Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN17100072

Ár 2018, þann 2. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17100072

 

Kæra WOW Air ehf.

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 20. október 2017 barst ráðuneytinu kæra WOW Air (hér eftir nefnt WOW) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli X (hér eftir nefndur farþeginn) nr. x/2017 frá 24. júlí 2017. Með ákvörðun Samgöngustofu var WOW gert að greiða farþeganum bætur að fjárhæð 400 evrur samkvæmt b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012, vegna seinkunar á flugi WOW frá Amsterdam til Keflavíkur þann 19. júní 2016. Krefst WOW þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþegans um bætur verði hafnað.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

WOW annaðist flug WW443 sem áætlað var frá Amsterdam til Keflavíkur þann 19. júní 2016. Var áætlaður komutími til Keflavíkur kl. 13:50 en skráður komutími kl. 17:18. Nam seinkunin því yfir þremur klukkustundum. Er deilt um bótaábyrgð WOW vegna seinkunarinnar.

Hinn kærði úrskurður er svohljóðandi:

  1. Erindi

    Þann 16. nóvember sl. barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá X (kvartandi). Kvartandi átti bókað flug með WOW air (WW) nr. 443 frá Amsterdam til Keflavíkur þann 19. júní 2016. Áætlaður komutími til Keflavíkur var kl. 13:50 en fluginu seinkaði og var raunverulegur komutími kl. 17:18, eða 3 klst. og 28. mín. seinkun.

    Kvartandi fer fram á bætur vegna seinkunarinnar skv. 7. gr. EB reglugerðar 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

  2. Málavextir og bréfaskipti

    Samgöngustofa sendi WW kvörtunina til umsagnar þann 17. nóvember 2016. WW óskaði eftir fresti til að skila inn umsögn til 19. desember 2016 og var frestur veittur. Í svari WW sem barst SGS 27. desember sl. kemur m.a. fram að kvartandi hafi verið farþegi í flugi WW443þann 19. júní 2016. Flugið hafi verið venjubundið turn-around flug þar sem flugvélin átti að flytja farþega frá Keflavík til Amsterdam og flytja farþega frá Amsterdam til Keflavíkur í bakaleiðinni. Fyrra flugi hafi seinkað um 3 klst. og 33 mínútur sem leiddi til þess að seinna flugi hafi einnig seinkað. Ástæða þess að seinkun fór fram yfir 3 klst. hafi verið vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli. Ekki hafi náð að manna stöður sem til þurfti til að flugturninn væri starfhæfur og öryggiskröfum fullnægt. Ef flugvélin hefði lagt af stað frá Keflavík til Amsterdam þegar hún var reiðubúin til brottfarar hefði seinkunin ekki verið umfram 3 klst. Starfsmenn WW hafi verið 1 klst. og 30. mín. að gera vélina klára í Amsterdam og hafi félagið þannig gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma vélinni af stað sem allra fyrst. WW mótmæli því ekki að seinkunin hafi farið fram yfir þann 3 klst. tímaramma sem Evrópudómstóllinn hefur myndað í dómum sínum þegar hann hefur túlkað ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004 um bótaskylt flug. WW telji hins vegar að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið fyrir hendi sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sem hafi valdið því að seinkunin fór fram úr þremur klukkustundum og því sé WW ekki bótaskylt. Félagið sé með aðalstarfsstöð sína á Íslandi og að ekki sé hægt að ætlast til að WW sé með varaflugvélar til staðar á öllum sínum áfangastöðum til þess að koma í veg fyrir seinkun sem er rétt umfram 3 klst. WW vísar í umsögn sinni til 14. og 15. inngangsliða reglugerðar EB nr. 261/2004 og dóms Evrópudómstólsins í máli C-22/11 Finnair Oyj v Timy Lassoy frá 4. október 2012 og hafnar bótaskyldu.

    SGS sendi kvartanda svar WW til umsagnar þann 28. desember sl. Svar kvartanda barst sama dag þar sem bent er á að lög hafi verið sett á yfirvinnubann flugumferðarstjóra þann 8. júní 2016 en flug kvartenda hafi verið 19. júní 2016.

  3. Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eiga rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta dómafordæmi var staðfest með dómi Evrópudómstólsins í máli C-11/11 og hefur nú einnig verið lögfest með 6. gr. reglugerðar nr. 1048/2012.

Loftferðalög nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.

Það er mat Samgöngustofu að þegar atvik hafa áhrif á annað flug en það sem deilt er um, geti slík víxlverkun ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB 261/2004. Stofnunin vísar til fyrri ákvarðana um áhrif víxlverkana, til að mynda með ákvörðun nr. 12/2011. Sú niðurstaða var staðfest í úrskurði innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR11040216 frá 11. október 2011 og með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-837/2012 frá 31. október 2013. Með vísan til þess sem að frama greinir telur Samgöngustofa flugrekandi hafi ekki sýnt fram á að seinkunin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna og ber WW því að greiða kvartanda bætur í samræmi við ákvæði reglugerðar EB 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Kvartandi átti bókað far með flugi WW443 frá Amsterdam til Keflavíkur þann 19. júní 2016. Fyrir liggur að 3 klukkustunda og 28 mínútna seinkun varð á fluginu. Í umsögn WW er vísað til þess að seinkun flugsins megi rekja til þess að seinkun hafi orðið á fyrra flugi þeirrar vélar sem kvartandi átti bókað far með og að seinkunina megi rekja til yfirvinnubanns flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli þennan dag.

Í ljósi þess að loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega er það mat Samgöngustofu að þegar atvik sem leiða til seinkunar flugs, hafa áhrif á önnur eða síðari flug en það sem deilt er um, geti slík víxlverkun ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB 261/2004 fyrir hin síðari flug. Því leiði töf á síðari flugum til bótaskyldu flugrekanda skv. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Stofnunin vísar í þessu sambandi til fyrir ákvarðana um áhrif víxlverkana, til að mynda með ákvörðun nr. 12/2011. Sú niðurstaða var staðfest í úrskurði innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR11040216 frá 11. október 2011 og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-837/2012 frá 31. október 2013.

Í ljósi þeirrar túlkunar Samgöngustofu að áhrif víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna, kemur þegar af þeirri ástæðu til bótaskyldu flugrekanda. Er því ekki þörf á að leggja sérstakt mat á hvort þær aðstæður sem ollu seinkun á fyrra flugi vélarinnar til Amsterdam teljist vera óviðráðanlegar aðstæður og ekki tekin afstaða til þess í þessari ákvörðun.

Samkvæmt framansögðu ber WW að greiða kvartanda bætur í samræmi við ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Ákvörðunarorð:

WOW air skal greiða kvartanda bætur að upphæð 400 evrur skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

 

III.      Málsástæður WOW, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra WOW barst ráðuneytinu með tölvubréfi mótteknu 20. október 2017.

Í kæru kemur fram að áætlaður brottfarartími vélarinnar frá Amsterdam hafi verið kl. 10:40 þann 19. júní 2016 en hafi í raun verið kl. 14:18. Áætlaður komutími til Keflavíkur hafi verið kl. 13:50 en verið í raun kl. 17:18. Hafi því verið um 3 klst. og 28 mínútna seinkun að ræða. Hafi seinkunin verið meira en 3 tímar vegna aðstæðna sem WOW beri ekki ábyrgð á. Fyrra flug vélarinnar hafi verið áætlað frá Keflavík til Amsterdam fyrr um morguninn. Hafi vélin þar verið tilbúin til brottfarar kl. 08:50 en þar sem ekki hafi verið nægilega margir flugumferðarstjórar við störf á þeim tíma til að tryggja öruggt eftirlit og aðhald með flugumferð um Keflavíkurflugvöll, hafi vélinni verið ómögulegt að leggja af stað á þeim tíma. Hafi vélin því þurft að bíða til kl. 09:40 til að leggja af stað.

WOW vísar til þess að reglugerð nr. EB 261/2004 og reglugerð nr. 1048/2012 skorti lagastoð. Hvorki í loftferðalögum né öðrum lögum sé að finna heimild til að leggja þá skyldu á einkarekin fyrirtæki eins og WOW að greiða farþegum refsibætur tiltekinnar fjárhæðar og það án þess að viðkomandi hafi orðið fyrir tjóni. Gangi slíkt gegn lögmætisreglu og stjórnarskrá. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fari Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Það leiði af ákvæðinu að það sé stjórnskipulegt hlutverk Alþingis að setja almenningi bindandi hátternisreglur. Af ákvæðinu sé einnig ljóst að þetta verkefni teljist ekki til verkefna ráðherra samkvæmt stjórnarskránni. Af lögmætisreglunni leiði síðan að ráðherra sé beinlínis óheimilt að setja íþyngjandi hátternisreglur í reglugerð nema hafa fengið til þess skýra lagaheimild með löglegu valdaframsali frá Alþingi. Ráðherra hafi á hinn bóginn heimild til að setja ákvæði í reglugerð um lagaframkvæmd og þar undir kunni að falla hátternisreglur sem hafi skýr efnisleg tengsl við reglur um lagaframkvæmd og teljist þeim nauðsynlegar.

Reglugerð nr. 1048/2012 hafi veri sett með heimild í 4. mgr. 106. gr. og 3. mgr. 126. gr., sbr. 145. gr. loftferðalaga. Framangreindar reglugerðir, einkum bótareglur reglugerðar EB nr. 261/2004, gangi langt umfram heimildir framangreindra lagaákvæða sem fjalli um bætur vegna tjóns, þ.e. skaðabætur. Í 106. gr., sem fjalli um bótarétt í tilviki seinkana, sé m.a. gert að skilyrði að farþegi hafi orðið fyrir tjóni en í þessu máli liggi ekkert fyrir um að svo sé. Þaðan af síður sé heimilt í reglugerð að afnema lagaskilyrði um raunverulegt tjón. Af samanburði 106. gr. loftferðalaga og bótareglum reglugerðar EB nr. 261/2004 telur WOW ljóst að verið sé að krefjast refsibóta án tjóns. Engin lagastoð sé fyrir slíkum bótum og sé það ekki í valdi ráðherra að ákveða slíkt með reglugerð án lagastoðar. Gangi slíkt gegn grundvallarreglum um þrískiptingu ríkisvaldsins og lögmætisreglu stjórnskipunarréttar. Þá vekur WOW athygli á ákvæði 113. gr. loftferðalaga. Samkvæmt ákvæðinu verði í málsókn á hendur flytjanda til heimtu bóta vegna tjóns sem verður við loftflutninga á farþegum, farangri eða farmi, sem fellur undir gildissvið kaflans, verði málsástæður lagarök og dómsúrlausn aðeins byggð á ákvæðum kaflans og Montreal-samningnum. Sé SGS óheimilt samkvæmt lögum að líta til reglugerðar nr. 261/2004 við úrlausn málsins.

Þá kveðst WOW ósammála efnislegri niðurstöðu SGS sem félagið telji hvorki í samræmi við loftferðalög, reglugerð EB nr. 261/2004 né dómafordæmi. Hafi seinkun á flugi farþegans ná þremur klst. vegna aðgerða flugumferðastjóra. Óumdeilt sé að þegar flugöryggi sé ekki fullnægjandi hafi það áhrif á starfsemi flugrekanda og teljist slíkar aðstæður almennt óviðráðanlegar, sbr. 14. tl. inngangsorða reglugerðar EB nr. 261/2004, og leysi þar með flugrekanda undan bótaskyldu. Þá beri ávallt að líta til 2. ml. 1. mgr. 106. gr. loftferðalaga. Hafi vélin farið í loftið eins fljótt og auðið var eftir að aðgerðum flugumferðarstjóra lauk. Hafi starfsmenn WOW því gengið úr skugga um að allt væri til reiðu fyrir brottför í kjölfar þess að fullnægjandi flugöryggi væri tryggt. Hafi WOW þar með uppfyllt skilyrði 1. mgr. 106. gr. loftferðalaga fyrir að flugrekandi losni undan bótaskyldu. Þá beri að túlka reglugerð EB nr. 261/2004 með hliðsjón af íslenskum lögum. Almennar lögskýringarreglur kveði á um að lagaákvæði gangi framar ákvæðum reglugerðar. Gangi því framangreint ákvæði loftferðalaga framar ákvæði reglugerðarinnar um óviðráðanlegar aðstæður. Að sama skapi sé óheimilt að þrengja skilgreiningu á því hvenær flugrekendur losna undan bótaskyldu í reglugerð frá því sem mælt er fyrir um í lögum. Reglugerð EB nr. 261/2004 geti því aldrei gengið framar skýrum ákvæðum íslenskra laga.

Þá bendir WOW á að samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 beri ekki að greiða bætur ef rekja má seinkun til óviðráðanlegra aðstæðna. Telur WOW að þegar starfsemi flugumferðarstjóra liggur niðri í ákveðinn tíma sé um óviðráðanlegar aðstæður að ræða í skilningi 3. mgr. 5. gr., sbr. 14. tl. inngangsorða reglugerðar EB nr. 261/2004. Starf flugumferðarstjóra felist aðallega í því að tryggja flugöryggi og ef þeirra njóti ekki við sé flugöryggi ekki fullnægjandi sem leiði til þess að WOW sé ekki skaðabótaskylt. Hafi SGS ekki tekið afstöðu til þess í hinni kærðu ákvörðun. Hins vegar hafi ráðuneytið með úrskurði í máli SRN17050104 talið að aðgerðir flugumferðarstjóra flokkuðust sem óviðráðanlegar aðstæður og þ.a.l. ætti að draga 30 mín. frá heildarseinkun flugsins. Málið sem þar var deilt um hafi varðað flug WW442 frá Keflavík til Amsterdam þennan sama dag.

WOW telur að afstaða SGS fari gegn niðurstöðu Evrópudómstólsins í sambærilegum málum. Hafi Evrópudómstóllinn a.m.k. í tvígang tekið afstöðu til víxlverkana. Í máli C-394/14 hafi málsatvik verið þau að flugvél hafi orðið fyrir skemmdum. Flug daginn eftir hafi einnig orðið fyrir áhrifum vegna skemmdanna. Hafi dómstóllinn gert ráð fyrir því að aðstæður sem voru til staðar í fyrra flugi geti teygt sig yfir á seinni flug. Hafi dómstóllinn þannig skoðað hvort víxlverkanir á seinni flug gætu flokkast sem óviðráðanlegar aðstæður sem leyst gætu flugrekandann undan bótaskyldu. Hins vegar neiti SGS að leggja mat á hvort upprunalegu aðstæðurnar flokkist sem óviðráðanlegar aðstæður. Hafi SGS þannig borið að leggja mat á hvort skortur á flugumferðarstjórum gæti flokkast sem óviðráðanlegar aðstæður. Þá vísar WOW einnig til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-837/2012 frá 31. október 2013. Telji dómurinn þar ljóst að flugrekendur geti losnað undan bótaskyldu vegna seinni fluga ef þeir geta sannað að ómögulegt hafi verið fyrir þá að koma í veg fyrir aðstæðurnar sem leiddu til seinkunar eða aflýsingar, þótt aðstæðurnar hafi einungis verið til staðar í fyrra flugi. Þá telur WOW að SGS hafi ekki gætt að fyrirmælum 10. gr. stjórnsýslulaga. WOW vísar einnig til dóms Evrópudómstólsins í máli C-315/15 þar sem deilt hafi verið um víxlverkanir. Samkvæmt þeim dómi beri að draga þann hluta seinkunarinnar sem rekja má til óviðráðanlegra aðstæðna frá heildarseinkuninni þegar bótaskylda flugrekanda vegna blandaðrar seinkunar er metin. Ef seinkunin sem eftir stendur er a.m.k. þrjár klst. komi möguleg bótaskylda flugrekanda til skoðunar. Bendir WOW á að vélin hafi verið tilbúin til brottfarar kl. 08:50 en hafi ekki getað farið af stað fyrr en kl. 09:40 vegna aðgerða flugumferðarstjóra. Því megi rekja a.m.k. 40 mín. af seinkuninni til aðgerðanna sem leiði til þess að seinkunin sem eftir stendur hafi verið að hámarki 2 klst. og 48. mín. Þar sem seinkunin sem WOW beri ábyrgð á nái ekki 3 klst. sé félagið ekki bótaskylt vegna hennar. Hefði flug WW443 ekki orðið fyrir 3 klst. seinkun ef ekki hefði verið skortur á flugumferðarstjórum til að sinna eftirliti með flugumferð um Keflavíkurflugvöll. Telur WOW sýnt að ef vélinni hefði verið heimilt að taka á loft þegar hún var tilbúin til brottfarar hefði seinkun beggja fluganna ekki náð þremur klst. og bótaskylda WOW ekki komið til skoðunar. Þá bendir WOW á að í úrskurði ráðuneytisins í máli SRN17050104 sem varðaði flug frá Keflavík til Amsterdam þennan sama dag, hafi ráðuneytið dregið 30 mínútur frá heildarseinkun flugsins þar sem þær væri að rekja til óviðráðanlegra aðstæðna. Þegar sömu aðferð sé beitt í þessu máli standi eftir seinkun sem nemur 2 klst. og 58 mínútum. Ætti bótaskylda WOW því ekki að koma til skoðunar.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 26. október 2017.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi mótteknu 29. nóvember 2017. Í umsögninni kemur fram að afstaða SGS varðandi víxlverkanir hafi verið sú að aðstæður í einu máli teygi sig almennt ekki yfir á önnur flug. Sé sú afstaða í samræmi við hina ríku neytendavernd sem reglugerð EB nr. 261/2004 sé ætlað að veita flugfarþegum. Séu sjónarmið að baki reglunni þau að ekki væri rétt að láta farþega bera hallann af því að flugvél sem nota ætti í tiltekið flug tefðist á öðrum stað og öðrum tíma en við ætti um viðkomandi flug. Hins vegar hafi komið til skoðunar hjá SGS að endurskoða mætti beitingu reglunnar þar sem framkvæmd í málaflokknum hafi í vissum tilvikum leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir flugrekendur. Þá hafi komið í ljós að ekki sé einrómur innan EES/ESB um beitingu reglunnar, þ.e.a.s. hvort og þá að hvaða leiti fyrri flug hafi áhrif á síðari flug. Í nýlegum dómi Evrópudómstólsins í máli C-315/15 virðist dómurinn þó gefa sér að í a.m.k. einhverjum tilvikum geti fyrra flug haft áhrif á síðara flug. Telur SGS þannig mögulegt að í ákveðnum tilvikum geti áhrif víxlverkana teygt sig yfir á síðari flug sömu vélar. Slíkt verði þó háð mati í hverju tilviki fyrir sig um hvort þær óviðráðanlegu aðstæður sem áttu við um fyrra flugið geti einnig átt við um hið síðara. Eftir sem áður sé sönnunarbyrðin fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður séu fyrir hendi alfarið á hendi flugrekandans.

Þá kemur fram í umsögn SGS að með úrskurði ráðuneytisins í máli SRN 17050104 frá 13. október 2017 hafi verið fjallað um ákvörðun SGS nr. 3/2017. Sú ákvörðun hafi varðað flug WW442 frá Keflavík til Amsterdam þann 19. júní 2016 sem verið hafi fyrra flug sömu vélar og flytja átti farþegana í máli því sem hér er til umfjöllunar. Í úrskurðinum hafi ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að líta svo á að sú staðreynd að starfsemi flugumferðarstjóra lá niðri um tíma þann 19. júní 2016 félli undir óviðráðanlegar aðstæður sem WOW hafi ekki getað talist bera ábyrgð á. Í niðurstöðunni segi jafnframt að þar sem starfsemi flugumferðarstjóra hafi legið niðri í alls 30 mínútur væri rétt að taka tillit til þess þegar seinkunin er metin. Þar sem seinkunin hafi numið alls þremur klukkustundum og 33 mínútum hafi staðið eftir þrjár klukkustundir og þrjár mínútur þar sem WOW hafi þurft að sýna fram á að óviðráðanlegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi. Hafi það verið mat ráðuneytisins að sú sönnun hefði ekki tekist og rétt væri að láta WOW bera hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Hafi hin kærða ákvörðun nr. 3/2017 því verið staðfest af ráðuneytinu. Í nýlegum dómi Evrópudómstólsins í máli C-315/15 komi fram sú afstaða dómsins að þegar seinkun flugs megi bæði rekja til óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið unnt að afstýra þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir og til aðstæðna sem flugrekandinn væri talinn bera ábyrgð á, skuli draga þann hluta seinkunarinnar sem rekja má til óviðráðanlegra aðstæðna frá heildarseinkuninni þegar bótaskylda flugrekandans er metin. Samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 og dómafordæmum Evrópudómstólsins geti farþegar átt rétt á bótum úr hendi flugrekanda ef þeir verða fyrir þriggja tíma seinkun eða meira á flugi sínu, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum seinna eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kveður á um. Fyrir liggi að heildarseinkun flugs WW443 frá Amsterdam til Keflavíkur þann 19. júní 2016 hafi numið þremur klukkustundum og 28 mínútum. Einnig liggi fyrir að fyrra flugi vélarinnar frá Keflavík til Amsterdam hafi seinkað vegna óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Í ljósi úrskurðar ráðuneytisins og dóms Evrópudómstólsins í máli C-315/15 fallist SGS á að 30 mínútur af heildarseinkun flugs WW443 hafi einnig orsakast vegna óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi reglugerðar EB nr. 261/2004 er starfsemi flugumferðarstjóra lá niðri. Eftir standi seinkun sem nemi tveimur klukkustundum og 58 mínútum sem sé seinkun innan þeirra tímamarka er valdi bótaskyldu flugrekanda samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. janúar 2018 var WOW gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi WOW mótteknu 24. janúar 2018. Þar kemur fram að WOW telji að fallast beri á þau sjónarmið sem fram koma í umsögn SGS.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. janúar 2018 var farþeganum gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 11. júní 2018 óskaði ráðuneytið eftir viðbótargögnum frá SGS. Bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi SGS dags. 12. júní 2018. Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 18. júní 2018 óskaði ráðuneytið eftir viðbótargögnum og upplýsingum frá WOW. Bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi WOW dags. 30. júní 2018.

 

IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa WOW lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþegans um bætur verði hafnað með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið. Farþeginn hefur ekki látið málið til sín taka við meðferð þess hjá ráðuneytinu.

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun SGS fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Fyrir liggur að flugi WW443 frá Amsterdam til Keflavíkur þann 19. júní 2016 seinkaði um meira en þrjár klukkustundir. Byggir WOW á því að seinkunin hafi verið tilkomin vegna óviðráðanlegra aðstæðna þar sem hluta seinkunarinnar megi rekja til aðgerða flugumferðarstjóra þennan dag, auk annarra málsástæðna sem raktar hafi verið. Í hinni kærðu ákvörðun var það niðurstaða SGS að áhrif víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna og kæmi þegar af þeirri ástæðu til bótaskyldu flugrekanda.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er með reglugerðinni leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála. Þá bendir ráðuneytið á að það er meginregla samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að farþegar eigi rétt á skaðabótum verði þeir fyrir aflýsingu eða mikilli seinkun á flugi. Sönnunarbyrði fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið uppi hvílir alfarið á flugrekandanum og ber honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir aflýsinguna eða seinkunina. Takist sú sönnun ekki ber flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt. Í því sambandi bendir ráðuneytið á 14. inngangslið reglugerðar EB nr. 261/2004 þar sem fram kemur að slíkar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, ófullnægjandi flugöryggis og verkfalla sem hafi áhrif á starfsemi flugrekandans.

Ráðuneytið tekur fram að það telur að ákvæði reglugerðar nr. 1048/2012 hafi fullnægjandi lagastoð sem og þá einnig ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004, enda reglugerðin sett með heimild í 4. mgr. 106. gr. og 3. mgr. 126. gr. sbr. 145. gr. loftferðalaga. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu WOW að bótareglur reglugerðarinnar skorti lagastoð.

Líkt og fram kemur í gögnum málsins var áætluð koma vélarinnar til Keflavíkur klukkan 13:50 þann 19. júní. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var komutími vélarinnar hins vegar sagður kl. 17:18. Er þar um ræða þá tímasetningu þegar vélinni var lagt í stæði við flugvöllinn (on-block).

Með dómi Evrópudómstólsins í  máli C-452/13 útfærði dómurinn nánar skilgreiningu á tímaviðmiðum seinkunar. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að miða ætti komutíma við þann tíma sem dyr vélarinnar væru opnaðar og farþegum væri frjálst að fara frá borði. Telur ráðuneytið rétt að miða komutíma við þau viðmið sem koma fram í tilgreindum dómi. Telur ráðuneytið þannig ljóst að frá því að vél er lagt í stæði líði einhver tími þar til dyr vélarinnar eru opnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia líða þannig að meðaltali 3-5 mínútur frá því vél er lagt í stæði þar til dyr hennar eru opnaðar. Eru því lágmarksviðmið í þessu sambandi aldrei undir þremur mínútum. Í máli því sem hér er til umfjöllunar sé komutími vélarinnar samkvæmt framangreindu aldrei fyrr en klukkan 17:21 en ekki klukkan 17:18 líkt og gengið er út frá í hinni kærðu ákvörðun, enda liggja engin gögn fyrir um að dyr vélarinnar hafi verið opnaðar fyrir þann tíma.

Líkt og fram hefur komið liggur fyrir að umræddan dag lá starfsemi flugumferðarstjóra niðri milli klukkan 9:00 og 9:30 um morguninn. Af hálfu WOW er til þess vísað að vélin hafi verið tilbúin til brottfarar fyrir klukkan 9:00 en hafi ekki komist í loftið vegna aðgerða flugumferðarstjóra og hafi vélin farið í loftið eins fljótt og mögulegt var eftir að þeim lauk. Beri að taka tillit til þess þegar bótaábyrgð WOW er metin enda hafi sú seinkun valdið því að vélinn seinkaði einnig frá Amsterdam til Keflavíkur.

Ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum litið svo á að sú staðreynd að starfsemi flugumferðarstjóra lá niðri um tíma þennan dag falli undir óviðráðanlegar aðstæður sem WOW geti ekki talist bera ábyrgð á, sbr. t.d. niðurstaða ráðuneytisins frá 13. október 2017 í máli SRN17050104 er varðaði flug frá Keflavík til Amsterdam. Telur ráðuneytið að einnig beri að taka tillit til framangreindra aðstæðna varðandi flugið frá Amsterdam til Keflavíkur. Þar sem starfsemi flugumferðarstjóra lá niðri í alls 30 mínútur sé þannig rétt að taka tillit til þess þegar seinkunin er metin. Þar sem seinkunin nam að lágmarki þremur klukkustundum og 31 mínútu standa eftir þrjár klukkustundir og ein mínúta þar sem WOW þarf að sýna fram á að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið fyrir hendi sem ekki hefði verið unnt að afstýra þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Er það mat ráðuneytisins að sú sönnun hafi ekki tekist og verði WOW að bera hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum