Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. maí 2000

Mánudaginn 15. maí 2000, var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 5/1999,



Hafnarsjóður Hornafjarðar

gegn

Ómari Antonssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :


I. Skipan matsnefndar:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu auk formanns, Helga Jóhannessonar hrl., þeir Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.


II. Ágreiningsefni:

Með matsbeiðni dags. 28. júní 1999, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 23. júlí 1999, fór eignarnemi, Hafnarsjóður Hornafjarðar, þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 30.000 m³ af grjóti (gabbró) úr klöpp í landi Litla Horns, Austur Skaftafellssýslu.

Eignarnámsþoli er eigandi Litla Horns, Ómar Antonsson, Hlíðartúni 15, Höfn.

Í matsbeiðninni er þess krafist að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda þó mati sé ekki lokið, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973. Þessari kröfu hefur eignarnámsþoli mótmælt.

III. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi vísar til þess að honum sé afar brýnt að geta hafið framkvæmdir þær á Austurfjörutanganum sem draga eiga úr sandburði inn í innsiglinguna að Höfn í Hornafirði. Þetta eigi að gera með því að byggja 30.000 m³ grjótgarð frá Austurfjörutanga og út í Þinganessker. Eignarnemi bendir á og undirstrikar að innsiglingin inn til Hornafjarðar sé lífæð byggðalagsins sem sé svo mikilvæg að án hennar þrífist ekki byggð á svæðinu. Vegna óhjákvæmilegrar þróunar í sjávarútvegi séu stöðugt stærri skip keypt sem kalli á betri og dýpri innsiglingar. Bendir eignarnemi á að stærsta og nýjasta skip Hornfirðinga, Ásgrímur Halldórsson, sé svo stórt að tvísýnt sé um að skipið komist inn til Hornafjarðar með góðu móti nema stemmt verði stigu við sandburðinum sem allra fyrst.

Eignarnemi kveður nauðsynlegt að vinna verkið að sumri til og því sé mikilvægt að honum verði heimiluð umráð hins eignarnumda nú. Eignarnemi leggur áherslu á að náma sú sem taka eigi grjótið úr sé þegar til staðar, en áður hafi verið teknir úr henni u.þ.b. 70.000 m³ af grjóti vegna byggingar aðal grjótgarðsins á Austurfjörutanganum. Bendir eignarnemi á að skv. niðurstöðu þeirra Karls Gönvold jarðfræðings og Gunnars Torfasonar ráðgjafaverkfræðings, sem dómkvaddir voru til að gera úttekt á námunni í tengslum við dómsmál sem rekið var á árinu milli eignarnámsþola og Siglingastofnunar, þá hafi þeir 50.000 m³ af gabbrói sem um var deilt í því máli aðeins verið talinð um 0,25% af heildarmagni klapparinnar. Það sé því ljóst að þeir 30.000 m³ sem nú er verið að ræða um séu afar lítill hluti af heildarefnismagni á svæðinu.

Eignarnemi bendir ennfremur á að sprungumyndun vegna sprenginga í tengslum við grjótnámið geti náð um 2 metra inn í bergið miðað við ákveðið uppgefið sprengimagn. Í mati sínu gerðu þeir þó ráð fyrir að sprungumyndun gæti verið helmingi meiri, þannig að sprungurnar næðu 4 metra inn í bergið. Eignarnemi telur með vísan til þessara rannsókna að taka á þeim 30.000 m³ grjóts sem nú stendur til að taka úr námunni, muni hafa sárlítil áhrif á námuna sjálfa og að hún verði eftir sem áður nýtanleg til allra þeirra hluta sem eignarnámsþoli ætlar hana til í framtíðinni.

IV. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er kröfu eignarnema um að fá umráð hins eignarnumda, þó mati sé ekki lokið, mótmælt. Eignarnámsþoli bendir í fyrsta lagi á að ekki hafi verið gerð grein fyrir því með glöggum hætti af hálfu eignarnema, hvaða hluta námunnar eignarnemi vilji fá umráðin yfir. Þá sé heldur ekki gerð grein fyrir því hvort eignarnemi telji Rein sf. rétthafa til námunnar skv. leigu- og kaupsamningi dags. 29. apríl 1999 sem það fyrirtæki hefur gert við eignarnámsþola um nýtingu efnis úr námunni. Telur eignarnámsþoli með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga að vísa beri kröfu eignarnema frá, eða leitast við að fá þær skýrðar.

Eignarnámsþoli bendir á að eignarétturinn sé friðhelgur skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og að skoða verði heimildarákvæði 14. gr. laga nr. 11/1973 í því samhengi. Eignarnámsþoli vekur athygli á að 14. gr. laga nr. 11/1973 feli einungis í sér heimildarákvæði og af því verði dregin sú ályktun að matsnefndinni sé aldrei skylt að verða við kröfu eignarnema um umráð eignar. Eignarnámsþoli kveðst ásamt Rein sf. hafa höfðað mál á hendur sveitarfélaginu Hornafirði og Siglingarstofnun Íslands til ógildinar á þeim ákvörðunum sem liggja eignarnáminu til grundvallar. Telur eignarnámsþoli réttur hafa verið brotið á honum ítrekað vegna þessa máls og það ætli hann að fá leiðrétt fyrir dómstólum.

Eignarnámsþoli telur grundvallarmun á því hvort honum sé gert að gerast aðili að matsmáli þessu meðan einungis er verið að fjalla um verðmæti grjótsins í námunni eða hvort honum sé gert að afhenda efnið. Þannig verði ekki sú ályktun dregin að þó matsnefndinni sé skylt að taka mál til meðferðar skv. 5. gr. laga nr. 11/1973, að þar með felist heimild til nefndarinnar til að ákveða umráðasviptingu. Þar sé um að ræða heimild sem beita verði með ítrustu varfærni.

Eignarnámsþoli telur umfjöllun eignarnema um þörfina fyrir grjótvarnargarðinn orðum aukna og ósannaða. Þá sé ljóst að eignarnema sé mögulegt að nota annað grjót, sem ekki hefur þá fágætu eiginleika grjótsins úr malarnámu eignarnámsþola. Eignarnámsþoli telur algerlega við eignarnema sjálfan að sakast ef framkvæmdir við grjótvarnargarðinn eru komnar í sjálfheldu svo sem haldið hefur verið fram af eignarnema.

Eignarnámsþoli mótmælir að það hafi nokkra þýðingu í máli þessu að áður hafi verið framkvæmt eignarnám hjá honum. Þá mótmælir eignarnámsþoli einnig framlagðri matsgerð þeirra Karls Gönvolds og Gunnars Torfasonar sem þýðingarlausri fyrir mál þetta. Eignarnámsþoli telur ljóst að sprungumyndun í bergið vegna efnistöku eignarnema myndi stórskaða öll viðskipti eignnarnámsþola við Rein sf. og hugsanlega útiloka töku efnis úr námunni til byggingaframkvæmda um ókomna framtíð.

Eignarnámsþoli bendir á, gagnstætt því sem eignarnemi heldur fram, að það hafi augljósa þýðingu fyrir úrlausn matsnefndarinnar að mál hafi verði höfðað til ógildingar á ákvörðunum þeim sem liggja eignarnáminu til grundvallar. Þýðing þess sé sú að fyrirsjáanlegt sé að innan skamms verði umræddar ákvarðanir lýstar ógildar með dómi. Þær séu haldnar augljósum annmörkum og geti ekki verið gundvöllur umráðasviptingar.

Eignarnámsþoli gerir að lokum á kröfu að verði ekki fallist á sjónarmið hans í málinu verði eignarnema gert að setja kr. 100.000.000- tryggingu fyrir greiðslu eignarnámsbóta og eftir atvikum skaðabóta vegna ógildra og ólögmætra athafna hans.


V. Álit matsnefndar:

Fyrir liggur að lagaheimild til eignarnámsins er fyrir hendi í 16. gr. hafnalaga nr. 23/1994. Þá kvað samgönguráðuneytið upp úrskurð dags. 24. mars 2000 þess efnis að eignarnámsákvörðun eignarnema er gild. Matsnefndin hefur aflað staðfestingar á því að hin fyrirhugaða efnistaka eignarnema muni verða úr námu eignarnámsþola í sunnanverðu Litla Horni í svokölluðum Háls eða Hálsenda, á sama stað og efnistaka hefur áður farið fram vegna byggingar sjóvarnargarða. Fyrirhugað er að hefja efnistökuna þar sem námuvinnslunni var hætt síðast. Fallist er á það með eignarnema, með vísan til framlagðra gagna, að það efnismagn sem tekið hefur verið eignarnámi nú er mjög óverulegur hluti þess efnis sem er til staðar á svæðinu.

Matsnefndin fór á vettvang og kynnti sér aðstæður í maí 1994 vegna matsmálsins nr. 1/1994, Hafnamálastofnun ríkisins gegn Ómari Antonssyni. Þá hefur matsnefndin aflað ljósmynda af vettvangi eins og hann lítur út nú, eftir að u.þ.b. 70.000 m³ af efni var tekið úr námunni í framhaldi af framangreindu matsmáli. Með vísan til þessa, er það álit matsnefndarinnar að það muni ekki hafa áhrif á störf nefndarinnar í máli þessu, þó eignarnemi fái umráð hins eignarnumda þó mati sé ekki lokið.

Ekki eru efni til að draga í efa þá fullyrðingu eignarnema að honum sé mikilvægt að hefjast handa við framkvæmdir nú þegar. Þá er ljóst að efnistakan og það rask sem henni fylgir er gerð á ábyrgð eignarnema sjálfs, þó mat á endanlegum bótum bíði seinni tíma. Að áliti matsnefndarinnar eru ekki efni til að fresta máli þessu meðan úr ágreiningi aðila er leyst fyrir dómstólum eins og mál þetta er vaxið. Er þá einkum litið til þess að eignarnámsheimildin sjálf er skýr auk þess sem eignarnámsákvörðunin sjálf hefur verið staðfest af æðra stjórnvaldi.

Með hliðsjón af því sam framan greinir er eignarnema heimiluð umráð hins eignarnumda, þó mati sé ekki lokið, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.

Eignaremi skal setja leggja fram tryggingu að fjárhæð kr. 5.000.000- til tryggingar væntanlegum bótum og kostnaði vegna eignarnámsins.


Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegrar niðurstöðu málsins.



ÚRSKURÐARORÐ


Eignarnema, Hornafirði, eru heimiluð umráð hins eignarnumda grjóts úr landi eignarnámsþola þó mati sé ekki lokið. Eignarnemi skal leggja fram tryggingu að fjárhæð kr. 5.000.000- til tryggingar væntanlegum bótum og kostnaði vegna eignarnámsins.



___________________________

Helgi Jóhannesson



__________________________ ________________________

Kristinn Gylfi Jónsson Ragnar Ingimarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum