Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 285/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 285/2021

Mánudaginn 13. september 2021

A og B

gegn

Barnavernd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júní 2021, kærði D lögmaður, f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 18. maí 2021, um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar um aðstæður barna kærenda, E, F, G, og H.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Barnavernd C bárust tilkynningar undir nafnleynd þann 11. maí 2020, 6. september 2020, 28. desember 2020 og 8. mars 2021. Efni tilkynninganna voru áhyggjur af því að móðir væri í neyslu, áhyggjur af líðan barnanna á heimilinu vegna gruns um að þau verði þar fyrir andlegu ofbeldi og grunur um að móðir sé beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu sambýlismanns síns. Einnig séu áhyggjur af því að […] sé fallinn í neyslu vímuefna. Móðir sofi allan daginn og […]. Þá hafi verið tilkynnt um að mikil kannabislykt hafi borist út af heimili móður. […]

Með beiðni lögmanns kæranda til Barnaverndar C, dags. 16. mars 2021, var þess óskað að nafnleynd tilkynninganna yrði aflétt. Beiðni kærenda var hafnað með ákvörðun, dags. 18. maí 2021. Í ákvörðun Barnaverndar C kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að forsjáraðila sé mikilvægt að vita hver tilkynnti til Barnaverndar C verður ekki talið að fyrir hendi séu þær „sérstöku ástæður“, sem áskildar eru til þess að aflétta megi nafnleynd sbr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Við það mat voru m.a. höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum með 19. gr. frumvarps til barnaverndarlaga um vernd tilkynnanda og virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Þar segir einnig að ákvæði um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarlögum undirstriki sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn eru ekki talin þess umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.“

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júní 2021. Með bréfi, dags. 14. júní 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur vegna kærunnar. Greinargerð Barnaverndar C barst með bréfi, dags. 8. júlí 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júlí 2021, var hún send kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærendur gera kröfu um að ákvörðun Barnaverndar C um að synja beiðni um afléttingu nafnleyndar verði felld úr gildi.

Í kæru er tekið fram að tilkynningarnar undir nafnleynd hafi snúist um það að móðir hefði verið í neyslu og því ekki hæf til að sinna börnum sínum. Í tilkynningu frá Landspítala, dags. X, komi fram að fagaðilar hafi talið móður hafa staðið sig vel á meðgöngunni og að hún hafi virst edrú. Einnig komi fram í bréfi frá Barnavernd C, dags. 29. apríl 2020, að engar áhyggjur hafi verið af lífi og heilsu móður eða ófædds barns hennar á þeim tíma. Móðir segi sjálf að hún hafi verið edrú síðan í X. Það hafi verið hluti af þjónustu við móður í áhættumeðgöngu að hún undirgengist vímuefnapróf einu sinni í viku, auk þess sem hún hafi einnig skilað þvagi í viðurvist ljósmóður eða sjúkraliða sem hafi alltaf komið vel út. Auk þess hafi hún gengist undir vímuefnapróf öðru hvoru hjá barnavernd á sama tímabili, frá X til X, en í þeim prófum hafi aldrei komið upp merki um að hún væri í neyslu.

Kærendur hafi bæði haldið bindindi frá meðferðarlokum í X fyrir utan tvö stök skipti í tilfelli sambýlismanns móður og hafi þau að auki bæði fylgt vel meðferðarstarfi í eftirmeðferð og sótt AA fundi. Þeim gangi því vel og hafi engan áhuga á að hefja neyslu aftur. Tímabilið um síðastliðin jól hafi reynst þeim báðum erfitt, ekki síst þar sem sambýlismaður móður hafi ávallt þurft að yfirgefa heimilið þegar börnin hafi fengið að koma heim í umgengni og […].

Í bréfi ungbarnaeftirlits til barnaverndarnefndar hafi verið lýst góðri stöðu yngsta barns kærenda sem sé […] og að engar áhyggjur hafi verið af neyslu móður í samskiptum við starfsmenn heilsugæslu vegna þess barns. Einnig sé ljóst að engin vanræksla hafi verið í uppeldi eða umönnun barnanna við upphaf máls þessa í X eða síðar, þó að sambýlismaður móður kannist við að hafa ekki náð að halda fullt bindindi síðustu mánuði árs 2020. Það sé staðfest með bréfum skóla barnanna, bréfi ungbarnaeftirlits og með því sem hafi komið fram í ítrekuðum heimsóknum starfsmanna barnaverndar á heimili kærenda á tímabilinu 5. janúar 2021 til 27. febrúar 2021.

Hin kærða ákvörðun hafi haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir móður og raskað friði heimilis hennar og einkalífs sem verndaður sé í 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með því ákvæði sé tryggð sú grundvallarregla að fjölskyldan fái að búa saman og að foreldrar fái að annast uppeldi barna sinna án utanaðkomandi afskipta. Grundvallarreglan um friðhelgi fjölskyldunnar eigi sér einnig lagastoð í 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Með tilliti til ofangreindra atriða megi telja að bæði móðir og börn hafi verið í góðu ástandi og að tilkynningarnar eigi ekki við rök að styðjast og innihald þeirra séu ekki réttar frásagnir. Að mati kærenda eigi þær sérstöku ástæður því við hér sem leiði til þess að nafnleyndin falli niður, sbr. 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga.

III.  Sjónarmið Barnaverndar C

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur er greint frá því að málið varði fjögur börn […]. A eigi sögu um vímuefnaneyslu og hafi farið í meðferðir á […]. Hún glími einnig við […]. Þá glími móðir að […]. Móðir búi […] í J. Samkvæmt gögnum málsins hafi B farið í endurteknar meðferðir, meðal annars vegna […]. B sé í dag skráður í […]. Hann sé með greiningar um […].

Alls hafi tuttugu og fimm tilkynningar borist í máli þriggja elstu barna móður og gerðar hafi verið átta áætlanir um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Málefni þriggja elstu barna móður hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd C frá febrúar 2019 til október 2020. Tilkynningar í málum þeirra hafi snúið að vanrækslu á börnunum í umsjá móður og neyslu hennar og sambýlismanns hennar. Börnin hafi verið vistuð hjá feðrum sínum frá apríl 2019 til í mars 2020 eða þar til Landsréttur hafi fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms C frá 11. febrúar 2020 um að vistun þeirra stæði fram til 20. júní 2020. Máli barnanna hafi verið lokað þann 19. október 2020, þrátt fyrir að enn væru að berast tilkynningar í málinu um neyslu á heimilinu og heimilisofbeldi. Könnun á efni tilkynninganna hafi hins vegar ekki gefið tilefni til inngripa eða þvingunarúrræða af hálfu Barnaverndar C en móður og sambýlismaður/faðir yngsta drengsins hafi ekki verið til samvinnu um að þiggja veittan stuðning.

Tilkynning, dags. 4. desember 2020, hafi borist á ný þann 9. desember 2020 frá skóla elstu barnanna og könnun hafi hafist að nýju. Börnin hafi dvalið hjá feðrum sínum frá 27. febrúar 2021. Mál barnanna hafi verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar C þann 6. apríl 2021 í sjötta skipti með tillögu um vistun þeirra utan heimilis í fjóra mánuði. Úrskurður hafi verið kveðinn upp um vistun barnanna utan heimilis móður samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þann 13. apríl 2021. Borgarlögmanni hafi jafnframt verið falið að krefjast þess fyrir dómi að vistun barnanna stæði í tvo mánuði til viðbótar við þá tvo mánuði sem nefndin hafi heimild til að úrskurða um. Móðir hafi kært úrskurðinn til Héraðsdóms C sem þann 17. maí 2021 hafi staðfest úrskurð nefndarinnar og samþykkt jafnframt að vistun þeirra stæði til 13. ágúst 2021. Lögmaður hafi kært úrskurð Héraðsdóms C til Landsréttar sem þann 9. júní 2021 staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms C.

Hvað varði yngsta drenginn, sem fæddur sé í X, hafi málefni móður verið unnin hjá Barnavernd C á meðgöngu hans samkvæmt 30. gr. barnaverndarlaga 80/2002 vegna áhyggja af lyfjaneyslu hennar. Á tímabili meðgöngu hafi borist fjórar tilkynningar í máli drengsins. Óskað hafi verið eftir samvinnu foreldra um gerð meðferðaráætlunar þegar drengurinn hafi fæðst en þau hafi hafnað því. Málinu hafi því verið lokað þar sem könnun á efni tilkyninganna hafi ekki gefið tilefni til inngripa eða þvingunarúrræða af hálfu Barnaverndar C, en móðir og sambýlismaður hafi ekki verið til samvinnu um að þiggja veittan stuðning. Tilkynning frá lögreglu, dags. 1. október 2020, hafi borist þann 15. desember 2020 og nú hafi alls sjö tilkynningar borist í máli drengsins. Í öllum tilkynningum hafi verið grunur um neyslu foreldra drengsins og áhyggjur af líðan og aðbúnaði allra barnanna á heimilinu. Mál drengsins hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd C þann 6. apríl 2021 með tillögu um vistun á Vistheimili barna í greiningar- og leiðbeiningarvistun í allt að átta vikur. Foreldrar hafi ekki samþykkt þá tillögu og nefndin hafi úrskurðað þann 13. apríl 2021 um vistun drengsins utan heimilis í allt að tvo mánuði samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga. Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi verið kærður til Héraðsdóms C sem þann 17. maí 2021 hafi staðfest úrskurð nefndarinnar. Lögmaður hafi kært úrskurð Héraðsdóms C til Landsréttar sem þann 9. júní 2021 hafi staðfest niðurstöðu Héraðsdóms C.

Barnavernd C hafi borist þann 16. mars 2021 beiðni lögmanns móður þar sem óskað hafi verið eftir að nafnleynd af öllum tilkynningum, sem hafi borist frá 1. maí 2020 í máli barna hennar hjá barnavernd, yrði afnumin. Á tímabilinu 1. maí 2020 til 16. mars 2021 hafi borist alls fjórar tilkynningar undir nafnleynd, eða dagana 11. maí 2020, 6. september 2020, 28. desember 2020 og 8. mars 2021.

Beiðni um afléttingu nafnleyndar hafi verið synjað í bréfi til lögmanns kærenda þann 18. maí 2021 með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem áskildar séu til þess að aflétta megi nafnleynd, sbr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Barnavernd hafi því talið að ákvæði 19. gr. væri ekki uppfyllt og við það mat hafi meðal annars verið höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram komi í athugasemdum með 19. gr. frumvarpsins til barnaverndarlaga og séu eftirfarandi:

„Þegar rætt er um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarmálum vegast einkum á þrenns konar sjónarmið.

Í fyrsta lagi sjónarmið um réttláta málsmeðferð. Samkvæmt þeim hefur aðili máls rétt til að vita hver tilkynnti um ófullnægjandi aðbúnað barns. Það kann að skipta hann miklu máli til þess að andmælaréttur hans nýtist að fullu. Sé lögð áhersla á þetta sjónarmið leiðir það til þess að gera verður ráð fyrir því sem meginreglu að aðili eigi rétt á að vita hver tilkynnandi er. Er gengið út frá þeirri meginreglu í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi koma til þau sjónarmið sem varða vernd tilkynnanda. Þá er lögð áhersla á það sjónarmið að tilkynnandi sjálfur, sem er ekki að gera annað en að gæta hagsmuna tiltekins barns og um leið opinberra hagsmuna, eigi rétt á því að vera laus við þau óþægindi sem vitneskja aðila kann að hafa í för með sér fyrir tilkynnanda.

Í þriðja lagi koma síðan til athugunar sjónarmið sem varða virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Því er haldið fram að sé tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá því að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf kynni að vera á afskiptum hennar. Tvö síðarnefndu sjónarmiðin eru augljóslega tengd.

Í ákvæðinu er farin sú leið að byggja á nafnleynd tilkynnanda sem aðalreglu með sama hætti og gert er í gildandi lögum. Það byggist á því að sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi vegi þyngst þeirra sjónarmiða sem kynnt voru hér að framan. Nauðsynlegt er að upplýsingar um aðbúnað barna berist greiðlega til barnaverndarnefndar. Jafnframt er byggt á því sjónarmiði, sem er tengt hinu fyrrnefnda, að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd mundi það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf væri á afskiptum hennar. Ákvæði núgildandi laga og frumvarpsins um nafnleynd endurspegla sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn eru ekki talin þess umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.[...]“

Barnavernd C telji mikilvægt að virða þá meginreglu sem felist í 19. gr. barnaverndarlaga að tilkynnandi njóti nafnleyndar. Almenningur hafi tilkynningarskyldu samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga ef ástæða sé til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisástæður, verði fyrir ofbeldi eða heilsu þeirra og þroska sé stofnað í hættu. Fái tilkynnandi ekki að njóta nafnleyndar, sbr. 19. gr., skapist sú hætta að almenningur fælist frá því að senda tilkynningar til barnaverndarnefnda með þeim afleiðingum að barnaverndir fái ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf sé á afskiptum hennar. Hagsmunir barnaverndarstarfsins í heild verði að vega þyngra en hagsmunir einstakra málsaðila af því að fá nafnleynd tilkynnanda í máli sínu aflétt.

Af því, sem að framan sé rakið, sé ljóst að gögn málsins beri með sér að þær tilkynningar sem borist hafi undir nafnleynd hafi hvorki verið tilhæfulausar né að þær hafi ekki átt við rök að styðjast eins og fram komi í bréfi lögmanns kærenda. Þvert á móti beri gögn málsins með sér að ríkt tilefni hafi verið til inngrips og að aðstæður á heimili barnanna hafi verið óviðunandi til langs tíma. Því eigi þær sérstöku ástæður um afléttingu nafnleyndar ekki við í máli þessu. Móðir hafi undanfarna mánuði verið til góðrar samvinnu og gengið vel. Mál yngsta drengsins hafi verið lagt fyrir nefndina að nýju þann 25. júní 2021 með tillögu um áframhaldandi vistun drengsins í allt að tvo mánuði sem móðirin, sem fari ein með forsjá drengsins, hafi samþykkt samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga, sbr. 48. gr. sömu laga.

Í ljósi framangreinds geri Barnavernd C kröfu um að hin kærða ákvörðun þess efnis að afléttingu á nafnleynd á tilkynningum í málum barna A sé synjað, verði staðfest.   

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun Barnaverndar C um að hafna kröfu kærenda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynninga sem bárust Barnavernd C þann 11. maí 2020, 6. september 2020, 28. desember 2020 og 8. mars 2021.

Kærendur telja að tilkynningarnar hafi verið ósannar og því skuli nafnleynd aflétt.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt, nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl.

Mál kærenda hefur verið í vinnslu hjá Barnaverndarnefnd C frá árinu 2019 og hafa alls tuttugu og fimm tilkynningar borist í máli þriggja elstu barnanna og sjö tilkynningar í máli yngsta barnsins. Tilkynningarnar hafi snúið að vanrækslu á börnum í umsjá móður og neyslu kærenda. Þrjú elstu börnin voru vistuð hjá feðrum sínum frá apríl 2019 til mars 2020 og svo aftur frá 27. febrúar 2021. Úrskurður um vistun barnanna utan heimilis móður í fjóra mánuði samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga var kveðinn upp þann 31. apríl 2021. Úrskurður um vistun yngsta barnsins utan heimilis í tvo mánuði samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga var kveðinn upp þann 13. apríl 2021. Þann 14. júní 2021 var ákveðið að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og kyrrsetja yngsta barnið á heimili á vegum nefndarinnar. Þann 25. júní 2021 var svo ákveðið að vista barnið í tvo mánuði utan heimilis.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og  þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir að þær réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar C frá 18. maí 2021 um að synja kröfu A, og B, um að aflétta nafnleynd af tilkynningum vegna barna þeirra, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum