Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 144/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. mars 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 144/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22020033

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. febrúar 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. janúar 2022, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fimm ár.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að endurkomubanni verði markaður skemmri tími.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. [...], dags. [...], var kærandi dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu í 60 daga fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, h-lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Hinn 22. desember 2021 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga vegna þessara afbrota og kæranda veittur kostur á að leggja fram andmæli en engin andmæli bárust Útlendingastofnun fyrir töku ákvörðunar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. janúar 2022, var kæranda brottvísað frá Íslandi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveðið endurkomubann til Íslands í fimm ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda hinn 21. febrúar 2022 og hinn 24. febrúar 2022 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 17. mars 2022 ásamt fylgigögnum.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til framangreindra afbrota kæranda. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að skilyrði d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga til brottvísunar væri uppfyllt í málinu og að ekkert hefði komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laganna. Var kæranda brottvísað og honum ákveðið endurkomubann til landsins í fimm ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga með hliðsjón af alvarleika brots, lengdar fangelsisrefsingar og tengslum við landið.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að það sé verulega ósanngjarnt að refsa honum með svo íþyngjandi úrræði sem brottvísun og endurkomubann til fimm ára sé með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, þegar litið er til málsatvika og alvarleika brots. Vísar kærandi til þess að í hinni kærðu ákvörðun sé ekkert tillit tekið til aðstæðna í hans máli sem séu óvenjulegar. Þar sem kærandi hafi verið í gæsluvarðahaldi og svo afplánun í kjölfarið vegna dóms í máli nr. [...] hafi honum verið ómögulegt að yfirgefa landið á tímabilinu frá því að tilkynning um hugsanlega brottvísun, dags. 13. desember 2021, var birt honum og til 19. janúar 2022, þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Vegna ómöguleika hafi kærandi því ekki getað yfirgefið landið sjálfviljugur á tímabilinu líkt og hann hafi sjálfur viljað gera. Kærandi byggir á því að í ljósi efnistaka tilkynningar Útlendingastofnunar hafi hann verið í góðri trú um að dvöl hans væri réttmæt í ljósi aðstæðna hans og þá sérstaklega þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin þar sem kærandi hafi verið að afplána eftirstöðvar dóms. Hins vegar hafi honum verið birt ákvörðun um brottvísun og endurkomubann fyrirvaralaust án þess að honum gæfist neitt tækifæri til þess að yfirgefa landið vegna áðurnefndar afplánunar.

Þá telur kærandi ákvörðunina sérstaklega ósanngjarna þegar litið er til þess að honum hafi ekki verið veittur frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Hafi Útlendingastofnun ekki á neinum tímapunkti gefið kæranda kost á að yfirgefa Schengen-svæðið af sjálfsdáðum í samræmi við 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og í því samhengi verði að líta til þess ómöguleika sem kærandi hafi staðið frammi fyrir eftir að tilkynning um hugsanlega brottvísun var birt honum þar sem hann hafi verið í afplánun. Hefði kærandi notið þess réttar að fara úr landi af sjálfsdáðum hefði hann ekki þurft að sæta jafn íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og um ræðir. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki leiðbeint honum um réttindi sín við meðferð málsins í samræmi við 11. gr. laga um útlendinga, þá sérstaklega varðandi andmælarétt. Þá hafi stofnunin jafnframt gerst brotleg við meðalhófsregluna, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en rétt hafi verið að grípa til vægari úrræða, s.s. með því að veita kæranda frest til að yfirgefa landið.

Til vara, verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda þess efnis að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, er byggt á því að endurkomubann til fimm ára sé langt fram úr hófi. Kærandi hafi játað greiðlega brot sitt og þá séu brotin ekki alvarleg eins og refsingin beri með sér. Þá vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 38/2019 þar sem brottvísað hafi verið á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. og endurkomubann ákveðið til tveggja ára. Samkvæmt framansögðu telur kærandi engin rök fyrir því að ákvarða lengra endurkomubann en tvö ár vegna aðstæðna í málinu með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. um ákvæðið: „Hér er það einnig refsiramminn samkvæmt íslenskum lögum sem skiptir máli“.

Eins og áður greinir var kærandi með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. [...], dags. [...], dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu í 60 daga fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, h-lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Að mati kærunefndar ber að túlka ákvæði d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga á þá vegu að þar sé miðað við hámarksrefsingu samkvæmt refsiramma þess lagaákvæðis, sem brot varðar við eða getur varðað við, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 634/2007 og áðurnefnd lögskýringargögn með ákvæðinu. Öll þau ákvæði sem brot kæranda voru heimfærð undir með áðurnefndum dómi fela í sér refsiheimild sem er lengri en í þrír mánuðir. Með vísan til þess eru skilyrði d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga til brottvísunar kæranda uppfyllt í málinu.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að brottvísun kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum með hliðsjón af tengslum hans við landið.

Eins og áður greinir er því mótmælt í greinargerð að kæranda hafi ekki gefist kostur á að yfirgefa landið og að Útlendingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu, andmælareglu og meðalhófsreglu. Kærunefnd tekur fram að brottvísunargrundvöllur málsins byggir ekki á ólögmætri dvöl kæranda og hefði sjálfviljug heimför því ekki breytt neinu fyrir úrlausn málsins. Þá er samkvæmt c-lið 2. mgr. 104. gr. m.a. heimilt að fella niður frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur þegar útlendingi er vísað úr landi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laganna. Í tilkynningu Útlendingastofnunar um hugsanlega brottvísun, dags. 13. desember 2021, sem birt var fyrir kæranda hinn 22. desember 2021 að viðstöddum túlki, kom fram að stofnunin hefði til skoðunar að brottvísa kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga vegna þeirra brota sem tilgreind eru í dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. [...]. Hakaði kærandi í reitinn „Ég mun leggja fram greinargerð“ en af gögnum málsins er ljóst að kærandi lagði engin andmæli fram fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að kærandi var upplýstur um í hvaða farveg mál hans væri komið hjá Útlendingastofnun auk þess sem honum gafst kostur á að koma á framfæri andmælum, s.s. á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Er framangreindum málsástæðum kæranda því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um fimm ára endurkomubann jafnframt staðfest, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, með hliðsjón af alvarleika brots og lengdar fangelsisrefsingar en endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi. Hvað varðar tilvísun kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 38/2019 þá hafði aðili þess máls verið dæmdur til að greiða 200.000 kr. sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms en sæta ella fangelsi í 14 daga fyrir brot gegn 3. og 4. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Eins og áður greinir var kærandi dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu í 60 daga fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, h-lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Er því um eðlisólík mál að ræða þar sem brot kæranda voru alvarlegri og tekur lengd endurkomubanns mið af því.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin. Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubann falli úr gildi. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar, sbr. 4. mgr. 101. gr. laganna.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                            Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum