Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 28. nóvember 2018, um synjun á sérstökum stuðningsbótum sem greiddar voru til sauðfjárbænda vegna kjaraskerðingar í upphafi árs 2018.

Stjórnsýslukæra

I. Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. janúar 2019, kærði [Z hrl.], f.h. [X] og [Y], hér eftir nefnd kærendur, ákvörðun Matvælastofnunar frá 28. nóvember 2018, um synjun á sérstökum stuðningsbótum sem greiddar voru til sauðfjárbænda vegna kjaraskerðingar í upphafi árs 2018.

 

Kærendur krefjast þess að umræddar stuðningsbætur sem ákveðið var að greiða sauðfjárbændum vegna kjaraskerðingar renni til þeirra, þó svo að þau hafi afhent jörðina nýjum eigendum hálfu ári áður á grundvelli kaupsamnings.

 

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

 

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.

 

Kærendur seldu jörð sína, [A] í Dalabyggð, með kaupsamningi dags. 22. september 2017. Nýir eigendur tóku við jörðinni 1. ágúst 2017. Í gögnum málsins er kaupsamningur aðila. Er þar lýst kaupum á lögbýlinu [A] í Dalabyggð ásamt greiðslumarki í sauðfé, samtals 287,9 ærgildi, öllum vélum samkvæmt vélalista, allri áhöfn annarri en hross ásamt öllu því sem eigninni fylgi og fylgja ber, þ.m.t. öllum húsum sem á jörðinni standa ásamt öllum hlunnindum. Í samningnum er jafnframt tilgreint í sérákvæði að seljandi fái til sín sem nemi tekjum af kjötinnleggi 750 lamba haustið 2017. Þá er tilgreint í sérákvæði að kaupandi greiði fyrir áburð til nota á yfirstandandi ári. Kaupandi greiði jafnframt fyrir olíunotkun, garn og rúlluplast vegna heyskapar sumarið 2017. Við undirritun kaupsamnings undirrituðu kærendur og kaupendur jarðarinnar sameiginlega tilkynningu til Matvælastofnunar um að frá og með þeim degi væru kærendur ekki lengur handhafar beingreiðslna sauðfjár. Sú tilkynning var móttekin af Matvælastofnun 2. október 2017.

 

Í janúar 2019 var undirrituð reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1183/2017 um stuðning við sauðfjárrækt. Í reglugerðinni er kveðið á um sérstakar stuðningsgreiðslur til að draga úr kjaraskerðingu sauðfjárbænda á árinu 2018 fyrir dilkakjötsframleiðslu ársins 2017. Matvælastofnun annaðist umsýslu greiðslunnar. Greiðslan var greidd þáverandi skráðum eigendum [A] í janúar 2018.

 

Hinn 16. október 2018 sendu kærendur erindi til Matvælastofnunar þar sem þess var farið á leit við Matvælastofnun að stofnunin myndi hlutast til um að kærendur fengju greidda stuðningsgreiðslu samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Kærunni fylgdi minnisblað frá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins þar sem reifuð eru málsatvik. Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins telur að kærendur hafi átt að njóta stuðningsgreiðslnanna. Matvælastofnun svaraði erindi kærenda með bréfi, dags. 28. nóvember 2018. Í bréfinu kemur fram að stuðningsgreiðslur hafi í öllum tilvikum runnið til gildandi rétthafa beingreiðslna. Grundvallarskilyrði greiðslna samkvæmt reglugerðinni hafi verið að þær rynnu til skráðra eigenda eða leigjenda lögbýlis sem stunduðu sauðfjárrækt á býlinu. Kaupendur jarðarinnar hafi einir uppfyllt það skilyrði þegar reglugerðin var sett og því hafi greiðslur verið greiddar til þeirra. Matvælastofnun hafi treyst því að kaupendur og seljendur myndu gera upp sín á milli hugsanlega skiptingu greiðslna vegna eigendaskipta árið 2017.

 

Með bréfi, dags. 22. janúar 2019 sem barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 5. febrúar 2019 var ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á greiðslu sérstakra stuðningsbóta kærð til ráðuneytisins.

 

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2019, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar um málið og jafnframt öllum þeim gögnum sem stofnunin kynni að hafa um málið. Matvælastofnun var veittur frestur til 28. febrúar 2019 til að skila umbeðnum gögnum. Umsögn og gögn Matvælastofnunar bárust ráðuneytinu 25. febrúar 2019.

 

Með bréfi, dags. 6. mars 2019 veitti ráðuneytið kæranda kost á að koma á framfæri athugasemdum við umsögn og gögn Matvælastofnunar. Engar athugasemdir bárust.

 

Hinn 12. júní 2019 sendi ráðuneytið erindi til kærenda þar sem fram kom að aðili sem að hlaut stuðningsgreiðslur vegna [A] sendi erindi til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir að koma  sjónarmiðum á framfæri í kærumálinu. Í ljósi þess að umræddur aðili er handhafi þeirra greiðslna sem kærendur telja að þeir hafi átt rétt á í hans stað ákvað ráðuneytið að fallast á beiðni hans um að koma á framfæri sjónarmiðum í málinu. Veittur var frestur til 26. júní 2019 til að koma sjónarmiðum á framfæri.

 

Hinn 26. júní 2019 bárust athugasemdir frá núverandi eigendum [A] vegna málsins. Með tölvupósti, dags. 28. júní 2019, var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við athugasemdir núverandi eigenda At[A]. hugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með tölvupósti dags. 15. ágúst 2019. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna er úrskurðað í málinu.

 

III. Málsástæður og lagarök kærenda

Kærendur krefjast þess að stuðningsgreiðslur sem ákveðið var að greiða sauðfjárbændum vegna kjaraskerðingar í upphafi árs 2018 verði látnar renna til þeirra, þó svo að þau hafi afhent jörðina hálfu ári áður á grundvelli kaupsamnings. Kærendur byggja á ákvæðum í fjáraukalögum sem samþykkt voru 30. desember 2017 þar sem settar voru 665 milljónir króna inn í fjáraukalögin til að bregðast við markaðserfiðleikum sem steðjuðu að sauðfjárframleiðslunni á yfirstandandi ári. Í kjölfar þess að fjáraukalögin voru samþykkt var hafist handa við útdeilingu fjármunanna. Vísa kærendur til þess að tilgangur viðbótarstuðningsins hafi verið að draga úr þeim afkomubresti sem varð hjá framleiðendum sem búnir voru að leggja í kostnað vegna framleiðslu lambakjöts árið 2017.

 

Kærendur vísa til þess að fyrir liggi að jörðin var seld með kaupsamningi 22. september 2017 þegar um níu mánuðir voru liðnir af árinu. Afhendingardagur var nokkuð fyrr eða þann 1. ágúst 2017. Kærendur höfðu jörðina í sinni umsjá í sjö af tólf mánuðum á árinu 2017 og á þeim tíma hafi fallið til kostnaður við rekstur sauðfjárbúsins. Því þykir kærendum eðlilegt, í samræmi við tilgang stuðningsins, að kærendur fái sinn hluta af bótum vegna þess tíma sem kærendur stunduðu sauðfjárbúskap á [A] og allur kostnaður félli til vegna innleggs sem átti sér stað skömmu eftir afhendingu sem hafi verið í þeirra nafni.

 

Kærendur telja að þeir uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 1183/2017 um stuðning við sauðfjárrækt, með síðari breytingum, fyrir framangreindum stuðningsgreiðslum. Samkvæmt reglugerðinni hafi aðilar þurft að uppfylla þrjú skilyrði til að teljast rétthafar stuðningsgreiðslna. Vísa kærendur til þess að þeir hafi verið eigiendur lögbýlis meirihluta ársins 2017 og hafi lagt í kostnað vegna framleiðslu lambakjöts árið 2017. Telja kærendur að þeir hafi lagt í allan kostnað vegna framleiðslunnar á árinu. Þá vísa kærendur til þess að í reglugerðinni hafi ekki verið kveðið á um það skilyrði að viðkomandi hafi verði eigandi og stundi sauðfjárrækt á þeim tímapunkti þegar reglurnar um stuðningsgreiðslur tóku gildi í janúar 2018. Þá telja kærendur rangt að þeir uppfylli ekki skilyrði um að eiga 151 veturfóðraða kind eða fleiri samkvæmt haustskýrslu í bústofn 2016. Þvert á móti sýni afrit skýrslunnar að svo hafi verið. Þá sé í gögnum málsins að finna afurðamiða vegna innleggs árið 2017 þar sem skráður innleggjandi er annar kærenda.

 

Með vísan til ofangreinds telja kærendur að þeir uppfylli öll skilyrði til þess að Matvælastofnun greiði stuðningsgreiðslur beint til þeirra og ekki sé hægt að tengja þær greiðslur við almennar beingreiðslur og tilkynningu um aðilaskipti sem áttu sér  stað áður en reglur um stuðningsgreiðslur tóku gildi. Kærendur vísa til þess að það kunni að hafa verið mistök af hálfu Matvælastofnunar að greiða greiðslur til nýrra eigenda [A] en það sé kærendum óviðkomandi. Ekki sé eðlilegt að vísa kærendum á að þau kunni að eiga kröfurétt á hendur nýjum eigendum jarðarinnar.

 

Hvað varðar slátrun haustið 2017 vísa kærendur til þess að þeir hafi verið búnir að panta fyrir lömb í slátrun vorið 2017. Vegna tafa á sölu [A] um greiðslu kaupverðs hafi kærendur fengið þær upplýsingar frá sláturhúsi að innlegg væri aldrei lagt inn á aðra en skráða eigendur, sem voru kærendur, og töldu kærendur því að ekki væri unnt að draga slátrun. Þá hefðu kærendur misst fyrstu sláturdagana og túnin hafi ekki borið beit með svo margt fé. Þá vísa kærendur til þess að greiðsla sem kveðið er á um í kaupsamningi um áburð og plast hafi verið vegna ársins 2018 en ekki 2017. Kærendur hafi lagt í þann kostnað vegna ársins 2017.

 

IV. Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar (MAST)

Matvælastofnun vísar til þess að kærendur hafi selt jörðina með kaupsamningi dags. 22. september 2017 en höfðu afhent nýjum eigendum jörðina 1. ágúst 2017. Við undirritun kaupsamnings hafi kærendur og kaupendur jarðarinnar undirritað sameiginlega tilkynningu til Matvælastofnuna um að frá og með þeim degi væru kærendur ekki lengur handhafar beingreiðslna sauðfjár. Tilkynningin hafi verið móttekin af Matvælastofnun 2. október 2017 og frá og með þeim degi hafi Matvælastofnun litið svo á að allar styrktargreiðslur til bænda sem búnaðarstofa Matvælastofnunar annast samkvæmt lögum og reglugerðum skyldu greiddar nýjum eigendum sem skráðum handhöfum beingreiðslna sauðfjár. Telur stofnunin ekki skipta máli þótt um sé að ræða stuðningsgreiðslur aftur í tímann.

 

Matvælastofnun vísar til þess að reglugerð nr. 1183/2017 um stuðning við sauðfjárrækt hafi öðlast gildi 1. janúar 2018. Rúmum tveimur vikum eftir gildistöku hafi reglugerðinni verði breytt með reglugerð nr. 19/2018 og bætt við tveimur ákvæðum til bráðabirgða. Í reglugerðarbreytingunni komi fram að stuðningsgreiðslur vegna kjaraskerðingar hafi verið einskiptisaðgerð til að bæta að hluta til kjaraskerðingu sauðfjárbænda. Stofnunin greiddi umrædda stuðningsgreiðslu út í janúar 2018. Í tilviki [A] hafi viðtakendur verið nýir eigendur jarðarinnar, enda hafi þeir verið skráðir handhafar beingreiðslna á þessu sviði á þeim tíma. Vísar stofnunin til þess að í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar 19/2018 komi fram hverjir séu rétthafar stuðningsgreiðslna vegna kjaraskerðingar. Í fyrsta lagi þurfi þeir að uppfylla ákvæði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt, þ.e. að vera skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis með lögheimili á Íslandi, stunda sauðfjárrækt eða reka sauðfjárbú á lögbýlinu, taka þátt í afurðaskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands með fullnægjandi skilum og hafa fullnægjandi skil á haustskýrslu í Bústofn. Samkvæmt reglugerðinni hafi réttahafar að auki þurft að uppfylla skilyrði um að hafa átt 151 veturfóðraða kind eða fleiri á haustskýrslu 2016 í Bústofni og vera innleggjendur dilkakjöts í afurðastöð á framleiðsluárinu 2017.

 

Matvælastofnun bendir á að í janúar 2018 hafi hvorki kærendur né kaupendur jarðarinnar uppfyllt öll ofangreind skilyrði. Stuðningsgreiðslurnar snúi að árinu 2017 en í reglugerðinni sé ekki kveðið á um hvernig skuli fara ef eigendaskipti verða á jörð. Matvælastofnun hafi því beitt almennum túlkunarreglum. Matvælastofnun vísar til þess að kaupendur jarðarinnar hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hafa átt 151 veturfóðraða kind eða fleiri á haustskýrslu 2017 í Bústofni. Kærendur hafi uppfyllt það skilyrði. Þá fellst Matvælastofnun á að halda megi fram að kærendur hafi uppfyllt skilyrði 3. gr. reglugerðarinnar hluta árs 2017. Stofnunin vísar til þess að samkvæmt sérákvæði í kaupsamningi hafi kærendur fengið til sín sem nemur tekjum af kjötinnleggi 750 lamba haustið 2017 og telji sig þar með innleggjendur dilkakjöts í afurðastöð á framleiðsluárinu 2017. Með hliðsjón af afurðamiða megi til sanns vegs færa að kærendur séu skráðir innleggjendur árið 2017. Matvælastofnun vísar til þess að þegar stuðningsgreiðslur hafi verið greiddar út í janúar 2018 hafi eigendaskipti á[A] flækt málin. Stofnunin hafi ákveðið að láta greiðslurnar renna óskiptar til núverandi eigenda enda hafi þeir einir verið skráðir rétthafar beingreiðslna frá og með haustinu 2017. Að dómi stofnunarinnar sé eðlilegast að kaupendur og seljendur geri upp sín á milli hugsanlega skiptingu þessara greiðslna vegna eigendaskipta á jörðinni 2017. Var það skoðum stofnunarinnar að það hafi ekki verið hlutverk hennar að skipta stuðningsbótum á milli kærenda og kaupenda jarðarinnar, auk þess sem ekki sé ljóst að dómi stofnunarinnar hvaða dagsetningu ætti að miða við í þeim efnum.

 

V. Málsástæður og lagarök kaupenda.

Kaupendur [A] vísa til þess að tilboð hafi verið gert í jörðina og komist á bindandi samningur á milli aðila í maí 2017. Afhending jarðarinnar hafi farið fram 1. ágúst 2017. Telja kaupendur jarðarinnar að kærendur hafi ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar 1183/2017, sbr. reglugerð 19/2018, fyrir stuðningsgreiðslum. Vísa kaupendur til þess að kærendur hafi hvorki verið eigendur lögbýlis né stundað sauðfjárrækt þar sem kærendur hafi selt jörðina árið 2017. Þá telja kaupendur jarðarinnar að kærendur hafi ekki haft heimild til að leggja inn fé sem tilheyrði [A] eftir að kaupsamningur komst á og sauðfjárbúið hafi verið afhent nýjum eigendum. Í kaupsamningi sé tiltekið að kærandi hafi átt að fá til sín sem næmi tekjum af kjötinnleggi 750 lamba haustið 2017, af þeim um 1700 lömbum sem lögð voru inn til slátrunar haustið 2017. Kærendur hafi því átt að fá eingreiðslu frá kaupendum sem næmi þessum innleggjum. Kærendur hafi hins vegar brotið ákvæði samningsins og tekið lömb sem tilheyrðu [A] ófrjálsri hendi í óþökk kaupenda og lagt inn til slátrunar í eigin nafni. Telja kaupendur jarðarinnar óeðlilegt að kærendur geti nýtt sér það í hag.

 

Varðandi kostnað vísa kaupendur jarðarinnar til þess að í kaupsamningi komi skýrt fram að kaupendur endurgreiði kærendum þann kostnað sem hafi m.a. falist í áburði, olíu, plasti og neti vegna heyskapar. Telja kaupendur jarðarinnar því að kærendur hafi ekki orðið fyrir kostnaði vegna þessa árið 2017.

 

Vísa kaupendur til þess að 12. gr. laga um fasteignakaup flytjist áhætta af seldri fasteign til kaupanda við afhendingu. Kaupendur hafi tekið við öllum skuldum og skyldum jarðarinnar við afhendingu þann 1. ágúst 2017, þar með talið öllum lagabreytingum sem komi fram m.a. í reglugerð um sérstakan stuðning við sauðfjárbændur. Telja kaupendur jarðarinnar því að kærendur eigi ekki rétt á greiðslum sem samþykktar hafi verið eftir afhendingardag. Telja kaupendur jarðarinnar að þeir hafi uppfyllt öll skilyrði stuðningsgreiðslna.

 

VI. Niðurstaða ráðuneytisins

Mál þetta varðar greiðslu stuðningsgreiðsla sem fram fóru í janúar 2018 á grundvelli reglugerðar nr. 1183/2017, með síðari breytingum. Með fjáraukalögum var samþykkt að veita 665 milljón króna framlagi til að bregðast við markaðserfiðleikum sem steðjuðu að sauðfjárframleiðslu á árinu 2017. Til að koma til móts við bændur í þessari erfiðu stöðu var lagt til að ákveðnum hluta fjármunanna yrði varið í greiðslur til bænda.

 

Fjallað er um starfsskilyrði sauðfjárræktar og greiðslur til sauðfjárbænda í búvörulögum nr. 99/1993. Samkvæmt 81. gr. laganna skal ráðherra í reglugerð mæla nánar fyrir um framkvæmd laganna. Á grundvelli laganna var sett reglugerð nr. 1183/2017 um stuðning við sauðfjárrækt. Í janúar 2018 var gerð breyting á reglugerðinni og bætt við tveimur ákvæðum til bráðabirgða, sbr. reglugerð nr. 19/2018 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1183/2017 um stuðning við sauðfjárrækt. Í fyrra ákvæðinu er fjallað um stuðningsgreiðslur vegna kjaraskerðingar og þau skilyrði sem framleiðendur þurftu að uppfylla til að hljóta slíkar greiðslur. Ákvæði reglugerðarinnar er svohljóðandi:

 

Stuðningsgreiðslur vegna kjaraskerðingar

Til að draga úr kjaraskerðingu fá framleiðendur stuðningsgreiðslur á árinu 2018 fyrir dilkakjöts­framleiðslu ársins 2017. Um einskiptisaðgerð er að ræða til að bæta að hluta kjaraskerðingu sauðfjár­bænda. Til þessa verkefnis verður varið 400 milljónum króna samkvæmt fjáraukalögum 2017.

Rétthafar greiðslu eru þeir framleiðendur sem uppfylla ákvæði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt, hafa átt 151 vetrarfóðraða kind eða fleiri á haustskýrslu 2016 í Bústofni og eru innleggjendur dilkakjöts í afurðastöð á framleiðsluárinu 2017. Greiðslur miðast við innlagt dilkakjöt á framleiðsluárinu 2017 og deilist heildarstyrkupphæð á allt innlagt dilkakjöt þeirra innleggjenda sem eiga rétt á greiðslum samkvæmt ofangreindum skilyrðum. Matvælastofnun annast umsýslu greiðslunnar.

Reglugerðarbreytingin var birt í Stjórnartíðindum þann 17. janúar 2018. Í ákvæðinu kemur fram að um einskiptisaðgerð sé að ræða til að bæta að hluta kjaraskerðingu sauðfjárbænda vegna dilkakjötsframleiðslu á árinu 2017. Þá eru tilgreind þau skilyrði sem aðilar þurfa að uppfylla til að hljóta slíkar greiðslur. Í fyrsta lagi er tilgreint að rétthafar greiðslu séu þeir framleiðendur sem uppfylla ákvæði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt. Í 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt eru fjallað um handhafa greiðslna. Samkvæmt ákvæðinu eiga þeir framleiðendur einir að fá greiðslur sem uppfylla þau skilyrði að vera skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis með lögheimili á Íslandi og stunda sauðfjárrækt og reka sauðfjárbú á löbýlinu með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra felld undir ákveðið atvinnugreinanúmer. Skilyrði 3. gr. reglugerðarinnar eru jafnframt þátttaka í afurðaskýrsluhaldi Bændasamtaka Ísland með fullnægjandi skilum í samræmi við 4. gr. reglugerðarinnar og fullnægjandi skil á haustskýrslu í Bústofn. Til að hljóta sérstakar stuðningsgreiðslur í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 19/2018 þurftu aðilar einnig að uppfylla það skilyrði að hafa átt 151 veturfóðraða kind eða fleiri á haustskýrslu árið 2016 og vera innleggjendur dilkakjöts í afurðastöð á framleiðsluárinu 2017.

Í máli þessu telja kærendur að þeir hafi uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 1183/2018 um stuðning við sauðfjárrækt, með síðari breytingum fyrir framangreindum einskiptis stuðningsgreiðslum. Með hliðsjón af gögnum málsins telur ráðuneytið að kærendur hafi uppfyllt síðari tvö skilyrði reglugerðarinnar, þar sem ljóst er að kærendur áttu fleiri en 151 veturfóðraða kind á haustskýrslu 2016 og voru innleggjendur dilkakjöts á framleiðsluárinu 2017. Í máli þessu tekur ráðuneytið ekki afstöðu til ágreinings kærenda við kaupendur jarðarinnar varðandi kjötinnlegg haustið 2017.

Þegar reglugerðin var sett í janúar 2018 og þegar greiðslur voru greiddar samkvæmt henni síðar í sama mánuði uppfylltu kærendur hins vegar ekki skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt. Í janúar 2018 voru kærendur ekki skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlisins [A] og ráku ekki sauðfjárbú á lögbýlinu. Í reglugerðinni er ekki vísað til þess að fullnægjandi sé að kærendur hafi uppfyllt skilyrði áður en til úthlutunar kom, sem kærendur gerðu hluta ársins 2017. Í ákvæðinu kemur fram að rétthafar greiðslna voru þeir framleiðendur sem uppfylltu ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 1183/2017. Telur ráðuneytið að framkvæmd Matvælastofnunar varðandi umsýslu greiðslnanna þar sem greitt var til gildandi rétthafa hafi verið í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Hvað varðar ummæli Matvælastofnunar um skiptingu greiðslna milli kærenda og kaupenda jarðarinnar telur ráðuneytið rétt að árétta að Matvælastofnun annaðist umsýslu greiðslnanna og bar að greiða þær til þeirra aðila sem uppfylltu skilyrði reglugerðarinnar. Það sé utan hlutverks stofnunarinnar að fjalla um kröfuréttindi milli kærenda og kaupenda jarðarinnar [A].

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 28.11.2018, um að synja kærendum um sérstakar stuðningsgreiðslur samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1183/2017, með síðari breytingum, er staðfest.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum