Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 53/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 2. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 53/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110033

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. nóvember 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Jórdaníu og Palestínu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 2. janúar 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 198/2020, dags. 28. maí 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 18. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 312/2020, dags. 17. september 2020, var beiðni kæranda hafnað. Kærandi var í kjölfarið fluttur úr landi til Jórdaníu með stoðdeild ríkislögreglustjóra. Hinn 11. mars 2022 sótti kærandi á ný um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 19. apríl 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. október 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 9. nóvember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 23. nóvember 2022.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna þjóðernis síns. Kærandi beri því einnig við að hann verði fyrir mismunun vegna palestínsks uppruna síns af hálfu yfirvalda sem og samfélagsins í heild í Jórdaníu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að eftir að endurupptökubeiðni hans hafi verið hafnað með úrskurði kærunefndar 19. júní 2020, og hann verið fluttur úr landi, hafi hann verið handtekinn af leyniþjónustunni í Jórdaníu, sætt líkamlegu og andlegu ofbeldi í fangelsi í fimm daga og síðan verið tjáð að hann yrði sendur til Palestínu. Í kjölfarið hafi kærandi farið í felur í Jórdaníu, komið sér til Tyrklands og aftur til Íslands. Kærandi hafi, líkt og hann hafi áður greint íslenskum stjórnvöldum frá, verið sviptur jórdönskum ríkisborgararétti sínum þegar hann hafi hlotið palestínskt vegabréf í júlí 2019 og misst öll ríkisfangstengd réttindi sín í Jórdaníu. Kærandi sé Palestínumaður, hafi alist upp og dvalið á Vesturbakkanum þar til hann hafi flúið Palestínu. Hann hafi m.a. lagt fram palestínskt vegabréf, skilríki, stimpil og kvittun fyrir greiðslu sektar sem hann hafi fengið fyrir að hafa dvalið of lengi í Jórdaníu. Þar að auki hafi kærandi lagt fram bréf frá jórdönsku leyniþjónustunni um að hann hafi verið handtekinn og verið í haldi hennar.

Fram kemur í greinargerð að þegar einstaklingur fæðist í Jórdaníu fái hann ekki sjálfkrafa ríkisborgararétt. Jórdanía hafi ekki fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að draga úr ríkisfangsleysi frá árinu 1961. Þá hafi þúsundir manna af palestínskum uppruna verið sviptir jórdönsku ríkisfangi sínu, þ. á m. börn sem hafi fæðst í Jórdaníu. Jafnframt beri heimildir með sér að allt frá árinu 1988 hafi jórdönsk yfirvöld dregið jórdanskan ríkisborgararétt einstaklinga af palestínskum uppruna til baka fyrirvaralaust með tilviljunarkenndum hætti og í andstöðu við landslög. Einstaklingum sé jafnframt ekki tilkynnt formlega um afturkallanir á ríkisfangi þeirra af hálfu jórdanskra yfirvalda. Þá heimili jórdönsk yfirvöld Palestínumönnum ekki að hafa jórdanskt vegabréf séu þau handhafar palestínskra vegabréfa. Fái Palestínumann viðurkenningu á palestínsku þjóðerni sínu af annað hvort ísraelskum eða palestínskum yfirvöldum fyrirgeri þau sér rétti til að fá útgefið gult skilríki í stað græns þegar þau endurnýi jórdönsk vegabréf sín. Græn skilríki veiti ekki ríkisfangtengd réttindi heldur séu í raun ferðaskilríki. Einnig hafi jórdönsk yfirvöld sett sem skilyrði fyrir endurnýjun á gulum skilríkjum að viðkomandi framvísi gögnum frá palestínskum yfirvöldum þess efnis að hann sé ekki með palestínskt vegabréf. Telur kærandi ljóst með vísan til framangreinds að jórdanskt ríkisfang hans sé ekki tryggt.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, einkum er varðar rannsókn Útlendingastofnunar og trúverðugleikamat hennar. Kærandi telur Útlendingastofnun hafa litið fram hjá palestínsku vegabréfi hans sem styðji við frásögn hans um að jórdanskur ríkisborgararéttur hans hafi verið afturkallaður. Vísar kærandi í þessu sambandi til 10., 13., og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og 13. og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið vísað til þess að samkvæmt upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (VIS) væri kærandi handhafi jórdansks vegabréfs með gildistíma til 8. nóvember 2022. Það sé því ljóst að vegabréf kæranda í Jórdaníu sé fallið úr gildi. Kærandi gerir einnig athugasemd við að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi verið synjað, m.a. á þeim forsendum að hann hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að jórdönsk yfirvöld hafi afturkallað ríkisborgararétt hans. Kærandi telur ósanngjarnt að Útlendingastofnun hafi lagt svo ríka sönnunarbyrði á hann þegar hinar fjölmörgu heimildir sem hann hafi vísað til styðji frásögn hans. Kærandi hafi hlotið 14 daga sekt fyrir að hafa dvalið of lengi í Jórdaníu sem hann telur sýna fram á að hann hafi ekki raunverulega jórdanskt ríkisfang. Þrátt fyrir það hafi Útlendingastofnun ekki útskýrt með hvaða hætti kærandi kynni að hafa hlotið þá sekt og stimpil verandi jórdanskur ríkisborgari. Útlendingastofnun hafi þannig ekki fjallað með forsvaranlegum hætti um ný gögn sem liggi fyrir í máli hans, sbr. m.a. 22. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá sjái kærandi ekki hvaða rök séu að baki því að telja hann vera ríkisborgara Jórdaníu. Telur kærandi að réttur hans til að andmæla röksemdafærslu Útlendingastofnunar hafi verið takmarkaður, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 12. og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi geti ekki séð hvaða rök hafi raunverulega verið ráðandi við úrlausn málsins. Líta beri á kæranda sem palestínskan borgara og meta mál hans á þeim grundvelli.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir á grundvelli c-, d- og e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið beittur ofbeldi í haldi jórdönsku leyniþjónustunnar eftir að honum hafi verið gert að snúa aftur til Jórdaníu. Vísar kærandi m.a. til skuggaskýrslna pyndingarnefndar Evrópuráðsins sem sýni fram á að pyndingar séu viðhafðar af jórdönsku leyniþjónustunni. Útlendingastofnun hafi fallist á að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi í skilningi d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga en hins vegar talið að hann ætti ekki á hættu ofsóknir vegna palestínsks uppruna síns. Kærandi telur hins vegar að hann verði í sérstakri hættu verði honum gert að fara aftur til Jórdaníu þar sem hann hafi áður verið sendur þangað og yfirvöld þar í landi séu meðvituð um að hann sé umsækjandi um alþjóðlega vernd og kunni að líta á hann sem stjórnarandstæðing, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi sætt mismunun í Jórdaníu sem rekja megi til þjóðernis hans í skilningi c-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Nú liggi fyrir að kærandi hafi orðið fyrir grófu ofbeldi af hálfu jórdanskra yfirvalda og telur kærandi ljóst að hann eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum verði honum gert að fara aftur til Jórdaníu. Auk þess séu allar líkur á því að kæranda verði brottvísað þegar í stað til Palestínu frá Jórdaníu, líkt og honum hafi verið tjáð af jórdönskum yfirvöldum. Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að jórdönsk yfirvöld hafi getu og vilja til að veita honum vernd gegn þeim athöfnum sem hann telur sér stafa hætta af, enda séu yfirvöld þar í landi sjálf valdur að ofsóknum kæranda ásamt öðrum aðilum, sbr. a-, b- og c- lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, m.a. vegna átaka og alvarlegs öryggisástands í Palestínu og ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar sem hann hafi sætt í Jórdaníu. Þá sé ljóst að hann verði áframsendur til Palestínu verði honum gert að snúa aftur til Jórdaníu. Stjórnvöldum beri að túlka vafa umsækjanda í hag sé frásögn hans trúverðug og eigi sér stoð í hlutlægum gögnum líkt og í tilviki kæranda. Umsækjendum frá Palestínu hafi fram til þessa verið veitt viðbótarvernd með vísan til almenns öryggisástands í landinu og telur kærandi að stjórnvöldum sé skylt að veita honum vernd með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Eins geti langvarandi stríðsástand fallið undir ákvæðið. Í greinargerð kæranda kemur fram að verði honum gert að snúa aftur til Jórdaníu hnígi öll rök að því að hann muni sæta sambærilegri meðferð og hann hafi áður þurft að þola. Kærandi sé útsettur fyrir félagslegri mismunun og skerðingu á grunnþjónustu, þ.m.t. aðgangi að heilbrigðisþjónustu. Í Palestínu muni kærandi standa frammi fyrir alvarlegum aðstæðum þar sem viðvarandi mannréttindabrot og vopnuð átök ríki í landinu og erfiðar félagslegar aðstæður.

Kærandi krefst þess til þrautaþrautavara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar. Kærandi telur að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi hvorki verið í samræmi við reglur útlendingaréttar né stjórnsýsluréttar, sbr. m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi að viðhlítandi mat hafi ekki farið fram í máli hans hjá Útlendingastofnun og því sé rétt að mál hans hljóti nýja meðferð hjá stofnuninni.

Kærandi telur að með endursendingu hans til Jórdaníu eða Palestínu yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Í ljósi þess að kærandi hafi fengið þær upplýsingar í Jórdaníu að hann yrði sendur til Palestínu telur hann að horfa verði sérstaklega til þessarar meginreglu í máli hans.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi verið handtekinn af leyniþjónustunni í Jórdaníu og verið í haldi hennar í fjóra eða fimm daga þar sem hann hafi verið beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi. Honum hafi verið tilkynnt að hann væri í ólöglegri dvöl í Jórdaníu og að hann yrði sendur til Palestínu. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að fólki frá Palestínu sé óheimilt að dvelja lengur en fjórtán daga í Jórdaníu og hafi hann fengið sekt fyrir að hafa dvalið í landinu umfram þann tíma. Kærandi hafi komist til Tyrklands frá Jórdaníu en fengið stimpil í vegabréf sitt þar sem fram komi að hann hafi dvalið í Jórdaníu umfram heimilaða dvöl. Einnig hafi hann fengið bréf frá jórdönsku leyniþjónustunni sem staðfesti að hann hafi verið handtekinn og verið haldið í húsakynnum þeirra. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi m.a. fram kvittun fyrir greiðslu framangreindrar sektar, framangreint bréf um að hann hafi verið í haldi jórdanskra yfirvalda vegna ólögmætrar dvalar þar í landi og vegabréf sitt með stimpli sem staðfesti ólögmæta dvöl hans.

Útlendingastofnun fjallaði ekki um framlögð gögn kæranda í ákvörðun sinni. Lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi gæti hlotið vernd jórdanska yfirvalda, þvert á frásögn hans um að yfirvöld þar í landi væru hinn meinti ofsóknaraðili.

Kærunefnd gerir athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á framkvæmd trúverðugleikamats Útlendingastofnunar og rannsókn stofnunarinnar þar sem aðstæður kæranda voru ekki skoðaðar með hliðsjón af framlögðum gögnum hans. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda voru, með vísan til framangreinds, enn fremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Er það mat kærunefndar að fullt tilefni hafi verið til að rannsaka og taka afstöðu til framlagðra gagna kæranda og hvaða þýðingu þau hefðu fyrir stöðu kæranda í Jórdaníu.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda, þar sem ekki hafi farið fram viðhlítandi rannsókn í tengslum við frásögn kæranda um að hann hafi verið sviptur jórdönskum ríkisborgararétti sínum, sem ekki sé kleift að bæta úr með frekari rannsókn æðra stjórnvalds. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar. 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum