Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 8/2018

Hinn 11. desember 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 8/2018:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 65/2017

Blikaberg ehf.
og
Vilhjálmur Ólafsson

gegn

Hafsæli ehf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
  1. Með erindi, dags. 15. ágúst 2018, fór Hafsæll ehf. þess á leit að hæstaréttarmálið nr. 65/2017, sem dæmt var í Hæstarétti 22. febrúar 2018, yrði endurupptekið.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.

    II. Málsatvik

  3. Í málinu var deilt um uppgjör vegna kaupa á skipinu Björgu Hallvarðsdóttur AK-15. Í málinu krafðist endurupptökubeiðandi þess að stefnda Blikabergi ehf. yrði gert að greiða sér kaupverð skipsins, 30.500.000 kr., þannig að 19.500.000 kr. yrðu greiddar í peningum en 11.000.000 kr. með afhendingu annars skips, Ásdísar HU-24. Þá krafðist hann viðurkenningar á bótaskyldu skipasalans Vilhjálms Ólafssonar.
  4. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-56/2016, sem kveðinn var upp þann 20. desember 2016, var Blikabergi ehf. gert að greiða endurupptökubeiðanda 30.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 5. nóvember 2015 til greiðsludags ásamt málskostnaði. Þá var viðurkennd bótaskylda skipasalans Vilhjálms Ólafssonar.
  5. Blikaberg ehf. og Vilhjálmur Ólafsson áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar. Fyrir Hæstarétti breytti endurupptökubeiðandi kröfugerð sinni þannig að kaupverðið yrði einungis greitt með peningum og gerði áfrýjandi Blikaberg ehf. ekki athugasemdir við það. Með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 2018, í máli nr. 65/2017, var áfrýjandi sýknaður af kröfu endurupptökubeiðanda. Þá var kröfu endurupptökubeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu Vilhjálms Ólafssonar vísað frá héraðsdómi.

     

    III. Grundvöllur beiðni

  6. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að niðurstaða Hæstaréttar sé byggð á röngum forsendum þar sem sönnunargögn í málinu hafi verið rangt metin, m.a. um atvik málsins, með þeim afleiðingum að það hafi haft áhrif á niðurstöðu þess.
  7. Endurupptökubeiðandi telur jafnframt að Hæstiréttur hafi byggt forsendur dómsins á sönnunaratriðum semhéraðsdómi hafi borið að fjalla um og því hafi með réttu átt að heimvísa málinu miðað við forsendur réttarins, þar sem dómurinn hafi ekki verið í samræmi við meginreglur laga um milliliðalausa málsmeðferð.
  8. Þá telur endurupptökubeiðandi ný gögn varpa ljósi á það að framkvæmdastjóri Blikabergs ehf. hafi haft heimild til að rita firma félagsins og að sá skipasali sem annaðist viðskiptin hafi verið meðvitaður um það.
  9. Þá telur endurupptökubeiðandi ljóst að um stórfellda hagsmuni sína sé að ræða enda um stærstu eign félagsins að ræða og hafi engar forsendur verið til áframhaldandi rekstrar eftir að ágreiningur málsins kom upp, m.a. vegna þess tjóns sem málið hafi leitt til.
  10. Hæstiréttur hafi byggt á allt öðrum forsendum en héraðsdómur sem féllst á dómkröfur endurupptökubeiðanda í öllum atriðum. Þá telur hann réttinn jafnframt hafa byggt á sönnunaratriðum sem brjóti í bága við meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð.
  11. Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi fullnægt skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar í Hæstarétti auk þess sem honum verði ekki um það kennt. Þá telur endurupptökubeiðandi að ný framlögð gögn muni leiða til breyttrar niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 191. gr. og að um stórfellda hagsmuni sína sé að ræða, sbr. c-lið 1. mgr. 191. gr. laganna.

    IV. Viðhorf gagnaðila Blikabergs ehf.

  12. Þann 3. desember 2018 bárust athugasemdir Blikabergs ehf. við endurupptökubeiðnina. Í athugasemdunum hafnar Blikaberg ehf. alfarið rökstuðningi endurupptökubeiðanda fyrir beiðni um endurupptöku með vísan til þess að hin nýju gögn sem endurupptökubeiðandi leggi fram hafi enga þýðingu við úrlausn á ágreiningi aðila.
  13. Blikaberg ehf. telur enn frekar að ónákvæmni í skjalagerð og eftir atvikum, mistök við þinglýsingu skjala vegna bátaviðskipta, þar sem Blikaberg ehf. komi við sögu, breyti ekki réttarstöðu aðila málsins.
  14. Blikaberg ehf. vísar til þess að ágreiningur málsaðila hafi lotið að því hvort kaupsamningur hafi komist á, en í málinu hafi félagið haldið því fram að framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess, sem hafi skrifað undir kaupsamninginn fyrir þess hönd, hafi ekki haft heimild til að skuldbinda félagið. Þá hafi verið fallist á kröfur endurupptökubeiðanda fyrir héraðsdómi en ekki fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar hafi verið rakin ákvæði laga nr. 138/1994 sem fjalla um félagsstjórn og framkvæmdastjóra einkahlutafélaga. Í dóminum sé vísað til þess að þegar kaupin hafi verið gerð hafi Sigurður Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Blikabergs ehf., hvorki haft heimild til að rita firma félagsins né haft umboð stjórnar þess til að annast kaupin. Þá hafi kaupin ekki heldur fallið innan prókúrumboðs hans. Þar sem Sigurður hafi samkvæmt því ekki getað skuldbundið Blikaberg ehf. með undirritun sinni hafi félagið verið sýknað af kröfum endurupptökubeiðanda. Telur Blikaberg ehf. að niðurstaða Hæstaréttar sé ítarlega rökstudd, en Hæstiréttur vísi meðal annars til ákvæða laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
  15. Í athugasemdum Blikabergs ehf. kemur enn fremur fram að viku eftir að dómur hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti hafi endurupptökubeiðandi selt umræddan bát til Kastró ehf., sem sé félag í eigu sömu aðila, fyrir 14.000.000 kr. Eftir að Kastró ehf. hafi keypt bátinn hafi það félag selt hann aftur þann 12. júní 2018 til Noregs fyrir 24.300.000 kr. Þegar af þeirri ástæðu sé útilokað að endurupptaka málið þar sem félaginu væri ómögulegt að fá bátinn afhentan sér, enda sé félagið ekki lengur í rekstri.
  16. Þá áréttaði Blikaberg ehf. að lokum að félagið væri sammála forsendum og rökstuðningi Hæstaréttar, þar sem niðurstaðan væri í fullkomnu samræmi við gildandi lagaákvæði, staðreyndir máls og málatilbúnað, megin málsástæður og lagarök Blikabergs ehf.

    V. Viðhorf gagnaðila Vilhjálms Ólafssonar

  17. Þann 5. desember 2018 bárust athugasemdir Vilhjálms Ólafssonar við endurupptökubeiðnina. Í athugasemdum Vilhjálms kemur fram að með dómi Hæstaréttar hafi öllum kröfum endurupptökubeiðanda á hendur sér verið vísað frá dómi. Hafi endurupptökubeiðandi ekki verið talinn hafa rökstuttlögvarða hagsmuni sína af því að fá dóm um bótaskyldu Vilhjálms samhliða kröfu um að áfrýjandanum Blikabergi ehf. yrði gert að efna kaupsamning aðilanna.
  18. Í athugasemdum sínum rekur Vilhjálmur forsendur fyrir þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að málatilbúnaðar endurupptökubeiðanda sé vanreifaður og tekur fram að endurupptökubeiðandi hafi ekki bætt úr þeirri aðstöðu sem rétturinn lýsi. Þannig segi í dóminum:

    „Þá er ekki tiltekið í kröfugerð stefnda hvaða atvik hafi valdið ætluðu tjóni. Þótt stefndi hafi í málatilbúnaði sínum rakið margvíslegar ávirðingar í garð áfrýjandans Vilhjálms um mistök eða vanrækslu við framkvæmd starfa hans sem skipasali í viðskiptunum, sem stefndi hugðist eiga við áfrýjandann Blikaberg ehf., er hvergi að finna viðhlítandi reifun á því hvernig atriði geti hvert og eitt hafa raskað réttindum stefnda, hvað þá valdið honum tjóni. Þegar af þessum ástæðum er málatilbúnaður stefnda með þeim hætti að vísa verður málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum að því er varðar dómkröfu hans á hendur áfrýjandanum Vilhjálmi.“

  19. Vilhjálmur kveður þau gögn sem fylgi endurupptökubeiðninni ekki fjalla um ætlað tjón endurupptökubeiðanda né á hvaða grunni Vilhjálmur beri skaðabótaábyrgð á því. Hvað sem því líði mæli réttarfarslög ekki fyrir um endurupptöku hæstaréttarmála í kjölfar frávísunar. Endurupptökubeiðandi geti einungis bætt úr þessari aðstöðu með nýrri málshöfðun þar sem Vilhjálmi gæfist um leið tækifæri til að bregðast við nýjum málatilbúnaði og nýjum gögnum. Þá hafi Blikaberg ehf. bent á að endurupptökubeiðandi hafi selt bátinn til þriðja manns. Endurupptökubeiðanda sé því ómögulegt að efna kaupsamninginn. Af þeim sökum geti hann ekki byggt kröfur á hendur viðsemjanda sínum á því að viðsemjandinn skuli einn efna samninginn og enn síður á því að endurupptökubeiðandi hafi orðið fyrir tjóni sem Vilhjálmur beri skaðabótaábyrgð á.
  20. Vilhjálmur telur með vísan til framangreinds að endurupptökubeiðnin eigi ekki við rök að styðjast og uppfylli ekki ákvæði laga um meðferð einkamála. Beri því að hafna beiðninni.

    VI. Frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda

  21. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 21. desember 2018, var endurupptökubeiðanda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna greinargerða Blikabergs ehf. og Vilhjálms Ólafssonar. Þann 10. janúar 2019 bárust endurupptökunefnd athugasemdir endurupptökubeiðanda.
  22. Endurupptökubeiðandi mótmælir því að sala hans á skipinu Björgu Hallvarðsdóttur AK-15 komi í veg fyrir endurupptöku málsins. Í þessu sambandi bendir endurupptökubeiðandi á að fyrir Hæstarétti hafihann breytt kröfugerð sinni þar sem Blikaberg ehf. hafi þá verið búið að selja skipið Ásdísi HU-25 og þess vegna ljóst að Blikabergi ehf. væri ekki unnt að afhenda skipið. Samkvæmt því væri ljóst að ómöguleiki væri fyrir hendi hjá Blikabergi ehf. að efna kaupsamning samkvæmt kröfugerð í stefnu málsins þar sem báðum aðilum hafi verið gert að afhenda skip af sinni hálfu.
  23. Þá bendir endurupptökubeiðandi á að samkvæmt lögum um meðferð einkamála, sé ekkert því til fyrirstöðu að hann breyti kröfugerð sinni í ljósi þeirra atvika sem hafi orðið eftir þingfestingu málsins og hann sæki það raunverulega tjón sem hann hafi nú orðið fyrir vegna viðskiptanna. Tjónið nemi lægri fjárhæð en krafist hafi verið fyrir Hæstarétti og rúmist því innan marka upphaflegrar kröfugerðar og grundvallist á sömu röksemdum og málsástæðum og fyrirfinnist í héraðsdómsstefnu málsins, að teknu tilliti til dráttarvaxta af heildarfjárhæð frá fyrri tíma til greiðsludags. Þá verði endanleg kröfugerð í samræmi við stöðu málsins en ljóst sé að efndir in natura geti ekki farið fram, hvorki fyrir Hæstarétti frá fyrri tíma né heldur í dag, en dómsmálið sé efnislega um hið sama, þ.e. rétt uppgjör vegna viðskiptanna. Þá sé stefnanda á öllum stigum dómsmáls heimilt að draga úr kröfu sinni til ívilnunar fyrir stefnda.
  24. Þá gerir endurupptökubeiðandi athugasemdir við staðhæfingu Blikabergs ehf. um að hin nýju skjöl sem endurupptökubeiðandi hafi lagt fram megi rekja til „ónákvæmni í skjalagerð og eftir atvikum mistökum við þinglýsingu skjala vegna báta viðskipta þar sem umbj.m kemur við sögu, breyti ekki réttarstöðu deiluaðila þess máls sem hér er til skoðunar.“ Þessu hafnar endurupptökubeiðandi alfarið og vísar til tölvupóstsamskipta við þinglýsingarstjóra hjá sýslumanninum á Vesturlandi þar sem komi fram að undirritun Sigurðar Aðalsteinssonar ein og sér dugi til að þinglýsa kaupsamningi/afsali samkvæmt viðhengdri útprentun úr hlutafélagaskrá.
  25. Endurupptökubeiðandi byggir á því að hin nýju gögn sýni með skýrum og sannanlegum hætti hvert umboð Sigurðar f.h. Blikabergs ehf. hafi verið en jafnframt að Vilhjálmur Ólafsson skipasali hafi í raun verið grandsamur um að Sigurður hafi haft heimild til að rita firma félagsins. Að mati endurupptökubeiðanda geti framangreint ekki falið neitt annað í sér að forsendur Hæstaréttar séu rangar.
  26. Endurupptökubeiðandi mótmælir einnig þeirri staðhæfingu Blikabergs ehf. að báturinn Björg Hallvarðsdóttir AK-15 hafi verið haldinn göllum. Hvorki í forsendum héraðsdóms né Hæstaréttar sé vikið að þessari málsástæðu Blikabergs ehf. enda ýmsir ágallar á nefndri matsgerð Blikabergs ehf.
  27. Í athugasemdum endurupptökubeiðanda við athugasemdir Vilhjálms Ólafssonar kemur fram að ekki sé hægt að fallast á rökstuðning Vilhjálms þess efnis að ekki geti talist sérstök þörf á því að endurupptaka dóm sem fjalli í engu um efnislega kröfu á hendur aðila enda telur endurupptökubeiðandi það ljóst að ef málið sé endurupptekið og fallist verði á kröfur félagsins, þá beri Vilhjálmur bótaábyrgð, sem umsýslumaður viðskiptanna, líkt og héraðsdómur hafi réttilega komist að. Samkvæmt því haldist kröfugerð endurupptökubeiðanda gagnvart Vilhjálmi í hendur við kröfugerð félagsins gagnvart Blikabergi ehf.
  28. Þá vísar endurupptökubeiðandi sérstaklega til forsendna héraðsdóms,ásamt umfjöllun í stefnu, greinargerð endurupptökubeiðanda til Hæstaréttar og beiðni um endurupptöku þar sem rökstudd væri nánar saknæm háttsemi Vilhjálms í umræddum viðskiptum en tjónið væri margþætt, svo sem skerðing á aflahæfi endurupptökubeiðanda og öll framganga hans í málinu.
  29. Endurupptökubeiðandi mótmælir því enn frekar sem fram kemur í athugasemdum Vilhjálms að ákvæði réttarfarslaga mæli ekki fyrir um endurupptöku hæstaréttarmála í kjölfar frávísunar. Telur endurupptökubeiðandi að í lögum um meðferð einkamála sé ekki að finna ákvæði sem koma í veg fyrir endurupptöku máls þar sem kröfu á hendur aðila hafi verið vísað frá. Beiðni um endurupptöku snúi eingöngu að skilyrðum 191. gr., sbr. 193. gr. laganna, og hafi endurupptökunefnd tekið fyrir mörg mál og úrskurðað þar sem kröfum hefur áður verið vísað frá Hæstarétti.
  30. Endurupptökubeiðandi telur sterk rök hníga að því að endurupptaka eigi málið að nýju enda sýni hin nýju gögn fram á grandsemi Vilhjálms um að Sigurður hafi ritað firma Blikabergs ehf. Þá bendir hann á að hið afleidda tjón, sem mistök skipasalans Vilhjálms hafi leitt af sér, sé verulegur tekjumissir vegna þess að félagið hafi ekki getað stundað veiðar frá því að kaupsamningur var undirritaður í nóvember 2015.

    VI. Niðurstaða

  31. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 193. gr. getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 191. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 193. gr. gilda ákvæði 1.-3. mgr. 192. gr. um beiðni um endurupptöku. Í 1. mgr. 192. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
  32. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

    a.  sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

    b.  sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

    c.  önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

  33. Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.
  34. Í máli því sem endurupptökubeiðandi beiðist endurupptöku á krafðist hann sem áður segir þess að Blikbergi ehf. yrði gert að greiða sér kaupverð skipsins Bjargar Hallvarðsdóttur AK-15. Dómkröfur endurupptökubeiðanda á hendur Vilhjálmi Ólafssyni voru gerðar samhliða þeirri kröfu.
  35. Endurupptökubeiðandi hefur ekki andmælt því að hann hafi ráðstafað skipinu til þriðja aðila eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu. Þá hefur hann ekki heldur andmælt því að sá aðili hafi í kjölfarið ráðstafað skipinu til Noregs. Verður að skilja athugasemdir endurupptökubeiðanda til nefndarinnar þannig að hann staðfesti að ráðstafanir þessar hafi átt sér stað. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki séð að endurupptökubeiðandi geti krafist dóms á hendur Blikabergi ehf. um greiðslu kaupverðsins. Er ekkert hald í þeirri röksemd að Blikaberg ehf. hafi jafnframt verið búið að ráðstafa því skipi sem samningur aðila hafi gert ráð fyrir að félagið myndi afhenda endurupptökubeiðanda. Sama á við um þá röksemd endurupptökubeiðanda að hann gæti breytt eða dregið úr kröfu sinni fyrir Hæstarétti.
  36. Endurupptökunefnd telur ljóst að eftir sölu endurupptökubeiðanda á umræddu fiskiskipi geti hann ekki haldið kröfugerð sinni í dómsmálinu til streitu, hvorki gagnvart Blikabergi ehf. né gagnvart Vilhjálmi Ólafssyni. Þá getur endurupptökunefnd ekki fallist á að breyttar kröfur gætu með nokkru móti rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar og byggst á sömu málsástæðum og lagarökum.
  37. Með hliðsjón af ofangreindu telur endurupptökunefnd að líkur hafi ekki verið leiddar að því að ný gögn gætu orðið til breyttrar efnislegrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Skortir samkvæmt þessu á að skilyrði 1. mgr. 193. gr., sbr. 1. mgr. 191. gr., laganna séu uppfyllt. Verður því að hafna kröfu endurupptökubeiðanda þegar af þessari ástæðu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Hafsæls ehf. um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 65/2017, sem dæmt var í Hæstarétti 22. febrúar 2018, er hafnað.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum