af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt ákvæðum laga þar um. Sé þannig ljóst að formannmarkar hafi verið á ákvörðun sveitarstjórnar.

 

Nánar rökstyður eignarnemi beiðni sína um umráðatöku með því að framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um uppbyggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu.

Þá hafi Alþingi með lögum nr. 52/2013 veitt iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við PCC SE og PCC BakkiSilicon hf. í tengslum við byggingu kísilvers á Bakka. Á grundvelli alls þessa og með hliðsjón af lagskyldum eignarnema samkvæmt raforkulögum, um að tengja alla þá sem eftir því leita, hafi hann gengið frá samningum annars vegar við Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar við PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdum eignarnema. Þjónusta við starfsemi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega.

Sveitarfélögin á svæðinu hafi öll sett flutningsvirkin inn á aðalskipulag á grundvelli svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Sé því um ítarlega umfjöllun og greinargóða að ræða í aðalskipulagi sveitarfélaganna þriggja sem línurnar liggi um. Þá hafi framkvæmdirnar einnig sætt vönduðu undirbúningsferli, þ.m.t. mati á umhverfisáhrifum.

Orkustofnun hafi samþykkt Kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 í samræmi við ákvæði raforkulaga. Í köflum 5.2.2 og 5.2.3 í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar sé fjallað um línur vegna afhendingarstaðar á Bakka og tengingar Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfið.

Með ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um bráðabirgðastöðvun framkvæmda í málum nr. 46/2016, 95/2016 og 96/2016 (Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1) hafi verið komin upp alvarleg staða sem leitt geti til mikils fjártjóns fyrir þá aðila sem beinna hagsmuna eigi að gæta, þ.m.t. íslenska ríkið. Við því hafi verið brugðist með framangreindu frumvarpi og er vísað til þess sem að framan greinir. Þá sýni sameiginleg viðbrögð þeirra sveitarfélaga sem málið varðar að ríkir hagsmunir séu taldir af því að málið tefjist ekki frekar en orðið er. Styðji það enn frekar að eignarnema verði veitt heimild til umráðatöku við allra fyrsta tækifæri.

Framkvæmdaáætlun eignarnema vegna Kröflulínu 4 miði við þær tímasetningar sem fram komi annars vegar í tengisamningi við Landsvirkjun vegna Þeistareykjavirkjunar og hins vegar í flutningssamningi við PCC vegna kísilvers á Bakka. Áætluð spennusetning Kröflulínu 4 hafi verið 1. júlí 2017 vegna prófana á búnaði Þeistareykjavirkjunar en spennusetning Þeistareykjalínu 1 hinn 1. nóvember 2017 vegna þarfa verksmiðju PCC. Ljóst sé að áætlun um spennusetningu Kröflulínu 4 komi til með að tefjast.

Tafir hafi nú þegar orðið á framkvæmdaáætluninni og sé verkefnið undir mikilli tímapressu. Frekari tafir á framkvæmdum muni leiða til þess að hvorki verði unnt að standa við framkvæmdaáætlunina né gerða samninga við Landsvirkjun og jafnvel PCC. Framkvæmdir séu nú þegar langt komnar en jarðvinnuverktakar við báðar framkvæmdir hafi lokið efnisútvegun og að meginhluta gerð forsteyptra undirstaðna og bergfestinga til að nota í háspennulínurnar. Jarðvinnuverktaki vegna Kröflulínu 4 hafi lokið slóðagerð utan lands Reykjahlíðar og niðursetningu á rúmlega 80% undirstaða utan Reykjahlíðar. Sé eignarnema því brýn nauðsyn þess að geta hafið framkvæmdir í óskiptu landi Reykjahlíðar strax og nauðsynleg leyfi liggi fyrir. Því sé brýnt að afgreiða heimild til umráðatöku strax, en að sjálfsögðu ráðist það svo einnig af leyfisveitingum hvenær eignarnemi getur haldið áfram með framkvæmdir sínar. Mikilvægt sé að allri óvissu sé eytt um heimild til framkvæmda og því sé umráðatökuheimild matsnefndar jafnmikilvæg og framkvæmdaleyfi að því er varði heimild til framkvæmda í landi Reykjahlíðar.

Telur eignarnemi að horfa verði til þess að framkvæmdir félagsins grundvallist eins og áður segi á ákvæðum í tengisamningi við Landsvirkjun vegna Þeistareykjavirkjunar og flutningssamningi við PCC vegna kísilvers á Bakka. Eignarnema beri skv. 1. tölul. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga að tengja alla þá sem eftir því sækist við flutningskerfið að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í samningunum sé kveðið á um að orkuafhending hefjist í nóvember 2017, en tengja þurfi Þeistareykjavirkjun við flutningskerfið með Kröflulínu 4 allt að fjórum mánuðum fyrr vegna prófana á búnaði virkjunarinnar. Þeistareykjavirkjun hafi verið í undirbúningi í mörg ár en framkvæmdir hafi hafist við virkjunina í apríl 2015 samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landsvirkjunar. Þá hafi framkvæmdir við kísilver PCC á Bakka verið hafnar í september 2015. Tafir á framkvæmdum eignarnema muni hafa bein áhrif á Landsvirkjun og PCC, sem og ríki og sveitarfélög sem koma að innviðauppbyggingu á svæðinu.

Hinn 7. apríl 2016 hafi verið undirritaður verksamningur af hálfu eignarnema við Árna Helgason ehf. um undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1, en samningurinn hljóði upp á tæpar 469,5 milljónir króna. Þá hafi verið skrifað umdir verksamning hinn 29. apríl 2016 við G. Hjálmarsson hf. vegna undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4 að fjárhæð tæplega 448,5 milljónir króna.

Framkvæmdum vegna þessa verkþáttar hafi átt að vera lokið að fullu hinn 1. október 2016 en því miður sé staðan önnur eins og rakið hafi verið. Báðir jarðvinnuverktakarnir hafi hafið efnisútvegun strax í kjölfar undirritunar samninga og hafi látið smíða bæði undirstöður og bergfestingar til að nota í línurnar. Kostnaður vegna þessarar efnisútvegunar hleypi á tugum milljóna króna. Brýnt sé að þessi vinna tefjist ekki frekar þannig að unnt sé fyrir eignarnema að afstýra frekari tjóni en orðið sé.

Samningar við portúgalska fyrirtækið Metalogalva vegna stálmastra hafi verið undirritaðir og sé hluti efnisins þegar kominn til landsins. Þá hafi verið samið við kínverska fyrirtækið ZTT um leiðara, við sænska fyrirtækið Swedwire um stagvír, við spænska fyrirtækið La Granja um einangra, við króatíska fyrirtækið Dalekovod um tengiefni og við norska fyrirtækið VP Metall um sprengimúffur. Hluti þessa efnis sé þegar kominn til landsins eða væntanlegt á næstu vikum.

Samningar hafi einnig verið gerðir við fyrirtækið Elnos frá Bosníu og Hersegóvínu um að reisa og strengja háspennulínuna og hafi þeir þegar hafið vinnu við línurnar.

Þá hafi eignarnemi gert verksamninga um byggingu á tengivirkjum, sem séu órjúfanlegur hluti framkvæmdarinnar. Verksamningar hafi verið undirritaðir í apríl og maí 2016, annars vegar við LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & sønner um jarðvinnu og byggingu húsa vegna tengivirkja á Bakka og Þeistareykjum og hins vegar við Ístak vegna tengivirkis í Kröflu. Verklok vegna tengivirkja við Kröflu og á Þeistareykjum séu í mars 2017 en vegna tengivirkis á Bakka í apríl 2017. Samningarnir hljóði upp á um 1.750 milljónir króna. Eignarnemi hafi einnig gert samninga annars vegar við sænska fyrirtækið ABB vegna rafbúnaðar í tengivirkin á Bakka og Þeistareykjum og hinsvegar við svissneska fyrirtækið GE Grid vegna rafbúnaðar í tengivirkið í Kröflu.

Auk framangreindra samninga skuli bent á að eignarnemi hafi gert samninga við Umhverfisstofnun og sveitarfélögin þrjú um eftirlit með slóðagerð í samræmi við ákvæði 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Á grundvelli fenginna heimilda, og í samræmi við lagaskyldur sínar, hafi Landsnet hf. skuldbundið sig til að hefja flutning raforku frá virkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum til verksmiðju PCC á iðnaðarsvæðinu við Bakka á næsta ári. Þá hafi félagið einnig skuldbundið sig til að tengja Þeistareykjavirkjun við flutningskerfi raforku á miðju ári 2017. Í samræmi við þetta hafi félagið gengið frá ýmsum samningum vegna fyrirhugaðra framkvæmda.

Núverandi staða framkvæmda við Kröflulínu 4 sé eftirfarandi:

·                    Búið er að leggja u.þ.b 65% af slóðum.

·                    Búið er að grafa fyrir u.þ.b. 65% fyrir undirstöðum og stagfestum.

·                    Búið er að setja undirstöður/bergbolta/stagplötur í u.þ.b 55% af masturstæðum.

·                    Búið er að setja u.þ.b. 65% af jarðvír.

·                    Búið er að steypa um 95% af undirstöðum og um 100% af stagplötum sem nota á bæði í Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1.

Ítrekað sé að framkvæmdir á vegum eignarnema við Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 hafi verið hafnar en verið stöðvaðar. Mikilvægt sé að unnt sé að halda þeim áfram um leið og skilyrði eru til þess. Hér skipti hver dagur máli en framkvæmdir séu nú þegar á eftir áætlun og því orðin mikil tímapressa á þær. Frekari tafir gætu haft í för með sér að ekki yrði unnt að standa við tímasetningar í samningum við Landsvirkjun og PCC með tilheyrandi tjóni. Rekstur virkjunar Landsvirkjunar að Þeistareykjum sé háður því að virkjunin sé tengd flutningskerfinu og verksmiðju PCC með flutningsvirkjum Landsnets. Að sama skapi sé starfsemi PCC á Bakka háð því að verksmiðjan fái raforku frá Þeistareykjavirkjun um sömu flutningsvirki. Loks muni tafir á framkvæmdum hafa áhrif á þá innviðauppbyggingu sem íslenska ríkið og sveitarfélög á svæðinu hafi staðið fyrir. Samanlagðar fjárfestingar vegna þessara verkefna séu tugir milljarða og því ljóst að gríðarlegt tjón gæti hlotist af töfum á framkvæmdum Landsnets.

Eignarnemi ítrekar hagsmuni þeirra fjölmörgu aðila sem koma að einstökum þáttum uppbyggingar iðnaðarsvæðisins á Bakka. Því sé nauðsynlegt að óska eftir heimild matsnefndar eignarnámsbóta til umráðatöku hins eignarnumda þótt mati á fjárhæð bóta sé ekki lokið, sbr. heimild 14. gr. laga nr. 11/1973.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi samþykkt á fundi sínum hinn 26. október sl. að veita eignarnema framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu. Hafi eignarnemi því fulla heimild til framkvæmda við Kröflulínu 4 innan Skútustaðahrepps en geti að svo stöddu ekki hafið nauðsynlegar framkvæmdir innan óskipts lands Reykjahlíðar, þrátt fyrir að hafa fengið til þess heimild 88,54% landeigenda.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA UM UMRÁÐATÖKU    

Eignarnámsþolar mótmæla því að heimild sé að lögum til að eignarnemi geti tekið umræddar landspildur eignarnámi og hafa lýst því fyrir matnefnd eignarnámsbóta að þau hyggist höfða mál fyrir héraðsdómi til þess að fá hnekkt ákvörðun Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytisins frá 14. október s.l. um að heimila eignarnámið. Gera megi ráð fyrir að mál til ógildingar á ákvörðuninni verði rekið fyrir héraðsdómi sem flýtimeðferðarmál skv. XIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og að úrslit verði því ljós innan nokkurra mánaða. Fyrir dómi hyggjast eignarnámsþolar m.a. hafa uppi málsástæður er lúta að því að ógilda beri ákvörðunina á þeim grundvelli að eignarnemi hafi ekki látið rannsaka sem skyldi kosti þess að leggja raflínuna í jörð og að umfjöllun ráðuneytisins um þetta atriði hafi verið ófullnægjandi og það hafi því ekki uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við málsmeðferðina, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 514/2015. Þá virðist þeir starfsmenn ráðuneytisins sem undirrituðu ákvörðunina hafa verið vanhæfir vegna fyrri afskipta ráðherra af málinu í heild sinni, þ.e. sérstakri samningsgerð og öðrum afskipum sem leitt hafi til setningar laga nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.  Beri öll málsmeðferð ráðuneytisins þannig keim af því að ráðherra hafi fyrirfram verið búinn að ákveða að heimila eignarnámið.  Auk þess liggi fyrir að eignarnámsþolar hafi krafist endurupptöku á umhverfismati og staðsetningu Kröfulínu 4 og 5 fyrir Skipulagsstofnun, með bréfi dags. 11. maí 2015, og það mál hafi ekki verið til lykta leitt, en fallist Skipulagsstofnun á endurupptöku sé ljóst að allar ákvarðanir sem teknar hafi verið um línustæðið og eignarnámsþolar hafi sérstaklega gert athugasemdir við séu ógildar.  

Vísað sé til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómum Hæstaréttar í málum nr. 202/2016, 203/2016, 204/2016 og 205/2016 þar sem ekki hafi verið fallist á umráðasviptingu þrátt fyrri að bætur hefðu verið metnar og þrátt fyrir aðfararheimild í 13. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, sbr. 63. gr. laga nr. 92/1991, vegna þess að eignarnámsþolar hefðu borið ágreining um gildi eignarnámsheimildar fyrir dómstóla og ekki verið hægt að ganga út frá því sem gefnu vegna þeirrar aðstöðu að heimildir eignarnema til eignarnámsins væru vafalausar. Með því að aðeins sé liðin rúm vika frá því að ráðuneytið hafi heimilað eignarnámið verði að telja að yfirlýsing eignarnámsþola um að þeir hyggist höfða mál til að fá ákvörðuninni hnekkt sé jafngild því að mál hafi í raun verið höfðað enda verði að ætla þeim hæfilegan tíma til málsundirbúnings.

Kröfu eignarnema um umráðatöku verði að skoða í ljósi þeirrar meginreglu í íslenskum rétti, sbr. 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, að eignarnemi geti ekki krafist þess að fá umráð verðmætis sem eignarnám beinist að fyrr en hann hafi greitt eignarnámsþola bætur. Sé meginreglan liður í því að treysta við meðferð máls réttarstöðu þess sem vegna eignarnáms í almannaþágu þurfi að sæta skerðingu á stjórnskipulega vernduðum eignarréttindum sínum. Frá meginreglunni gildi þær undantekningar sem fram komi í 14. gr. laganna. Geti matsnefnd eignarnámsbóta skv. henni heimilað eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem eignarnám beinist að og ráðast í þær framkvæmdir sem séu tilefni eignarnámsins þótt mati sé ekki lokið. Af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum leiði að við það sé miðað að þessarar heimildar sé fyrst og fremst neytt þegar eignarnema sé tímans vegna af sérstökum ástæðum mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og honum yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Sé samkvæmt þessu ljóst að hagsmunir eignarnema af því almennt séð að fá fljótt umráð hins eignarnumda geti ekki skipt máli þegar metið er hvort skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laganna sé fullnægt. Meira þurfi til að koma svo sem sérstakar aðstæður sem geti valdið seinkun framkvæmda eða gert þær óhagkvæmari en gengið hafi verið út frá í upphafi.  Nú sé vetur genginn í garð á Íslandi og augljóst að eignarnemi muni ekki geta hafið framkvæmdir á landssvæði því sem hann krefst nú umráða yfir fyrr en í fyrsta lagi næsta vor og sé í því sambandi vísað til þess að töluvert hafi nú snjóað á svæðinu og veðurspár geri nú ráð fyrir frosthörkum eins langt og séð verði. Vísað er til þess að eignarnemi bendi sjálfur á það í beiðni sinni um umráðatöku að slíkt tíðarfar hamli framkvæmdum. Þá sé ljóst að verði eignarnema heimiluð umráðatakan og hann muni hefja einhverjar framkvæmdir nú í vetrarbyrjun, þrátt fyrir það, þá geti þar ekki verið um annað að ræða en að jarðýta fari af stað inn á svæðið til málamynda og rífi þar upp viðkvæman gróður með mjög alvarlegri röskun og skaða fyrir lífríkið, einkum viðkvæman gróður, sem engin leið sé að endurheimta. Þannig yrði eignarréttarhagsmunum eignarnámsþola, sem verndaðir eru af 72. gr. stjórnarskrárinnar,  stórlega raskað ef síðar yrði fallist á kröfu þeirra um ógildingu á eignarnámsheimildinni.

Af gögnum þeim sem lögð hafi verið fram af hálfu eignarnema verði ekki ráðið hvert fjárhagslegt tjón hans verði vegna dráttar á framkvæmdum. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 53/2015 komi fram að eignarnemi sem óskar þess að neyta heimildar samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 þurfi að færa fram rök fyrir því að fullnægt sé lagaskilyrðum til að verða við beiðni hans og segir síðan að nefndin „....meti það síðan á grundvelli framkominna gagna hvort lagaskilyrðum sé fullnægt til að verða við beiðninni og ber nefndinni í því sambandi að líta til þess að um undantekningarákvæði er að ræða.“ Engin ákvæði samninga um févíti vegna tafa séu reifuð, eða það gert sennilegt með gögnum að eignarnemi verði fyrir tjóni vegna tafa.  Þá sé ljóst að gera verði kröfu til opinbers aðila eins og eignarnema um að áður en hann gangi til samninga við þriðja mann og skuldbindi sig til að leggja raflínur um lönd annarra manna að hann veri að undanskilja sig ábyrgð á því ef lagning raflína tefjist eitthvað umfram það sem hann ráðgeri af ástæðum eins og þeim sem uppi séu í þessu máli. Þá sé ljóst að undantekningarregla 14. gr. nái ekki til fjárhagslegra hagsmuna annarra en eignarnema sjálfs og geti hann þannig ekki vísað til þess að aðrir en hann sjálfur kunni að verða fyrir tjóni vegna þess að hann geti ekki lagt Kröflulínu 4 á þeim tíma sem hann hafi gefið þeim til kynna. 

Varðandi einstakar málsástæður sem eignarnemi tefli fram til stuðnings kröfu sinni hafi eignarnámsþolar eftirgreindar athugasemdir til viðbótar þeim sem að framan eru reifaðar:

 

1.         Landvirkjun hafi skuldbundið sig til að tengja Þeistareykjavirkjun við flutningskerfi raforku á miðju ári 2017.

Undantekning 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 nái ekki til hagsmuna þriðjamanns.

 

2.         Búið er að semja við alla aðra landeigendur en eignarnámsþola.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sé eignarréttur friðhelgur og gildi þar einu hvort um eignarrétt til hluta sérstakrar sameignar sé að tefla eða til eignar að öllu leyti. Óheimilt sé því við úrlausn málsins að líta til þessarar málsástæðu eignarnema. Þá sé ljóst að hluti eigenda að sérstakri sameign geti ekki skuldbundið aðra eigendur án þeirra samþykkis svo gilt sé. Málsástæða þessi komi eignarnema heldur ekki að haldi þar sem hún styðji ekki hin ströngu og sérstöku skilyrði fyrir því að undantekningarreglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 verði beitt.

 

3.         Eignarnemi hefur gert eignanámsþolum tilboð um sömu fébætur og öðrum.

Eignarnámsþolar hafi enga skyldu til að taka þessu tilboði og málsástæða þessi styðji heldur ekki hin ströngu og sérstöku skilyrði fyrir því að undantekningarreglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 verði beitt.

 

4.         Fjárhagslegir hagsmunir eignarnámsþola eru litlir.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sé eignarréttur friðhelgur og gildi þar einu hvort um mikla eða litla fjárhagslega hagsmuni sé að tefla. Eignarnámsþolar mótmæli jafnframt hugleiðingum um að hagsmunir þeirra af ósnortinni eign sinni teljist vera litlir. Málsástæða þessi styðji heldur ekki hin ströngu og sérstöku skilyrði fyrir því að undantekningarreglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 verði beitt.

 

5.         Ekki er hægt að bíða úrskurðar matsnefndarinnar um fjárhæð bóta vegna gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna.

Framlögð gögn sýni ekki fram á slíka fjárhagslega hagsmuni eða gera sennilegt að eignarnemi verði fyrir fjártjóni ef hann fái ekki umráð landspildanna þegar í stað.

 

6.         Málsástæður og rök sem komi fram í frumvarpi til laga um heimild til handa Landsneti hf. til að reisa og reka 220 kV raflínur frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi.

Frumvarpið hafi ekki orðið að lögum frá Alþingi. Löggjafinn hafi hafnað því að grípa fram fyrir eðlilegan framgangsmáta málsins. Fráleitt sé að matsnefnd eignarnámsbóta fallist á að heimila eignarnema umráðatöku með vísun til þessa enda sé þvert á móti ljóst að löggjafinn hafi ekki talið rétt að veita eignarnema umráðaheimild með sérstökum lögum. Að auki sé sú ríkisstjórn sem lagði frumvarpið fram nú fallin.

 

7.         Nýtt framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps.   

Framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps feli ekki í sér að eignarnemi þurfi ekki að fá heimildir landeiganda. Framkvæmdaleyfið styðji heldur ekki að matsnefndinni sé heimilt að beita undantekningareglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 enda ekki inntaksskilyrði þeirrar reglu.

 

8.         Ríkir hagsmunir vegna uppbyggingar á Bakka.

Engin gögn sem hafi verið lögð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta sýni fram á slíka ríka hagsmuni. Undantekningarregla 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 nái ekki til hagsmuna þriðja manns.

 

9.         Tímasetningar í framkvæmdaáætlun eignarnema.

Eignarnema hafi verið í lófa lagið að undanskilja sig ábyrgð á því ef lagning raflína hans tefðist eitthvað umfram það sem hann ráðgerði í öndverðu af ástæðum eins og þeim sem uppi eru í þessu máli. Eignarnámsþolar verði því ekki sviptir eignarréttindum sínum á grundvelli framkvæmdaráætlunar eignarnema.

 

10.       Jarðvinnuverktaki hefur lokið umsömdum verkum utan lands Reykjahlíðar.

Fullyrðing þessi lúti ekki að atriðum sem til greina geta komið að leiða til þess að beita megi undantekningu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.

 

11.       Í samningum er kveðið á um að orkuafhending hefjist í nóvember 2017. 

Ekki sé reifað hvaða afleiðingar það hafi fyrir eignarnema ef það næst ekki. En jafnvel þó það hefði í för með sér skaðabótaskyldu eignarnema gagnvart þriðjamanni á grundvelli samningsskyldna þá verði að gera þá kröfu til eignarnema að hann geri ráð fyrir töfum á framkvæmdum við samningsgerð sína.

 

12.       Verktakar búnir að smíða undirstöður og bergfestingar. ýmist efni komið til landsins.

Ekki verði séð að eignarnemi verði fyrir tjóni vegna þessa þótt hann fái ekki umráð landspildanna strax. 

 

13.       Verksamningar hafa verið gerðir um tengivirki við ýmsa aðila.

Vinna við tengivirki í allt öðru landi sé óháð því hvort eignarnemi fái umráðin strax eða síðar.

 

14.       Eignarnemi hefur skuldbundið sig til raforkuflutninga. Frekari tafir leiða til þess að eignarnemi getur ekki staðið við tímasetningar og það leiðir til gríðarlegs tjóns.    

Engin ákvæði samninga um févíti eða bótaskyldu hafi verið lögð fram matsnefndinni til skoðunar í þessu samhengi svo hún geti metið þá hagsmuni sem þar kann að vera að tefla um fyrir eignarnema. Gera verði þá kröfu til eignarnema að áður en hann gangi til samninga við þriðjamann og skuldbindi sig til að leggja raflínur um lönd annarra manna að hann verði að undanskilja sig ábyrgð á því ef lagning raflína tefst eitthvað umfram það sem hann ráðgerir.  Tafir sem orðið hafi á verkinu að mati eignarnema séu alfarið á ábyrgð hans sjálfs og geti því ekki leitt til þess að undantekningareglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 verði beitt.

Þegar allt framangreint sé virt séu engin efni að verða við kröfu eignarnema, a.m.k. að svo stöddu en gera verði ráð fyrir að eignarnemi geti aftur, á síðari stigum málsmeðferðarinnar, haft að nýju uppi kröfu um umráðatöku. 

 

 

Þótt málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta fari eftir lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973 og eftir atvikum stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, sé ljóst að sjónarmið sem fram komi í 3. mgr. 44. gr. eml. eigi sér almenna tilvísun, einnig í stjórnsýslumálum. Eignarnemi hafi upplýst með nægjanlegum hætti um mikilvægi þess að umráðataka verði veitt á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Mótmæli eignarnámsþola við skorti á gagnaframlagningu byggi hvorki á efnisrökum né heldur hafa eignarnámsþolar gert sennilegt að eignarnemi fari með rangt mál.

Hvað frumvarp á framlögðu skjali nr. 10 varði sé um opinbert gagn að ræða sem stafi frá opinberum aðila, æðsta handhafa framkvæmdavalds sem leggi frumvarpið fram fyrir Alþingi. Ekki sé unnt að byggja á því að upplýsingar í því séu rangar nema sá sem því haldi fram geti sýnt fram á það eða gert það sennilegt með einhverjum hætti. Vísað sé til athugasemda með frumvarpinu þar sem fjallað sé á skilmerkilegan hátt um mikilvægi þessa máls og mikilvægi þess að nauðsynlegum framkvæmdum verði lokið á tilsettum tíma.

Hafnar séu framkvæmdir við kísilver PCC Bakkisilicon hf. og nauðsynlega uppbyggingu innviða við Húsavík. Einnig sé bygging Þeistareykjavirkjunar af hálfu Landsvirkjunar vel á veg komin. Hafnar séu framkvæmdir við Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 af hálfu eignarnema enda þær forsenda fyrir nýtingu hinna fyrrnefndu mannvirkja. Þetta séu staðreyndir og um mikilvægi þess að byggingu þessara mannvirkja verði lokið þannig að verksmiðja PCC fái raforku 1. nóvember 2017, eins og um hafi verið samið, sé fjallað í athugasemdum með frumvarpinu. Engin ástæða sé til að draga í efa trúðverðugleika þessara upplýsinga.

Ljóst sé að tafir á framkvæmdum hafi þegar kostað eignarnema háar fjárhæðir. Gerðir hafi verið verksamningar vegna Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu, bæði um vinnu og efni, sem miðað hafi að því að háspennulínan yrði komin í rekstur 1. júní 2017. Í beiðni um umráðatöku komi fram að áætluð spennusetning Kröflulínu 4 hafi verið 1. júlí 2017 vegna prófana á búnaði Þeistareykjavirkjunar en spennusetning Þeistareykjalínu 1 hinn 1. nóvember 2017 vegna þarfa verksmiðju PCC. Ljóst sé að áætlun um spennusetningu Kröflulínu 4 komi til með að tefjast. Allar slíkar tafir séu mjög afdrifaríkar, hvort sem er vegna tafabóta til verktaka eða þess að tekjustreymi vegna þeirra fjárfestinga sem lagt hefur verið í af hálfu eignarnema seinki. Að sönnu hvíli hagsmunir marga á því að framkvæmdum eignarnema verði lokið á áætluðum tíma. Til að taka af allan vafa sé þó ljóst að brýnir hagsmunir eignarnema ráði því að lögð sé fram beiðni um umráðatöku svo framkvæmdir megi hefjast áður en mati á eignarnámsbótum er lokið, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Gerðir hafa verið samningar um kaup á rafbúnaði í tengivirki sem geri ráð fyrir prófun rafbúnaðar. Sérfræðingar framkvæmi slíkar prófanir og ef ekki sé unnt að gera þær á réttum tíma leiði það af sér aukinn kostnað.

Hvað varði tilvísun eignarnámsþola til dóma Hæstaréttar í málum nr. 202-205/2016 þá sé túlkun hans á þeim mótmælt þar sem aðstæður hafi verið með allt öðrum hætti en hér sé til umfjöllunar. Því til viðbótar sé ljóst að enginn handhafi ríkisvalds, hvorki löggjafinn, framkvæmdarvald eða dómsvaldið, geti vikið til hliðar ákvæðum 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, með ákvörðunum sínum. Fordæmisgildi framangreindra mála, sem séu kærumál, séu engin í því tilviki sem hér sé fjallað um.

Umráðatökubeiðni eignarnema hafi tekið fullt tillit til og sé gerð með hliðsjón af þeim lagatúlkunun sem lesa megi úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 53/2015.

Hvað varði tilvísun til dóma Hæstaréttar í málum nr. 511-513 og 541/2015 sé því mótmælt að efni þeirra eigi við í þessu máli á þann hátt að hafna beri umráðatökubeiðni eignarnema. Skýrt komi fram í eignarnámsheimild ráðuneytisins, sbr. skjal nr. 2 (og 8), sbr. bls. 5 í skjalinu, að við málsmeðferð hafi ráðuneytið litið til niðurstöðu Hæstaréttar í framangreindum málum og kallað eftir upplýsingum í samræmi við það. Því sé ekki hægt að samsama þetta mál við málsatvik í framangreindum málum. Þá taki matsnefnd eignarnámsbóta ekki til endurskoðunar eignarnámsákvörðun. Rétt sé þó að ítreka að í niðurstöðum eignarnámsákvörðunarinnar komi m.a. eftirfarandi fram:

•          Að mati ráðuneytisins var eignarnámsbeiðnin sett fram og afmörkuð með þeim hætti að gætt er meðalhófs og ekki seilst lengra en þörf krefur til að ná fram skilgreindum markmiðum framkvæmdarinnar.

•          Í skýrslu EFLU, Athugun á jarðstreng sem kost í 220 kV Kröflulínu 4, er gert ráð fyrir því að jarðstrengur sé 220 kV. Í rýni Lotu kemur fram það mat að flutningsþörf línunnar sé skynsamlega metin 400 MVA og til þess þurfi 220 kV línu.

•          Að mati ráðuneytisins hefur eignarnámsbeiðandi sýnt fram á að markmiði framkvæmdarinnar verði ekki náð með fullnægjandi hætti til lengri tíma nema með lagningu 220kV línu. Vísar ráðuneytið til ákvörðunar Orkustofnunar, dags. 25. apríl 2016, þar sem kerfisáætlun Landsnets fyrir 2015-2024 er samþykkt.

•          Með hliðsjón af skýrslu EFLU og rýni óháðra aðila telur ráðuneytið að leggja megi til grundvallar að 220 kV jarðstrengur geti ekki orðið lengri en 11 km og rétt hafi verið að miða við endapunkt við Kröflu.

•          Orkustofnun samþykkti kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2015-2024 með ákvörðun, dags. 25. apríl 2016. Orkustofnun bendir á það í rýni sinni, sbr. bréf dags. 6. júlí 2016, að stofnunin hafi með þeirri ákvörðun metið það svo að Kröflulína 4 uppfylli skilyrði raforkulaga, nr. 65/2003, og þingályktunar frá 28. maí 2015, um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

•          Niðurstaða skýrslu Landsnets og EFLU var að stofnkostnaður Kröflulínu 4 sem loftlínu sé 492,7 milljónir kr. og stofnkostnaður jarðstrengs sé 1031,4 milljónir kr. Hlutfall kostnaðar jarðstrengs á móti loftlínu er því 2,56. Lota gerir ekki athugasemdir við kostnaðarmat skýrslunnar. Í bréfi Orkustofnunar, dags. 6. júlí 2016, kemur fram að Orkustofnun gerir ekki athugasemdir við kostnaðarlegar forsendur framkvæmdarinnar.

•          Eignarnámsþolar hafa talið að önnur leið sé hagkvæmari og styttri. Leiðin sem landeigendur leggja til er um 30 km að lengd en hámarkslengd jarðstrengs er 11 km. Tillaga þeirra svipar mjög til valkosts sem nefndur var C3 í greinargerð svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslu, 2007-2025. Aðrir kostir voru þar eftir heildarskoðun taldir betri. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að líta beri svo á að slíkur kostur sé ekki raunhæfur.

Nauðsynlegt sé að ítreka að beiðni um umráðatöku í þágu framkvæmda við Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu, sé lokaáfangi í mjög löngu undirbúningsferli, bæði hvað varðar leiðarval með tilliti til umhverfisáhrifa og skipulagsákvarðana. Það sé niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 46/2016 að framkvæmdin sé í samræmi við það mat á umhverfisáhrifum háspennulína sem farið hefur fram.

Þá sé rétt að fram komi að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi með úrskurði hinn 27. október 2016, í máli nr. 96/2016, hafnað kröfu um að framkvæmdaleyfi sem Þingeyjarsveit gaf út vegna Kröflulínu 4 yrði fellt úr gildi.

 

Áður en munnlegur flutningur hófst um kröfu eignarnema til umráðatöku, sem fyrirhugaður var kl. 10:30, þriðjudaginn 1. nóvember 2016, lagði eignarnemi fram sextán ný skjöl merkt nr. 16-31. Lögmaður eignarnámsþola hefur sent nefndinni eftirgreindar athugasemdir með tilvísun til hinna nýju framlögðu skjala:

Skjal 18.          Bréf Þórarins Bjarnasonar, verkefnisstjóra, eignarnema. Fram kemur að  einungis  er fyrirhuguð slóðagerð í vetur. Það er óafturkræf röskun á landi. 

Skjal 20.          Um er að ræða samning eignarnema við PCC BAKKA SILICON HF., hér eftir nefnt PCC, þar sem kveðið er á um skyldur eignarnema til að flytja raforku að fyrirhugaðri verksmiðju á Húsavík. Eignarnámsþola vekja sérstaka athygli matsnefndar á eftirgreindu:

            Samkvæmt grein 6.1. ber eignarnemi ekki ábyrgð á afhendingu raforkunnar (e: Contract Power) heldur er fjallað um það atriði í samningi PCC við orkuframleiðanda (e: Power Supplier).

            Samkvæmt 2. mgr. greinar 6.4. er gert ráð fyrir að unnt verði að afhenda raforku eftir öðrum leiðum.

            Samkvæmt greinum 6.5 – 6.7 hefur hvor aðila einhliða heimildir til að fresta afhendingardegi (e: Date of full Delivery). Eignarnemi hefur nú heimild til að fresta einhliða um 4 mánuði.

            Samkvæmt grein 6.8 frestast afhending sjálfkrafa ef eignarnemi hefur ekki fengið öll nauðsynleg opinber leyfi og samþykki og það orsakast af ástæðum sem eignarnemi ber ekki ábyrgð á. Eignarnemi ber því enga bótaábyrgð gagnvart þessum viðsemjanda sínum þó hann fái ekki umráð landsins þegar í stað.

Skjal 21           Verksamningur við G. Hjálmarsson hf. um lagningu slóða o.fl. Engin ákvæði eru í verksamningi þessum um að eignarnemi þurfi að greiða verktakanum sérstaklega þóknun ef hann getur ekki klárað verkið á umsömdum tíma af ástæðum sem eignarnemi ber ábyrgð á gagnvart honum.  Samkvæmt grein 3.6.1. í ÍST 30:2012, sem er hluti verksamningsins má eignarnemi ákveða að minnka umfang verksins og ber honum ekki að gjalda verktaka skaðabætur vegna þess nema það leiði til aukins kostnaðar fyrir hann sbr. grein 3.6.2 en um það er ekki að ræða. Samkvæmt samningnum bar verktaka að ljúka verkinu eigi síðar en 1. október 2016. Ljóst er að það hefur ekki gegnið eftir og ekki eru lögð fram gögn er sýna hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir eignarnema og verður heldur ekkert heldur ráðið af skjalinu hvaða afleiðingar frekari dráttur á verklokum kann að hafa á eignarnema.

Skjal 22           Verksamningur við Árna Helgason ehf. um lagningu slóða o.fl. Engin ákvæði eru í verksamningi þessum um að eignarnemi þurfi að greiða verktakanum sérstaklega þóknun ef hann getur ekki klárað verkið á umsömdum tíma af ástæðum sem eignarnemi ber ábyrgð á gagnvart honum.  Samkvæmt grein 3.6.1. í ÍST 30:2012, sem er hluti verksamningsins má eignarnemi ákveða að minnka umfang verksins og ber honum ekki að gjalda verktaka skaðabætur vegna þess nema það leiði til aukins kostnaðar fyrir hann sbr. grein 3.6.2 en um það er ekki að ræða. Samkvæmt samningnum bar verktaka að ljúka verkinu eigi síðar en 1. október 2016. Ljóst er að það hefur ekki gegnið eftir og ekki eru lögð fram gögn er sýna hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir eignarnema og verður heldur ekkert heldur ráðið af skjalinu hvaða afleiðingar frekari dráttur á verklokum kann að hafa á eignarnema.

Skjal 23           Verksamningur við LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & Sønner AS. Samningurinn er um byggingu og fullnaðarfrágang húsa og lóða fyrir tvö tengivirki á Þeistareykjum og er því óháður eignarnámskröfu eignarnema.

Skjal 24           Verksamningur við Ístak hf. um byggingu og fullnaðarfrágang húsa og lóða í Kröflu og er því óháður eignarnámskröfu eignarnema.

Skjal 25           Samningur við Elnos BL, Blagoja. Engin ákvæði eru í samningi þessum um að eignarnemi þurfi að greiða viðsemjandanum sérstaklega þóknun ef hann getur ekki lokið samningsskyldum sínum á umsömdum tíma af ástæðum sem eignarnemi ber ábyrgð á gagnvart honum.

Skjöl 26          Þýðingarlausar útprentanir af heimasíðu eignarnema.

Skjal 27           Þýðingarlausar útprentanir af heimasíðu Landsvirkjunar hf.

Skjal 28           Þýðingarlaus útprentun af fréttasíðu RÚV.

Skjal 29           Þýðingarlaus útprentun af fréttasíðu Vísis.

Skjal 30           Þriðji viðbótarsamningur við samning um tengingu við flutningskerfi milli eignarnema og Landsvirkjunar hf. Engin ákvæði eru í samningi þessum um að eignarnemi sé skuldbundinn til að tengja flutningsnet sitt við hinn nýja afhendingarstað raforku á Þeistareykjum. Í 1. gr. er notast við orðalagið að „gert sé ráð fyrir“ tengingum á ákveðnum tíma.

Skjal 31           Tölvupóstur Guðjóns Axels Guðjónssonar, framkvæmdastjóra framkvæmdasviðs Landsvirkjunar hf. í niðurlagi tölvupóstsins fullyrðir sendandi að komi til seinkunar á afhendingu rafmagns frá Landsvirkjun hf. til PCC sé ljóst að Landsvirkjun hf. “gæti orðið fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni vegna tekjutaps.“ Ekki virðist þannig vera gert ráð fyrri að Landsvirkjun hf. þurfi að gjalda PCC skaðabætur eða févíti vegna þessa og má því gera ráð fyrir að samsvarandi ákvæði sé í samningum Landsvirkjunar hf. og PCC og eru í samningi eignarnema og PCC um að frestast afhending rafmagns frestist sjálfkrafa ef eignarnemi og/eða Landsvirkjun hf.  hafa ekki fengið öll nauðsynleg opinber leyfi og samþykki og það orsakast af ástæðum sem þeir bera ekki ábyrgð á. Hvorki eignarnemi né Landsvirkjun hf. ber því bótaábyrgð gagnvart þessum viðsemjanda sínum þó eignarnemi fái ekki umráð landsins þegar í stað. Sjónarmið í tölvupóstinum um að Landsvirkjun hf. verði fyrir tekjutapi eru vanreifuð í málatilbúnaði eignarnema og geta aukin heldur ekki heimilað beitningu undantekningarreglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 vegna slíkra hagsmuna þriðjamanns. 

            Eignarnámsþolar ítreka gerðar kröfur og telja ljóst að með vísun til framangreindra athugasemda sé matsnefnd eignarnámsbóta óheimilt að fallast á kröfu eignarnema um umráðatöku á grundvelli undantekningarreglu 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.

 

NIÐURSTAÐA

Matsnefndin fór á vettvang hinn 27. október 2016 og var farið að fyrirhuguðu línustæði norðvestur af Hlíðarfjalli þar sem vel sást yfir svæði það sem eignarnámið beinist að og enn fremur á línustæði suð-suðvestur af Kröflu.

Eins og rakið er hér að framan ákvað Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytið að heimila eignarnema, Landsneti hf. að beita heimild í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003 hinn 14. október 2016. Þá liggur fyrir leyfi Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 þar sem eignarnema eru heimilaðar framkvæmdir við Kröflulínu 4.

            Eignarnemi hefur krafist þess að fá umráð hluta eignaréttinda þeirra sem eignarnámsheimildin tekur til, nánar tiltekið að því marki sem tekur til Kröflulínu 4.

Af hálfu eignarnámsþola er því mótmælt að umráðataka verði heimiluð.

Fyrir matsnefndinni er til úrlausnar að ákvarða bætur fyrir eignarnám þar sem fyrir liggur ákvörðun stjórnvalds sem til þess er valdbært, að eignarnema sé heimilt að beita eignarnámi, og á það ekki undir nefndina að taka afstöðu til þess hvort sú ákvörðun er gild. Breytir hér engu þótt eignarnámsþoli hyggist höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar ákvörðunarinnar sbr. 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár. Verður kröfu eignarnema um umráðatöku því ekki hafnað af þeirri ástæðu að eignarnámsþolar hafi í hyggju að krefjast ógildingar eignarnámsákvörðunar fyrir dómstólum. 

Svo sem rakið er í dómi Hæstaréttar frá 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015 er það meginregla í íslenskum rétti, sbr. 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, að eignarnemi getur ekki krafist þess að fá umráð verðmætis sem eignarnám beinist að fyrr en hann hefur greitt eignarnámsþola bætur.

Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 kemur fram að matsnefnd eignarnámsbóta geti heimilað eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem eignarnám beinist að og ráðast í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins þótt mati sé ekki lokið. Af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum leiðir að við það er miðað að þessarar heimildar sé fyrst og fremst neytt þegar eignarnema er tímans vegna af sérstökum ástæðum mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og honum yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Þannig þurfa sérstakar aðstæður sem geta valdið seinkun framkvæmda eða gert þær óhagkvæmari en gengið var út frá í upphafi og tengjast veðurfari eða öðrum ytri aðstæðum í náttúrunni að koma til en hagsmunir eignarnema af því almennt séð að fá fljótt umráð hins eignarnumda geta ekki skipt máli þegar metið er hvort skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laganna sé fullnægt. Í öðru lagi kemur fram í 2. mgr. 14. gr. laganna sú undantekning frá meginreglunni að matsnefnd getur heimilað umráðatöku þótt mati sé ekki lokið ef vandkvæði eru á því að ákveða bætur fyrirfram eða mat er að öðru leyti vandasamt.

Eignarnemi hefur í því tilviki sem hér er til úrlausnar fært fram rök fyrir því að fullnægt sé framangreindum lagaskilyrðum til að verða við beiðni hans. Eru af hans hálfu ítarlega rakin þau sjónarmið sem hann telur renna stoðum undir það að sérstakar aðstæður leiði til þess að heimila beri umráðatöku skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 og lagt fram gögn til stuðnings þessari kröfu sinni. Matsnefnd eignarnámsbóta telur að enda þótt nú sé kominn nóvember sé alls ekki fyrir það girt að framkvæmdir þær sem eru tilefni eignarnámsins geti hafist á svæðinu en á hinn bóginn kynni synjun um að verða við kröfu eignarnema að leiða til þess að framkvæmdum seinkaði en ljóst er af gögnum málsins að tafir hafa verið umtalsverðar nú þegar. Hagsmunir eignarnema munu augljóslega raskast verði áframhaldandi stöðvun á verki hans og enda þótt ekki hafi verið lagður fram tölulegur útreikningur á því hvert tjón hans sé metið í peningum þykir sýnt fram á að tjón hafi þegar orðið og að það muni aukast við áframhaldandi stöðvun. Matsnefndin telur ljóst að stöðvun framkvæmda sem þegar er búið að gera samninga um leiði til fjárhagslegs tjóns sem lendir að einhverju eða öllu leiti á eignarnema í þessu tilviki. Enda þótt ekki verði litið svo á að mat á bótum til eignarnámsþola sé vandasamt telur matsnefndin að eins og hér háttar til um nauðsyn eignarnema að geta hafist handa við framkvæmdir á svæðinu verði að fallast á það að skilyrði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 séu uppfyllt. Telur nefndin þannig að lagaskilyrði séu fyrir hendi til þess að verða við þeirri beiðni eignarnema að honum verði nú þegar fengin umráð þess hluta hins eignarnumda sem þörf er á vegna lagningar Kröflulínu 4 svo sem hann hefur krafist.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á þá kröfu eignarnema að honum verði heimiluð umráðataka í óskiptu landi Reykjahlíðar, Skútustaðahreppi, á landi undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennulínubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra langra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða.

Eignarnámsþolar hafa sett fram kröfu um að eignarnema verði gert að setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum. Verður sú krafa tekin til greina.

Samkvæmt öllu framansögðu er eignarnema heimilt að taka umráð hins eignarnumda gegn tryggingu til eignarnámsþola sem telst hæfilega ákvörðuð fimm milljónir króna.

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum 1.100.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs þessa þáttar málsins fyrir matsnefndinni og tvær milljónir króna í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnema, Landsneti ehf., er heimiluð umráðataka í óskiptu landi Reykjahlíðar, Skútustaðahreppi, á landi undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennulínubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra langra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða gegn tryggingu að fjárhæð fimm milljónir króna. Þá greiði hann 1.100.000 krónur í málskostnað til eignarnámsþola vegna þessa þáttar málsins.

Eignarnemi greiði tvær milljónir króna til ríkissjóðs vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.

                                                                       Allan V. Magnússon

                                                                       Sverrir Kristinsson

                                                                       Vífill Oddsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum