Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarn%C3%A1msb%C3%B3ta

Matsmál nr. 2/2008, úrskurður 12. janúar 2021

Þriðjudaginn 12. janúar 2021 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 2/2008

 

 

Vegagerðin

gegn

Eyvindartungu ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með bréfi 28. ágúst 2020 fór eignarnámsþoli, Eyvindartunga ehf., kt. 440102-5060, Eyvindartungu, 801 Bláskógabyggð, þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún ákveddi bætur á grundvelli 16. gr. laga nr. 11/1973 sem ekki hefði verið fjallað um í fyrra mati, sbr. úrskurð 5. janúar 2009 í máli nr. 2/2008, í tilefni af ætluðu tjóni á mannvirkjum og landsréttindum eignarnámsþola sem hefði orðið þegar mikið magn jarðefnis rann úr fyllingu Lyngdalsheiðarvegar í apríl 2019.

Matsandlagið er nánar tiltekið:

Ætlað tjón fyrir landi jarðarinnar Eyvindartungu í Bláskógabyggð.

 

III

Málsmeðferð:

Með bréfi matsnefndar eignarnámsbóta 3. nóvember 2020 var boðað til fyrstu fyrirtöku málsins samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 13. nóvember 2020. Eignarnámsþoli lagði fram matsbeiðni 28. ágúst 2020 samkvæmt 16. gr. laga nr. 11/1973 ásamt fjórum tölusettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Bókað var að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. laga nr. 11/1973. Ekki var ágreiningur um skipan matsnefndar. Ákveðið var að fara á vettvang föstudaginn 20. nóvember 2020.

Föstudaginn 20. nóvember 2020 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var eignarnema gefinn frestur til að gera athugasemdir við matsbeiðni eignarnámsþola með tilliti til skilyrða 16. gr. laga nr. 11/1973.

Með tölvubréfi eignarnema 16. desember 2020 til matsnefndar upplýsti eignarnemi að hann gerði ekki athugasemd við að matsnefnd tæki til úrlausnar kröfur samkvæmt matsbeiðni eignarnámsþola en jafnframt að hann gerði verulegar athugasemdir við kröfur og málatilbúnað matsþola og óskaði eftir fresti til greinargerðar þar sem hann myndi gera grein fyrir málsástæðum sínum. Með tölvubréfi matsnefndar sama dag til eignarnema var hann inntur eftir því hvort hann hyggðist ekki tjá sig um hvort málið heyrði undir nefndina með tilliti til skilyrða 16. gr. laga nr. 11/1973. Með tölvubréfi eignarnema degi síðar var tiltekið að ef það væri niðurstaða matsnefndar að málið heyrði undir hana gerði eignarnemi ekki athugasemdir við það og myndi ekki tjá sig frekar um þann hlut málsins. Eignarnemi teldi sig á hinn bóginn ekki bótaskyldan og myndi tjá sig um það í sérstakri greinargerð innan frests sem nefndin setti honum.

 

IV

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli reisir kröfu sína um bætur á grundvelli 16. gr. laga nr. 11/1973 og vísar jafnframt til 1. mgr. 1. gr. sömu laga þar sem segi að við ákvörðun bóta vegna eignarnáms, sem heimilað sé í lögum, skuli gætt ákvæða laga þessara. Sama eigi við bætur og annað endurgjald, sem lögum samkvæmt skuli ákvarða í samræmi við lög um framkvæmd eignarnáms. Í engu skuli þó haggað ákvæðum laga um lax- og silungsveiði, né vatnalaga nr. 15/1923. Um eiganrnám til öflunar vatnsréttinda og aðstöðu til nýtingar þeirra samkvæmt öðrum lögum skuli og fara eftir ákvæðum vatnalaga. Þá skuli einnig haldast ákvæði loftferðalaga, skipulagslaga, náttúruverndarlaga og vegalaga um fresti til að lýsa kröfum vegna tiltekinna eignarskerðinga samkvæmt þeim lögum. Vísar eignarnámsþoli af þessu tilefni til 2. mgr. 40. gr. vegalaga, þar sem segi að krefjast skuli bóta fyrir tjón sem af veghaldi leiði innan árs frá því verki lauk eða frá því að skaði kom í ljós, ella falli réttur til skaðabóta niður. Slíkar kröfur fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá því að verki lauk.

Eignarnámsþoli kveður Lyngdalsheiðarveg hafa opnað 15. október 2010. Samkvæmt upplýsingum frá eignarnema hafi verklok miðað við þann dag. Í apríl 2019 hafi síðan umtalsvert tjón orðið á mannvirkjum og landsréttindum jarðarinnar Eyvindartungu þegar mikið magn jarðefna hafi runnið úr fyllingu undir Lyngdalsheiðarvegi.

Eignarnámsþoli vísar til þess að hann reki tvær vatnsaflsstöðvar í Sandá, Sandárvirkjun IV og V, og sé uppistöðulón efri virkjunarinnar, Sandárvirkjunar V, skammt neðan vegfyllingarinnar þar sem tjónsatvikið hafi orðið. Hafi jarðefnið runnuð úr veginum og borist að mestu í uppistöðulón Sandárvirkjunar V, sem hafi litla rýmd, og afleiðingarnar séu þær að hreinsa þurfi jarðefnin upp úr lóninu með stórvirkum vinnuvélum og flytja á varanlegan stað. Þá vísar eignarnámsþoli til þess að leitt hafi verið í ljós að fínni jarðefni vegfyllingar Lyngdalsheiðarvegar hafi valdið auknu sliti á hverflum og vatnsvegum Sandárvirkjunar IV og V.

Eignarnámsþoli vísar til þess að hann hafi sent eignarnema tölvupóst 13. maí 2019 og krafist þess að hann bætti tjónið. Svar hafi loks borist frá eignarnema 24. janúar 2020 þar sem hann hafi hafnað bótaskyldu og ekki talið forsendur fyrir endurupptöku eignarnámsmálsins. Hafi eignarnámsþoli því komið kröfu sinni tímanlega á framfæri og þar sem ekkert hafi komið út úr viðræðum við eignarnema hafi eignarnámsþola verið nauðungur sá kostur að vísa ákvörðun um bætur til matsnefndar eignarnámsbóta.

Kveður eignarnámsþoli ófullkominn frágang á Lyngdalsheiðarvegi hafa valdið sér skaða og gæti það gerst að nýju. Áður en tjónið varð hafi forsvarsmenn eignarnámsþola vakið athygli starfsmanna eignarnema á því að vatnsuppsprettur væru í vegfyllingunni og hafði þá þegar runnið lítillega úr fyllingunni. Telur eignarnámsþoli að við það tímamark hafi verið orðið ljóst að frágangur og hönnun umhverfis vegræsi væri ófullnægjandi og að úrrennsli eða jarðvegshlaup, á borð við það sem gerðist við tjónsatvikið, kynni að eiga sér stað í vatnsgangi við tilteknar aðstæður. Kveður eignarnámsþoli eignarnema hafi brugðist við með eindreginni neitun og hafnað ábyrgð, sem eignarnámsþoli geti ekki unað við. Telur eignarnámsþoli augljóst hvernig tjónið hafi borið að, svo og hvaðan efnið kom sem fór niður í uppstöðulón virkjunarinnar. Óviðunandi sé að leita til dómstóla vegna tjónsins, sem bersýnilega sé til komið vegna vegalagningar eignarnema og eignarnámsins sem slíks.

Krefst eignarnámsþoli þess að matsnefnd leggi mat á tjón sitt af völdum ófullkomins frágangs vegarins, því skylt sé við eignarnám að veita eignarnámsþola fullar bætur vegna eignarskerðingar. Aflaði eignarnámsþoli sérfræðilegs álits á tjóninu, minnisblaðs Verkís 14. september 2020 um úrrennsli vegfyllingar Lyngdalsheiðarvegar (365).

Í álitinu kemur fram að mælingarmaður hafi 1. maí 2019 gefið út mælingarskýrslu sem gefi upp flatarmál og rúmmál úrrennslist í veginum við tjónsatvikið. Hafi mælt heildarrúmmál verið 906,6 m3 og vettvangsskoðun leitt í ljós að mestur hluti efnisins hafi runnið alla leið og stöðvast í miðlunarlóni Sandárvirkjunar V. Sé lónið staðsett 760 m neðan vegarins, í árfarvegi Sandár. Nemi heildarflatarmál lónsins 9900 m2 og því megi áætla að efnið úr úrrennsli hafi að meðaltali hækkað botn lónsins um 9 cm. Vegna úrrennslis úr veginum hafi efni safnast fyrir á mismunandi stöðum í lóninu, þ. á m. við inntakspípu virkjunarinnar, dýpt lónsins hafi minnkað með tilheyrandi breytingum á straumum við inntakspípu og eigi jarðefni nú greiðari leið í pípuna og berist þannig í vélbúnað virkjunarinnar. Fjarlægja þurfi umframefnið vegna úrrennslisins úr lóninu til að ná fyrri rekstrar- og miðlunarskilyrðum fyrir Sandárvirkjun V. Í álitinu er kostnaður vegna þess verks áætlaður 9.758.925 krónur, eða 9.759 kr. á hvern rúmmetra.

 

V

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnámsþoli krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta ákveði eignarnámsbætur vegna ætlaðs tjóns af völdum úrrennslis úr vegfyllingu Lyngdalsheiðarvegar. Mun vegfyllingin vera staðsett í landi eignarnámsþola og fyllir þar upp í gil sem nefnist Rauðagil og markar upptök Sandár. Nokkru neðan vegarins og vegfyllingarinnar er miðlunarlón Sandárvirkjunar V staðsett, um 760 m neðan vegarins, í árfarvegi Sandár. Vettvangsathugun leiddi glöggt í ljós hvar runnið hefur úr vegfyllingu vegarins. Þar var sjáanlegt sár í gilinu sem fyllt hefur verið upp í á nýjan leik en samkvæmt upplýsingum frá aðilum á vettvangi mun eignarnemi hafa staðið að því verki.

Í 16. gr. laga nr. 11/1973 segir að heimilt sé matsnefnd, þótt eignarnámsmati sé lokið, að taka til úrlausnar kröfu um eignarnámsbætur, sem ekki hefur verið fjallað um í matinu, ef krafa kemur fram um það, áður en ár er liðið frá því að þeim framkvæmdum lauk, sem voru tilefni eignarnámsins. Sama gildi um bótakröfur eignarnámsþola, er stafi af því, að veruleg breyting hefur orðið á bótagrundvelli þeim, sem matsniðurstaða byggi á.

Krafa eignarnámsþola um eignarnámsbætur er reist á fyrri málslið 16. gr. laga nr. 11/1973. Þar er áskilið að krafa eignarnámsþola um bætur sé um eignarnámsbætur, um hana hafi ekki verið fjallað í fyrra mati og áskilið að slík viðbótarkrafa komi fram innan tilgreinds tíma.

Með úrskurði matsnefndar 5. janúar 2009 í máli nr. 2/2008 voru ákveðnar eignarnámsbætur í tilefni eignarnáms á 9,35 ha. spildu úr landi jarðarinnar Eyvindartungu undir vegsvæði Lyngdalsheiðarvegar og 200.000 m3 malarefnis úr landi jarðarinnar í þágu lagningar vegarins. Voru eignarnámsþola úrskurðaðar bætur úr hendi eignarnema fyrir spilduna að fjárhæð 17.725.000 krónur, fyrir malarefnið að fjárhæð 4.000.000 krónur, vegna óhagræðis af völdum þess hvernig nýi vegurinn skipti landi eignarnámsþola að fjárhæð 9.500.000 krónur, svo og fyrir bráðabirgðaafnot lands að fjárhæð 100.000 krónur, eða samtals 31.325.000 krónur.

Bótakrafa eignarnámsþola stendur því um bætur aðrar en þær sem fjallað var um í áðurgreindum úrskurði matsnefndar 5. janúar 2009 í máli nr. 2/2008.

Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdum eignarnema við Lyngdalsheiðarveg hafi lokið 15. október 2010, þegar vegurinn opnaði, og krafa eignarnámsþola um viðbótarbætur á grundvelli 16. gr. laga nr. 11/1973 kom því ekki fram fyrr en um átta árum og fimm mánuðum síðar. Á hinn bóginn liggur fyrir að sá atburður sem eignarnámsþoli kveður hafa orsakað ætlað tjón hans, sem hann krefst nú bóta fyrir úr hendi eignarnema, mun hafa atvikast í apríl 2019. Eftir tjónsatvikið mun eignarnámsþoli fyrst hafa beint bótakröfu til eignarnema 13. maí 2019 en síðan til matsnefndar 28. ágúst 2020.

Hvað sem þessu líður er til þess að líta að í fyrri málslið 16. gr. laga nr. 11/1973 er áskilið að krafa eignarnámsþola sé um eignarnámsbætur. Með eignarnámi er átt við nauðungarafhendingu eða nauðungarafsal á eignarrétti, beinum eða óbeinum, og er eignarnám fólgið í því að maður er skyldaður til að láta eignarrétt sinn yfir tilteknum verðmætum af hendi að öllu eða nokkru leyti. Eignarnámsbætur er bætur sem koma fyrir fjárhagslegt tjón eignarnámsþola. Á eignarnámsþoli rétt til endurgjalds fyrir verðmæti þeirrar eignar sem tekin er eignarnámi og til bóta fyrir óhagræði sem eignarnám hefur að öðru leyti í för með sér og leiðir til fjárhagslegs tjóns fyrir hann. Er eignarnámsbótum þannig eins og skaðabótum endranær ætlað að gera eignarnámsþola eins settan og eignarnámið hefði aldrei átt sér stað. Þótt matsnefnd telji fullljóst, meðal annars af athugun á vettvangi, að það atvik sem mun hafa átt sér stað í apríl 2019, við það að jarðefni rann úr vegfyllingu Lyngdalsheiðarvegar inn á land eignarnámsþola, kunni að hafa valdið honum tjóni, er það álit nefndarinnar að slíkt tjón standi ekki í neinum tengslum við eignarnámið í þágu lagningar Lyngdalsheiðarvegar. Vegamannvirki eiga að uppfylla fyllstu kröfur og standa af sér t.d. verðurfarslegar aðstæður á borð við þær sem eignarnámsþoli kveður ásamt ófullnægjandi hönnun og frágangi hafa orsakað áðurgreint atvik. Það er álit matsnefndar, meðal annars eftir athugun á vettvangi tjónsatviksins, að ætlað tjón kunni fremur að stafa af því hvernig staðið hafi verið að framkvæmdum við Lyngdalsheiðarveg umrætt sinn. Hafi tjónsatvikið verið ófyrirséð þegar eignarnámið átti sér stað og ekki viðbúið að atvik á borð við þetta henti. Slíka kröfu getur eignarnámsþoli ekki haft uppi á grundvelli 16. gr. laga nr. 11/1973.

Er því vísað frá matsnefnd kröfu eignarnámsþola um að ákveðnar verði bætur á grundvelli 16. gr. laga nr. 11/1973 sem ekki hafi verið fjallað um í fyrra mati, sbr. úrskurð nefndarinnar 5. janúar 2009 í máli nr. 2/2008, í tilefni af ætluðu tjóni á mannvirkjum og landsréttindum eignarnámsþola sem mun hafi orðið þegar mikið magn jarðefnis rann úr fyllingu Lyngdalsheiðarvegar í apríl 2019.

Ekki eru skilyrði til þess að eignarnemi beri kostnað af endurgjaldi til handa eignarnámsþola vegna reksturs matsmálsins, sbr. 11. gr. laga nr. 11/1973.

Rétt þykir að eignarnemi greiði í ríkissjóð 700.000 krónur vegna starfa matsnefndar í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Vísað er frá matsnefnd eignarnámsbóta kröfu eignarnámsþola, Eyvindartungu ehf., um ákvörðun bóta á grundvelli 16. gr. laga nr. 11/1973 sem ekki hafi verið fjallað um í fyrra mati, sbr. úrskurð nefndarinnar 5. janúar 2009 í máli nr. 2/2008, í tilefni af ætluðu tjóni á mannvirkjum og landsréttindum eignarnámsþola sem hafi orðið þegar mikið magn jarðefni rann úr fyllingu Lyngdalsheiðarvegar í apríl 2019.

Eignarnemi skal greiða 700.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

Valgerður Sólnes

 

            Gústaf Vífilsson                                                         Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum