Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 1/2015

Hinn 26. mars 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 1/2015:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 45/2006

Ákæruvaldið

gegn

Guðbjarti J. Sigurðssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 1. janúar 2015 fór Guðmundur St. Ragnarsson hdl. þess á leit fyrir hönd Guðbjarts J. Sigurðssonar að mál nr. 45/2006, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 8. júní 2006, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Leigubílstjóri, A, tók upp í leigubifreið fjóra menn: Endurupptökubeiðanda ásamt B, C og D. Þegar komið var að áfangastað fóru allir út úr bílnum nema B, sem sat í farþegasæti við hlið A. Endurupptökubeiðandi stóð fyrir utan bifreiðina. Þar sem A sat við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðarinnar varð hann fyrir atlögu og hlaut 18 sentímetra langan skurð á hálsi.

Með ákæru útgefinni 30. nóvember 2004 á hendur endurupptökubeiðanda var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa lagt til A með eggvopni þar sem sá síðarnefndi sat við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðar og beið greiðslu á ökugjaldi frá endurupptökubeiðanda.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 23. febrúar 2004, var endurupptökubeiðandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 130/2005 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2005 var talið að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi og hann sakfelldur. Var brotið talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 45/2006, sem beiðst er endurupptöku á, var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna og endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir tilraun til manndráps. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að sæta fangelsi í fimm ár og til greiðslu skaðabóta. Einn dómari við Hæstarétt skilaði sératkvæði þar sem hann taldi sakargiftir á hendur endurupptökubeiðanda ósannaðar og taldi að hann ætti að sýkna.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að hann hafi verið ranglega sakfelldur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 45/2006 þar sem verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn og vitnaskýrslur hafi verið rangt metnar svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þetta eigi sér meðal annars stoð í sýknudómi héraðsdóms frá 23. febrúar 2004 og sératkvæði í dómi Hæstaréttar nr. 45/2006.

Í fyrsta lagi komi fram í dómsmálinu að engin vitni hafi séð hver lagði til A umrætt sinn. A og vitnið B hafi báðir talið á vettvangi að það hafi verið endurupptökubeiðandi. Virðist sú ályktun hafa verið byggð á því að endurupptökubeiðandi hafi rétt áður stigið út úr aftursæti bifreiðarinnar bílstjóramegin og til stóð að hann greiddi ökugjaldið. Hinir farþegarnir tveir, C og D, höfðu nokkru fyrr farið út úr bifreiðinni hægra megin og töldu A og B að þeir hefðu haldið að húsi þeim megin götunnar þó að þeir hefðu ekki fylgst með ferðum þeirra þangað. Ályktun þeirra, sem byggði á þessum forsendum, hafi ekki sérstakt sönnunargildi í málinu. Myndbending A hjá lögreglu hafi heldur enga þýðingu, enda hafi hún ekki haft það markmið að benda á þann sem verkið vann, þar sem A hafi ekki séð hver þar átti í hlut. Hafi hún ekki getað haft annað markmið en að benda á endurupptökubeiðanda sem enginn ágreiningur hafi verið um að hafi verið farþegi í bifreiðinni.

Í öðru lagi er á því byggt að eggvopnið sem notað var við verknaðinn hafi ekki fundist. Engin vitneskja liggi fyrir um að endurupptökubeiðandi hafi haft eggvopn í fórum sínum umrætt sinn. Hins vegar liggi fyrir í gögnum málsins að lögregla hafi skráð í skýrslu um handtöku annars hinna farþeganna, að hann hefði haft vasahníf á sér þegar hann var handtekinn. Sá hnífur hafi horfið. Sérstök rannsókn hafi farið fram á því hjá lögreglunni en það eina sem fram kom hafi verið að varðstjóri í fangageymslu þessa nótt mundi eftir rauðum vasahníf í fórum þessa manns. Þetta verði að telja afar mikilvægt sönnunaratriði í málinu enda hugsanlegt árásarvopn ekki rannsakað.

Í þriðja lagi er vísað til vitnaskýrslu E, íbúa í nálægu húsi. Vitnið hafi gefið skýrslu í málinu um það sem fyrir augu þess bar þegar það leit út um glugga íbúðar sinnar eftir að hafa vaknað við háreysti á götunni fyrir utan. E hafi séð tvo menn á förum brott af vettvangi. Annar, sem ætla megi að hafi verið endurupptökubeiðandi, hafi verið á hlaupum norður og horfið fyrir horn á vélsmiðju sem þarna stóð. Hinn hafi hlaupið eða gengið hratt á bak við húsið handan götunnar. Af uppdrætti af vettvangi megi draga þá ályktun, að þessir tveir menn hafi verið í svipaðri fjarlægð frá vettvangi brotsins þegar vitnið hafi séð þá. Af vitnisburði E megi ráða með vissu að annar mannanna tveggja sem fóru út úr bifreiðinni á undan endurupptökubeiðanda hafi ekki verið kominn inn í húsið handan götunnar þegar verknaðurinn var framinn. Gæti hann því allt eins á því augnabliki hafa staðið við bifreiðina ásamt endurupptökubeiðanda. Um það verði ekki fullyrt. Samkvæmt þessu fái sú ályktun héraðsdóms sem lögð er til grundvallar sakfellingu engan veginn staðist, það er að mennirnir C og D hafi báðir horfið að hinu yfirgefna húsi eða inn í það áður en atlagan að A átti sér stað. Þegar sú ályktun var dregin er ekki minnst á þennan framburð vitnisins E.

Í fjórða lagi hafi ekki fundist blóð úr brotaþola á höndum eða fötum endurupptökubeiðanda eftir að hann var handtekinn. Enginn vissa sé samt fyrir því að blóð hafi komið á þann sem lagði til A með hnífnum þó að svo hefði getað orðið. Það hafi síðan verið greinilegur annmarki á rannsókn lögreglunnar að ekki skuli hafa farið fram leit að blóði á fötum og höndum hinna farþeganna úr bifreiðinni.

Í fimmta lagi verði ráðið af gögnum málsins að rannsakendur virðist strax í upphafi hafa talið endurupptökubeiðanda sekan um verknaðinn. Þannig hafi engin sérstök rannsókn farið fram í húsinu sem talið var að tveir farþeganna hafi farið inn í. Þar hafi aðeins farið fram leit að eggvopni strax í kjölfar þess að lögregla var kvödd á staðinn. Upplýst sé að D hafi verið með bakpoka á sér þegar hann var handtekinn. Engin rannsókn virðist hafa átt sér stað á innihaldi bakpokans. Annmarkar á rannsókn lögreglunnar að þessu leyti séu til þess fallnir að draga úr styrk annarra gagna sem sakfelling endurupptökubeiðanda hafi byggt á en ekki verði séð að önnur atriði hafi verið metin með tilliti til þessa.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að það sé engan veginn útilokað að annar farþeganna tveggja sem stigu út úr bifreiðinni á undan endurupptökubeiðanda hafi verið staddur utan við bifreiðina bílstjóramegin þegar lagt var til brotaþola. Við mat á gögnum málsins sé ekki einu sinni unnt að telja það sérlega ólíklegt að svo kunni að hafa verið og alls ekki verði það talið hafið yfir skynsamlegan vafa. Sá hinn sami kunni þá allt eins og endurupptökubeiðandi að hafa veitt brotaþola áverkann sem um ræðir í málinu. Þannig er byggt á því að sakargiftir á hendur endurupptökubeiðanda hafi verið með öllu ósannaðar og að annmarkar á rannsókn lögreglu hafi átt að leiða til sýknu hans.

Með vísan til ofangreinds telur endurupptökubeiðandi að vafi sé um sök hans og því eigi að endurupptaka málið. Jafnframt er þess krafist af hans hálfu að honum verði skipaður lögmaður til að gæta réttar hans vegna meðferðar endurupptökubeiðni þessarar í samræmi við 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Stafliðir a-d 1. mgr. 211. gr. eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn í málinu hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c- lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Telur hann þetta eiga sér stoð í sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. febrúar 2005 og sératkvæði í dómi Hæstaréttar sem óskað er endurupptöku á.  Endurupptökubeiðandi telur fimm atriði styðja beiðni sína. Þau varða það að engin vitni hafi séð hver lagði til A, að eggvopnið sem notað hafi verið við verknaðinn hafi ekki fundist, að vitnaskýrsla íbúa í nálægu húsi hreki þá ályktun héraðsdóms að bæði C og D hafi verið komnir frá bifreiðinni þegar atlagan átti sér stað, að ekkert blóð hafi fundist á höndum eða fötum endurupptökubeiðanda og að ráða megi af gögnum málsins að rannsakendur virðist strax í upphafi hafa talið endurupptökubeiðanda sekan um verknaðinn.

Öll sjónarmið endurupptökubeiðanda sem hafa verið rakin voru ítarlega reifuð fyrir dómi. Öll sjónarmið endurupptökubeiðanda komu þannig til skoðunar við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, bæði þegar horft er til forsendna dóms Hæstaréttar og efni sératkvæðis eins dómara réttarins. Sjónarmið endurupptökubeiðanda eru raunar nákvæmlega þau sömu og koma fram í forsendum nefnds sératkvæðis. Frekari rök hafa ekki verið færð fram af hálfu endurupptökubeiðanda þess efnis að sönnunargögn málsins hafi verið ranglega metin sem þar með skjóti stoðum undir beiðni um endurupptöku hæstaréttardómsins.

Gegn þeim atriðum sem leiddu til sönnunar um sekt endurupptökubeiðanda leiða þau sjónarmið sem tilgreind eru í beiðni hans um endurupptöku ekki til þess að verulegar líkur teljist á að sönnunargögn sem færð voru fram hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Samkvæmt framansögðu er skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála ekki uppfyllt og er beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 45/2006 því hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála. Í ljósi þessarar niðurstöðu eru jafnframt ekki efni til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um skipan lögmanns.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Guðbjarts J. Sigurðssonar um endurupptöku máls nr. 45/2006, sem dæmt var í Hæstarétti 8. júní 2006, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

 

                                                                                                                         


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum