Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 401/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 6. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 401/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090030

Beiðni um endurupptöku í máli

[...]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 313/2022, dags. 24. ágúst 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júní 2022, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Ekvador (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 25. ágúst 2022. Hinn 31. ágúst 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar 9. september 2022, nr. 366/2022. Hinn 13. september 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjali. Þá bárust frekari gögn 15. september 2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, auk þess sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

    Kærandi hafi nú greint nánar frá því að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í nánu sambandi við fyrrverandi eiginmann sinn. Þrátt fyrir að gögn á fyrri stigum hafi borið með sér að kærandi glími við andlega vanlíðan vegna áfalla hafi ekki verið fyrir hendi fullnægjandi heilsufarsgögn né upplýsingar um eðli áfallanna. Kærandi byggir á því að hún sé nú komin í meðferð hjá Stígamótum. Það sé til þess fallið að hafa verulegt vægi við mat á því hvort uppi séu sérstakar ástæður til að taka mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi. Í því samhengi sé vísað til samlegðaráhrifa erfiðra félagslegra aðstæðna kæranda og þeirra andlegu kvilla sem hún glími við. Kærandi sé miðaldra kona sem tilheyri minnihlutahópi í Frakklandi sökum uppruna síns, sé þolandi kynferðisofbeldis og glími við afleiðingar þess.

    Kærandi vísar til þess að meðferð á vegum Stígamóta sé til þess fallin að varpa betra ljósi á heilsu og aðstæður hennar. Kærandi hafi sótt viðtal hjá sálfræðingi […] 2022 og eigi næsta tíma á Stígamótum […] 2022. Fyrsta viðtal hafi leitt í ljós að kærandi sé enn að glíma við alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldisins. Í vottorðinu segi þá að komi til framkvæmdar brottvísunar á þessu stigi kunni lífi kæranda að vera stefnt í hættu og að ekki megi rjúfa þá meðferð sem henni sé nú veitt hér á landi. Kærandi eigi enga möguleika á öryggi og stöðugleika verði henni gert að snúa til Frakklands. Að mati Stígamóta sé mikilvægt að kærandi fái ítarlegri greiningu á þeim afleiðingum sem hún sé að glíma við og fái faglega aðstoð við að vinna úr þeim.

    Í ljósi alls framangreinds telur kærandi að skýr og haldgóð rök séu fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli hennar. Framlagt vottorð feli í sér ný atriði sem lágu ekki fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin á fyrri stigum og því beri kærunefnd útlendingamála að endurupptaka málið.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 24. ágúst 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgiskjölum sem liggja fyrir. Með endurupptökubeiðni kæranda lagði hún fram vottorð, dags. […], frá félagsráðgjafa á Stígamótum. Þar kemur fram að samkvæmt mati ráðgjafans sé mikilvægt að kærandi vinni með þær afleiðingar sem hún sé að glíma við eftir umrætt samband. Ráðgjafinn telji að ekki megi rjúfa meðferðina og það muni taka nokkra mánuði að vinna að bættri líðan. Þá telur ráðgjafinn að brottvísun úr landi á þessu stigi gæti stefnt lífi og heilsu kæranda í hættu. Þann 15. september 2022 lagði kærandi fram nýtt skjal frá sálfræðingi, dags. 14. september 2022. Þar kemur fram að sálrænt ástand kæranda sé slæmt auk þess sem mikil óvissa ríki um velferð hennar og dóttursonar. Kærandi finni fyrir líkamlegum streitueinkennum eins og hjartatruflunum og háum blóðþrýsting. Hún búi að áfallastreituröskun og niðurstöður áfallalista hafi staðfest alvarleg einkenni. Það sé brýnt að kærandi komist til læknis til að meta líkamlegt ástand hennar auk þess sem hún fari á kvíða- og þunglyndislyf auk svefnlyfja til að ná betri hvíld. Hún þarfnist áframhaldandi sálfræðimeðferðar.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi hafi mátt þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu fyrrverandi eiginmanns síns. Þá lágu einnig fyrir upplýsingar frá kæranda um háan blóðþrýsting. Í úrskurði kærunefndar, dags. 24. ágúst 2022, er vísað til þess að í skýrslum um aðstæður í Frakklandi komi fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, m.a. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu þar í landi. Var það mat kærunefndar að gögn málsins bæru ekki með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að hún teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Það er mat kærunefndar að framlögð viðbótargögn séu aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hennar hjá nefndinni.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það jafnframt niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 24. ágúst 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd áréttar að samkvæmt 31. og 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skal miðla upplýsingum um heilsufar umsækjenda um alþjóðlega vernd til yfirvalda í viðtökuríki, að uppfylltum skilyrðum ákvæðanna, þannig að flutningur viðkomandi fari fram með þeim hætti að heilsufari þeirra verði ekki stefnt í hættu.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant’s request to re-examine the case is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                       Gunnar Páll Baldvinsson


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum